Truntusól er ekki skáldsaga

Orðið Truntusól hefur tvívegis verið nefnt af þeim sem hafa gert athugasemdir við bloggið mitt síðustu daga. Þetta er nafn á bók sem ég skrifaði þegar ég var tuttugu og fjögra ára gamall. Á tiltilblaði bókarinnar segir að hún sé skáldaga.

En nú get ég upplýst að svo er ekki þó tveir kaflar í bókinni séu hreinn tilbúningur og slatti hér og þar í henni til viðbótar. Bókin segir frá vist á geðdeild og var útgefandinn, Ragnar í Smára, svo hræddur vegna yfirlæknis deildarinnar, Karls Strand,  og fleira starfsfólks að hann krafðist þess að bókin væri kölluð skáldsaga. Einnig varð ég að fella út ýmislegt gys sem ég gerði að  starfsfólkinu og breyta öllum nöfnum á því. Mér var þetta þvert um geð en varð að láta undan því annars hefði bókin aldrei komið út. Reyndar var mér sagt af manni er starfaði á viðkomandi deild að yfirlæknirinn hafi reynt að koma í veg fyrir útgáfu bókarinnar. Bókin vakti heilmikla athgyli og var upseld fyrir jól svo ég vona að farið hafi ærlega um hann.

Fyrir skömmu var mér bent á ritið "Tengt við tímann, tíu sneiðmyndir frá aldalokum" sem Bjartur og ReykjavíkurAkademían gáfu út árið 2000. Og skrifar þar ekki Hermann Stefánsson bókmenntafræðingur ritgerðina "Geðsmunir" og er þar talsvert fjallað um Truntusól. Hann segir m.a. um bókina: ...„verkið hefur öll verksummerki skáldskapar og lesandinn er látinn koma að því eins og sáldsögu..."

Eins og áður segir er þetta samt ekki skáldsaga. Hermann segir líka um bókina: "Í huga íslenskra lesenda hefur hún yfir sér áru sjálfsævisögulegs ákæruskjals." Og nokkru síðar segir hann: "Truntusól er ekki ákæruskjal. Í verkinu er að finna næstum því einstakt daður við fjölmargar bókmenntagreinar: skáldsögu, stjórnmálarit, dagbókarbrot, tónlistarrýni, heimspekirit, samræðulist, trúarbragðarit, ævisögur, þjóðlegan fróðleik, blaðagreinar, mannlýsingar; þar ægir saman ólíkustu stíltilraunum, rómantískum stemmningum í bland við grimma sjálfsskoðun, ákærum í bland við íhugular mannlýsingar."

Það er ekki að spyrja að því að bókmenntafræðingar lesa margt og margt í bókum sem ekki er þar að finna. Hermann man ekki þá tíma þegar bókin kom út. Ég hef nú bara aldrei heyrt að litið hafi verið á hana sem ákæruskjal. Ég held að það hafi ekki hvarflað að neinum. Sannarlega var slíkt ekki mín ætlun. Það er hins vegar þjóðfélagsgagnrýni í bókinni eins og þá var tíska. Ég held að allir hafi séð að bókin er fyrst og fremst sjálfslýsing höfundar eins og hann upplifði sig þá. Nú er hann allur annar maður! 

Ég hef oft verið spurður að því fram á þennan dag af hverju ég hafi ekki skrifað fleiri bækur og hvort ég ætli nú ekki að fara að skrifa bók. Síðustu árin hef ég svarað því til að ég sé einmitt búinn að skrifa nýja bók. Þá hjarnar spyrjandinn allur við og spyr með gleiðu brosi á vör:

"Skáldsögu?"

"Nei, bók um tónlist."

Og þá stirnar ánægjuglott spyrjandans í vonbrigðargrettu.

Hvað er eiginlega svona merkilegt við skáldsögur? Að menn missi andlitið þegar þær eru ekki skrifaðar heldur annars konar bækur.

Það liggur við að ég sjái eftir því að hafa skrifað Truntusól. Ég var örugglega fyrsti Íslendingurinn sem talaði frjálslega um geðraskanir. En það var ekki til neins.

Nú þrjátíu árum síðar finnst mér fordómar gegn þeim vera meiri en þeir voru þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

En geturðu verið viss um að hún hafi ekki breytt heilmiklu fyrir einhvern? Kannski losnaði örlítið um fordóma einhvers eins aðstandanda... þá hefur þú lyft grettistaki

Er svo mikil Pollýanna í dag... föstudagur og allt það :) 

Heiða B. Heiðars, 16.3.2007 kl. 18:51

2 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Hér þar sem ég bý er slatti af furðulegu fólki. Og það furðulega er að það fær alveg að vera með hinum. Kannski þess vegna sem mér finnst vera meira af því hér en annarsstaðar þar sem ég hef búið; það rigsar hér um allt þetta furðulega fólk, alveg eins og það eigi bara heima hérna. Eigi sinn tilverurétt.
Þegar ég hef orðið vitni að samskiptum manna á meðal þar sem augljóst er að einhver í hópnum er það sem maður kallar ekki alveg normal - þá er hreinlega hlustað á það sem hann segir. Með raunverulegri athygli. Og honum svarað eins og hann og skoðanir hans séu allrar athygli verðar. Og það allraallramerkilegasta er að það er ekki farið að gera grín þegar hann er farinn. Ekki ein athugasemd látin falla einusinni. Og það leiðinlega er að þetta er eitthvað annað en það sem ég á að venjast. Annars þætti mér þetta ekki svona merkilegt.
Ég ætlaði einu sinni að spyrja - eftir að kona nokkur sem var ansi furðuleg í tali og viðmóti var horfin af svæðinu - hina stúlkuna sem hafði verið í samræðunum og sem ég þekkti ágætlega, hvað eiginlega væri að þessari konu; hvort hún væri einhverf eða hvað. En viðleitni mín til að beina talinu á þessar brautir (ótrúlega hallærislegt fattaði ég eftirá) báru engan árangur heldur var bara litið á mig spurnaraugum sem sögðu: Hvað ertu eiginlega að fara? Þetta er bara hún Georgía!
Ég þarf varla að lýsa því hvað ég skammaðist mín þegar ég fattaði hvað ég raunverulega var að gera með því að ætla að fara að tala um hana á þessum nótum. Þetta kom alveg ósjálfrátt hjá mér einhvernveginn. Eitthvað sem ég er greinilega vön heimanaðfrámér. Samt hefur fólk hér líklega lítið lesið um geðsjúkdóma eða annarleika annan. Lífsreynslusögur geðsjúkra og annað í þeim dúr. Menntunarstig manna er nú aldeilis á lægra plani en hjá okkur á Íslandi. Það kunna ekki einu sinni allir að lesa hérna. En þeir hérna bændadurgarnir kunna greinilega ýmislegt sem við kunnum ekki.
Það er eitthvað annað sem gerir það að verkum að menn sýna umburðarlyndi. Eitthvað annað en uppfræðsla og upplýsing ein og sér. Ég held að umburðarlyndi lærist ekki af bókum. Ég held að það verði einungis sýnt í verki. Að koma fram af virðingu við fólk sem er öðruvísi. Sýna að það sé líka pláss fyrir það á meðal hinna venjulegu.
Þegar fordæmið er gefið smitar það út frá sér og börnin læra þetta af hinum fullorðnu.

Þetta lærði ég nú hér.

gerður rósa gunnarsdóttir, 16.3.2007 kl. 19:48

3 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Nú! Var þetta SVONA langt hjá mér?! Jæja þá :)

gerður rósa gunnarsdóttir, 16.3.2007 kl. 19:49

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já Gerður, þér finnst nú enn þá  gaman að blogga! Við erum nú bæði smá skrýtin eða jafnvel stór skrýtin. Það er svo furðulegt að í þrígang hef ég verið búinn að festa mig vel í háum sessi í bloggröðinni en finnst það þá svo óþægilegt að ég steinhætti að blogga til þess eins að byrja aftur á núllpunkti. Þetta er svona sisyifossyndróm. Sisyfoss var dæmdur til að rogast með stóran  stein upp á bjargbrún eins og þú veist, búandi í sisyifoslandinu, en þegar hann hyggst munu geta tyllt steininum á bjargbrúnina veltur hann aftur ofan. Við þetta er Sisyfos að bisa um alla eilífð. Og enginn fær gert við því. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.3.2007 kl. 20:48

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það verður ekki af þér skafið, Sigurður, að stílisti ertu. Og þakka þér fyrir að deila þessu með okkur. Já, merkileg er reynsla þín og þar af leiðandi eðlileg eftirsjá eftir að hafa skrifað bókina. (Þetta má ekki misskiljast svo, að ég telji hana illa skrifaða; ég las hana reyndar ekki.) Ég hlakka til að kaupa Schubert-bókina þína.

Svo ertu með þennan fína bloggvin hana Gerði Rósu. Hér fekk nú þjóðin aldeilis lexíuna í þessum pistli hennar. Og góður og merkilegur lærdómurinn sem blasir þar við sjónum í lokaklausunum hjá henni. Þið eruð gott fólk og gefandi.

Jón Valur Jensson, 16.3.2007 kl. 21:57

6 Smámynd: Sigurður Á. Friðþjófsson

Heill nafni!
Keypti bókina þína þegar hún kom út á sínum tíma og eftir lestur hennar var ég eins og margur annar fullviss um að nýr Þórbergur væri fæddur. En það er bara einn Þórbergur og einn Sigurður Þór Guðjónsson sem okkar á milli félaganna gekk ætíð undir nafninu Sigurður Truntusól. Þetta var góð bók og e.t.v. ætti maður að endurnýja kynnin við hana.

Sigurður Á. Friðþjófsson, 16.3.2007 kl. 22:48

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Æ, mér leiðist þetta tal um gamlar syndir. En ég get sjálfum mér um kennt að vera að nefna þær. Ég er bara svo ósammála því sem Hermann var að skrifa.

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.3.2007 kl. 23:55

8 Smámynd: halkatla

hahaha aumingja fólkið sem fær ekki aðra skáldsögu, ég sé þetta alveg fyrir mér

 annars er þetta alltsaman áhugavert, ég er sammála Heiðu í fyrsta kommenti...

halkatla, 17.3.2007 kl. 00:29

9 Smámynd: halkatla

hahaha aumingja fólkið sem fær ekki aðra skáldsögu, ég sé þetta alveg fyrir mér

 annars er þetta alltsaman áhugavert, ég er sammála Heiðu í fyrsta kommenti...

halkatla, 17.3.2007 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband