Stopular úrkomu og snjólagspplýsingar

Í nótt mældist frostið á Brúarjökli -23,1 stig. Og er það reyndar mesta frost sem mælst hefur þennan dag á landinu frá því a.m.k. 1949. Gamla metið var -22,7 sem kom á Brú á Jökuldal árið 1973. En þetta segir samt ekki sérlega mikið um mikla kulda í nóvember því þessi dagur er með óvenjulega hátt lágmarksgildi miðað við nóvemberdaga. Þann 23. árið 1996 fór frostið jafnvel í 30,1 stig á sjálfvirku stöðinni á Neslandatanga við Mývatn (og -30,4 daginn eftir). Það er fyrsta dagsetning að vetri sem frost á landinu fer í 30 stig eða meira en fyrsta dagsetning fyrir 25 stiga frost er 4. nóvember og var það líka árið 1996 og einnig á Neslandatanga. Hér er miðað við frá og með 1949.

Snjódýpt í morgun var mæld 30 cm í Reykjavik. En á Ólafsfirði var hún 50 cm. Hugsanlega hefur snjódýptin þar í gær verið meiri en í Reykjavík sem þá var með mestu snjódýpt á landinu miðað við upplýsingar sem bárust en þann dag komu ekki neinar upplýsingar um snjólag á Ólafsfirði. 

Á Akureyri hefur verið gefin upp alauð jörð frá 23. nóvember en daginn áður var gefin upp snjódýpt uppá 23 sentímetra. Síðan kom allmikil hláka og má vera að snjólaust hafi orðið um tíma en síðustu tvo daga í frosti allan sólarhringinn hefur úrkoman þar mælst yfir 6 mm. Þar hlýtur því að vera dálítill snjór á jörðu. Athygli var vakin á þessu atriði hér í gær í athugasemd við bloggfærslu dagsins. Það er auðvitað lélegt að ég skuli ekki hafa áttað mig á þessu en það eru ansi mörg atriði sem ég þarf að fylgjast með daglega til að halda úti fylgiskjalinu við þessa bloggsíðu.

Reyndar eru upplýsingar frá ýmsum veðurstöðvum um úrkomu og snjóalög sem koma inn á vef Veðurstofunnar óþolandi stopular og hefur svo lengi verið þó skeytastöðvar séu yfirleitt góðar.Ein stöð gefur kannski einhvern dag upp mestu snjódýpt sem þá mælist á landinu en svo koma bara engar upplýsingar frá henni í marga daga. En þegar þetta gerist gefur vefurinn upp með plúsmerki að engar upplýsingar hafi borist frá viðkomandi stöð. Það er hins vegar nýlunda að stöðvar gefi upp alauða jörð þegar allar líkur benda til að svo sé þó ekki. 

En kannski er þetta liður í þeim breytingum á veðurþjónustu sem Veðurstofan hefur tilkynnt á heimasíðu sinni með talsverðum tilþrifum!

Viðbót: Úrkoman í dag frá kl. 9-18 á Akureyri var 8,8 mm í frosti og hvergi meiri á landinu. Nú verður spnanndi að sjá hvort þar verði enn alauð jörð í fyrramálið!

Viðbót 30.11.: Snjódýpt á Akureyri í morgun var 33 cm. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband