Blómaskeið hinna ofurhlýju maímánaða var fremur snemma á tuttugustu öld. Frá árinu 1928 til 1947 komu átta maímánuðir þegar meðalhitinn í Reykjavík náði 8 stigum en frá 1948 eru þeir aðeins fimm og þar af einn eftir 1974, árið 2008. Meðalhitinn í maí í borginni var 6.3 stig árin 1961-1990.
Samkvæmt mælingum á þeim veðurstöðvum sem lengst hafa athugað, Stykkishólmi, Reykjavík, Teigarhorni, Grímsey, Stórhöfða í Vestmannaeyjum, Hæli og öðrum stöðum í Hreppum, Akureyri, Ísafirði/Bolungarvík og Fagurhólsmýri, sem allar hafa starfað samtímis frá 1898, er maí 1935 sá hlýjasti sem komið hefur á öllu landinu. Þá var meðalhitinn í Reykjavík 8,9 stig (miðað við núverandi staðsetningu Veðurstofunnar) en 8,2 í Stykkishólmi og 8,9 á Fagurhólsmýri og á Hæli og 8,2 á Stórhöfða og hafa ekki mælst eins hlýir maímánuðir á þessum stöðum.
Aldrei hefur það gerst að jafn margar veðurstöðvar hafi verið með meiri meðalhita en 9 stig. Þær voru sex. Sámsstaðir voru með meðalhitann 9,5 stig sem er sá mesti sem reiknaður hefur verið fyrir nokkra veðurstöð í maí, ásamt maí árið 1933 á Akureyri og aftur á Sámsstöðum 1946. Aðrar stöðvar sem voru með yfir 9 stig voru Hvanneyri, Kirkjubæjarklaustur og Vík í Mýrdal (allar 9,1), Eyrarbakki og Grindavík (9,2) og Reykjanesviti (9,1). Allt er þetta hiti sem væri júní samboðin. Veðráttan lýsir mánuðinum svo: "Tíðarfarið var einmuna gott, því nær óslitin hlýindi og stillur, svo að gróðri fór ört fram og skepnur komu af gjöf. Sumstaðar austanlands var heldur þurrt fyrir gróðurinn í lok mánaðarins." Úrkoman var talin aðeins rúmlega hálf meðalúrkoma á landinu miðað við þau meðaltöl sem þá voru í gildi. Sól mátti heita nálægt meðallagi syðra en yfir því fyrir norðan, 181 klst. í Reykjavík en 191 klst. á Akureyri. Austanátt var tíðust allra átta en veðurhæð var undir meðallagi og aldrei gerði storm. Snjólag var mjög lítið 2, % en meðtaltið 1924-2002 er 16%. (Snjólag á landinu í maí hefur minnst verið talið 1% árið 1941 og 1974). Hvergi var jörð talin alhvít í mánuðinum en á nokkrum stöðum var talin flekkótt jörð í örfáa daga. Frostlaust var í Reykjavík og við sjóinn á suðurlandi. Hitinn fór í 20 stig á Hólum í Hornafirði þ. 20 og á Hvanneyri þ. 30.
Næstur þessum mánuði að hlýindum kemur maí 1939.
Árið 1939 er eiginlega goðsögn hvað hlýindi varðar á landinu. Þá mátti heita gósentíð frá mars til október. Maí þetta ár sker sig úr fyrir það að aldrei hafa jafn margar veðurstöðvar verið frostlausar í maímánuði. Það var bókstaflega allt landið, til sjávar og sveita, nema nokkrar stöðvar á norðausturlandi og ein í Miðfirði. Í Reykjavík var lágmarkið það hæsta sem mælst hefur í maí,3,1 stig. Á Stórhöfða og á Arnarstapa á sunnanverðu Snæfellsnesi fór hitinn ekki lægra en í 3,8 stig. Þetta ár var langhlýjasti maí sem mælst hefur í Grímsey, 5,9 stig. Mánuðurinn var auðvitað talin einmuna góður til lands og sjávar. Hann var líka úrkomusamari en aðrir þeir maímánuðir sem hér hafa verið taldir og hagstæðari gróðri sem því nemur. Suðvestan og suðaustan voru algengustu áttir. Víðast hvar var snjólaust allan mánuðinn en snjólag var þó örlítið meira en hina hlýju maímánuðina sem hér verður fjallað um eða 6%. Á Hornbjargsvita var snjódýpt 34 cm fyrsta dag mánaðarins. Sól var fremur lítil í Reykjavík, 122 klst, en sólríkt var fyrir norðan, 214 klst á Akureyri. Næst síðasta daginn komst hitinn í Núpsdalstungu í Miðfirði upp í 20,5 stig en þetta var ein þeirra stöðva þar sem frost mældist líka í mánuðinum.
Maí 1928 og 1946 koma næstir og eru jafnir að hita.
Maí 1928 hefur það sér til sérstöðu að vera sá hlýjasti sem mælst hefur nyrst á Vestfjörðum þó maí 1933 sé reyndar svipaður. Árið 1928 var meðalhitinn 7,9 stig í Bolungvarvík/Ísafirði. Sólríkt var fyrir norðan, 245 klst á Akureyri, en 175 í Reykjavík sem er í tæpu meðallagi. Snjólag var svipað og 1935, 3%, og hvergi talin alhvít jörð. Næst síðasta dag mánaðarins komst hitinn í 21 stig á Húsavík. Eins og 1935 var frostlaust í Reykjavík og við sjóinn á suðurlandi. Þrátt fyrir þessi hlýindi var hafís á sveimi við landið en ekki varð hann landfastur.
Sá hlýi og þurri maí 1946 kemst þó helst á spjöld veðursögunnar fyrir það að þá mældist alls enginn úrkoma á Húsavík. Alls staðar var úrkomulítið nema á Vestfjörðum, nokkru minna en meðalúrkoma á landinu í heild. Ríkjandi voru suðvestlægar og vestlægar áttir. Og eins og 1939 var sólríkara á Akureyri en í Reykjavík, 231 klst á móti 145 klst. Meðalhitinn á Akureyri var reyndar hærri en í Reykjavík, 8,6 stig á móti 8,5. Á Húsavík var hann 9,1 stig. Hins vegar varð hlýjast á landinu á Sámsstöðum í Fljótshlíð 9,5 stig og á Loftsölum í Dyrhólahreppi 9,2 stig. Frost mældist um allt land nema á fáum stöðvum á suðausturlandi. Snjólag var 4%. Alhvítt varð fáa daga snemma í mánuðinum á norðvestanverðu landinu og einn dag á Dalatanga austast á landinu. Líkt og í maí 1928 var talsverður hafís norðan við land en kom ekki að landi. Hiti komst í 20.5 stig á Akureyri þ. 25.
Hér hafa verið taldir hlýjustu maí mánuðir á landinu í heild. Hvað varðar stöðvar á norður-og austurlandi er myndin dálítið önnur. Hlýjasti maí á Akureyri var 1933. Þá var meðalhitinn þar 9,5 stig og er það íslandsmet eins og áður hefur komið fram. Reyndar má kannski efast um þessa tölu því ekki voru algjör methlýindi annars staðar á norðausturandi þennan mánuð. Hann var samt afar hlýr um allt land. Á öllum stöðvum á Vestfjörðum nema Ísafirði/Bolungarvík var þetta hlýjasti maí sem þar hefur mælst. Sömuleiðis í Skagafirði.
Árið 1936 mældist hlýjasti maí á Teigarhorni, 7,3 stig ásamt maí 1961. Mælingar hafa verið gerðar þar frá 1874.
Hlýjasti maí eftir 1946 á öllu landinu var maí 1961 en þá var hitinn á þessum 9 stöðvum 0,1 stigi kaldari en 1933 og 1936.
Maí árið 1991 var afar hlýr fyrir norðan og austan, sá næst hlýjasti á Teigarhorni og þriðji hlýjasti á Akureyri, ásamt 1936. Í Reykjavík (og á suður-og vesturlandi) var mánuðurinn ekkert sérstakur að meðalhita, 6,8 stig. Meðalhiti allra 9 stöðvanna var því ekki einn af þeim hæstu.
Hér er tafla um meðalhita þeirra 9 stöðva sem lengst hafa athugað í þessum ofurhlýju maímánuðum.
1928 1933 1935 1936 1939 1946 1961-90
Reykjavík 8,4 8,3 8,9 7,4 8,3 8,5 6,3
Stykkish. 7,8 7,8 8,2 7,4 7,4 7,5 4,9
Bolungarv. 8,0 7,4 7,3 7,2 7,1 7,0 5,0
Akureyri 8,1 9,5 8,2 8,6 8,8 8,6 5,5
Grímsey 5,0 4,7 5,3 5,7 5,9 4,6 2,8
Teigarhorn 6,4 5,7 6,7 7,3 6,9 6,5 4,5
Fagurhólsm. 8,6 7,2 8,9 8,2 8,2 8,9 6,2
Hæll 8,5 8,0 8,9 7,2 8,4 8,4 5,9
Stórhöfði 7,1 7,4 8,2 6,9 7,5 8,0 5,8
Meðaltal 7,5 7,3 7,8 7,3 7,6 7,5 5,2
Kaldasti maí sem mælst hefur er 1979. Hann var svo kaldur að hann verður að teljast fenómen. Á einhverjum vorbesta stað á landinu, Akureyri, var meðalhitinn undir frostmarki, -0,3 stig. Í Reykjavík var hann 2,3 stig. Alls staðar var þetta kaldasti maí sem mælst hefur, í Stykkishólmi var hann hálfri gráðu kaldari en sá sem næstur kemur, 1866. Meðalhiti þessara 9 stöðva var 0,2 stig árið 1979. Á Raufarhöfn var meðalhitinn -1,9 stig og er það lægsti meðalhiti sem mælst hefur á Íslandi í maí á láglendi. Enn kaldara var þó í Möðrudal, -4,3 stig (7 og hálft stig undir meðallagi) og -4,1 á Grímsstöðum og á Hveravöllum var meðalhitinn -4.7 stig. Á nokkrum stöðum, jafnvel á suðvesturlandi, komst hitinn aldrei í tíu stig. Fyrstu viku mánaðarins var meðalhiti hvers dags undir frostmarki í Reykjavík en fyrstu þrjár vikurnar á Hallormsstað! Mest frost varð 16,4 stig á Grímsstöðum. Frostnætur voru 17 í Reykjavík en 30 á Mýri í Bárðardal og Brú á Jökuldal. Snjólag var 42 % á öllu landinu og hefur aldrei verið meira nema 1949, 48%. Snjólagið var reyndar í meðallagi á sunnanverðu landinu en mun meira annars staðar. Aldrei hefur verið talin alhvít jörð kl. 9 jafn seint að vori í Reykjavík og þennan mánuð, 2 cm þ. 16. Reyndar var þar alhvítt aðeins þennan eina dag en á norðausturlandi var víða alhvítt í kringum 25 daga og 28 á Dalatanga. Éljagangur var meira og minna mest allan mánuðinn á norðaustanverðu landinu. Meðalsnjódýpt á Raufarhöfn var 80 cm og þar var alhvítt í 26 daga.
Eins og af líkum lætur var úrkomusamt á norðausturlandi en þurrt á vesturlandi og einkum á Vestfjörðum. Norðan og norðaustanáttir voru ríkjandi í mánuðinum en austanátt, þessi af kaldasta tagi, var einnig algeng. Stundum var hvasst. Hafís var talsverður úti fyrir og kom að landi við Tjörnes og í Þistilfirði svo höfnin á Raufarhöfn lokaðist alveg og að mestu leyti á Þórshöfn á Langanesi um miðjan mánuð í nokkra daga. Ekki vantaði að sólríkt væri syðra, 277 klst í Reykjavík en það var til lítils í kuldanum og á Akureyri skein sólin líka meira en í meðalári.
Vetrarríki þessa mánaðar lagðist auðvitað þungt á landslýð og er eiginlega ekki hægt að koma þeim sem ekki lifðu þessa atburði í skilning um þau harðindi sem þá ríktu.
Maí 1866 er sá næst kaldasti. Þá var reyndar aðeins athugað í Stykkishólmi þar sem hitinn var 1,4 stig. Þessi kuldi kom í kjölfar einhvers harðasta vetrar í Stykkishólmi síðan mælingar hófust þó apríl hafi þá verið þokkalegur að hita.
Þriðji kaldasti maí virðist vera 1888. Þá var meðalhitinn í Reykjavík 3,0 stig og 1,9 í Stykkishólmi og Akureyri. Hafís var við allt norður og austurland og náði hann reyndar í júní til Vestmannaeyja þar sem hann fyllti höfnina. Ekki kom annar eins hafís við landið fyrr en 1968 en náði þá ekki lengra vestur en að Skeiðarárósi.
Aðrir alræmdir maímánuðir að kulda voru 1906, 1892, 1914 og á "okkar tímum" 1949. Þennan síðast talda mánuð voru gífurleg snjóþyngsli í uppsveitum suðurlands.
Snemma á 19. öld komu nokkrir ótrúlega kaldir maímánuðir samkvæmt mælingum sem gerðar voru hér og hvar á landinu, en hafa verið reiknaðar til meðalhita í Stykkishólmi. Árið 1812 var meðalhitinn þar talinn 1,5 stig, 1,6 1820 og 1,7 1811 og 1803. Ef eitthvað er að marka þessar gömlu mælingar virðist sem maímánuðir af svipuðum kuldaflokki og 1979 hafi verið beinlínis algengir á landinu í upphafi 19. aldar ofan á harða vetur og rysjótt sumur sem þá ríktu.
Seinni tíma viðbót: Maí 2008 var mjög hlýr. Í Reykjavík var hann sá næst hlýjasti, 8,6 stig og á Akureyri var meðalhitinn 8,0. Ekki er enn búið að gera upp mánuðinn um land allt en eftir þeim meðaltölum sem birst hafa held ég að hann komi fast á hæla maí 1946.
Flokkur: Veðurfar | 12.5.2008 | 13:03 (breytt 30.10.2008 kl. 14:44) | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Athugasemdir
Æi Sigurður!!!! Dj.... ertu leiðinlegur að blogga bara svona veðrablogg!!!!! Ég hef minna en engan áhuga á þessu fjandans veðri nema rétt á meðan ég sting tánum út um dyrnar hjá mér
Vertu almennilegur maður og skrifaðu um eitthvað annað
Heiða B. Heiðars, 12.5.2008 kl. 20:56
Veðurblogg er eina bloggið sem vitsmunaverum er sæmandi!
Sigurður Þór Guðjónsson, 12.5.2008 kl. 21:11
Ég lýsi yfir stuðningi við þessa nýju ritsjórnarstefnu.
Emil Hannes Valgeirsson, 12.5.2008 kl. 21:20
ARG! Þetta er óbærilega leiðinlegt!!
Heiða B. Heiðars, 12.5.2008 kl. 23:32
Heiða, lestu þá færsluna um hvítasunnuveðrið sem er alveg svakalega skemmtileg!
Sigurður Þór Guðjónsson, 13.5.2008 kl. 01:46
Mér finnst þetta býsna áhugavert veðurblogg (en myndi gjarna þiggja fréttir af Mala og fleira gott í bland).
Þórdís (IP-tala skráð) 13.5.2008 kl. 11:19
Það er helst af Mala að frétta að hann er alltaf að mala.
Sigurður Þór Guðjónsson, 13.5.2008 kl. 11:32
ég er bara byrjuð að venjast þessu veðrabloggi, sveimmér þá!
halkatla, 13.5.2008 kl. 19:06
Já, er það ekki, Anna Karen! Fylg þú mér og þú munt verða hinn mesti veðurviti!
Sigurður Þór Guðjónsson, 13.5.2008 kl. 20:00
Ég lýsi yfir stuðningi við veðurblogg en ég vil fá allt hitt líka!
Lára Hanna Einarsdóttir, 14.5.2008 kl. 00:31
Allir eru að verða veðurfanar!
Sigurður Þór Guðjónsson, 14.5.2008 kl. 01:00
Íslendingar eru og hafa alltaf verið með veðrið á heilanum, er það ekki?
Lára Hanna Einarsdóttir, 14.5.2008 kl. 10:46