Ég og fræga fólkið

Í dag mætti ég fimm frægum og mikilvægum persónum á flandri mínu um bæinn. Fyrst skal frægastan telja sjálfan Bubba Morthens. Ég hitti hann í húsi einu þar sem hann var að raða stólum. Loks settist hann á einn stólinn, blés út brjóstið og lék á alls oddi og talaði hátt og snjallt. Á Austurvelli asaði ég fram á Þröst Ólafssson framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar. Við gegnum svo nærri hvor öðrum að axlir okkar snertust og hugirnir mættust. Þriðja frægðarfígúran sem flæktist fyrir mér var Þorvaldur Gylfason prófessor. Hann var með stóra skjalatösku, líklega fulla af skjölum, og bar barðastóran og aristókratískan hatt sem blakti í vindinum og það var helvítis völlur á honum. Hann leit ekki á mig en ég veit samt að hann tók eftir mér og  hugsaði:

Sigurður er sniðugur. Sannur músikvitringur. Skarpur maður er.

Fjórða frægðarpersónan sem ég mætti í eigin persónu var engin önnur en hún séra Auður Eir. Hún fór Austurstræti og gaf mér hýrt auga sem þó var nokkuð vanþóknunarblandið líkt og ég væri bölvaður  trúvillingur en samt svona sætur strákur. Guð blessi hana.

Baksandi upp Bankastrætið á löturhægu tempói með storminn í fangið, eins og svo oft áður í lífinu,   kom fimmti frægðarmaðurinn gustandi á móti mér, allegro giusto, á blússandi farti og sterkum meðvindi og það var hann Jónas Sen tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins. Hann virti mig ekki viðlits enda eru það óskráð lög í menningarheiminum að tónlistargagnrýnendur hundsi gersamlega hverja aðra. En við þennan close encounter of the fifth kind féll ég umsvifalaust í djúpa zen-hugleiðingu en hún gengur út á það, eins og kunngut er, að tæma hugann af  öllu ónytjungs hjali en skynja í staðinn hið algera tóm sem ríkir að baki tilverunnar.

Á  morgun ætla ég aftur í bæinn og láta sjá mig í augsýn fræga og fína fólksins.

En ég er nú ekki allur þar sem ég er séður. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband