Bókaveður

Þegar fyrstu haustlægðirnar ganga yfir með hvínandi roki og ausandi rigningu finnst mér svo notalegt að fara á bókasafnið og fá mér bækur. Margar bækur. Og þungar bækur.  Rogast svo heim með bókvitið í plaspoka á móti grenjandi storminum. Þegar ég kem hundvotur og veðurbarinn inn úr dyrunum smokra ég mér úr regngallanum og bregð mér í bókmenntahaminn, tek símann og allar græjur úr sambandi, treð sérhönnuðum töppum í útstæð eyrun á mér, fæ mér ilmandi kaffi og heitar kleinur, slengi mér í besta sófann og fer að lesa. Og svo les ég og les. Þetta gerði ég einmitt í dag.

Mest gaman er að lesa þegar rigningin er svo stríð að maður sér ekki út um gluggana fyrir risastórum dropum og rakamóðu. Alveg eins og var í dag. Í dag var einmitt drauma bókaveðrið. Og ég las draumabókina mína. Ekki voru það samt Andrarímur. Og ekki var það neinn andskotans reyfari. Ég er alltof merkilegur með mig til að lesa slíkt djönk. Svoleiðis á maður að sjá í bíó og éta poppkorn með og svelgja nokkra stórflöstur af kók. En kaffi og kleinur eru fyrir bókmenntirnar í heimahúsum.

Ég las bókina Pöddur: skordýr og áttfætlur, í ritstjórn Hrefnu Sigurjónsdóttur og Árna Einarssonar.

Þetta er nú það sem ég hef helst til málanna að leggja um bókmenntirnar í  þessu illviðrasama landi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég er líka á kafi í lestri. Er nú heltekin af fagurbókmenntum og ber þar hæst Ísfólkið eftir Margit Sandemo.

Það er svo asskoti mikil náttúra í þessum bókum. Maður verður þá ekki náttúrlaus á meðan.

Svava frá Strandbergi , 9.9.2006 kl. 13:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband