Hlýjustu desembermánuðir

Fyrir aðal viðmiðnarárið okkar, 1866, eru nokkrir desembermánuðir sem líklega jafnast á við topp tíu mánuðina eftir 1866 eftir nokkuð fátæklegum mælingum að dæma. Þar skal fyrstan telja desember 1851. Hann var sérlega hlýr í Reykjavík, 3,5 stig, sá fjórði hlýjasti frá 1820 og í Stykkishólmi var hann 3,1 stig og sá þriðji hlýjasti frá 1845. Þessi mánuður virðist og hafa verið mjög hlýr á Akureyri en þar var athugað nokkur ár á þessum tíma, 2,0 stig. Þetta þýðir einfaldlega að hann kemur hugsanlega næstur á eftir 2002 að hlýindum á landinu, hlýrri en 1946 og þannig þriðji hlýjasti desember, ef þessar tölur eru teknar alveg bókstaflega. Desember 1834 var 3,1 stig í Reykjavík en hvergi annars staðar var þá athugað en þetta er þá fimmti hlýjasti desember í höfuðstaðnum. Desember 1850 var einnig afar hlýr, í Stykkishólmi er hann sá fimmti hlýjasti en sjötti í Reykjavík. Desembermánuðirnir 1840 og 1849 virðast hafa verið álíka hlýir og síðustu mánuðirnir á alvöru topp tíu listanum, 2005 og 1956, en hugsanlega jafnvel sjónarmun hlýrri.

Að þessu mæltu getum við því sett hér fram eins konar gamanmála lista yfir hlýjustu desembermánuðir frá 1820, svona til hliðar við listann frá og með 1866:

1933, 2002, 1851, 1946, 1987, 1834, 1850, 2006, 1934, 1997, 1849, 1840, 2005, 1956. 

Loks má bæta því við að desember 1804 virðist hafa verið skuggalega hlýr, sá þriðji hlýjasti í Stykkishólmi, þar sem var ekki einu sinni athugað en athuganir annars staðar frá hafa menn  þangað umreiknað til að reyna að fá langa mæliröð! En hér hættum við  þessum leik- og þó fyrr hefði verið!

Hyggjum þess í stað grandvör og ábúðarmikil að hinum „formlega" metalista Allra veðra von fyrir desembermánuði frá og með 1866.

Meðalhiti stöðvanna níu sem hér er miðað við 1961-1990 er -0,6 stig en í sviga aftan við ártalið er meðalhiti þeirra við hvern tiltekinn mánuð. Nánari tölulegar upplýsingar eru svo í fylgiskjalinu eins og  venjulega. 

Tveir desembermánuðir skera sig alveg út fyrir hita sakir, 1933 og 2002.  

1933_12_500.png1933 (4,0) Þetta er hlýjasti desember sem mælst hefur á landinu í heild og kom á eftir níunda hlýjasta nóvember. Hann er ótvírætt hlýjasti desember á öllum stöðvum nema í Reykjavík, á suðurlandsundirlendi og einstaka öðrum stöðvum. Þetta er eini desember sem að meðalhita hefur verið fyrir ofan frostmark á Grímsstöðum á Fjöllum, 0,2 stig. Þar mældist þó eins og oft áður minnsti hitinn á landinu, -10,6 stig og er það hæsta landslágmark í nokkrum desember. Mestur meðalhiti var á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, 5,4 stig. Lengst af var snjólaust, tún voru græn og blóm í túnum og görðum. Víða lá fénaður úti og var lítið sem ekkert gefið. Snjólag á landinu  var 13% og er það næst lægsta í nokkrum desember. Meðaltalið 1924-2007 er 60%. Í Reykjavík snjóaði ekki fyrr en í mánaðarlok og var snjódýpt 1,5 cm að morgni gamlársdags. Nokkuð úrkomusamt var sunnanlands og vestan og óstöðugt veðurlag. Stormar voru nokkuð tíðir en suðlægar áttir voru yfirgnæfandi. Mikið sunnanóveður var fyrstu tvo dagana og fórust  þá átta manns á bátum og  margir aðrir bátar slitnuðu upp og skemmdust. Á suður og vesturlandi urðu einnig skemmdir á húsum, heyjum, bryggjum og símalínum. Í Vestmannaeyjum og í Grindavík urðu mikil flóð. Þegar veðrið gekk niður tók við vika með óvenjulegum hlýindum. Á Hraunum í Fljótum mældist hitinn 16,6 stig þann 3. og var það mesti hiti í desember á landinu allt til 1988 en var jafnaður 1970 og 1981. Daginn eftir voru 14 stig á Húsavik. Báða dagana steig hitinn í 11 stig í Reykjavík. Eftir hlýindin tók við tveggja daga éljakafli á vesturlandi en síðan hægviðri um allt land í aðra tvo daga en frá miðjum mánuði voru á ný  suðlægar áttir með hlýindum en síðustu tvo dagana voru umhleypingar og illviðri. Þetta er sá desember sem hefur hæsta lágmarkshita í Reykjavík, -1,6 stig. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist minnsti hitinn -0,2 og er hugsanlegt að alveg frostlaust hafi verið í kaupstaðnum þennan mánuð. Mjög þurrt var á norðaustanverðu landinu, aðeins 5,3 mm í Fagradal í Vopnafirði og á Akureyri er þetta 8. þurrasti desember (frá 1927). Hins vegar var úrkomusamt á suður og vesturlandi og í Hreppunum er þetta úrkomusamasti desember sem þar hefur mælst ásamt desember 1988. Fyrirstöðuhæð var þrálát í þessum mánuði yfir Bretlandseyjum og Norðursjó. Sjá kortið sem sýnir hæð 500 hPa flatarins í um 5 km hæð. Þetta er einn kaldasti desember í Evrópu og á Bretlandseyjum og allt suður um Spán, en hlýindin hjá okkur náðu einnig um Færeyjar og til austurstrandar Grænlands þar sem var óvenjulega hlýtt. Íslandskortið fyrir neðan sýnir meðalhita stöðva á Íslandi í þessum afburða hlýja desember.

Áfengisbannið var afnumið í Bandaríkjunum þann fimmta.  

des_1933.gif

2002_12_thick_an_1124241.png2002 (3,8) Tíðarfarið var talið sérlega gott. Tún voru víða græn, blóm sprungu út og unnið var við jarðvinnu sem á sumri væri. Sérstaklega var hlýtt um sunnanvert landið. Ekki er talinn marktækur munur á hita desember í Reykjavík árin 1933 og 2002 vegna flutninga Veðurstofunnar um bæinn. Árið 2002 var meðalhitinn 4,5 stig en 4,4 stig 1933 reiknaður til veðurstofutúns. Það fraus ekki í höfuðstaðnum fyrr en seint á öðrum degi jóla og  hafði þá ekki verið frost síðan að morgni 16. nóvember, í rúma 40 daga og 40 nætur. Ekki eru önnur dæmi um jafn langan frostlausan tíma í borginni á þessum árstíma. Í Stykkishólmi var mánuðurinn örlítið kaldari en 1933. Í Vestmannaeyjum er þetta hins vegar hlýjasti desember sem þar hefur komið frá því mælingar hófust 1878. Meðalhitinn á Stórhöfða var 5,5 stig sem er met. Í kaupstaðnum var meðalhitinn 5,9 stig á sjálfvirku stöðinni og er það mesti meðalhiti á veðurstöð á Íslandi í nokkrum desember. Á suðurlandsundirlendi var hlýrra en 1933 og sömuleiðis í Hornafirði. Í mánuðinum var jafnað desemberhitametið í Reykjavík frá 1997, 12,0 stig þ. 6. en í heild var sá dagur ekki nærri því eins jafn hlýr þar og metdagurinn 1997. Sama dag mældist hitinn 17,2 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Mánaðarúrkoman á þeirri stöð var aðeins 8,6 mm. Það er til marks um hlýindin að í Mýrdal og Vestmannaeyjum var aðeins einn frostdagur og á Stórhöfða varð aldrei kaldara en -0,2 stig og -0,3 á Vatnsskarðshólum. Kaldast varð -12,7 stig á Kárahnjúkum og -12,5  í Möðrudal þ. 29. Alauð jörð var alls staðar á  suðurlandsundirlendi og í Borgarfirði og víðast hvar á suðausturlandi og við Breiðafjörð. Einnig var alautt á Ísafirði. Flestir alhvítir dagar voru aðeins tíu og var það í Svartárkoti. Í Reykjavík varð aldrei alhvítt en flekkótt jörð var tvo morgna. Á Akureyri var heldur aldrei alhvít jörð og er það einsdæmi í desember. Mest snjódýpt á veðurstöð var aðeins 14 cm og var það á Hveravöllum en þar var aðeins alhvítt í einn dag og er það með ólíkindum. Snjólag á landinu var aðeins í kringum 7% sem er met. Á suðvesturlandi og vestast á landinu var mjög úrkomusamt en þurrkar ríktu á norðurlandi. Þetta er t.d. fjórði þurrasti desember á Akureyri (frá 1927). Á Kvískerjum er þetta aftur á móti þriðji úrkomusamasti desember frá 1961, 532,2 mm, en í Stykkishólmi 11. úrkomusamasti desember. En aldrei hefur verið mæld meiri úrkoma á Lambavatni á Rauðasandi í desember frá 1938, 206,4 mm. Kortið sýnir frávik þykktar yfir landinu þennan hlýja mánuð. 

Alautt var um land allt á aðfangadag. En á gamlárskvöld var náttúrlega fjör og sjónarspil!

1946_12_850t_an.png1946 (2,8) Heilt stig er niður í þriðja hlýjasta desember frá þeim næst hlýjasta. Hiti var fremur jafn um allt land. Nokkuð vindasamt var og stormdagar fleiri en venjulega. Yfirleitt blés af suðri og austri og er þetta þriðji úrkomusamasti desember sem mælst hefur á Fagurhólsmýri, 310 mm (frá 1922) , og einnig á Hólum í Hornafirði, 343 mm (frá 1931). Á landinu, miðað við þær stöðvar sem lengst hafa athugað, er þetta fjórði úrkomumesti desember. Snjólag var 45%. Í Papey og á Teigarhorni var alautt. Í Reykjavík voru þrír dagar alhvítir en snjódýpt varð þó aldrei meiri en 1 cm, þ. 21. Nokkru meiri snjór var á suðurlandsundirlendi og á Stórhöfða var snjódýptin 45 cm á Þorláksmessu og víða voru hvít jól og alls staðar nokkurt frost. Í Reykjavík mældist hitinn 11,4 stig þ. 18. sem lengi var þar desembermet. Ekki var samt beint útivistarlegt í borginni þennan dag því þá voru 12 vindstig af suðri og rigning. En hlýtt var alls staðar og fór hitinn í 12,2 stig í Fagradal við Vopnafjörð. Frost fór hins vegar í -14 stig þ. 4. í Reykjahlíð við Mývatn. Lægðagangur var mikill á Grænlandshafi í þessum mánuði en yfir norðaustanverðu Rússlandi var háloftahæð og hlýtt loft streymdi yfir Skandinavíu þar sem sums staðar norðantil mánuðurinn var með  hlýjustu desembermánuðum. Einnig á Jan Mayen. Hæðin olli hins vegar kuldum víðast hvar í Evrópu. Kortið sýnir frávik hitans í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m hæð. Á eftir þessum mánuði kom næst hlýjasti eða hlýjasti janúar á landinu.      

Guðmundur S. Guðmundsson skákmeistari var að tefla á hinu sögufræga taflmóti í Hastings og átti eftir að ná þar þriðja sæti sem var glæsilegasti skákárangur sem Íslendingur hafði þá unnið.

1953_12_500_an.png1953 (2,7) Þessi umhleypingasami og illviðrasami mánuður hefur þann vafasama heiður að vera úrkomusamastur allra desembermánaða sem þá höfðu  komið og var það alveg þar til desember 2007 sló hann út en sá mánuður er ekki í hópi hinna allra hlýjustu. Sums staðar á norðausturlandi var úrkoman þó lítil. Aldrei hafa verið jafn margir úrkomudagar í höfuðstaðnum, 29 að tölu. Mánuðurinn er votasti desember sem mælst hefur á Eyrarbakka, 276,4 mm, Sámsstöðum, 333,9 mm, í Hrútafirði, 110,1 mm og í Kvígyndisdal við Patreksfjörð, 396,8 mm. Á síðast talda staðnum var úrkoman næstum því þreföld miðað við meðallagið. Hitinn var óvenjulega jafn yfir landið. Kalt var samt fyrstu fimm dagana og komst frostið í -18 stig þ. 4. í Reykjahlíð við Mývatn í lok kuldakastsins. Eftir það mátti heita hlýindatíð til áramóta. Jörð var mjög blaut. Nokkuð var vindasamt og getið var einhvers staðar um storm í 23 daga. Í sunnanhlýindunum um miðjan mánuðinn urðu víða vatnavextir og vegaspjöll. Hitinn fór þá í 13,4 stig þ. 16. á Akureyri. Næsti dagur var svo einhver sá hlýjasti á landinu að meðalhita sem komið hefur þann mánaðardag. Vísir talaði um hitabylgju í skammdeginu. Alla dagana 10.-17. fór hiti yfir tíu stig einhvers staðar á landinu. Snjólag var 42% en hvergi var talið alveg alautt. Alhvítir dagar voru þó mjög fáir á suður-og suðvesturlandi nema einna helst í Reykjavík þar sem þeir voru 11. Mikið vestanveður gerði aðfaranótt hins 30. Sunnan og suðvestanáttir voru hins vegar algengastar í þessum mánuði. Loftþrýstingur var sérlega lágur um Grænlandshaf en hæð var yfir Norðurlöndum.  Sunnanvindar fóru yfir Ísland og allt norður í íshaf þar sem hlýindin voru tiltölulega mest. Kortið sýnir frávik á hæð 500 hPa flatarins kringum 5 km hæð. 

Sjöunda desember var tíunda sinfónía Shostakóvitsj frumflutt í Moskvu. Fjórðungssúkrahúsið á Akureyri tók til starfa þann 15. en á Þorláksmessu var Lavrentij Beria, leynilögreglustjói Stalíns, tekinn af lífi. 

1987_12_850t_an.png1987 (2,6) Einmunatíð var talin um land allt og hægir vindar lengst af. Mánuðurinn var tiltölulega hlýjastur á suður-og vesturlandi en náði þar þó hvergi alveg desember 1933 og 2002. Sjá kortið af fráviki hitans í 850 hPa fletinum í um 1400 m hæð. Á suðvesturlandi kemur mánuðurinn næstur þeim mánuðum að hlýindum. Á Sámsstöðum í Fljótshlíð er þetta hlýjasti desember sem þar hefur mælst, 4,5 stig eða 4,7 stig yfir meðallaginu 1961 til 1990, en  hvergi annars staðar var þetta metmánuður að hlýindum. Frostdagar voru aðeins þrír í Reykjavík og hafa aldrei verið færri þar í desember en á Stórhöfða voru þeir tveir. Ekki fraus í borginni fyrr en á jóladag og hafði þá verið frostlaust þar síðan 24. nóvember. Ekki var nærri því eins hlýtt tiltölulega fyrir norðan sem á suðurlandi og á Garði í Kelduhverfi var hitinn meira að segja undir meðallaginu 1931-1960. Dagana 13. til 14. var nokkurt frost fyrir norðan en þítt syðra en ekki kom kuldakast um land allt fyrr en um jólin. Á jóladag var frostið -18 stig á Staðarhóli í Aðaldal en -20,1  stig á Hveravöllum á öðrum degi jóla. Annars voru nær eindregin hlýindi allan mánuðinn, ekki síst fyrstu dagana en hitinn komst í 15,0 stig þ. 2. á Suðureyri við Súgandafjörð en þ. 13. fór hann í 13 stig á Dalatanga og Seyðisfirði. Jörð var að mestu þíð og snjólaus til jóla, grænn litur var á túnum  og brum jafnvel þrútnuðu. Snjólag var 31%. Alautt var á fáeinum stöðvum á suðurlandsundirlendi og á vesturlandi. Úrkoma var mikil á norðausturlandi en annars yfirleitt lítil nema á hluta vesturlands. Á undan þessum mánuði kom sjöundi hlýjasti nóvember.

Þann 7. gerðu Reagan forseti Bandaríkjanna og Gorbasjov æðstráðandi í Sovétríkjunum tímamótasamning um fækkun kjarnorkuvopna.  

2006_12_1000t_an.png2006 (2,5) Kalt var oft framan af mánuðinum og lauk kuldunum með -23,5 stiga frosti á Neslandatanga við Mývatn þ. 16. og -22,5 stigum  í Möðrudal næsta dag. Eftir það var mjög hlýtt. Tvisvar komst þá hitinn yfir tíu stig í Reykjavík, 10,9 að kvöldi þ. 20. og á aðfangadag (um nóttina) í 10,1 stig og er það mesti hiti sem mælst hefur þar þann dag. Á Sauðanesvita voru 15,6 stig þ. 21. en á aðfangadag 15,2 stig á Skjaldþingsstöðum og er það mesti hiti sem mælst hefur á landinu á aðfangadag, a.m.k. eftir 1933. Nokkuð illviðrasamt var síðari hluta mánaðarins í hlýindunum. Vikuna fyrir jól ollu leysingar tjóni í Eyjafirði og féllu þá skriður. Á sama tíma varð óvenju mikið flóð í Hvítá og Ölfusá í Árnessýslu svo tjón hlaust af. Meiri úrkoma féll úr lofti á úrkomusamasta stað landsins, Kvískerjum, en í nokkrum öðrum desember, 770,4 mm. Aðeins hefur fallið þar meiri úrkoma í janúar 2006 (905,3 mm) og október 2007 (792,6 mm).  Hlýtt var mjög víða á norðurhveli (sjá kortið). Gróðurhúsaáhrifin?!  

Saddam Hussein var tekinn af lífi þ. 30.

1934_12_slp.png1934 (2,4) Nokkuð sérkennilegur mánuður sem var sá desember sem kom næstur á eftir hlýjasta desember nokkru sinni, 1933. Þetta er sólríkasti desember sem mælst hefur á Akureyri þó sólarstundirnar væru aðeins 3,1 og mældust allar í fyrstu vikunni. Veður voru yfirleitt stillt. Austanáttin var yfirgnæfandi og mikil úrkoma var á austanverðu landinu, 367,8 mm í Fagradal í Vpnafirði. Úrkomudagar voru hins vegar ekkert sérstaklega margir miðað við úrkomumagnið. Snjólag var 31%. Alautt var allan mánuðinn á Úthéraði, sem ekki er algengt í desember, Vattarnesi, Teigarhorni og Fagurhólsmýri. Í mánaðarbyrjun var talsverður snjór á Vestfjörðum og fyrstu dagana snjóaði víða norðanlands. Um miðjan mánuð var víðast hvar orðin alauð jörð og hélst svo til mánaðarloka. Kalt var fyrstu vikuna og fór frostið í -14,3 stig þ. 3 á Hvanneyri. Óvenjulega hlýtt var um jólaleytið. Á aðfangadag fór hitinn í Reykjavík í 9,5 stig sem var dagsmet til 2006 en þ. 21. mældist mesti hiti mánaðarins, 10,1 stig í Vík í Mýrdal. Á jólanótt og jóladaginn var mikið suðaustanveður með rigningu á suðvesturlandi með hlýindum, 8,5 stig bæði í Stykkishólmi og á Hæli í Hreppum. Ólíkt desember 1933 var þetta einn af hlýjustu desembermánuðum í Mið-og Vestur-Evrópu og norður um öll Norðurlönd. Kortið sýnir loftþrýsting við sjávarmál. Lægðasvæði var sunnan við Ísland en yfir Austur-Rússlandi var hæðarsvæði og einnig yfir Grænlandi.

Á aðfangadag hófst lestur jólakveðja í Ríkisútvarpinu. Lesturinn var síðan fluttur yfir á Þorláksmessu og er enn iðkaður.     

1997_12_500t_an.png1997 (2,2) Desember þessi var tiltölulega hlýjastur inn til landsins. Það bar til tíðinda í mánuðinum að þá mældist mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í desember, 12,0 stig þ. 14. og meðalhitinn þann sólarhring er einnig sá mesti sem þar hefur mælst í mánuðinum, 10,2 stig sem mundi vera alveg í lagi í júlí. Daginn eftir mældust 18,2 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði og er það næst mesti hiti sem mælst hefur á landinu í desember (metið er 18,4 stig á Sauðanesvita, 2001). Þessir tveir sólarhringar eru líklega þeir hlýjustu sem komið hafa í desember á landinu síðan a.m.k. 1949. En það var alveg bálhvasst. Mikil hlýindi voru sem sagt dagana 14.-25. Þá var mikið háþrýstisvæði yfir Norðurlöndum en lægðir suður í hafi. Mánaðarmet hámarkshita voru sett víða, allt frá Ströndum austur og suður um til suðurlandsundirlendis. Merkust eru kannski metin í Grímsey 12,7 stig (frá 1872), Reykjahlíð við Mývatn 13,0 (1937), Grímsstöðum 11,5 (1907), Fagurhólsmýri 11,0 (1903-1912, 1935) og Eyrarbakka 10,2 (1924-1945, 1957). Kalt var hins vegar í byrjun mánaðarins og mældust -19,5 stig í Lerkihlíð í Vaglaskógi þ. 5. Snjólítið var í mánuðinum, snjóhula 27%, en hvergi var jörð alveg auð. Víðast hvar var jörð þó frostlaus og sums staðar voru tún græn fram að áramótum.  Suðaustanátt var algengasta vindáttinn og úrkoman var mest á suðausturlandi. Þetta er úrkomusamasti desember sem mælst hefur á Kirkjubæjarklaustri frá 1931, 321,1 mm en það eru þó eiginlega smámunir samanborið við úrkomuna í Snæbýli í Skaftártungu sem var hin mesta á landinu, 501 mm. Á Grímsstöðum var úrkoman aðeins 7,6 mm, sú þriðja minnsta frá 1935. Og á Akureyri er þetta næst sólríkasti desember. Mjög hlýtt var í um 5 km hæð í háloftunum yfir landinu og norðaustan við það eins og kortið sýnir. Þykktin yfir landinu var meiri en bæði 2002 og 1987. 

Rauð jól voru um allt land.   

2005-12-25_12_1124231.gif2005 (2,0) Umhleypingasamt og suðlægar og vestlægar áttir voru algengastar og tiltölulega hlýjast var í Vopnafirði. Á Austfjörðum steig hámarkshitinn einnig hæst, 14,2 stig á Neskaupstað þ. 14. Kaldast varð -20,9 stig þ. 7. í Möðrudal. Snjólag var kringum 38% og alveg snjólaust var á Norðurhjáleigu og alhvítir dagar voru yfirleitt fáir miðað við venjuna í desember, t.d. aðeins fjórir í Reykjavik. Úrkoma var mikil nema á norðausturlandi og Hornströndum og alveg sérstaklega mikil á suðvesturhorninu og miðbiki Vestfjarða.  Á Nesjavöllum var hún 425,7 mm. Mjög hlýtt var á jóladag í hvassri sunnanátt. Mældist þá mesti hiti sem mælst hefur þann dag í Reykjavík, 10,1 stig en 13,7 á Sauðanesvita. Það alveg hellirigndi og næsta morgun mældist úrkoman í höfuðborginni 26,8 mm en 58,3 mm á Andakílsárvirkjun. Mjög hlýr janúar kom í kjölfar þessa mánaðar en nær þó ekki alveg inn á topp tíu listann.  

1956_12_850_1124228.png1956 (2,0) Þessi mánuður kom í kjölfar þriðja hlýjasta nóvember. Veður voru rysjótt og stormasamt var oft á suðurlandi. Einhvers staðar var talinn stormur á veðurstöð alla daga nema fjóra. Suðaustanátt var algengust. Lægðir voru mjög þrálatar við landið, einkum á Grænlandshafi. Kortið sýnir hæðina í 850 hPa  svæðinu í um 1400 m hæð. Mánuðurinn fór reyndar af stað með vestanóveðri sem hafði skollið á síðast í nóvember og voru þá 10-11 vindstig víða á suður og vesturlandi og sums staðar á annesjum nyrðra og urðu fjárskaðar og ýmsar skemmdir á skipum og húsum. Togarinn Venus sleit upp í Hafnarfirði og rak á land og gjöreyðilagðist. Annað illviðri gekk yfir dagana 10. til 11. Hlýtt var á jólunum, 8,5 stig í Reykjavík á aðfangadag og 9,2 stig á jóladag. Hlýjast varð þó þann sjöunda, 11,4 stig í Fagradal í Vopnafirði. Kaldast varð daginn áður, -19,5 stig í Möðrudal. Norðanlands þótti snjór í minna lagi í þessum mánuði en í meira lagi á suðurlandi en snjólag var 52% á landinu í heild. Um áramót var yfirleitt snjólaust í byggð og jörð þíð. Úrkoma var litið eitt yfir meðallagi. Óvenjulega hlýtt var á Svalbarða og kringum Scoresbysund.

Hnefaleikar voru bannaðir á Íslandi þ. 28. en á gamlársdag hófst sá siður Ríkisútvarpsins að veita styrk til rithöfunda. 

Desember 1941 er sá 12, hlýjasti á öllu landinu eftir því kerfi sem ég nota og kom á eftir fimmta hlýjasta nóvember. Hann er hins vegar fimmti hlýjasti desember á Akureyri, 2,1 stig, örlítið hlýrri en 1946. Þá voru Bandaríkjamenn að dragast inn í styrjöldina eftir að Japanir réðust á Pearl Harbour og Ofviti Þórbergs var að koma út.  

Fylgiskjalið birtir eins og venjulega tölur fyrir hverja veðurstöð um sig. 

Skýringar. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband