Dagbækur til sölu!

Ég las í fréttum að þýskur iðnjöfur hefur keypt tvær dagbækur sem Anna Nicole hefur skrifað fyrir litlar 33 miljónir.

Við lestur þessarar fréttar fékk ég hugljómun. Auðvitað að selja mínar dagbækur fyrir morðfjár.

PICT1699Ég byrjaði að halda dagbók 3. maí 1962 og hef haldið því áfram óslitið síðan. Í bókunum má lesa allar mínar syndsamlegu hugsanir og margt annað andstyggilegt. Þar eru líka brilljant athugasemdir um allt milli himins og jarðar, niðursallandi bókakrítik, poppuð kvikmyndagagnrýni, laglegar tónlistarpælingar, stjórnmálavafstur frá þeim tíma sem stjórnleysingjar gengu um götur, ferðalýsingar framandi og hulduhrútlegar, ástandslýsingar ægilegar, ástamál í löngum bunum, ástarsorgir hjartaskerandi í enn þá lengri bunum, geðveikisleg  heilaköst í allra lengstu bunum, samskipti mín við merka menn og ómerkar konur, heimspekifyrirlestrar yfir sjálfum mér, leyndarmál annarra (sum alveg hrikaleg), blót og formælingar, KLÁM og viðbjóður, níð um margt frægt fólk, trúvillu af öllum sortum en aldrei af verri sortinni, fordómar viðbjóðlegir um menn og málefni  og síðast en ekki síst: sjálfhverft daður við naflann á mér sem lætur blogg nútímans blátt áfram verða altrúístískt í samanburði.

PICT1698Þetta eru digrustu og langlokulegustu dagbækur íslandssögunnar eins og myndirnar eru til vitnis um. Elstu dagbækurnar eru lengst til vinstri á efri myndinni. En í sömu hillu eru líka þær yngstu til hægri. Á neðri myndinni, á annarri hillu, eru dagbækurnar sem þar eru á milli.

Hver dagbók fæst á miljón. Ýmisleg ótrúleg afsláttarkjör eru í boði ef fleiri en ein dagbók eru keyptar. 

Tilvaldar bækur til gjafa handa vafasömu fólki.

Kaupið dagbækur aldarinnar strax í dag!   

Einstætt tilboð. Stendur aðeins  í dag og á morgun.

Á mánudaginn verða bækurnar brenndar við óhátíðlega athöfn ásamt dagbókarritaranum sjálfum. 

Forðumst bókabrennur!  Verndum hugsanafrelsið! Verndum ritfrelsið! 

Kaupið dagbækurnar! Strax í dag!

  

 

 

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Dagbækur í öll þessi ár! Og það þínar dagbækur! Ég leyfi mér að efast um að þú gerir þér sjálfur fulla grein fyrir gildi þeirra, ágæti Sigurður Þór ...

Hlynur Þór Magnússon, 24.3.2007 kl. 22:25

2 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Það vildi ég óska að þú gætir selt dagbækurnar þínar hjá Sotherbys í Lundúnum og lifað eins og greifi það sem eftir er!

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 24.3.2007 kl. 23:55

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég geri mér alveg blindfulla grein fyrir gildi dagbókanna!

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.3.2007 kl. 00:07

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Hvað mig langar að lesa svo sem eina og komast að raun um hvers konar mann þú hefur eiginlega að geyma á bak við coverið.

Svava frá Strandbergi , 25.3.2007 kl. 00:43

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ekkert leynist á bak við coverið.

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.3.2007 kl. 01:30

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er ekki viss um að ég hefði kjark í að kíkja. Maður er svo á kantinum sjálfur að þankar annars línudansara, myndu sennilega steypa mér endanlega í hyldýpið. 

Ég ætti þá ekki í neitt hús að venda því Jóhannes Bergsveinsson setti mig í straff á 33 a,b og c og gott ef ekki á fleiri stöfum. 

Jón Steinar Ragnarsson, 25.3.2007 kl. 01:48

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég dansa engan línudans í mínum dagbókum. Þær eru ekkert á kantinum og ég skil bara ekki Jón Steinar hvað þú ert að gefa í skyn. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.3.2007 kl. 12:06

8 identicon

Sæll nafni... Datt inn á síðuna þína fyrir nokkru,og hef lesið bloggið þitt síðan,mér til fróðleiks og skemmtunar.þetta með dagbækurnar þínar,er góð hugmynd.. hef sjálfur krotað í bækur síðan 85,og er því aðeins hálfdrættingur á við þig í árum talið..Kannski verður hægt að drýgja ellilífeyrinn,með sölu á einni og einni.......Kveðja...

Sigurður Þór Ögmundsson (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 13:10

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sæll nafni og náfrændi. Er ekki vitlaust veður í Eyjum eins og venjulega?

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.3.2007 kl. 14:06

10 identicon

Ég læt það nú vera.. þessi vanalegi SA, þembingur, 15/m ca á sek og þokusúld..sést bara hálft Helgafellið.. Heimaklettur er á sínum stað ,þrátt fyrir rysjótta tíð að undanförnu.....

Sigurður Þór Ögmundsson (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 14:15

11 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég verð nú bara að kommenta á komment Heimaklettur á sínum stað?
Hann haggast ekki þó mamma segði alltaf þegar ég var lítil að Heimaklettur hyrfi ef ég væri óþekk.

Svava frá Strandbergi , 25.3.2007 kl. 16:37

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég var nú bara að vísa til innihaldslýsinga þinna.  Ekkert tvírætt lá að baki því, bara að ég gæti vel án þessara svakalegheita verið. Nóg um það í minni tilvist.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.3.2007 kl. 17:36

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Allt í góðu Jón Steinar,en síst af öllu vildi ég steypa þér ofan í hyldýpið, tala nú ekki um í helvítið sem er víst "hræðilegra en  nokkur veit".   

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.3.2007 kl. 17:47

14 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Svava: Heimklettur er löngu horfinn!

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.3.2007 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband