Hámarkshitamet fyrir febrúar i Reykjavík

Í nótt fór hitinn í Reykjavík í 10,2 stig er mesti hiti sem þar hefur mælst í febrúar frá því mælingar hófust. Gamla metið var 10,1 stig og var mælt þann 8. 1935 og þann 16. 1942.

Meðalhitinn í gær var 7,5 stig sem er dagsmet fyrir Reykjavík en gamla metið var 6,6, stig árið 1983. Þetta er annað dagshitametið i Reykjavík í þessum mánuði en hitti metið er frá þeim 21. þegar meðalhitinn mældist 7,9 stig.

Þykkt lofthjúpsins milli 1000 og 500 hPa flatanna sem er mælikvarði á hita loftsins var á miðnætti 5460 metrar yfir Keflavík sem er nærri meðalþykkt um hásumar. Ef hitamöguleikarnir í 850 hPa fletinum sem var í um 1300 metra hæð skilaði sér allur þarna til jarðar yrði hitinn um 15 og hálft stig.    

Mesti hiti í dag á landinu það sem af er hefur annars mælst 14,0 stig á Seyðisfirði en ekki er það nú neins konar met.

Meðalhiti mánaðarins er nú kominn upp i 3,4 stig í Reykjavík. Ég er ekki úrkula vonar um að hann nái bronsinu í hitanum af febrúar 1964.

Á Akureyri er meðalhitinn nú 1,8  og er hann nú kominn á miðjan topp tíu listann fyrir hlýjustu febrúarmánuði.

Svo er bara að sjá hvað mánuðurinn gerir á lokasprettinum. En það er þá ekki fyrr en tvo síðustu daga sem hann getur farið að klikka.

Viðbót:  Hitinn á Seyðisfirði hefur farið í dag í 15,3 stig sem er mesti hiti sem mælst hefur á landinu 25. febrúar en meira bæði rétt fyrir og eftir þessa dagsetnignu. Hámarkshitamet fyrir allan febrúar hafa líka verið sett í dag í Stafholtsey 10,2 stig, og á Mánarbakka,12,0 stig. En þessari hlýindahrinu er ekki lokið svo við sjáum hvað setur.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband