Hlýjasti dagur sumars og dagshitamet í Reykjavík

Dagurinn í dag var sá hlýjasti sem komið hefur í Reykjavík í sumar. Meðalhitinn var 15,4 stig en hámarkshiti 21,3 stig. Hvort tveggja er met fyrir 16. ágúst. Síðasta dag ágústmánaðar 1939 mun meðalhitinn hafa verið svipaður og nú en hámarkið var þá 21,4 stig. En meiri hitar en þetta hafa annars ekki mælst í Reykjavik eftir miðjan ágúst.

Á Reykjavíkurflugvelli fór hitinn i 21,4 stig en hins vegar í 23,1 á Korpu, 23,0 í Geldinganesi, 22,7 á Skrauthólum á Kjalarnesi og 22,3 á Hólmsheiði. Á Skálafelli í 771 m hæð fór hitinn í 15,7 stig.   

Meðalhitinn í borginni er nú 13.3 stig og hefur aðeins verið hlýrri á sama tíma árið 2004 þegar mesta hitabylgja seinni áratuga var nýgengin yfir. Og ekki jafnast þessi dagur neitt á við það þó dagshitametin hafi komið.

Á Þingvöllum varð hitinn 24,8 stig sem er reyndar líka mesti hiti sem mælst hefur á landinu þennan dag en verður hjárænulegur miðað við 2004.  

Á Akureyri er meðalhitinn 14,4 stig. Þar var ekki hlýtt í dag og í gær náði meðalhitinn þar sinni hæstu stöðu með 14,6 stigi. Þess má nú alveg geta að árið 1880 var meðalhiti alls ágústmánaðar 14,0 stig á Valþjófsstað í Fljótsdal. 

Ekki hefur mælst mælanleg úrkoma á Akureyri eða Torfum í Eyjafjarðardal það sem af er mánaðarins.

Óneitanlega er þetta nokkuð töff sumar og vonandi endar það ekki með ósköpum!

Ég fór upp í Öskjuhlíð eins og ég geri oft á bestu dögum sem koma í Reykjavík.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það má fara að huga að meðalhitametinu fyrir ágúst í Reykjavík frá árinu 2003: 12,8°C. Merkilegt samt að hitabylgjuágústinn 2004 var bara 12,6° - við ættum sennilega að ná því í ár.

Emil Hannes Valgeirsson, 17.8.2012 kl. 09:55

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Nýja dægurmetið sem Þingvellir eiga og þú nefnir er þó ekki hjárænulegra en svo að það er 2,3 stigum hærra heldur en eldra met dagsins. En dagurinn lá vel við höggi því gamla metið var talsvert lægra heldur en metin dagana á undan og eftir. Tími kominn á það.

Trausti Jónsson, 17.8.2012 kl. 17:19

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hjárænulegur vildi ég meina að hitinn væri miðað við glæsitölurnar nokkrum dögum á undan frá 2004. En fyrst og fremst átti þetta orðalag að vera rhetórískt bellibragð! Samt alls ekki skemmtiefni- guð forði oss frá þeim ófögnuði.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.8.2012 kl. 19:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband