Blogg, blogg, blogg

Íslendingar skíttöpuðu sem betur fer fyrir Dönum í landsleiknum í fótbolta. Það hefði líka orðið félegt ef við hefðum unnið glæstan sigur, segjum 14:2. Þá hefði örugglega orðið ferlegt fjöldafyllerí út um allan bæ svo kalla hefði til margar víkingasveitir með alvæpni til að berja á bullunum. Blóðið hefði streymt um götur og torg og Geir Jón farið fullkomlega á límingunum.  

En allt fór þetta betur en áhorfðist. Og þetta var alveg yndislegur dagur. Blessuð blíða og ég byrjaður að blogga. Það gerist nú ekki á hverjum degi. Bara í dag.  Aldrei aftur. Aldrei í lífinu. En á morgun verður þó enn þá meira gaman. Djöfull skal ég þá blogga. Og hinn daginn. Og alla mína daga þar til yfir lýkur. Vinir mínir og einstaka óvinir segja að ég verði áreiðanlega með elstu mönnum. Það er því mikið æviblogg framundan. Blogg alla morgna. Blogg alla eftirmiðdaga. Blogg öll kvöld. Blogg allar nætur. Blogg, blogg, blogg!

Og guð gefi mér kæruleysi til að blogga aldrei að yfirlögðu ráði heldur ávallt fullkomlega umhugsunarlaust og út í hött.

Þegar ég hafði rétt sett punktinn aftan við þessa ódauðlegu línu kom Trausti Jónsson og færði mér bunka af gömlum embættismannabréfum um þau skelfilegu harðindi og óárán sem alltaf voru í gamla daga áður en blessuð gróðurhúsáhrifin voru fundin upp. Þá átu kindurnar gorið úr hverri  annarri og þótti gott. Aumt var að sjá Árna Finnsson og þennan aulalega efnafræðing sem var með honum í gær í Kastljósinu að ræða myndina eftir Al Gore um gróðurhúsáhrifin. Var ekki hægt að fá einhvern harðvítugan veðurfræðing á móti Árna?

Við Trausti fórum svo á Kaffi Mílanó. Við ræddum um veðrið. Og líka heilmikið um lífið.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með síðuna!

Þórunn Hrefna (IP-tala skráð) 7.9.2006 kl. 17:12

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Takk pönkína og bloggdrottning!

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.9.2006 kl. 19:53

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ótrúlega skemmtilegt blogg Siggi. Það var heldur ekki við öðru að búast frá þér. Til hamingju bloggari!

Svava frá Strandbergi , 7.9.2006 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband