Sólríkasta sumar í Reykjavík síðan 1929

Sumarið sem nú er liðið, júní til september, reynist vera hvorki meira né minna en fjórða sólríkasta sumar sem mælst hefur í Reykjavík en þær mælingar ná yfir hundrað ár.

Sólskinsstundir voru 836 en meðaltalið 1961-1990 er 612. Þetta jafngildir meira en 22 dögum með tíu klukkustunda sól framyfir meðallagið.

Það er varla að maður trúi sínum eigin augum.

Tveir mánuðir af fjórum ná inn á topp tíu listann fyrir sólríkustu mánuði, júní nr. 7 og september sem krækti í að verða fikmmti sólríkasti september.  Allir sumarmánuðirnir voru yfir meðallagi hvað sólskin varðar.  

Þetta er þá sólríkasta sumar síðan 1929. Langflestir borgarbúar hafa því aldrei lifað annað eins. 

Og hvað eru menn þá að kvarta yfir þessu sumri en sá söngur hefur verið svo að segja linnulaus í allt heila sumar hjá mörgum.  

Reyndar voru líka allir mánuðurnir í Reykjavík yfir meðallagi hitans 1961-1990 og allir nema júní yfir meðalagi góðærisáranna 1931-1960.

Samt hefur sumarið ekki orðið kaldara síðan 2005, bæði í Reykjavik og yfir allt landið. En það er alvarleg villa að kalla þetta kalt sumar. Síðustu sumur hafa verið mjög afbrigðilega hlý. Meðalhitinn  í Reykjavík sumarið 2011 er þrátt fyrir allt 1,2 stig yfir meðallagi. Aðeins 16 sumur hafa verið hlýrri en 2011 í Reykjavík frá 1866, þar af sjö á þessari öld. Yfir landið held ég að ein 27 sumur hafi verið hlýrri en þetta eins og ég reikna þau.   

Á Akureyri rétt skriður hitinn yfir meðallagið í sumar. En yfir það samt! Ekki er hægt að tala þar um kalt sumar eftir júní sem reyndar var alveg hryllilegur.

Hitinn á landinu í sumar held ég að sé alls staðar yfir meðallaginu 1961-1990, þegar upp er staðið, nema þá einna helst á Fljótsdalshéraði.

Það er einhver forskrúfun komin í Gagnatorgið. Ef maður ætlar t.d. að slá upp sólskini í einum mánuði, eins og ég reyndi í dag með september, kemur bara upp ein síða, með þrettán fyrstu dögunum og ómögulegt að fletta neitt eins og alltaf hefur verið hægt. Flettingartakkarnir eru óvirkir. þetta hefur staðið í nokkra daga. Nú er þetta gagnslausa torgið.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband