25.9.2011 | 17:14
Köldustu septembermánuðir
Eins og venjulega eru nánari upplýsingar um hita og úrkomu stöðva í fylgiskjalinu en innan sviga við hvert ár hér í textanum er meðalhiti þeirra allra. Röðin eins og ávallt áður er frá kaldasta mánuði til hins mildasta. Meðalhti stöðvanna níuer 6,7 stig 1961-1990.
1918 (4,6) Þessi september var allt annað en yndislegur og 2,1 stig undir meðallaginu 1961-1990. Í Reykjavík, Grímsey og Teigarhorni er þetta kaldasti september sem mælst hefur og einnig á landinu í heild. Lágmarkshiti mánaðarins á landinu var einnig með því með því lægsta sem gerist, -15,0 stig á Möðrudal. Meðalhitinn þar var -0,5 stig og er það minnsti meðalhiti í september á veðurstöð í byggð á Íslandi. Næturfrost byrjuðu snemma og spilltu uppskeru á kartöflum. Á Grímsstöðum fór frostið niður í -12 stig og þar hlánaði ekki að heita mátti frá þeim 13. og til mánaðarloka. Í Reykjavík mældist næstmesta frost sem þar hefur mælst í september, -4,6 stig þ. 29. (metið er -4,8 þ. 29. 1899). Mjög sólríkt var í norðanáttinni á suðvesturlandi, 162 klst mældust á Vífilsstöðum við Reykjavík og þar er mánuðurinn sá 8. sólríkasti september ef við teljum Vífilstaði þá með Reykjavík. Úrkoma var alls staðar í minna lagi, sérstaklega á suðurlandi. Aldrei mældist minni septemberúrkoma í Vestmannaeyjabæ meðan þar var mælt, 1882-1920. Stundum snjóaði reyndar fyrir norðan og um miðjan mánuðinn einnig á suðurlandi. Alhvítt var í Reykjavík þ. 26. en snjórinn bráðnaði fyrir hádegi, að sögn Morgunblaðsins daginn eftir. Í Mosfellssveit var öklasnjór. Í þessum kalda mánuði fór hitinn þó einhvern tíma í 17 stig á Akureyri og þ. 4. á Seyðisfirði. Sérlega harðsvíraður lágþrýstignur var yfir Norðurlöndum þennan mánuð og norðlægar áttir algengar á Íslandi. Kortið sýnir frávik hæðar í 500 hPa fletinu frá meðaltalinu 1981-2011.
Myndlistarmaðurinn Muggur opnaði málverkasýningu í Miðbæjarskólanum. Þann 28. var tónverkið Saga hermannsins eftir Igor Stravinsky var frumflutt í Lausanne í Sviss. Þá stóð yfir lokasókn bandamanna á vesturvígstöðvunum.
1892 (4,7) Næst kaldasti september var á því kalda ári 1892. Í Hreppunum er hann reyndar sá kaldasti af þeim öllum. Á Raufarhöfn mældist í mánuði þessum mesta frost sem þar hefur mælst í september, ótrúleg -10,5 stig. Þetta er kannski röng mæling en næst lægsta talan er -5,8 stig (þ. 28.) á Teigarhorrni sem er líka ótrúlega lág tala fyrir þá stöð í september og er kuldamet þar. Úrkoma var í meira lagi á suður- og vesturlandi, en minni á austurlandi eftir takmörkuðum mælingum að dæma. Annað slagið snjóaði fyrir norðan og þ. 18. var frost um hádaginn í Grímsey. Hlýjast varð 14,3 stig í Reykjavík þ. 2. Norðanátt var auðvitað algengust. Frostdagar voru taldir 22 á Raufarhöfn en 17 á Stóranúpi í Hreppunum. Kalt loft gerði sig heimakomið eins og kortið frá 850 hPa fletinum sýnir.
1979 (4,7) Hitinn í þessum hryssinglega mánuði var í heild 3,4 stig undir meðallaginu 1931-1960 sem þá var miðað við. Í innsveitum á norðurlandi var hitinn hins vegar allt að 5 stigum minni. Á Akureyri og í Vestmannaeyjum og Bolungarvík er þetta kaldasti september sem mælst hefur. Í Möðrudal og á Grímsstöðum var hitinn aðeins lítið eitt yfir frostmarki, 0,5 stig. Um miðjan mánuðinn komu dagar með meðalhita undir frostmarki í jafnvel betri sveitum. Þá gekk illviðri yfir með snjó-eða slydduéljum fyrir norðan. Á Grímsstöðum fór frostið í mánuðinum niður í -9,5 stig en það var reyndar ekki fyrr en þann 28. Þar var alhvítt í 16 daga en 15 við Mývatn. Á landinu var snjólagið 8% og hefur aðeins verið meira 1954, 1924, 1943 (sólarminnsti sept. í Reykjavík) og 1963. Mánuðurinn lá auðvitað í norðan-og norðaustanáttum. Úrkoman var nokkuð yfir meðallagi og reyndar alls staðar meiri en í meðallagi nema á sunnanverðum Austfjörðum og við Breiðafjörð þar sem hún var í minna lagi, en hins vegar var hún tvöföld í innsveitum á norðvestanverðu landinu, í Æðey og í Vestmannaeyjum. Úrkomudagar voru margir eiginlega alls staðar svo það var ekki neinum þurrkum og kuldum fyrir að fara heldur þvert á móti votviðrum og kuldum. Hryssingurinn var óskaplegur. Hlýjast varð 16,0 stig þ. 9. á Seyðisfirði. Mikið hret var dagana 15.-16. með fjársköðum og sköðum vegna ísingar. Þann 15. var meðalhitinn á Akureyri undir frostmarki, -0,1 stig og er þetta fyrsta dagsetning að hausti sem sólarhrignshiti þar er undir frostmarki (í Reykjavík er það sá 23. 1974, -0,2). Kortið ófrýnilega er af 850 hPa fletinum.
Þann 24. kom fyrsti hópur flóttamanna frá Víetnam til landsins.
Meðalhiti á landinu í september 1979.
1869 (4,9) Ef tekið er mið af meðalhita Reykjavíkur og Stykkishólms er þessi september líklega fjórði kaldasti september. Þá var aðeins athugað á þessum stöðum. Hlýtt var fyrstu fjóra dagana í Stykkishólmi, allt upp í 14,7 stig en eftir það komst hitinn þar aldrei upp í tíu stig fyrr en síðasta daginn. Úrkoma var lítil, alls 40,3 mm, og alls engin eftir fyrsta þriðjung mánaðarins en næturfrost voru nær hverja nótt seinni helming mánaðarins og dagshitinn oftast undir fimm stigum nema síðasta daginn. Fyrir norðan snjóaði í byggð og spillti heyskap. Norðangarður mikill gekk yfir dagana 11. og 12. og slitnuðu þá upp skip á Siglufirði og víðar.
1975 (5,1) Þessi kaldi mánuður er reyndar sólríkasti september sem mælst hefur í Reykjavík. Þar voru sex frostnætur. September er talinn með sumarmánuðum og sýnir þetta svo ekki verður um villst að ekki fer alltaf saman sólskin og hlýindi að sumarlagi í höfuðborginni. Óveður af vestri gerði þ. 15. og notaði hitinn þá tækifærið til að fara í 18,0 stig á Dalatanga og Seyðisfirði en þennan dag voru skriðuföll á Vestfjörðum. Æði vetrarlegt var nyrða í mánaðarlok. Síðasta daginn komst frostið í - 13,3 á Vöglum í Fnjóskadal sem þar er kuldamet í september og mesta frost á landinu á láglendi í september. Á Staðarhóli í Aðaldal mældust -12,8 og met kom á Grímsstöðum, -13,1 stig. Mesta snjódýpt sem mælst hefur í september á landinu mældist á Sandhaugurm í Bárðardal, 55 cm þ. 24. Þar og á Tjörn í Svarfaðardal voru 8 alhvítir dagar en 10 á Grímsstöðum. Snjólag á landinu var 7% en alauð jörð þó alls staðar á suður og vesturlandi. Kortið sýnir frávik hitans í 500 hPa fletinum í um 5 km hæð.
1982 (5,2) Þetta var fremur þurrviðrasamur mánuður og snjólag var nú ekki meira en 1% en frá 1924 hafa rétt rúmlega 30 septembermánuður verið með snjólagstöluna 0. Hámarkshiti landsins var alveg óvenjulega lágur, 14,3 stig þ. 1. á Vopnafirði. Í Grímsey, Æðey og á Galtarvita komst hitinn aldrei í tíu stig allan mánuðinn. Kaldast varð -9,7 stig á Möðrudal þ. 22. og sama dag -9,0 á Staðarhóli en -10,3 á Hveravöllum. Þennan dag var víða bjart en meðalhiti sólarahringsns á Akureyri var undir frostmarki.
Kaldasti september eftir 1982 var árið 2005 þegar hitinn var 5,5 stig og er þetta ellefti kaldasti september frá 1866 en þriðji sólríkasti september í Reykjavík. Snjó festi þá tvo daga á Akureyri.
1954 (5,2) Þessi afburða kuldalegi september er þó sá annar sólríkasti í Reykjavík. Á Akureyri voru sólskinsstundir hins vegar aðeins 53 og 51 á Hallormsstað. Í Vestmannaeyjum, Sámsstöðum (16,8 mm), Hæli (10,7 mm) og Eyrarbakka (19,2 mm) er þetta úrkomuminnsti september og reyndar á nokkrum stöðum vestanlands, t.d. aðeins 3,0 mm á Hellissandi. Og aldrei hafa verið færri úrkomudagar í september í Reykjavík en þar voru þeir sjö. Úrkoman var undir meðallagi á landinu en tiltölulega mest var hún á norðausturlandi, allt að tvöföld, en aftur á móti mjög lítil á suðvestur-og vesturlandi. Þetta er hins vegar snjóþyngsti september sem um getur, miðað við snjólagstölu stöðva í prósentum, sem var 13%, en þær mælingar eru til frá 1924 og er meðaltal allra stöðva 2% í september. Á fjöllum var snjólagstalan 46% og er sú mesta í september síðan farið var að fylgjast með því árið 1935. Mjög víða festi snjó, jafnvel var snjódýptin 6 cm í Reykjavík að morgni þ. 26. en í mánaðarlok var hún 35 cm á Grímsstöðum, en þar var alhvítt í 11 daga og strax þann 14. Frostdagar hafa aldrei verið fleiri í Reykjavík í september, 10, en 17 í Möðrudal og á Þingvöllum. Mesta frost sem mælst hefur á landinu í september, -19,6 stig kom í Möðrudal þ. 27. og er þetta reyndar óhuganleg tala svo snemma hausts. En sama dag mældist mesta frost á Akureyri í september, -8,4 stig. Er þetta kaldasti septemberdagurinn á Akureyri frá 1948 a.m.k. með meðalhita upp á -2,9 stig. Daginn áður hafði mælst minnsta þykkt í neðri hluta veðrahvolfsins yfir Keflavík sem mælst hefur í september, 5130 m, sem er vetrarástand en því minni sem þessi þykkt er því kaldara er loftið. Mesta frost á veðurstöðvum í september mældist víða, t.d. í Síðumúla í Borgarfirði (-10,2), í Miðfirði (-10,0), á Húsavík (-7,0), Hallormsstað (-7,9) og Þingvöllum (-8,6). Síðustu vikuna var hreinlega vetrarveður fyrir norðan og miklir kuldar miðað við árstíma, t.d. tveggja stiga frost á hádegi á Akureyri þ. 27. í sólskini! Og á sama tíma var frost þar alla dagana sem eftir voru mánaðarins en altaf skreið hitinn þar þó upp fyrir frostmarkið smástund um miðjan daginn, en að kvöldi hins 27. var sex stiga frost í nokkrar klukkustundir á Akureyri. Dagarnir 25.-29. settu allir dagshitamet fyrir lægsta meðalhita í Reykjavík og 25.-28. á Akureyri. Fyrsta vika mánaðarins var aftur á móti nokkuð hlý og komst hitinn í 17,9 stig á Þingvöllum þ. 8 og daginn áður í Reykjavík. Kortið sýnir frávik þykktar frá meðallagi sem ég held að hafi aldrei verið minni í sepember en þessum.
1922 (5,3) Fremur hryssinglegur mánuður þar sem svalar suðaustan og austanáttir voru áberandi. En úrkomumagn var þó alls staðar eða víðast hvar í minna lagi. Um miðjan mánuð brá þó til norðaustanáttar í nokkra daga og sums staðar snjóaði þá fyrir norðan og austan. Hiti var þá aðeins kringum 1-3 stig á morgnana og kvöldin í Reykjavík í um vikutíma en eitthvað hærri um miðjan dag en sólarhringsmeðaltalið hefur varla náð þremur stigum. Sjá kortið þ. 16. sem stækkar mjög ef þrísmellt er á það eins og öll hin kortin. Frostið fór mest á landinu í -8,9 stig þ. 16. á Grímsstöðum á Fjöllum en þar varð líka hlýjast, 17,1 stig þ. 9. Eftir þann dag var úti um hlýindi í mánuðinum. Frostnætur voru 9 í Reykjavík og hafa aðeins verið fleiri í september 1954. Hlaup varð í Skeiðará þ. 28. Þessi mánuður er merkilegur í mælingasögu heimsins fyrir það að þann 13. mældist mesti hiti sem skráður er á jörðunni, 57,8 stig í El Aziza í Líbíu en sumir telja mælinguna reyndar vafasama. Þennan dag var kuldi mikill á Íslandi.
1882 (5,4) Eftir kaldasta sumar fyrir norðan, júní til ágúst, kom svo þessi 9. kaldasti september á landinu. Kalsaveður með úrkomu ríkti lengst af. Fyrstu dagarnir voru sæmilegir og komst hitinn í 17,2 á Hrísum. Svo segir í Fréttum frá Íslandi: Með höfuðdegi birti upp, og kom góður tími í viku; þá fór loksins hafísinn burtu frá Norðurlandi. En samt hjeldust hríðaköstin allt til rjetta, og taldist mönnum svo til, að 10 sinnum hefði alsnjóað nyrðra frá Jónsmessu til rjetta. Verst var það hríðarkastið, er gjörði 12. september og stóð í 3 daga með 7° R. [-9° C] frosti. Þá voru ár riðnar á ís í Skagafirði og í Dalasýslu og víðar, og gengið á skíðum úr Fljótum inn í Hofsós sakir ófærðar; fennti þá fje á afréttum milli sveita, en ei á heiðum frammi, því að hríðarnar náðu aldrei lengra en fram á fjallabrúnir; 23 sept. kom síðasta hríðin, og fennti þá hross í Laxárdalsfjöllum, afrjetti milli Húnavantssýslu og Skagafjarðar." Á Siglufirði fór frostið niður í -9,7 stig. Í norðanhríðinni laust fyrir miðjan mánuð var stórviðri á suðurlandi og fuku þá víða hey manna. Jónas Jónassen lýsti tíðinni í Reykjavík í Þjóðólfi 30. október:
1. 2. bjart veður, logn; 3. 4. sunnan, dimmur, regn; 5. vestanútsunnan, hægur ; 6. landssunnan, hvass, regn; 7. 8. 9. útsunnan, hvass, með hriðjum ; 10. norðanrok (snjór í miðja Esju); 11. 12. sama veður en vægara; 13. 14. 15. austan; rokh. 15. 16. 17. norðankaldi (hvass til djúpanna); 18.-23 hægur, við austurlandssuður með regni; 24. bjart veður, logn; 25.-29. austan-lands. með regni; 30. hvass mjög á austan-landnorðan.
1924 (5,4) Úrkoma í þessum september var mjög lítil, aðeins um helmingur meðalúrkomu á landinu. Þetta hafði reyndar verið með afbrigðum þurrt og sólríkt sumar á suðurlandi og var til þess tekið að síðast í mánuðinum hafi vatnsborð Þingvallavatns verið mörgum fetum lægra en venjulega. Syðra var áfram sólríkt í þessum mánuði enda norðan og norðaustanáttir algengar og er þetta níundi sólríkasti september í höfuðstaðnum. Hlýtt var fyrstu dagana og góður þurrkur fyrir norðan og komst hitinn í 19,8 stig þ. 2. á Möðruvöllum. Þar varð einnig kaldast, -8,4 þ. 23. En fljótlega hafði kólnað í mánuðinum. Alhvítir dagar voru tveir í Reykjavík og hafa ekki verið taldir fleiri í september frá stofnun Veðurstofunnar 1920. Snjóhula í bænum var metin 7% og aldrei verið meiri í september. Snjódýpt var þó aðeins 1 cm þessa tvo daga, 28. og 29. Snjóhula á öllu landinu var 11%, sú næst hæsta. Mestur var snjórinn á norðvesturlandi, 45 cm á Suðureyri við Súgandafjörð næst síðasta dag mánaðarins. Ekki sást á milli húsa á Vestfjörðum þegar þessi hríð stóð sem hæst, segir Morgunblaðið síðasta dag mánaðarins. Fleiri illvirði voru um þetta leyti og þ. 27. fórst Rask frá Ísafirði í ofviðri með allri áhöfn, 15 manns og fleiri skip lentu í hrakningum þann dag.
Þórbergur Þórðarson hafði lokið við Bréf til Láru á Ísafirði daginn áður en þess mánuður hófst og allan þennan mánuð og eflaust miklu lengur þóttist hann mikið verk hafa unnið enda var sál hans víð og djúp eins og alvaldið og bókin sannkallað tímamótaverk í íslenskum bókmenntum!
Mjög snarpir jaðskjákftakippir voru í Krísuvik þ. 4 og næsta daga og fundust þeir vel í Reykjavík. Talvert jarðrask varð í Krísuvík, langar sprungur komu þar víða í jörðu; stórar skriður féllu úr fjöllum og leirhver myndaðist. Þá skekktust hús. Kippirnir voru svo snarpir að mönnum og skepnum sló flötum. Þann 7. fundust svo tveir allsnarpir og tveir litlir landskjálftakippir á Akureyri.
Þann 29. skírði Vísir frá því að Adolf nokkur Hitler, sem dæmdur hafði verið í fangelsi fyrir uppreisnartilraun í München í Bæjaralandi, hafi fengið skilyrðisbundna náðun. Og hann braut víst aldrei skilorðið!
Af köldum septembermánuðum á fyrri tíð sker sá árið 1782 sig úr eins og allt það sumar og er hugsanlega kaldasti september sem einhverjar mælingar eru til um á Íslandi, en þær voru gerðar á Lambhúsum á Álftanesi og eru kannski vafasamar um margt. En að morgni síðasta dagsins var frostið talið -6,3 stig og hefur aldrei svo lág hitatala sést í september í Reykjavík á öðrum tíma. Þennan dag var hitinn um miðjan dag -3,1 stig og -3,8 um sama leyti daginn áður og reyndar -1,9 stig um miðjan dag þ. 25. en -5,0 um morguninn og -5,6 stig næstu tvo morgna þar á undan en fór rétt yfir frostmarkið um hádaginn. Árin 1809 og 1807 voru líka mjög kaldir septembermánuðir, líklega á borð við þá þrjá köldustu sem hér hefur verið sagt frá, eftir mælingum að dæma sem gerðar voru á Akureyri. Seinna árið var frostið þar 2-6 stig síðasta daginn. Fyrra árið var hins vegar frostið tvö til fimm stig um hábjartan daginn alla dagana 20.-25. og að kvöldi hins 23. var frostið -11,9 stig. Aldrei hefur seinna mælst svo mikið frost í september á Akureyri. Taka verður þó þessar gömlu mælingar, ekki síður en á Lambhúsum, með hæfilegri varúð ef ekki léttúð, en ljóst er að um óvenjulega kulda var að ræða.
Fylgiskjalið sýnir hita, úrkomu og sólskin fyrir stöðvarnar níu í hverjum mánuði.
Fréttir frá Íslandi, 1882.
Meginflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir | Aukaflokkar: Bloggar, Veðurfar | Breytt 10.12.2011 kl. 20:02 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.