Merkilegur maímánuður

Þessi maí var nokkuð merkilegur veðurfarslega. Í Reykjavík er meðalhitinn 8,2 stig og er þetta næst hlýjasti maí í borginni síðan 1960 en nokkru hlýrra var þó í maí 2008. Hins vegar var sá mánuður þungbúinn og sólarlítill en þessi var vel sólríkur, sólarstundir kringum 217, um 25 klst fram yfir meðallag. Þessi mánuður í Reykjavík var því miklu yndælli að upplifa en maí 2008. Úrkoma var fremur lítil en þó ekki til neinna vandræða fyrir gróður.

Hitinn er tæp tvö stig yfir meðallagi í Reykjavík og svipað á vesturlandi en kringum eitt stig yfir meðallagi fyrir norðan. Mánuðurinn virðist reyndar vera svipaður að hita á landinu öllu og í fyrra.

Einn staður sker sig þó alveg úr. Það er Kirkjubæjarklaustur en þar er hitinn hátt upp í 3 stig yfir meðallagi. Hann er um 9,2 stig.

Svo mikill hiti í maí á Íslandi er sjaldgæfur á nokkurri veðurstöð og hefur ekki komið síðan 1946. Þá var meðalhitinn í maí slétt níu stig á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Ekki hefur mælst hlýrri maí á landinu nokkurs staðar en nú á Kirkjubæjarklaustri síðan í maí 1935 þegar 9,5 stig  voru  á  Sámsstöðum. Í heild var sá mánuður hlýjasti maí sem mælst hefur á landinu og meira en heilu stigi hlýrri en þessi sem nu er að líða.     

Fyrir Kirkjubæjarklaustur og víða á landinu var þetta hinn mesti sóma maímánuður.   

Nú, svo fáum við víst rigninngarsumarið mikla 2010!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta passar, ég var einmitt að gefa þessum mánuði hæstu veðureinkunn sem maí hefur fengið hjá mér. 2008 var bara í meðallagi þrátt fyrir hlýindi.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.6.2010 kl. 00:48

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Var einmitt að hugsa um hvaða einkunn þú gæfir honum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.6.2010 kl. 00:54

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gæti best trúað að einhverjir færu út fyrir Læk út af allri þessari rigningu sem Framsóknarmafían er búin að spá í Vesturbænum í sumar.

Þorsteinn Briem, 1.6.2010 kl. 03:33

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Einhverjar hugmyndir um hvenær rigningin byrjar fyrir alvöru, svona sirkabát? Ætla að leyfa mér að spá einhverju þurrasta sumri sem komið hefur suðvestanlands, en kaldasta sumri í mörg ár norvestanlands og á Vestfjörðum. Norðausturhornið hoppar inn og út í hita og kulda, en austfirðir verða þjakaðir af þoku og súld. Suðausturland verður besta veðursvæðið og allt vestur að Hellu, en askan gerir góða veðrið lítið spennandi. Maí var hins vegar ágætur mánuður þannig lagað séð, en þar sem hann er liðinn hef ég ekki frekari áhyggjur af honum.

Takk fyrir frábært veðurblogg, Sigurður, heimildir og vel unnið verk í "veðurrýni". Þó ég kvitti ekki oft fyrir mig, er þitt mikla verk mér hugleikið og alltaf jafngaman að skoða. 

Halldór Egill Guðnason, 1.6.2010 kl. 04:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband