Með stuði og stæl

Það hefur verið löng hefð á 17. júní að skemmtun hafi verið um kvöldið  í miðbæ Reykjavíkur. Þetta hefur verið hluti af því fyrir bæjarbúa að vera Íslendingur á þjóðhátíðardeginum og búa í höfuðstaðnum.

En nú er þetta allt í einu lagt niður. Einhver nefnd  hefur ákveðið það bara. Og af svo sem engri ástæðu nema hvað tekið er fram að við höfum menningarnótt. Það er eins og nefndarfólkið skilji ekki muninn á þjóðhátíðardeginum og menningarnótt. Og þá ekki heldur hvað það er mikið öðru vísi blær yfir því að að vera úti að kvöldlagi meðan nóttin er björt og því að vera úti í myrkri.

Sagt er að dregið hafi úr fólksfjöldanum í bænum á sautjándanum síðustu árin. Ekki hef ég nú tekið eftir því en ég bý við miðbæinn. En veður gæti ég trúað að hafi áhrif á fólksfjöldann.

Jú, stundum er fyllirí og leiðindi. En það er á öllum íslenskum útiskemmtunum meira og minna. 

Í dag fór fram serimónían á Austurvelli þar sem forsetinn lagði blómsveig að fótstalli styttunnar af Jóni Sigurðssyni og forsætisráðherra hélt ræðu. Allt þetta kunnum við utan að. Aldrei kemur þar neitt nýtt eða frumlegt fram. Bara sama tuggan. 

Af hverju er þetta ekki lagt niður?

Þarna eru valdhafarnir í fyrirrúmi, forseti og forsætisráðherra. Og forsætisráðherra var að einmitt segja áðan á Austurvelli að enginn treysti  ráðamönnum lengur.

Hvers vegna í ósköpunum er þessi ráðamannaserímónía á 17. júní þá ekki lögð niður?

Og kvöldskemmtunin aukin um allan helming í staðinn! 

Með stuði og stæl! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: FORNLEIFUR

Fornleifur vill líka gamla tímann til baka.

Jón Sigurðsson hefði örugglega verið með allt niður um sig niður á Arnarhóli hefði hann fengið það fyrir Ingibjörgu. Hún var vargur.

FORNLEIFUR, 17.6.2012 kl. 18:30

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Alltaf svo þjóðlegt og hátíðlegt þegar Fornleifur stígur upp úr gröf sinni til að fara með forneskjutaut sittt! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.6.2012 kl. 19:03

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Gleðilega hátíð þú gamli og veðurbarði orðajöfur.

FORNLEIFUR, 17.6.2012 kl. 19:59

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það ætti að senda þá sem ráða för í þessu til Gimli í Manitoba og sjá, hvernig landar okkar þar halda Íslendingadaginn. Gimli er bær á stærð við Selfoss en hátíðarhöldin þar taka okkar hátíðarhöldum langt fram.

Í stað þess að gera svipað og best gerist hjá frændum okkar vestra og læra af þeim er búið að láta Gleðigönguna og Menningarnóttina taka glæsileika skrúðgöngu og fleiri þekkt atriði vestan hafs af þjóðhátíðardeginum.

Við búum svo vel að þjóðhátíðardagurinn er þegar sólargangur er einna lengstur og yfirbragð hátíðarhalda í "nóttlausri voraldarveröld" er því einstakt.

En allt kemur fyrir ekki.

Ómar Ragnarsson, 18.6.2012 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband