Góð júníbyrjun

Þegar júní er hálfnaður er meðalhitinn í Reykjavík 11,5 stig sem er 2,9 stig yfir meðallagi sömu daga  1961-1990 en 1,6 stig yfir meðallaginu á 13 fyrstu árum þessarar aldar. Meðalhitinn fyrri hluta júní hefur aðeins verið hærri árið 2002 en var þá 12,0 stig. Síðar kólnaði í þeim mánuði og lokatalan varð 11,3 stig sem gerir hann þó að næst hlýjasta júní sem mælst hefur í borginni en sá hlýjasti var 2010 með 11,4 stig. En þá voru mestu hlýindin seinni hluta mánaðarins.

Því miður er ekki sérlega góð spá það sem eftir er mánaðarins, ef nokkuð er þá að marka slíkar langtímaspár,  svo kannski gerir okkar júní engar sérstakar rósir í hitanum þegar hann er allur. 

Ekki geri ég ráð fyrir að mönnum finnist rigningar hafa verið til leiðinda í borginni það sem af er júní. Eigi að síður vantar aðeins um 5 mm upp á það að úrkoman sem af er nái meðalúrkomu alls júnímánaðar 1961-1990. Sólskinsstundir eru 12 stundir fram yfir meðallagið. Þó hafa aðeins komið þrír miklir sólardagar en þann 6. mældist jafn mikil sól í borginni og mest hefur áður mælst, 17,6 klukkustundir og næsta dag aðeins minna. 

Á Akureyri er meðalhitinn núna 11,3 stig eða 2,5 stig yfir meðallaginu 1961-1990. 

Á veðurstöðinni við Þyril í Hvalfirði er meðalhinn tólf stig. 

Tuttugu stiga hiti eða meira hefur mælst á landinu sjö daga af þessum 16 sem verður að teljast allgott.  

Í dag hlýnaði loksins almennilega á austfjörðum og fór hitinn í 22,1 stig á Kollaleiru í Reyðarfirði og 20,5 á Seyðisfirði. Þrátt fyrir það að kaldast hafi verið að tiltölu á austfjörðum er júníhitinn þar það sem af er samt okkru hlýrri en allur júní var að meðaltali á þessari hlýju öld. Hvergi á landinu er því hægt að tala um kulda í heild í mánuðinum, aðeins mismunandi mikil hlýindi.

En kannski mun fara að kólna svo ekki er víst að þessi hlýindi haldist út allan þennan júní.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er auðvitað spurning hversu góður júní hefur verið það sem af er hér á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi mikla úrkoma er t.d. ekki til marks um mikla veðursæld - og spáin næstu 10 dagana á yr.no bendir ekki til þess að júní verði sérlega góður.

Mér sýnist reyndar flest benda til þess að í ár verði aftur rigningarsumar hér á sunnan- og vestanverðu landinu - rétt eins og í fyrra.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 17.6.2014 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband