Úrkomumet í janúar

Þennan dag, 10. janúar,  árið 2002 mældist mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur í nokkrum mánuði á landinu á veðurstöð. Úrkoman var 293,3 mm á Kvískerjum. Þetta er talsvert meiri úrkoma heldur en að meðaltali mælist fyrstu þrjá mánuði ársins í Reykjavik og reyndar meiri úrkoma heldur en einstaka sinnum hefur mælst á heilu ári á þeim veðurstöðvum þar sem úrkoma er jafnaði lítil. Á einum sólarhring! Þetta gerðist í mikilli sunnanátt og fór hiti þennan dag í 15,8 stig á Eskifirði og 15,0 á Dalatanga.

Mikil hlýindi voru framan af mánuðinum og þann 6. mældist mesti hiti sem mælst hafði í Reykjavík í janúar, 10,6 stig (var slegið þ. 4. 2014,10,7°). Sama dag mældist mesti janúarhiti í Borgarfirði, 11,8 stig á Hvanneyri og 11,2 stig í Stafholtsey. En hæsti  hiti mánaðarins á veðurstöð kom þann 6. þegar 16,2 stig mældust á Seyðisfirði og sama dag fauk janúarmetið á Nautabúi í Skagafirði þar sem hitinn fór í 12,5 stig. Þann 16. kom mesti janúarhiti sem mælst hefur við Mývatn, 10,2  stig í Reykjahlíð. Á suðaustanverðu landinu voru janúarhitamet einnig slegin í mánuðinum, 10,6 stig þ.7 á Kirkjubæjarkalustri en daginn áður 10,6 stig í Vík í Mýrdal og sama dag og aftur þann næsta 10,0 stig á Vatnsskarðshólum. Loks voru met slegin á suðurlandsundirlendi, 11,3 stig á Hellu þ.6. og sama dag 10,2 stig á Jaðri í Biskupstungum og Hjarðarlandi og 10,0 stig þ. 4. í Þykkvabæ. Síðasta þriðjung mánaðarins kólnaði mjög svo meðalhiti alls mánaðarins varð ekki ýkja hár þó hann væri vel yfir meðallagi. 

Mánaðarúkoman á Kvískerjum þennan mánuð árið 2002 var 905,3 mm og er það mesta mánaðarúrkoma sem mælst hefur á veðurstöð í janúar og sú næst mesta í nokkrum mánuði. Þetta er á einum mánuði rúmum 20 mm meiri úrkoma en meðalársúrkoman í Reykjavík á þessari öld. Á Fagurhólsmýri og í Snæbýli var úrkoman einnig sú mesta sem mælst hefur í janúar.

Janúar 2002 var þvi engan veginn hversdagslegur vetrarmánuður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband