Ég og bókmenntirnar

Nú stendur yfir bókmenntahátíð. Ekki hef ég lesið eina einustu bók eftir þá erlendu höfunda sem mættir eru til leiks. Ég vissi ekki einu sinni að flestir þeirra væru til.

Sú var tíðin að ég var allur á kafi í bókmenntum og las eiginlega allt sem tönn á festi. Ég þekkti íslenskar bókmenntir, fornar og nýjar, afar vel og las alla höfunda kerfisbundið, bók fyrir bók. Ég las líka heilmikið af útlendum bókum. En fyrir svona fimmtán árum fór þetta að breytast. Ég fór smám saman að lesa minna og nú er svo komið að ég les lítið af því sem kallað er fagurbókmenntir. Ég hef til dæmis ekki fylgst kerfisbundið með íslenskum bókmenntum þessi fimmtán ár. Ég hef lesið bók og bók. Og það sem ég hef lesið heillar mig ekki. Síðasta haust ætlaði ég að byrja á því að lesa það sem ég hef ekki nennt að lesa síðustu árin. Þegar til kom brast mig úthald. Þær bækur sem ég las héldu einfaldlega ekki áhuga mínum. Mér fannst alltaf að ég gæti gert eitthvað betra við tímann. Og ég gafst upp. Það er samt á dagskrá að gera aðra tilraun.

Ég er samt ekki hættur að lesa. Ég er sílesandi. En í stað þess að lesa ímyndanir skálda les ég fræðilega bækur um veröldina; sagnfræði, heimspeki og vísindi, alveg sérstaklega náttúruvísindi. 

Ekki veit ég hvernig á þessari breytingu stendur. Ekki hefði ég trúað því þegar ég var ungur ef því hefði verið spáð fyrir mér að þegar ég væri loksins orðinn gamall og vitur að fagurbókmenntir hættu að heilla mig upp úr skónum. Þær hafa samt enn smávegis aðdráttarafl. En bara þegar ég er í vissri  stemningu. Áður höfðu þær ætíð aðdráttarafl. Ég hlusta líka miklu minna á tónlist en ég gerði áður en finnst samt alltaf jafn mikið til hennar koma. Hún er miklu æðri listgrein en bókmenntirnar. 

Alveg sama hvað bókmenntanördarnir segja! 

Já, ég er kominn langa leið frá bókmenntadellu fyrri ára.

Ég er loksins orðinn gamall og vitur.

Andbókmenntalegur eftirmáli: Í dag er hvorki meira né minna en þessi sögufrægi 11. september. Ósköp er hann leiðinlegur. Þá var nú gamli 12. september betri: "Draumur fangans" og allt það, uppáhaldslagið í Guantanamo.  En í dag á ein af bestu vinkonum mínum afmæli og einn af bestu vinum mínum líka.  Bæði eru þau orðin hundgömul og batna ekki með árunum. Ég veit að þau lesa alltaf bloggið mitt og eru mér hjartanlega sammála um þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Eitt af mínum góðu spakmælum: Maður á aðeins að lesa, þegar þrot verður á hans eigin hugsun, sem kann að verða, enda hjá gáfuðustu mönnum. En að að vísa á bug sínum eigin hugsunum, til þess að taka bók í hönd og fara að lesa, - það er synd gegn heilögum anda.

Þorkell Sigurjónsson, 11.9.2007 kl. 12:59

2 Smámynd: Fríða Eyland

Askoti ertu spakur í dag, ekki síðri í gær takk fyrir fróðleikinn í gær um verkalýðsfélögin.....

Talandi um 11. september verð ég að senda þér ræmu  um daginn

Fríða Eyland, 11.9.2007 kl. 20:16

3 identicon

Ójá, þetta er rétt! Ég kýs ennfremur að skilja það sem svo að veðurfarslýsingar hér að ofan séu BARA mér til heiðurs. Einsog ég sagði við vin minn í símann í dag: Heimurinn er klofinn í tvennt á þessum sögulega degi. Annar helmingurinn hugsar um tvíburaturnana og Bin Laden, hinn helmingurinn hugsar um mig! Sjálfhverf? Ég? Neihei!

Þórunn Hrefna (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 00:02

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Til hamingju með 36 ára afmælið Þórunn Hrefna pönkína. Þú komst í heiminn í blíðu í Reykjavík en skítaveðri á Eskifirði og nú verður vonandi friðsælt ævikvöldið.    

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.9.2007 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband