Árásirnar á Björn Bjarnason

Dómsmálaráðherra kvartar undan því að hafa orðið fyrir árásum vegna máls Páls Ramsesar. Hann skrifar á heimasíðu sinni:   

"Um nokkurra daga skeið hefur verið ráðist að mér, eins og ég hefði tekið þessa ákvörðun útlendingastofnunar. Er það jafnrakalaust og svo margt annað, sem um þetta mál hefur verið sagt á opinberum vettvangi. Ég hef ekki sagt neitt efnislega um málið og geri ekki, fyrr en í úrskurði ráðuneytisins, verði hans óskað. Ég kaus jafnframt að segja almennt sem minnst um málið að öðru leyti, þar til ég hefði haft tækifæri til að kynna sjónarmið mín á vettvangi ríkisstjórnarinnar."

Það liggur alveg í augum uppi hvers vegna menn hafa "ráðist á" Björn Bjarnason í þessu máli eins og hann væri meðábyrgur fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi er sú stofnun undirdeild dómsmálaráðuneytisins. En í öðru lagi eru það orð Björns sjálfs sem  mestu hafa um þetta valdið. Hann sagði í svari við spurningum á Vísi is. varðandi umsókn Ramsesar um vinnureglur Útlendingastofnunar: 

„(H)vert mál er skoðað fyrir sig af útlendingastofnun, hún leggur mat á umsóknir og kemst að niðurstöðu um afgreiðslu þeirra. ... Réttarstaða útlendinga hér á landi er skýr og á síðasta þingi sameinaðist alþingi um breytingar á útlendingalögum til að skýra þessa stöðu enn betur. Dyflinarsamningurinn er einnig skýr og honum er beitt af aðildarríkjum hans. Að sjálfsögðu er ekkert ólögmætt eða athugavert að beita þeim samningi frekar en öðrum milliríkjasamningum."

Þessi yfirlýsing var birt eftir að Ramsesarmálið var komið á fullan blús. Það er því óhjákvæmilegt að fólk hafi skilið orð Björns um að ekkert væri "athugavert" að beita Dyflínarskamningum þannig að hann teldi að einnig í þessu tilfelli, sem öll umræðan hneig til, hefði heldur ekki verið neitt "athugavert" við að beita samningum sem auðvitað - vel að að merkja -er samt ekki skylda. Fólk stóð því eðlilega í þeirri meiningu að dómsmálaráðherra hafi verið að leggja beinlínis blessun sína yfir þessa tilgreindu framkvæmd Útlendingastofnunar en ekki að gefa yfirlýsingu um almennt lögmæti þess að beita milliríkjasamningum í afgreiðslu mála. Var nokkur leið að skilja þetta öðruvísi? Það sem enn frekar hefur stuðlað að þessum skilningi fólks eru orð Björn um það að Útlendingastofnun leggi mat á umsóknir sem hún afgreiðir. Menn hafa þá talið að hann hafi ekki séð neitt athugavert við hvernig þetta mál var "metið" og verið meðvitaður um þau ákvæði útlendingalaga að taka beri tillit til mannúðarsjónarmiða.  Og  í framhaldi af því hafa menn talið að Birni fyndist ekkert "athugavert" við það hvernig þeim sjónarmiðum var ýtt til hliðar í þessu máli þrátt fyrir skýr ákvæði. Já, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, er gert ráð fyrir "mati" eftir útlendingalögum. Það er bara grunnhyggni um raunveruleikann þegar menn halda því fram að lagareglur allar séu svo sjálflýsandi og sjálfvirkar að aldrei þurfi að meta eitt né neitt. Þannig er ekki lagaveruleikinn.  

Þetta sem ég hef rakið er einmitt orsök þess að menn töldu að Björn Bjarnason væri beinlínis að verja ákvörðum Útlendingastofnunar enda hefur hann hrósað settum forstöðumanni hennar og hvergi haft neins konar aðfinnslur í frammi um störf stofnunarinnar. Ef Birni finnst hart að sitja undir "árásum" vegna þessa máls getur hann aðeins við sjálfan sig sakast að hafa ekki kveðið skýrara að orði í fyrstu orðum sínum um máliðk  en fyrstu orð í máli ru oft þau sem mikilvægust eru fyrir framhald hverrar umræðu. Björn hefði átt að vanda málflutning sinn betur. Og ennfremur í framhaldi af þessu held ég að mörgum finnist að Björn hafi sagt ýmislegt "efnislega" um málið nú þegar þó hann vilji meina annað.  

Björn segir líka á heimasíðu sinni:

"Þegar ég lít yfir umræður undanfarna daga, kemur mér mest á óvart, hvers vegna þeir, sem telja sig vera að verja málstað Pauls Ramses kjósa að gera það með svo miklum og mörgum ósannindum. Ég hvet þá eindregið til að vanda málflutning sinn meira og hafa það, sem sannara reynist."

Ég hef fylgst nokkuð vel með þessu máli þó vitanlega hafi ég ekki haldið utan um allt sem fram hefur komið. Ekki fæ ég annað séð en málflutningur þeirra sem gagnrýnt hafa dómsmálaráðherra sé oftast sæmilega vandaður með undantekningum og ekki sé ástæða til að leggja hann þannig út að hann markist  svona yfirleitt af ósannindum.  En hann hefur oft verið harður enda ekki við öðru að búast vegna eðli málsins.      

Svo hélt ég að dómsmálaráðherra eins ríkis ætti nú að vera ýmsu vanur. En það er vissulega hart að verða fyrir "árásum" fyrir hvaða mann sem er. Það er samt enn harðara að vera varnarlaus flóttamaður sem er aðskilinn frá fjölskyldu sinni.

Það er aðalatriðið. Og ef Björn tekur upp málið af sanngirni og mannúð, sem ég held að svelli alveg í brjósti hans, er ekki  öll nótt úti um  happy end fyrir alla aðila. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir að halda þessari umræðu gangandi.  Mér sýnist margir aðrir vera að gefast upp á því.  Reyndar er aðal sumarleyfistíminn núna og fólk því eðlilega á ferðalögum út um allar koppagrundir - sem er kannski einmitt ástæðan fyrir því að Útlendingastofnun lét til skarar skríða í þessu máli akkúrat núna?    Það minnkar eðlilega líkurnar á þátttöku og samstöðu fólks gegn þessari níðslu.

Það má EKKI þegja þetta mál í hel!

Bestu kveðjur til Mala 

Helga (IP-tala skráð) 9.7.2008 kl. 16:51

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hann soldið er nú sætur,
og sárt hann Bíbí grætur,
hann sé grár,
og hann ei klár,
hann Kunta vilji ei Kinte Rætur.

http://en.wikipedia.org/wiki/Kunta_Kinte

Þorsteinn Briem, 9.7.2008 kl. 20:24

3 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég tek undir með Birni að það hafi verið ráðist persónulega að þeim sem hafa með mál PR að gera 1  2  3 4 og hafa leyst úr því með svipuðum hætti og sambærilegum málum. 

Rætin herferð mannúðar er eitthvað sem ber að varast.

Sigurjón Þórðarson, 9.7.2008 kl. 20:27

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

hann gleymir því, hann Bjössi, að hann er yfirmaður þessa batterís og leggur línurnar. sumum virðist erfiðara en öðrum að kippa hausnum úr böttinu.

Brjánn Guðjónsson, 9.7.2008 kl. 20:59

5 Smámynd: halkatla

rætin herferð mannúðar er mun skárri en engin mannúð, en mér finnst íslenska ríkið einmitt hafa sýnt einstaklega lítið af henni í þessu máli (mörgum öðrum líka, þótt ótrúlegt sé) og ég held að það séu flestir nokkuð sammála um það. Útlendingastofnun fellur undir ríkið og lögin sem það setur. Ef þetta er útkoman þá finnst mér vanta mannúð...

halkatla, 10.7.2008 kl. 01:44

6 identicon

Merkileg er þessi hugmynd um persónuárásir. Það er persónuleg árás þegar einhver segir að Björn sé ljótur og leiðinlegur. Ekki bara persónuleg árás, heldur líka óréttmæt því þótt það kunni að vera dagsatt þá bara kemur það málinu ekki við.

Þegar Björn er gagnrýndur fyrir störf sín og það sem hann segir í fjölmiðlum, þá má svosem líka líta á það sem persónulegar árásir. Það er verið að gagnrýna manninn fyrir að hafa og láta í ljós viðhorf sem eru manni í valdastöðu ekki sæmandi. Þar sem maðurinn er það sem hann gerir er nánast útilokað að gagnrýna afstöðu manna og gjörðir ópersónulega. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er nákvæmlega sami maðurinn og Björn Bjarnason eiginmaður, heimilisvinur og frændi. Það er hann allavega á meðan hann er að skipa menn í embætti.  

Sú gagnrýni sem hefur komið fram á dómsmálaráðherra vegna viðbragða hans við þessu máli er persónuleg já, eins og öll gagnrýni á einstaklinga. En hún er líka réttmæt.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 14:16

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hjartanlega tek ég undir þetta. Það á ekki að gleyma því  að embættismenn sem hafa örlög einstaklinga jafnvel í hendi sér eru líka persónuir með frjálst val og frjálsan vilja. Hvað varðar ásökum Sigurjóns Þórðarsonar með dæmum um rætinn málflutning þá finnst r enginn hafa verið rætnari en hann þegar hann gagnrýnir fjölmiðla með því að nefna Paul Ramses í sömu andrá og Kyo Biggs og  Planton. Þó þetta eigi að heita skot á fjölmiðla þá hlýtur þetta orðalag að setja Paul Ramses, sem allir vitna einum munni um að sé heiðarlegur og grandvar maður, við sama borð og þessa glæpamenn. Maður trúir því varla að einhver skuli geta gert annað eins gagnvart Paul, jafnvel þó honum finnist gagnrýnendur Útlendingastofnunar og dómsmálaráðherra hafa farið offari.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.7.2008 kl. 14:35

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Lítur ekki Björn Bjarnason á alla gagnrýni á störf sín sem árásir á sig? Mér hefur virst svo vera.

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.7.2008 kl. 14:48

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Björn Bjarnason verður sem þingmaður og dómsmálaráðherra að þola pólitíska gagnrýni en órökstudd gagnrýni væri alls staðar einskis virði og á hvergi heima nema í kjörklefanum, þar sem hún er bönnuð. Og slíkt hið sama á við um heilu stjórnmálaflokkana.

Hins vegar hefði Bobby Fischer væntanlega sætt hér opinberri ákæru fyrir mörg ummæli sín ef hann hefði látið þau falla hérlendis:

"They're lying bastards. Jews were always lying bastards throughout their history. They're a filthy, dirty, disgusting, vile, criminal people."

"They're all weak, all women. They're stupid compared to men. They shouldn't play chess, you know. They're like beginners. They lose every single game against a man. There isn't a woman player in the world I can't give knight-odds to and still beat."

http://en.wikiquote.org/wiki/Bobby_Fischer

Almenn hegningarlög nr. 19/1940:

233. grein a. Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum."

Þorsteinn Briem, 10.7.2008 kl. 15:15

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hér að ofan átti að sjálfsögðu að standa:

"... og á hvergi heima nema í kjörklefanum, þar sem rökstudd gagnrýni er bönnuð."

Þorsteinn Briem, 10.7.2008 kl. 15:21

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það sem Guðmundur Ásgeirsson skrifar á vef Önnu Pálu Sverrisdóttur um Björn Bjarnason er dæmi um persónulega og órökstudda gagnrýni, sem á hvergi heima að mínu mati:

http://annapala.blog.is/blog/veridihress/entry/587485/#comments

Þorsteinn Briem, 10.7.2008 kl. 15:58

12 identicon

Takk fyrir Sigurður og þið hin öll að halda málinu gangandi.

Þó að háttvirtur dómsmálaráðherra hafi að eigin sögn ekki tjáð sig efnislega um þetta mál Pauls þá hefur mér með mínu skarpskyggna innsæi tekist að lesa á milli línanna í skrifum hans hvorum megin hann stendur...

Jón Bragi (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 16:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband