Mannslíf eru í húfi

Gunnar Gíslason  sérfræðingur í hjartasjúkdómum, telur að banna eigi eitt algengasta verkjalyf sem ávísað er á gigtarsjúklinga. Lyfið er talið valda dauða meira en eitt hundrað Dana á ári hverju. Svo segir í fréttinni í hádeginu í Ríkisútvarpinu og hér er vísað til.

Það má slá því föstu að fjölmargir Íslendingar hafi í góðri trú tekið lyf úr þessum hættulega lyfjaflokki árum saman án þess að hafa nokkurn grun um hætturnar. Enda veit ég ekki til að nokkurn tíma hafi verið varað við þessum lyfjum hér á landi.

Áreiðanlega eru þeir líka margir sem tóku fyrst lyfið víox, sem tekið var af markaði vegna þess hve hættulegt það er, en hafa síðan tekið þessi lyf sem Gunnar telur einnig lífshættuleg. Þeirra á meðal er ég.

Hvers eiga sjúklingarnir eiginlega að gjalda?

Hvað hafa þessi lyf valdið miklum skaða hér á landi eða dauðsföllum? Í hverju er hættan fólgin? Hverfur hún þegar töku lyfjanna er hætt eða veldur notkun þeirra um einhvern tíma varanlegum skaða í líkamanum?

Það hlýtur nú að fara um þá sem lengi hafa notað þessi lyf við þessar fréttir og þeir eiga kröfu á því að nákvæmar upplýsingar um lyfið og skaðsemi þess, ef hún er slík sem Gunnar heldur fram, berist frá heilbrigðisyfirvöldum. Þetta hljóta að vera hrollvekjandi fréttir fyrir líklega þúsundir einstaklinga. 
 
Gigt er andstyggileg en hún er ekki banvæn. En svo verður hún það bara út af tilteknum lyfjum!
 

Gunnar Gíslason segir að læknar ávísi ''þessum lyfjum af gömlum vana og að varnaðarorð frá yfirvöldum nái ekki eyrum þeirra''.

Eftir orðanna hljóðan, hvað segja þau um árverkni, ábyrgð og virðingu lækna fyrir lífi sjúklinga sinna? Eða er Gunnar bara að rugla?

Og hvað svo? Birtist þessi frétt, kannski aðeins í Ríkisútvarpinu, bara sisvona án þess að nokkrar umræður eða aðgerðir komi í kjölfarið?

Viðbót 24. 6.:Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins var skýrt frá því að íslenskir læknar ávísi fjórum sinnum meira af þessum lyfjum en danskir læknar og meira en aðrir læknar á norðurlöndum. Þrjátíu og fimm þúsundir taki hér þessi lyf. Sagt var líka að ekki væri von á neinum bráðum aðgerðum vegna þessa.

Hvað þarf eiginlega til? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband