Blíðviðrisdagar seint í september

Athugið: Fylgiskjalið, sem greinir frá daglegu veðri, er áfram virkt þó ekki bætist við nýjar bloggfærslur. 

Í gær, 25. september, komst hitinn ekki hærra en 9,4 stig í Reykjavík (9,6 í dag). Það er fyrsti dagurinn sem hitinn nær ekki tíu stigum siðan 19. maí. Þetta er aðeins betra en í langtíma meðallagi því síðasti dagurinn að meðaltali síðan 1920 í Reykjavík með tíu stiga hámarkshita er 21. og 23. september (22. hafði það af). 

Nú má segja að hausti að.

Þrátt fyrir það koma alloft hlýir dagar síðasta þriðjunginn í september. Þá er oftast skýjað en góðir sólardagar með hlýindum eru sjaldgæfir því aðal sólaráttin í Reykjavík er vitaskuld af norðri og hún vill vera köld þegar orðið er þetta áliðs sumars. Vel hlýir sólardagar eru samt ekki óþekktir seint í september. 

Frá 1920 er meðalhiti allra síðustu tíu dagana í  september í  höfuðborginni 7,0 stig en kólnar jafnt og þétt á hverjum degi, meðaltal hámarkshita 9,5 stig en meðalfjöldi sólskinsfjölda 34,5 stundir. Fyrir það sem af er þessari öld eru samsvarandi tölur 7,4, 9,8 og 35. 

Ef við miðum við 13 stiga hámarkshita með tíu stunda sólskini fáum við eftirfarandi daga í leit okkar að sólríkum blíðviðrisdögum síðasta þriðjunginn í september í Reykajvík, fyrst er árið, þá dagsetningin og loks sólarstundirnar. 

2006: 21. 13,0°, 10,2 sólarstundir. 

2000: 28. 13,9°, 10,1 st. 

1999: 21. 16,4°, 10 st. Glæsilegur dagur!

1993: 21. 13,9°, 10,5 st.

1967: 26. 13,2°, 10 st. Þetta var fyrsti september sem ég fylgdist með veðri. Þarna komu þrír dagar í röð með tíu stunda sól eða meira, 25. með 10,6  sólarstundir (hámarkshiti 11,4°),  sá 26. og loks 27. með 10,8 sólskinsstundir (hámarkshiti 10,3°). Þann 26. var hámarkið um klukkan 18. Ég var þá niður við tjörn í blíðunni. Og ég hef aldrei gleymt þessum degi og hann er fyrir mér hinn erkitýpiski síð september blíðviðrisdagur. 

Mikið sólskin er því miður oftast ávisun á kulda seint í september í Reykjavík. Sólríkustu síðustu tíu dagarnr í  þessum mánuði voru 1975 þegar sólin skein í einar 86 stundir en hann er líka fjórði kaldasti þessa tíu daga (eftir 1974, 1954 og 1969). Já, næst sólríkustu síðustu tíu septemberdagarnir voru  1974, 75 klukkustundir, og það má fullyrða að þeir séu einmitt þeir köldustu alveg frá því Veðurstofan var stofnuð, 2,2 stig að meðaltali. Sólríkasti endasprettur september á þessari öld var 2005 þegar sólin skein í 62 stundir en fyrir þessa síðustu tíu daga er hann einmitt sá kaldasti það sem ef er öldinni þá daga, 3,1 stig. 

En áfram með blíðviðrisdaga í Reykjavík seint í september. Tíu stunda sólskinsmælikvarðinn er auðvitað nokkuð strangur svo síðla árs. Stundum koma vel hlýir dagar á þessum tíma þegar sólar nýtur talsvert, fyrir nú utan þá hlýju sólarlausu eða sólarlitlu, og fólk mun upplifa sem sannkallaðan sumarauka þó sólin skíni ekki í heilar tíu stundir.

Þar er efst á blaði síðasti septemberdagurinn árið 1958. Þá komst hitinn í 16,9 stig og sólin skein í 8,4 stundir. Þetta er mesti hiti sem nokkru sinni hefur mælst í Reykjavík svo seint á sumri. Hitinn var enn 15,7 stig klukkan 18 en þá er skipt milli sólarhringa hvað hámarkshita varðar á Veðurstofunni. Og svo vægast sagt ólánlega vildi þá til að sá hiti er enn þann dag í dag talinn mesti hiti sem mælst hefur í höfuðborginni - í október! En síðustu fimm dagararnir í september 1958 voru afar hlýir en þessi var samt toppurinn og sá eini sem sólin lét sjá sig að ráði. 

Næst síðasta daginn í september 1992 fór hitinn í 16,8 stig í Reykjavík og sólin skein í næstum því fjórar stundir. Það var alltaf sól annað kastið og mönnum fannst þetta sjaldgæfur dýrðardagur.

September 1935 var óvenjulegur í Reykjavík fyrir það að vera bæði vel hlýr og nokkuð sólrikur, miðað við september. Síðasti hlutinn var engin undantekning frá mánuðinum í heild og þann 28. fór hittinn  14,6 stig og sólin skein í næstum því sjö klukkustundir.

Varla þarf svo að taka það fram að sannkallaðir blíðvirðrisdagar síðustu tíu dagana í september eru öllu tignarlegri fyrir norðan og austan heldur en hér syðra. 

En stöðuna í september núna má sjá í fylgiskjalinu.

 

 

         


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband