Sóðalegur dagur

Þetta var ósköp sóðalegur dagur. Hann fór mest í það að hirða skítinn sem safnast hefur saman í síðustu viku og ég nennti ekki að þrífa í gær. En nú hef ég verið að taka til í öllum hornum, raðað merkum bókum í hillur, takið saman lausadrasl, sópað og skrúbbað og farið út með ruslið ofan af fjórðu hæð í húsinu þar sem ég á heima  og þar er engin lyfta. Upp þessa stiga hleyp ég léttilega oft á dag en ég fæ aldrei neinar heimsóknir því vinir mínir eru orðnir svo feitir og fúlir að þeir geta ekki einu sinni rogast með sjáfa sig upp í þær hæðir þar sem ég bý grannur og glaður.

Sumir íbúarnir í húsinu hérna eru reyndar svo miklir slóðar að þeir láta ruslapokana bara gossa ofan af svölum og þar liggja þeir þar til viðkomandi snyrtimenni á leið í bæinn og nennnir að hirða þá  upp og stinga þeim í tunnuna. Ef ég mætti ráða mundi ég stinga þeim sjálfum í tunnuna.

Það  er verulega ískyggilegt hvað Íslendingar eru miklir sóðar. Það er oft ekki líft á þröngu almannafæri fyrir skítalykt af einhverjum ljótum köllum. Það er næstum því komin öld síðan Halldór Laxness var að hvetja landsmenn til að fara nú að þvo sér og hætta að hrækja á gólfið. En það hefur lítinn árangur borið. Nú þykir jafnvel fínt að hrækja bara á allt og alla þar sem menn standa. Jafnvel smástelpur skyrpa á mann stórum gommum. Tyggjóið á götunum er lika alveg klístrað. Um þetta mætti skrifa svæsið og sóðalegt mál en verður ekki gert fyrr en betur liggur á mér.

Ég er nefnilega alveg búinn eftir helvítis tiltektina. En nú er líka allt orðið glerfínt fyrir gestina sem ekki munu koma.

Þá er að bara að drasla allt út aftur fyrir næstu helgi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband