Ég er á móti símaauglýsingunni

Já, ég er á móti símaauglýsingunni um síðustu kvöldmáltíðina. En þetta er samt ekkert hitamál fyrir mér. Mér finnst auglýsingin einstaklega óviðkunnanleg. Það getur vel verið að hún sé vel gerð og jafnvel fyndin í augum einhverra. Það er bara ekki málið að mínum dómi. Málið er hins vegar það að öflugt fyrirtæki skuli ekki setja sér nein mörk í auglýsingamennsku sinni.

Hvort sem menn eru trúaðir eða ekki þá gera flestir sér ljóst að hér á vesturlöndum, svo við einbeittum okkur nú bara að því svæði, er píslarsagan kjarni þeirra trúarbragða sem við aðhyllumst, sumir kannski ekki nema að nafninu til reyndar. Sú trú fjallar um guð og eilíft líf, sálarheill manna, æðstu verðmæti sem hægt er að hugsa sér í augum hinna trúuðu og  flestir vantrúaðir eða trúleysingjar, sem eru sæmilega að sér og réttsýnir, eru meðvitaðir um það að þetta er ein af stóru stundunum í sögu vestrænna manna frá hugmyndalegu- og menningarlegu sjónarmiði. Að hafa slíkt í flimtingum í auglýsingu sem eingöngu er til þess að selja vöru, sem auk þess er afskaplega ómerkileg í sjálfu sér að mínum dómi, finnst mér bera vitni um bæði menningarleysi og áttavillu um verðmæti yfirleitt.

Það mætti ræða þetta frá mörgum hliðum. Hér verður aðeins drepið á nokkur atriði.

Í Kastljósi varð talsmaður Biskupsstofu, sem menn héldu að væri en reyndist svo aðeins tala fyrir sjálfan sig, hálf klumsa þegar honum var bent á það að  í Kirkjuhúsinu væri varningur sem seldur væri í ágóðaskyni og hvort það væri ekki alveg það sama og símaauglýsingin.

En það er bara allt annað. Vörurnar, aðallega bækur og trúarlegir skrautmunir, sem seldar eru í Kirkjuhúsinu miða allar að því að boða kristnina á einhvern hátt eða vitna um hana en ekki til að selja nýjasta jeppann eða gemsann. Þær eru vitanlega seldar með einhverjum ágóða því ekki er hægt að framleiða vöru og selja hana nema með ágóða. 

Það er áberandi í viðbrögðum við auglýsingu Símans að þeir sem gera athugasemdir við hana eru taldir vera húmorslausir og jafnvel er vísað til skemmtilegheitanna í Spaugstofunni þegar þeir voru að gefa blindum Sýn til að réttlæta auglýsinguna.  En þessi vísbending nær ekki máli. Fyrirbæri eins og Spaugstofan, sem gerir út á það að líta á tilveruna með íróníu, þiggur réttlætingu sína og samþykki samfélagsins einmitt fyrir það þó verið geti að stundum finnist einhverjum að gengið sé oft langt í einstaka tilfellum. Menn vita að sýn háðfuglanna er mikilvæg mennnigarlega og samfélagslega og þeim tekst jafnvel stundum að birta tilveruna í óvæntu og fersku ljósi. Í  krafti þessa er þeim þolað ýmislegt meira en öðrum.

Auglýsingar fyrirtækja miðast bara að því að selja vöru sína og græða sem mest á henni þó þær geti auðvitað nýtt sér húmor og íróníu.  

Það sem er annars einna mest óviðkunnalegt við þær móttökur sem símaauglýsing hefur fengið er það að margir virðast vera farnir að líta á lífið sem eina allsherjar spaugstofu. Það segir meira en allt annað um það á hvers konar tímum við lifum. 

Og Síminn stendur með pálmann í höndunum. Honum hefur tekist að vekja ærlega athygli á þessari hundómerkilegu vöru sinni. Þeir sem andmæla auglýsingunni eru hreinlega afgreiddir sem húmorsleysingjar í besta falli en sem ofstatrúarmenn í versta falli, eitthvað í ætt við kristna talibana. Lesiði bloggsíðurnar! 

Það eru viðskiptin sem vinna sigur yfir andanum. Það er hagur fyrirtækjanna sem skiptir öllu máli.  Markaðsvæðing guðs og andskotans ef þið viljið það orðalag heldur. Raunverulegum verðmætum, sem gera hógværa kröfu til samfélagsins um að fá að vera utan við verslun og viðskipti, er vísað á bug með fyrirlitningu. Jákvæð viðbrögð við auglýsingunni verða svo grænt ljós á það að fyrirtæki missi af sér allar hömlur í auglýsingamennsku sinni. Ég vil reyndar vísa til færslu Salvarar sem kemur inn á þetta atriði.    

Eitt í viðbót: Ég er viss um að ef hugmyndasmiður auglýsingarinnar hefði ekki verið þekktur fyrir að vera trúaður maður, hefði t.d. verið alkunnur vantrúarmaður eða trúleysingi, hefði andstaða manna við auglýsingunni orðið miklu harkalegri. 

Menn standa nefnilega í þeirri meiningu að Jón Gnarr sé bæði trúaður og fyndinn.

Í mínum augum er hann þó fyrst og fremst vúlgar í þessari auglýsingu.  Og nú er orðið svo vinsælt að vúlgarisera trúna að engin þorir að setja sig almennilega upp á móti því af ótta við að verða svo hallærislegur að hann fari beina leið til helvítis.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég er svo sammála. Hvað ætli verði tekið fyrir næst, eitthvað spaugilegt í sambandi við krossfestinguna?

Svava frá Strandbergi , 5.9.2007 kl. 12:21

2 identicon

hmmm talandi um krossfestingu og markaðssetningu hennar, kirkjubúðir selja krossa með jesú krossfestum... ef eitthvað er þá hlýtur það að vera ósmekklegra.

DoctorE (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 12:26

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Flottur pistill, Sigurður. Ég er sammála hverju einasta orði sem þú segir, þetta sem þú segir er eins og talað út úr mínu hjarta , sem er ekki of algengt þegar ég les skrif hér á bloggsíðum. Þú ert frábær penni. Kærar þakkir .

Greta Björg Úlfsdóttir, 5.9.2007 kl. 12:53

4 Smámynd: halkatla

frábær grein! {kannski undir smá áhrifum frá nýja kisanum?} þetta er það sama og mamma sagði í gær, hún útskýrði það bara ekki svona vel en þið hafið alveg rétt fyrir ykkur. Sem aðdáandi helgisiða og Jón Gnarrs þá eru vonbrigði mín líka mikil - þó síðbúin séu. Ég er stundum lengi að fatta. Það er alltílagi að gera grín að kristninni að mínu mati, en tilefnið þarf að vera rétt og ég er svo hrikalega sammála þér með að þessi hundómerkilega símavara er ekki það!

halkatla, 5.9.2007 kl. 13:09

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

DoctorE. Ég er mjög hlyntur gagnrýninni, jafnvel óvæginni, gagnrýni á trúarstofnanir eins og þú ert oft með. Ekki ætla ég að neita því að trúin hafi verið misnotuð í hagnarskyni. Það er kapituli ut af fyrir sig en réttlætir ekki að mínum dómi að veraldleg markaðsöf  geti í auglýsingum sinum gert hvað sem er - bara af því  að þau vita að það einmitt hrífur til að selja. Það finnst mér einmitt verst hvað almenningur veitir þeim lítið viðnám að þessu leyti. Dæmið sem þú kemur með um krossana er ekki sérlega gott. Það vita allir að krossfestingin er lykitatriði í kristindómnum og þegar kirkjubúðir selja krossa með Kristi á honum er verið að selja alveg óhjákvvæmilega sterkasta tákn kristinnar trúar og það er selt einmitt sem, trúarlegur gripur sem á að þjóna trúarlegum tilgangi fyrir kaupanda, t.d. við bænagerðir. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.9.2007 kl. 13:26

6 identicon

Jón Gnarr er grínisti og gamanleikari og hann hef ég aldrei tekið alvarlega. Þegar hann gerðist kaþolikki og fór að tala um sína miklu trú, þá tók ég hann engan veginn alvarlega og ég held enn að hann sé að spauga þetta með trú sína. Þegar skemmtikrafturinn og spaugarinn Ómar Ragnarsson fór í pólitík, þá hló bara fólk að honum af því að það var vant því og þess vegna fékk hann ekkert fylgi. Ég held samt að Ómar myndi aldrei leggjast eins lágt og Jón Gnarr hefur nú gert með þessari smekklausu auglýsingu, sem vissulega er beint aðallega að ginkeyptum og óþroskuðum unglingum.

Stefán (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 13:27

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Anna Karen: Nýi kisi æðir hér um allt með tryllingslegan glampa í bláum augunum og rífir allt og tætir. Svo er hann svo matvandur að hann slær alveg út húsbónda sin!   

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.9.2007 kl. 13:33

8 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Vel orðaður pistill hjá þér Sigurður. Ég er sammála áherslum þínum - þetta er ekki beinlínis skandall en svolítið hefur hann Jón villst. Hann er áttavilltur blessaður.

Eins og obláta með karríbragði það má alveg smakk´ana en uppátækið er ekki góðfyndið heldur stríðnislegt.  Kveðja.

Guðmundur Pálsson, 5.9.2007 kl. 14:15

9 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Æji mér fynnst bara svo margt af því sem hann Jón Gnarr gerir leiðinlegt

Georg Eiður Arnarson, 5.9.2007 kl. 22:16

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þegar Jón Gnarr er góður er hann góður. Það sem mér finnst slæmt við þetta mál er þessi frekja fyrirtlækja sem sást ekki fyrir í því að auglýsa vöru sína. Í raun og veru kemur þetta ekki húmor neitt við. Hvað þá að þetta kynni trúna eða færi hana inn í nútímann eins og ég las einvers staðar. Frekja voldugra fyrirtækja er mergurinn málsins. Þau bókstaflega svífast einskis og fara það sem þau  komast og því miður er umburðarlyndið gegn þeim ansi mikið. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.9.2007 kl. 22:22

11 identicon

Góðan daginn

Ef sann kristinn maður væri spurður um álit sitt á þessari auglýsingu mundi hann ekki gagnrýna hana, heldur líta framhjá þessari vitleysu hjá Jóni Gnarr. Ef þú yrkir þína trú vel! lætur þú ekkert hafa áhrif á þína skoðun af henni, en ef þú þarft að agnúast út í annað fólk vegna trúar þinnar ertu hreinlega ekki það kristinn maður heldur hálfgerður loddari. Þessi umræða að ekki megi gera grín af trúarbrögðum er hræsnanlega í ljósi þeirra atburða sem hafa komið upp í Danmörku varðani þær skopmyndir sem gerðar voru af múhamed spámanni. Þannig að miðað þau áhrif sem þessi auglýsing hafði hér erum við ekkert skárra fólk en öfgatrúafókið sem allt er stimplað hriðjuverkamenn!!!!.

 Kv Hjalli 

Hjálmar Sigurðsso (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 07:59

12 identicon

Burtséð frá  efni auglýsingarinnar , þá hnykkti mér  við,þegar fjölmiðlar  höfðu eftir  biskupi landsins að  auglýsingin væri "smekklaus".

Mér  var í skóla kennt að  segja  aldrei ,að eitthvað væri smekklaust, heldur  segja að eitthvað  væri ósmekklegt.

En það hefur víst hver sinn smekk.

Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 6.9.2007 kl. 09:43

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst að megi alveg gera grín að trúarbrögðum og líka gagnrýna þau. Aðalmeiningin hjá mér er skýr: að fyrirtæki eigi að setja sér einhver mörk í auglýsingamennsku sinni. Mér finnst það satt að segja einkennileg viðbrögð að allir eru að tala um að það megi alveg gera grín að trúnni en grípi ekki þetta atriði og er eins og vilji ekki gera neinar siðakörfur til fyrirtækja hvað auglýsingar varðar. Orðið "smekklaus" finnst í orðabókum sem gott og gilt mál.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.9.2007 kl. 10:38

14 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Vúlgaritetið í auglýsingunni, að mínum dómi, felst ekki í því að þar sé gert grín að trúnni í sjálfu sér heldur því að verið sé einmitt í alvöru (því svona auglýsing er ekki meiningarlaust djók nema á yfirborðinu heldur alvöru markmið til að ná góðri sölu) að nota píslarsöguna í viðskiptalegum tilgangi. Í raun og veru er þar verið að leggja nafn guðs við hégóma því hvað er ekki hégómi ef þriðja kynslóð farsíma er það ekki.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.9.2007 kl. 10:52

15 Smámynd: Halla Rut

Jón Gnarr er önuglega góður maður en hans húmor er ekki fyrir mig. Kannski er ég svolítið gamaldags. En þessi auglýsing skiptir mig engu máli. Ef auglýsing er góð þá skilar hún góði til þess fyrirtækis sem hana leggur fram annast ekki. Ég held að svona langloka og svona langsótt auglýsing sem hér um ræðir skili ekki góðu. Það er eitt að sjá hana einu sinni en maður verður bara dauðleiður á að hofa á hana aftur.

Ég hélt að Jón Gnarr væri mjög trúaður maður, en kannski var það einhver bóla hjá honum. 

Gott að búa á Íslandi. Ég þoli illa trúarofsa.  

Halla Rut , 6.9.2007 kl. 19:21

16 Smámynd: Halla Rut

Sigurður kattavinur. Ég er á móti því að vera á móti.

Halla Rut , 6.9.2007 kl. 19:26

17 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er alveg á móti því að vera á móti því að vera á móti! Og til hamingju með baráttugleðina og kjarkinn að þora að bjóða andskotanum og öllum árum hans birginn á blogginu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.9.2007 kl. 19:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband