Þarf nú ekki að endurskrifa

Pétur Pétursson prófessor í guðfræði er að koma á fót félagi vistfólks á barnaheimilum fyrr á tíð er telja sig hafa sætt þar illri meðferð.  

Þá vaknar ein spurning. Hvað ef stúlkur sem voru vistaðar á Bjargi sem rekið var á vegum Hjálpræðishersins vilja ganga í félagið? 

Pétur prófessor skrifaði nefnilega sögu Hálpræðishersins, "Með himneskum armi", sem út kom árið 1995. Þar segir Pétur í all-löngu máli frá rekstri stúlknaheimilisins og tildrögum þess að því var lokað haustið 1967. Fjölmiðlar sögðu að stúlkurnar teldu sig hafa sætt illri meðferð en Pétur hefur allt aðra sögu að segja í bókinni og getur að engu um viðtalið við stúlkurnar sem kom í vikublaðinu Ostrunni 6. nóvember 1967. Það finnst mér ófyrirgefanleg hlutdrægni. 

Ekki er að sjá í bókinni að Pétur  hafi séð nokkuð athugavert vð rekstur heimilisins. 

Öðru nær. Hann skrifar að margir þeir sem búast hefði mátt við að styddu kristið heimili af þessu  tagi hafi þagað þunnu hljóði "þegar ómaklega var á það ráðist" (bls.184). Sem sagt:  Ásakanir stúlknanna um illa meðferð sem fjölmiðlar sögðu frá voru rangar. Allt var í himnalagi og vitnisburður um annað "ómaklegur".  Höfundur skrifar að tildrögin að lokun heimilsins hafi verið þau að ein stúlkan hafi verið með barn sitt en það hafi verið tekið af henni því stofnunin hafi ekki verið hugsuð fyrir stúlkur með börn. Stúlkurnar hafi fundið sterka samkennd með stöllu sinni og þótt aðgerðirnar hámark frelsisskerðingar."Nemendurnir fylltust hatri sem beindist gegn starfskonum og stjórn heimilisins. Þegar þær fengu siðferðislegan stuðning utanfrá, magnaðist þetta hatur. Í blaðaviðtölum og yfirheyrslum í sambandi við lögreglurannsókn sem fram fór í árslok fegnu þær útrás fyrir þetta hatur" (bls.190). 

Ekkert smáræðis hatur í þessum "vandræðastúlkum" Og auðvitað algjörlega að  ástæðulausu. Þannig var nú þetta að dómi höfundar bókarinnar, Péturs Péturssonar guðfræðings. Á sínum tíma, 1967, var engu líkara en stúlkurnar væru "sökudólgarnir" í málinu við rannsókn þess líkt og gerðist á þeim árum með konur sem sögðust hafa verið nauðgað og gerist það víst stundum enn! Og ekki hafði þetta mat á atburðum breyst hætishót árið 1995.

Já, hvað ef stúlkur sem voru á Bjargi vilja ganga í þetta væntanlega félag?

Ef söguskoðun Péturs Péturssonar er rétt var ekkert  athugavert við heimilið, stúlkurnar urðu ekki fyrir neinu misjöfnu og hafa því ekkert að gera með að ganga í svona félag. Hafi stúlkurnar hins vegar sætt illri meðferð verður Pétur að endurmeta þessa atburði opinberlega.

Það nær ekki nokurri átt að sú saga af Bjargsmálinu sem sögð er í "Undir himneskum armi" fái að standa sem hin "opinbera" söguskýring þessara atburða.

En líklega er þess skammt að bíða að sagan verði sögð af stúlkunum sjálfum en ekki bara Hjálpræðishernum og hirðsöguritara hans.

Viðtalið í Ostunni við stúlkurnar á Bjargi má lesa á meðfylgjandi pdf-skjali. Það hefur að vísu birst áður á þessari síðu en sjaldan er saga um ranglæti gegn minnimáttar of oft sögð. Skjalið er smástund að opnast.

himneskurarmur2Ekki get ég svo þagað yfir því, úr því maður er kominn með einkafjölmiðil, að langafasystir mín, Guðjónía Bjarnadóttir, var fyrsti "æskulýðsfulltrúi" Hjálpræðishersins. Hún orti eldheita afturhvarfssálma í Herópið og þrumaði yfir syndum spilltum lýðnum á Lækjartorgi. Hún var sómakona mikil og ekki síður maður hennar, Þóroddur Bjarnason skósmiður. Dætur þeirra létu einnig til sín taka í Hernum en settust að í Danmörku. Fjölskyldan bjó í Sólheiði á Urðarstíg og kom móðir mín stundum til hennar þegar hún var ung og átti leið til Reykjavíkur. Guðjónía lést á stríðsárunum síðari.

Hér má sjá mynd af fjölskyldunni fyrir framan Sólheiði. Guðjónía er sú með hattinn. Mér sýnist önnur dóttir þeirra hjóna, sú sem er vinstra megin við stóra manninn, vera alveg fáránlega lík mér! Smellið á myndina með músinni til að stækka hana. Myndin er tekin úr "Undir himneskum armi" en þangað er myndin líklega komin úr Herópinu.  

     

  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Er sagan ekki skrifuð samkæmt þeim heimildum sem Pétur fékk frá Hernum?

Herinn hefur haft eitthvað óhreint í pokahorninu eða talið það sjálfsgar í uppeldinu að beita ofbeldi?

Mér finnst þú ættir að skella skuldinni á Herinn það er maklegt.

Ef til vill er Herinn ekki eins himneskur og hann hefur viljað vera láta?

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 20.3.2007 kl. 18:54

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Kannski er eiithvað til í þessu hjá þér. En eigi að síður virðist sem Pétur hafi ekki skeytt um samtímaheimidlir sem sögðu aðra sögu en hann segir í bókinn, t.d. Ostruviðtalið. Ég las það og geymdi allan tímann. Menn verða nú að líta dálítið í kringum sig við söguritun, afla sér heimilda óháðir þeim sem fer fram á söguritunina. En ég viðurkenni að men geta hæglega blindast af tíðaranda og farið að sjá löngu seinna sömu atburði í öðru ljósi.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.3.2007 kl. 19:02

3 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Það var líka fjallað um Bjarg í Mogganum á þessum tíma og þar kom Sr.Auður Eir mikið við sögu hún virðist hafa beitt sér af mikilli hörku. 

Þóra Guðmundsdóttir, 20.3.2007 kl. 20:23

4 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Þú hefur nú bara klippt út hausinn á sjálfum þér og límt inn á myndina. Það er alveg augljóst.

gerður rósa gunnarsdóttir, 20.3.2007 kl. 21:18

5 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég er búin að lesa pdf skjalið áður þar sem viðtölin birtust við stúlkurnar á Bjargi. Það er einkennilegur Himneskur armur þar sem það er látið viðgangast að konur í þessum svokallaða´Frelsesarmen' káfi á og reyni að kyssa stúlkur sem eru undir verndarvæng þeirra á hinu fyrrnefnda vistheimili Bjargi eins og kom fram í viðtölunum.
Eitthvað öfugsnúinn kristilegur kærleikur sem birtist í því.

Annars er ég sammála zou með það að þú hefur bara klippt út hausinn af sjálfum þér og límt inn á myndina.

Svava frá Strandbergi , 20.3.2007 kl. 21:54

6 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Þú segir nokkuð, þykir mér.

Hlynur Þór Magnússon, 20.3.2007 kl. 22:02

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það  er kannski ekki að furða þó ég haldi stundum vakningarprédikanir yfir lýðnum, verandi af þessu slekti. Og nú er ég hauslaus orðinn! Haleluja!!  

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.3.2007 kl. 22:24

8 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Gott innlegg hjá þér Siggi minn eins og þér var von og vísa. Þrátt fyrir að vera af þessu slekti þá missir þú ekki hæfileikann til gagnrýninnar hugsunar (ólíkt biskupssyninum) eða áhyggjurnar af sannleikanum. Ekki frekar en meistari Þórbergur sem var að mig minnir einu sinni þín fyrirmynd.

Ég verð að gera athugasemd við athugasemd guðfræðingsins. Hún spyr hvort nafni minn hafi ekki bara verið háður heimildum sínum og fremur ætti að sakast við Herinn. Hér er einhver hugtakaruglingur á ferðinni.

Sigurður minn sem skrifaði snilldarverkið Truntusól sakar ekki Pétur prófessor um að fara illa með stúlkur. Hann sakar hann um lélega sagnfræði. Herinn ber ekki ábyrgð á söguskoðun Péturs. Eigi hver sitt í þessu máli.

Það liggur ljóst fyrir að sagnaritari hafði heimildir um slæma meðferð á stúlkum og ákveður að taka ekki mark á þeim. En vitnar hann til annarra heimilda sem kunna að stangast á við frásagnir þeirra og tilgreinir hverjar þær eru? Nei. Þar með hefur hann ekki dregið fram heimildir sem til eru um illa meðferð (heldur segir bara að þetta hafi verið í fréttum o.s.frv.) og tilgreiniir heldur ekki heimildir sem stangast á við frásagnirnar, - en leyfir sér að skrifa eins og þetta hafi bara verið eitthvert "föss".

Þetta er ekki sagnfræði heldur snakk.

Hverjar voru heimildir Péturs sem hann tók meira mark á (án þess að tilgreina þær)? Ja, við fáum ekkert að vita það. Við fáum sem sagt ekki að vita hvers vegna hann gerir lítið úr þessum frásögnum og finnst að hann eigi ekki að taka þær alvarlega. Við vitum þó öll hvaðan hann hefur heimildir sínar. Það voru viðteknar skoðanir í umhverfi biskupssonarins.

Hér höfum við sem sagt dæmi um dæmigerðan loddaraskap í sagnræði. Eða heitir þetta eitthvað annað? - Ekki taka þetta sem persónulega árás. Hananú! Þetta lærir fólk í fyrsta tíma í aðferðafræði í öllum sagnfræðideildum í öllum háskólum í hinum siðmenntaða heimi.

Það kemur í rauninnni ekkert málinu við hvað er satt eða logið hér. Sagnfræðin er með eindæmum léleg því það er svo öldungisljóst hvers vegna söguritari fer með efnið sem raun ber vitni (ef tilvitnanir þínar eru ekki slitnar úr samhengi Siggi minn, sem væri þér ólíkt) því við vitum hvaðan hann er komin. Og farið nú ekki að gera mig sekan um argumentum ad hominem því ég þekki Pétur nafna minn persónulega að einu góðu. En bestu mönnum skjöplast þegar þeir fjalla um málefni sem standa þeim svo persónulega nærri að þeir missa hlutlægnina.

Ein athugasemd í viðbót í svolitlum Véfréttarstíl: Því má finna stað í Biblíunni að boðendur kristni eigi að leita uppi syndara út um allar trissur og færa þá til réttrar trúar. Ég hef Jesú fyrir því. Aftur á móti get ég ekki fundið því stað að leita eigi uppi fólk og troða uppá það kristilegum kærleika ef það biður ekki um hann.

Pétur Tyrfingsson, 21.3.2007 kl. 03:58

9 identicon

Flottur pistill, hafðu þökk fyrir. Náfrænka mín var ein af þeim stúlkum sem voru vistaðar á Bjargi, og hún er enn í sárum og segist munu aldrei fyrirgefa. Hún býr nú í Noregi, en Hjálpræðisherskonurnar komu víst flestar þaðan, ef ekki allar. Þess má geta að ein þeirra hringdi til hennar fyrir nokkrum árum til þess að byðjast fyrirgefninar á meðferðinni á Bjargi. Greinilegt er því að þessar konur vissu upp á sig sökina. Og vegna athugasemdar hér að ofan má geta að frænka mín ber Sr. Auði Eir sérstaklega illa söguna.

Alda (www.icelandweatherreport.com) 

Alda (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 13:03

10 identicon

Sé núna þegar ég opna skjalið að þessi frænka mín er einmitt ein þeirra sem er talað við þarna.

Alda (www.icelandweatherreport.com) 

Alda (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 13:07

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Villi geit: Hlakka til að fá þig í heimsókn á eftir. Pétur Trfingsson: Ég finn nú hjá mér hvöt til að verja sagnfræði Péturs Péturssonar almennt talað. Hann hefur skrifað margt merkilegt um sögu íslenskra trúarhreyfinga og þar á meðal um Guðjóníu frænku mína.  En í sögu Hjálpræðishersins virðist hann í Bjargmálinu ekki hafa kunnað við að styggja þá sem fengu hann til að skrifa söguna. Því er ekki að neita að hann gengur fullkomlega framhjá vitnisburði stúlknanna þó hann hafi verið á allra vitorði árið 1967. Auðvitað má ekki heldur taka vitnisburð stúlknanna gagnrýnislaust. Mitt sjónarmið er einfalt: Þegar börn og unglingar saka fullorðna um misgerðir gegn sér, hvort sem það er kynferðisleg misnotkun eða harðræði einhvers konar, en atburðir verða ekki sannaðir eða afsannaðir fyrir dómstólum, á að segja atburðina frá báðum hliðum, en ekki bara öðrum.

Og aftur Villi geit, gamla geitin þín: Ég er mesti asninn! Ég held að fáir bloggarar geri annað eins gys að sjálfum sér og ég. Og nú er það nýjasta að menn eru sammála um að ég sé eins og Hjálpræðisherskellíng í framan (ekki meint fordómalegs). Þess vegna rek ég upp heróp: Gjör iðrun því guðsríki er ekki í nánd! Helvíti blasir við fótum vorum.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.3.2007 kl. 14:14

12 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Já það eru víst ekki mannasiðir að bíta í höndina á þeim sem brauðfæðir mann.
Fyrst að borða, síðan að hugsa.

gerður rósa gunnarsdóttir, 21.3.2007 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband