Eins og í sögu eftir Dickens

Þessi frétt í Ríkisútvarpinu er með ólíkindum. Þar segir að  Ragnhildur G. Guðmundsdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar hafi sagt í þættinum Vítt og breitt á Rás eitt í morgun að það hefðu komið boð frá félagsmálaráðuneytinu um að það fengi að hafa fulltrúa á miðvikudögum til að tala við skjólstæðinga og komast að því hverjir væru í þörf fyrir aðstoð. Ragnhildur sagði það virðingarleysi ef fólk gæti ekki komið til Mæðrastyrksnefndar án þess að eiga það á hættu að lenda í einhvers konar yfirheyrslum. 

Maður sér fyrir sér í anda umkomulausa einstæða móður, sem kannski er auk þess öryrki, sitja frammi fyrir fulltrúum valdsins sem hreykjast með vantrúarsvip og spyrja hana nærgöngula og áreiðanlega niðurlægjandi spurninga. Og meta svo sjálfir - en ekki Mæðrastyrksnefnd -hvort hún eigi aðstoð skylda.

Þetta er grimmd og miskunnarleysi eins og klippt út úr skáldsögu frá nítjándu öld eftir Dickens.  Og hún er aðeins sýnd efnalitlu fólki. Maður trúir varla sínum eigin eyrum og augum.  

En það er samt staðreynd að þetta vill Félagsmálaráðuneytið og skynjar ekki hvað það er óviðeigandi, lítilsvirðandi og niðurbrjótandi fyrir skjólstæðinga Mæðrastyrksnefndar.

Og það er félagsmálaráherra sem er endanlega ábyrgur fyrir þessu. Hann ætti að skammast sín. Það verður hins vegar það síðasta sem hann gerir og hann verður  örugglega á einhvern hátt afsakaður og bakkaður upp af sínu liði og samflokksmönnum.

Einhvers konar regluverk og eftirlit með hjálparstofnunum almennt er hins vegar allt önnur saga.

En þessi hugmynd Félagsmálaráðuneytisins er út úr öllum takti. 

Við skulum samt leggja hana vel á minnið og hverjir standa á bak við hana.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband