Hitabylgjur í maí

Frá 1965, eftir að búið var að nútímavæða öll hitamælaskýli, hefur tuttugu stiga hiti mælst 19 sinnum einhvers staðar á landinu í maí eða í 36% mánaða. Meðaltal landshámarks í maí á þessum tíma er 19,7 stig.

Ekki hefur mælst tuttugu stiga hiti á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum (með einni dularfullri undantekningu), á Ströndum, við Hrútafjörð,  á annesjum vestan til á Norðurlandi með Grímsey, við sjóinn á suðurlandsundirlendi og vestan til á Reykjanesskaga. Norðausturland og Fljótsdalshérað er aftur á móti sá landshluti þar sem hitabylgjur í maí eru algengastar og glæsilegastar.      

Í stórum dráttum má segja að það veðurlag sem er einna líklegast til að færa tuttugu stiga hita víða um land sé hæð suður í höfum sem síðan færist yfir landið og dregur til þess hlýtt loft að sunnan en oft með vestrænni stefnu yfir landinu og svo veðurlag með hæð fyrir austan land en lægð suður í höfum, vestur af Írlandi. Í síðara tilfellinu er loftið oft ekki eins hlýtt að eðlisfari en nýtur sín betur á vesturlandi. 

Stundum mælist tuttugu stiga hiti aðeins einn dag í mánuðinum og jafnvel bara á einni stöð. Einstaka sinnum koma þó sannkallaðar hitabylgjur þar sem tuttugu stig mælast á mörgum stöðvum og jafnvel nokkra daga í röð.

Við skulum nú líta á nokkrar slíkar - en þær eru fleiri- og eina svæðisbundna bylgju að auki. Til hliðsjónar við þær hitatölur sem hér sjást má hafa í huga að meðaltal mesta hita á landinu er aðeins 10 stig fyrsta maí en hefur aukist um ein fjögur stig á síðasta degi mánaðarins.  

Glæsilegasta hitabylgja sem komið hefur í maí í fjölda daga talið og fjölda veðurstöðva sem mældu 20 stig eða meira er sú frá árinu 1987. Hún er eina maíhitabylgjan sem kemst inn á skrá yfir sterkustu hitabylgjur á landinu yfir allt sumarið samkvæmt greinargerð Trausta Jónssonar um  Hitabylgjur og hlýja daga. Hún stóð í heila viku, þ. 20.-26. og 42% allra veðurstöðva mældu tuttugu stig eða meira. Hlýjast varð síðasta daginn þegar 24,0 stig mældust á Mánárbakka. Maímet voru sett á 24 stöðvum með mismunandi langa mælingasögu. Sú stöð sem er með lengstu mælingasöguna og setti met þá er Grímsey. Þar mædust 19,2 stig þ. 26. en mælt  hefur verið frá 1872. Á Sandi í Aðaldal og í Reykjahlíð við Mývatn, þar sem  mælingar ná frá 1937, mældist þá einnig methiti í maí. Á Akureyri var meðalhitinn 17,0 stig (hámark 20,1) þ. 21. sem er mesti sólarhringshiti þar í maí a.m.k. eftir 1948. Á Kirkjubæjarklaustri mældist methiti þ. 22. þegar hitinn fór í 21,5 stig og sólarhringshitinn í 16,8. Veðurlag þessa daga var undir áhrifum frá miklu háþrýstisvæði. Fram að þ. 22. var það fyrir sunnan land og áttin var vestlæg en það þokaðist síðan til norðusturs og varð áttin þá smám saman suðaustlæg. Oft var léttskýjað og úrkoma var lítil.   

Mesti hiti á landinu í maí mældist hins vegar  árið 1992  þegar 25,6, stig komu þ. 26. í Vopnafirði í hægri sunnanátt en ekki byrjaði að rigna af henni á suðurlandi fyrr en næstu nótt en talsvert rigndi þar næstu daga. Þetta var  byrjunin á bylgju sem stóð til þ. 29 og 25%  veðurstöðva mældu 20 stig. Þessi bylgja er dæmi um hlýindi sem stafa af lægðum eða lægðadrögum á Grænlandshafi  og hæð yfir Norðurlöndum og valda aðallega hitum á norðausturlandi. Dæmigert sunnanáttaveður! Sama dag og methitinn var á Vopnafirði fór hitinn í slétt 25 stig á Raufarhöfn. Þetta er líklega  hlýjasti dagur að sólarhringsmeðaltali sem vitað er um á Íslandi öllu í maí. Á Vopnafirði var meðalhitinn 18,1 stig.   

Árið 1980 var 23% hitabylgja hvað fjölda stöðva snertir er mældu tuttugu stiga hita eða meira. Þá komst hitinn á Akureyri í 24,6 stig þ. 22., sem er maímet þar.  Bylgjan stóð dagana 18.-25. Hún var sterk alveg frá Skagafirði til Álftavers í V-Skaftafellssýslu en þar á Mýrum mældust 21,3 stig og 21,0 á Kirkjubæjarklaustri.  Í fyrstu var hæg suðvestlæg og vestlæg átt ríkjandi og rigndi um allt land þ. 19. og datt bylgjan þá niður en færðist í aukana daginn eftir þegar létti til á norður- og austurlandi. Allan tímann var þungbúið á suður-og vesturlandi og bara svalt í veðri.                                                

Árið 1991 komu 25,0 stig á Egilsstöðum í sunnanátt og þykkvirði syðra þ. 28. en 17% veðurstöðva mældu þá 20 stiga hita í bylgju sem stóð alveg til þ. 30. þegar yfir tuttugu stig komu í Borgarfirði og suðurlandsundirlendi. Fyrst var sunnanátt með votviðri á suðvesturlandi en hæð yfir Bretlandseyjum þokaðist inn á landið þ. 30. og fylgdu hitarnir á suður- og vesturlandi þá í kaupbæti.   

Merkileg hitabygja kom 1975. Hún stóð í eina sjö daga, 22.-28., þar sem best lét  og mældist tuttugu stiga hiti allt frá Skagafirði og austur um land og einnig á suðurlandsundirlendi. Áttin var vestlæg og suðlæg meðan hæð var yfir landinu og í grennd við það. Náði að létta til á suðurlandsundirlendi og mældist þar yfir tuttugu stiga hiti út um allt, mest 22,1 stig á Sámsstöðum þ. 28. sem þá var suðurlandsmet í maí sem stóð þangað til 2006. Mesti hiti á landinu varð lítið meiri, 22,4 stig á Hallormsstað þ. 25. Stundum var reyndar bjart um mest allt land, en þykknaði upp annað slagið á suður og vesturlandi. Hitinn náði sér aldrei verulega á strik í vestanáttinni við sjóinn í Faxaflóa eða í Borgarfirði.

Árið 2006 kom hins vegar mesti hiti í maí sem mælst hefur á suðurlandsundirlendi og í Borgarfirði. Það veður, eins og bylgjurnar 1960 og 1988 sem vikið er að hér, kom með suðaustanátt þegar hæð var austan við landið og lægð suður í höfum. Á Hæli fór hitinn í  22,4 stig  (mælingar frá 1929) og 22,0 á Hjarðarlandi en á Stafholtsey í Borgarfirði mældust 21.2 þ. 8. Mælingar hafa verið í sveitum Borgarfjarðar frá 1937 en á Hvanneyri frá 1924.                               

Eina skiptið sem hiti í maí hefur farið yfir tuttugu stig á Vestfjörðum var þ. 25. árið 1962 en þá mældust 22,6 stig á Þórustöðum í Önundarfirði og var það mesti hiti á landinu þann maímánuð. Ekki varð annars staðar óvenjulega hlýtt, daginn eftir "aðeins" 22 stig á austurlandi en reyndar 16 stig á Galtarvita sem er í sjálfu sér óvenjulegt í maí. Ekki kann ég að skýra hvað olli þessum mikla hita á þessum eina stað, ef mælingin er rétt þar að segja. Klukkan 15 var bara 14 stiga hiti á Þórustöðum og 12 stig kl. 21. Á Grænlandshafi var lægð á leið norðaustur sem olli suðvestanátt með aftaka rigningu vestast á Snæfellsnesi og í Kvígindisdal við Patreksfjörð en úrkoma á Þórustöðum var ekki mælanleg.      

Á fyrri árum komu líka einstöku góðar hitabylgjur í maí og sumar smáskrýtnar. Einkennilegust var sú sem kom þ. 26. árið 1956. Þá gerði vestan stórviðri um land allt sem bar sjávarseltu lengra inn á landið en dæmi eru um. En á austurlandi varð mjög hlýtt. Á Teigarhorni mældust 24,1 stig. Þetta var þá næst mesti hiti sem mælst hafði á landinu í maí.

Veðrið 11. maí 1941 var kannski ekki ósvipað þessu þó ekki yrði eins hvasst en þá kom það maímet á landinu sem stóð alveg til 1980, 24,4 stig á Hallormsstað.

Árið 1932 kom í "hægviðri" hitabylgja ein sem náði mjög víða um land. Þá voru fáar stöðvar en tuttugu stiga hiti eða meiri mældist á tiltölulega mörgum stöðvum dagana 27.-31, jafnvel á suðurlandsundirlendi, 21,8 stig í Hlíð í Hrunamannahreppi og 21,0 á Hrepphólum þ. 31. en  mest á landinu 23,5 stig á Teigarhorni þ. 27.  

Í annari bloggfærslu hef ég sagt frá mesta hita sem mælst hefur í maí í Reykjavík í nútíma hitamælaskýli. En tvisvar áður hefur verið getið þar um tuttugu stiga hita í maí meðan gamaldags veggskýli voru notuð. Árið 1907 mældust 20,7 stig þ. 19. og var hvergi mældur meiri hiti á landinu í þeim maí. Árið 1901 virðist hins vegar hafa verið alvöru hitabylgja um allt land enda var myndarleg hæð suðaustan við landið. Mældust þá 20,2 stig í Reykjavík þ. 26. Víða fór hitinn yfir tuttugu stig á þeim fáum stöðvum þar sem mælt var, mest 23,0 á Akureyri, en líka yfir 20 stig í Möðrudal, á Kóreksstöðum á Úthéraði og Sandfelli í Öræfum. Í Stykkishólmi mældust 19,9 stig sem er mesti hiti sem þar er skráður í nokkrum maí en þar ná mælingar hátt í hálfa aðra öld.

Á nítjándu öld mældu afar  fáar veðurstöðvar hámarkshita og eiginlega aðeins ein sem er hitavæn, Akureyri. Það er því erfitt að átta sig á hitabylgjum á þessum tíma. Á Akureyri fór hitinn þó í 23,8 stig í maí 1890, sem er óvenjulega mikið, líklega 26. eða 27. en þá daga voru hlýindi á landinu, t.d. 17 stig í Reykjavík.

Hér fyrir neðan má sjá kort af Íslandi frá hádegi á nokkrum allra hljýjustu dögunum sem vikið er að í textanum og kort frá 500 hPa fletinum sem gefur nokkra hugmynd um veðrakerfin við jörð í sumum þessara hitabylgna umhverfis landið og hitahólum í kringum 5 km hæð.  

Tuttugu stiga hiti í maí á Íslandi er miklu meiri viðburður en sama hitastig í júlí af þeirri einföldu ástæðu að meðalhiti júlí er fjórum til fimm stigum hærri en í maí. Þess vegna eru dagar með tuttugu stiga hita ekki fleiri en svo að auðvelt er að skoða þá alla á töflu án þess að kafna. Og sjá má þá á fylgiskjalinu. Frá og með 1949 eru þar allir dagar sem mælt hafa 20 stig í maí en menn verða að gæta þess að eingöngu  er hér birtur mesti hiti á landinu við hvern dag en 20 stiga hiti getur hafa verið á mörgum öðrum stöðvum öðru en þeim sem tilgreindia eru. Fyrir 1948 er hér einungis sá 20 stiga hiti sem jafnframt var hámark viðkomandi veðurstöðvar í mánuðinum en fjöldi daga með tuttugu stiga hita á landinu sést ekki sem slíkur.      

1987-05-22_12

1992-05-26_12

1980-05-22_12

Rrea00119870525

Rrea00119920527

Rrea00119800522

Rrea00119750528

  Rrea00120060508


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Afar fróðleg og vönduð samantekt að vanda hjá þér Sigurður Þór !

Af þessum maíhitabylgjum finnst mér mest til þessarar árið 1975 koma, ekki endilega að þá hafi mælst neitt svo óskaplega hár hiti á jörðu niðri.  Það er hitinn og uppruni loftsins í háloftunum sem fangar athygli mína.  Svo er að sjá sem hæðin á 500 hPa fletinum hafi verið upp undir það sem hún hefur orðið mest hér á landi.  Þarna hefur hún verið um 585 dekametrar, en í í júní 1939 og eins í ágúst 2004 fór hún reyndar um og yfir 590.  Þessi stærð, hæðin á 500 hPa fletinum, er til marks um hlýindin í neðstu 5-6 km lofthjúpsins og er líka mælikvarði á uppruna loftsins. Stundum eins og í þessu tilviki er reyndar um að ræða niðurstreymi í hæðinni á hlýju og þurru lofti komið mjög langt sunnan að.    

Ef þarna í lok maí 1975 hefði verið ívið meiri vindur og þar með loftblöndun við mun hlýrra loftið ofan jaðarlagsins í um 1 km hæð er víst að hitamet hefðu fallið unnvörpum.  Höfum hugfast að þurrt loft að ofan hýnar um 0,8 til 1,0 °C fyrir hverja 100 m sem það er þvingað niður til yfirborðs, t.d. hlémegin fjalla.     

Bestu kveðjur

Einar Sv 

Einar Sveinbjörnsson, 24.5.2008 kl. 00:01

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er hið versta mál að ekki skuli alltaf nýtast til fulls við jörð það sem háloftin bjóða upp á!   

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.5.2008 kl. 00:29

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband