Hlýjustu júlímánuðir á Íslandi

Ekki er endilega auðvelt að átta sig á því hverjir eru hlýjastir sumarmánaða á öllu landinu. Framan af voru mælingar á mjög fáum stöðum og þó þeim hafi síðan fjölgað er dreifing þeirra misjöfn um landið. Flutningar veðurstöðva hafa verið algengar þó á sama stað sé og umhverfi þeirra hefur tekið breytingum vegna bygginga og trjágróðurs. Auk þess hefur mælitækni breyst, sérstæð hitamælaskýli hafa til dæmis leyst gömlu veggskýlin af hólmi. Allt hefur þetta áhrif á mælingarnar þó menn viti ekki hver þau eru nema að litlu leyti. Ekki er því víst að allir nýrri mánuðir séu í rauninni sambærilegir við eldri mánuði. Þar við bætist að hitafrávik á sumrin eru yfirleitt litlar stærðir svo erfitt er að átta sig á raunverulegum mun milli mánaða. Hér er samt reynt að finna út meðalhita alls landsins í hlýjustu júlímánuðum. Miðað er við þær níu veðurstöðvar sem lengst hafa athugað, Reykjavík, Stykkishólm, Teigarhorn, Grímsey, Vestmannaeyjar, veðurstöðvarnar í Hreppunum og Akureyri  sem allar hafa athugað samtímis frá 1880 og auk þess Bolungarvík/Ísafjörð og Fagurhólsmýri frá 1898. Tölurnar sem á bak við liggja eru ekki alltaf þær sem standa í prentuðum ritum heldur þær sem endurskoðaðar hafa verið á Veðurstofunni. Til að finna meðalhita allra þessara stöðva fyrir 1898, alveg frá 1873, þegar fyrst verður um að ræða fleiri en tvær stöðvar, var meðalhiti þeirra stöðva sem  mældu viðkomandi ár borinn saman við meðalhita þeirra 1961-1990 og gert ráð fyrir því að þær stöðvar sem vantaði hefðu sama frávik frá því meðaltali og þær sem mældu höfðu að meðaltali. Fæst því samræmdur meðalhiti yfir öll árin.  

Engir júlímánuðir fyrir 1898 virðast koma til álita sem verulega hlýir nema 1880, 1889 og 1894.  Röð tíu hlýjustu mánuðina er annars þessi: 1933, 1880, 1991, 1917, 1908, 1936, 1929, 1894, 1934, 1927.

Nú verður farið í alla þessa mánuði. Meðalhiti stöðvanna níu í júlí 1961-1990 er 9,67 stig og fremst við hvert ár er gefinn meðalhiti þess mánaðar sem um ræðir fyrir þessar stöðvar og líka fyrir 1880 og 1894 og er þá gert ráð fyrir að vik meðalhita Bolungarvíkur/Ísafjarðar og Fagurhólsmýrar, sem vantar þau ár, hafi verið sá sami og hinna stöðvanna sex eins og áður segir. Á fylgiskjalinu má sjá hita, úrkomu og sólskin í töfluformi fyrir allar þessar stöðvar og einnig fyrir Dratthalastaði og Eyrarbakka og eru þessi atriði því lítt tíunduð hér í lesmálinu.  Í lesmálinu og í fylgkiskjalinu eru tveir aukastafir í heildarmeðalhita mánaðanna (fyrir allar stöðvarnar) einungis notaðir til að auðveldara sé að búa til röð.  Við byrjum samt á einfaldri töflu yfir fimm hlýjustu mánuðina hvað hitann varðar eingöngu.                                    

                        1933    1880    1991    1917    1908    1961-90

Reykjavík        12,4     12,3     13,0     12,7     11,6     10,6

Stykkish.          12,2     12,3    11,8     11,8     12,0     9,9

Bolungarv.       12,4                 10,8     12,2     12,1     9,0

Akureyri          13,3                 12,6     12,5     10,6     10,6

Grímsey           10,2    10,4      9,6     8,5       9,9         7,5

Teigarhorn       10,8    9,4       10,2       8,9       8,9      8,8

Fagurhólsm.     11,8                11,8     11,7     10,5    10,5

Hreppar          12,5     13,2     12,9     12,9     12,6     10,6    

Stórhöfði         11,7     11,9     11,2     11,2     10,7     9,6      

Meðaltal           11,9     11,7     11,5     11,4     11,3     9,7

Nr. 1, 1933  (11,92) Hlýtt og hægviðrasamt veður. Ágætir þurrkar og góð heyskapartíð var norðanlands og austan en vestanlands og sunnan var fremur votviðrasamt en þó komu nokkrir þurrkdagar. Grasspretta var ágæt um allt land. Þetta var hlýjasti júlí sem mælst hefur víða á svæðinu frá Ísafjarðardjúpi og austur og suður um alveg að Hornafirði. Akureyri telst til þessara staða, Skriðuland í Skagafirði, Húsavík og Hólar í Hornafirði. Suðvestanátt var algengasta vindáttinn en engan veginn er hægt að telja þetta sérstakan rigningarmánuð á suður og vesturlandi. Sól var talsverð fyrir norðan miðað við meðallag en nokkuð undir því fyrir sunnan. Á Akureyri var meðaltal lágmarkshita 10,4 stig sem er einsdæmi á þeim stað. Sama lágmarkstala var á Eyrarbakka. Hitinn fyrir norðan var jafn og  hár en samt enginn stórkostleg hlýindi. Mesti hiti á Akureyri var aðeins 20 stig en hitinn var að jafnaði 16 stig að hámarki. Enn hlýrra um hádaginn var inn til landsins, hátt upp í 18 stig til jafnaðar á Grímsstöðum (hámarksmeðaltöl eru samt kannski ívið of há vegna mæliaðstæðna) en þar var þetta næsthlýjasti júlí og fór hitinn í 25,9 stig þ. 7. en um það leyti gerða netta hitabylgju í nokkra daga.

Nr. 2, 1880 (11,74). "Þá var hin mesta árgæzka og blíðviðri um allt land, svo menn mundu ekki jafngott ár ...Tún voru orðin algræn löngu fyrir sumarmál og vorið var hið blíðasta og fegursta. Sumarið var heitt og þurrt og þurkuðust sums staðar hagar svo, að nær því varð vatnslaust með öllu. Útengjar spruttu ágætlega, nema sízt mýrar, sem þornuðu upp í hitunum, en þar, sem voru foraðsflóar, varð hið bezta gras. Nýting á heyjum var hin bezta til höfuðdags, og mátti svo segja, að hverju strái mætti raka þurru af ljánum í garð." Svo segir í Árferði á Íslandi í þúsund ár eftir Þorvald Thoroddsen.

Mjög fáar veðurathuganarstöðvar voru komnar á fót á þessu ári, aðeins í Reykjavík, Hafnarfirði, Stykkishólmi, Skagaströnd, Grímsey, Valþjófsstað, Teigarhorni, Papey, Hrepphólum, Vestmannaeyjum og Eyrarbakka.  Þessi júlí var sá hlýjasti sem mælst hefur bæði í Stykkishólmi, þar sem athugað hefur verið frá 1846, og í Vestmannaeyjum þar sem athuganir hófust 1878. Í Hreppunum er þetta fjórði hlýjasti júlí. Á Akureyri voru engar athuganir  en hins vegar á Valþjófsstað á Fljótsdalshéraði. Hiti fylgist talsvert að á þessum tveimur stöðum á sumrin, ekki síst í mjög hlýjum mánuðum. Meðalhitinn á Valþjófsstað er reiknaður 13,7 sem er það hæsta sem nokkur stöð hefur fengið í júlí ásamt Írafossi árið 1991. Það vekur athygli í þessum mánuði hve hlýindin voru jafndreifð eftir landshlutum og til sjávar og sveita. Á Eyrabakka var þetta hlýjasti eða næsthlýjasti júlí sem þar hefur mælst, mælingar frá 1880, og var meðalhitinn 13,0 stig en 13,2  á Hrepphólum í Hreppunum. Mér finnst líklegt meðalhitinn hafi náð 13 stigum á Akureyri en kannski verið ívið lægri þó en á Valþjófsstað. Á Skagaströnd var meðalhitinn 10,9 stig sem er talsvert minna en  hæst hefur mælst seinna á Blönduósi. Hitinn var einnig mjög jafn milli daga í þessum mánuði. Sem dæmi um það má nefna að hámarkshiti mánaðarins í Stykkishómi var 16,9 stig en lágmarkið 5,9 og er munurinn aðeins 11 stig. Mesti hiti á landinu mældist 24,5 stig á Valþjófsstað en það var eini staðurinn þar sem hámarksmælingar voru gerðar á sæmilega hámarkshitavænum stað. Af takmörkuðum mælingum má ráða að áttleysa eða hafgolur voru ríkjandi. Með öðrum orðum  góðviðri og hlýindi. Úrkoma var lítil á þeim örfáu stöðum þar sem hún var mæld og úrkomudagar aðeins 7 í Stykkishólmi, 4 á Teigarhorni og tveir í Grímsey.

Eftir þennan júlí kom næst hlýjasti ágúst sem mælst hefur. En næsti vetur varð sá kaldasti sem dæmi eru um. Það er nokkuð ljóst að lofthringrásin yfir landinu og kringum það var verulega afbrigðileg þennan tíma. Í þessum pistlum um hlýja og kalda mánuði er yfirleitt ekki farið í ástæður frávikanna. Bæði skortir mig til þess gögn en ekki síður dýpra veðurvit. En hér koma ýmsar staðreyndir fram sem aðrir eru svo betur færir um að útskýra. 

Nr. 3, 1991 (11,53) Þetta er hlýjasti júlí sem núlifandi Íslendingar hafa lifað nema þeir elstu. Hann er kannski merkilegastur fyrir það hve hlýtt var á suður- og suðvesturlandi. Þetta er eini júlí sem nær 13 stigum í Reykjavk og er auðvitað sá hlýjasti sem þar hefur mælst. Hiti fór aldrei undir meðallag allan mánuðinn á landsvísu. Mikla hitabylgju gerði snemma í mánuðinum og stóð hún í 9  daga, 1.-9. en á suðurlandi gerði litla aukabylgju dagana 11.- 13.  Hitinn fór í 29 stig þ. 2. á Kirkjubæjarklaustri og þ. 5. á Egilsstöðum. Í Reykjavík fór hitinn í 20 stig fjóra daga sem var met fram í ágúst 2004. Úrkoma var víðast hvar líitil og hvergi til neinna vandræða þar sem hún var þó meiri en í meðllagi. Fremur var sólríkt, ekki síst inn til landsins á norðausturlandi og á hálendinu. Síðasta dag mánaðarins gerði aðra hitabylgju um land allt sem stóð í tvo daga. Meðalhiti mánaðarins á Írafossi var 13,7 stig sem er mesti meðalhiti í júlí vitað er um á Íslandi. Á Hjarðarlandi var meðalhitinn 13.5 stig, 13,3 á Görðum á sunnanverðu Snæfellsnei,  13,1  á Hellu og Sámsstöðum, 13,0 á Kirkjubæjarklaustri (næst hlýjasti júlí), 13,0 í Reykjahlíð við Mývatn (sá hlýjasti með 1984) en 13,4  á Birkihlíð í Skriðdal. Síðasta talan er mjög eftirtektarverð og mun vera meira en 3 stig yfir meðallagi. Til allrar óhamingju voru engar mælingar gerðar á Hallormsstað en alveg má búast við að þar hafi meðalhitinn slagað hátt upp í 14 stig. Aldrei hefur orðið hlýrra á Hveravöllum í júlí eða nokkrum öðrum mánuði, 10,5 stig. Þar uppi komst hitinn fimm daga í 20 stig eða meira. Austlægar áttir voru ríkjandi og á einni stöð, Hornbjargsvita, var meðalhitinn undir meðallagi.  Meðaltal lágmarkshita er sá hæsti sem um getur í Reykjavík, 10,8 stig en 11,0 á Görðum á Snæfellsnesi sem er Íslandsmet.    

Nr. 4, 1917 (11,38). Nokkuð óþurrkasamt síðasta þriðjunginn á suður-og vesturlandi en heildarúrkomumagn varð hvergi mikið. Sérlega þurrt var fyrir norðan og á austfjörðum og fremur lítil úrkoma var í Vestmannaeyjum miðað við það sem vant er. Sólkinsstundir á Vífilsstöðum voru 163 sem er í tæpu núverandi meðallagi og úrkomudagar voru þar fáir, aðeins 8. Í mánuðinum mældist mesti loftþrýstingur sem mælst hefur á Íslandi í júlí 1036,6 hPa þ. 3.  Þrýstingur alls mánaðarins var einnig óvenjulega mikill. Á Akureyri komst hitinn mest í 26 stig og 25 á Möðruvöllum í Hörgárdal og á Grímsstöðum.

Nr. 5, 2008 (11,38) Þó ég hafi reiknað þennan mánuð eftir lítillega öðrum aðfeðrum en hina, af því allar tölur liggja ekki fyrir, held ég að óhætt sé að setja hann í fimmta sæti á eftir 1917. Í Stykkishólmi er þetta hlýjasti júlí  eftir 1933 og  1880. Á Hæli náði meðalhitinn 13 stigum  í fyrsta sinn eftir 1944 en aðeins sá júlímánuður, 1939, 1894 og 1880 hafa verið hlýrri.  Það sem setti svip á mánuðinn var einhver mesta hitabylgja sem komið hefur og kom hún seint í mánuðinum. Þann 30. mældist mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík, 25,7 stig og sama dag var methiti víða.  Á Þingvöllum mældust 29,7 stig. Fremur sólríkt var.  

Nr. 6, 1908 (11,31) Þurrt fram yfir miðjan mánuð en síðan nokkuð votviðrasamt en úrkomumagn í heild samt alls staðar vel undir meðallagi.  Hitinn var sérlega jafn um allt land, 12 stig svo á Vestfjörðum sem á Blönduósi. Tiltölulega svalast var á austurlandi og í Vestmannaeyjum.  Tuttugu stiga hiti mældist óvenjulega víða, t.d. bæði í Vestmannaeyjum og í Grímsey.

Nr. 7, 1936 (11,25) Þetta var lúxusmánuðir á suður- og vesturlandi og vestan til á norðurlandi. Þar var mikil sól og mikill hiti. Mánuðurinn var reyndar ágætur um allt land en nokkuð votviðrasamur við norðausturströndina. Norðaustan átt var ríkjandi en hún var blíðleg. Það var líka ágætlega sólríkt bæði fyrir sunnan og  norðan. Hiti fór marga daga í tuttugu stig eða meira en samt komu engar stórar hitabylgjur.

Nr. 8,  1929 (11,24) Þetta var óvenjulega sólríkur mánuður. Á Akureyri er hann sólríkasti júlí sem þar hefur mælst. Það var líka hlýtt, þurrt og stillt á landinu. Úrkoman var mjög lítil. Aldrei hefur hún verið minni í júlí á Akureyri, aðeins 7 mm og var reyndar hvergi minni á landinu. Miklir hitar voru viðloðandi alveg frá 17., þegar hitinn fór í 24,0 á Stóranúpi, og til 28. en á þessum tíma komst hitinn m.a. í 25,1  stig  þ. 22. á Grímsstöðum á Fjöllum. Nokkur hafís var á Húnaflóa og varð landfastur þ. 20. við Gjögur. Farþegaskipið Nova rakst á hafísjaka á flóanum þ. 25. og skemmdist nokkuð, en komst þó hjálparlaust til hafnar. Miklar þrumur voru þ. 18. á suðausturlandi, allt frá Berufirði til Fagurhólsmýrar og voru þær í fjórar stundir í Hornafirði, kl. 12-16.   

Nr. 9, 1894 (11,23) "Á Norðurlandi og Austurlandi var öndvegistíð allt sumarið en  aftur á móti fremur votviðrasamt á suður- og vesturlandi. Heyskapur var misjafn. Á suðurlandi gekk erfiðlega að ná inn heyjum vegan votviðranna og skemmdust þau víða, aftur var nýting heyja heldur betri á Vesturlandi, en á Norðurlandi og Austfjörðum  heyaflinn mikill og góður; þar var grasspretta í betra lagi og nýting hin bezta." Þetta segir í Árferði á Íslandi í þúsund ár. Þrátt fyrir úrkomuna syðra var síðasta vika mánaðarins þurr. Mikl hitabylgja kom í byrjun mánðarins. Þá mældist mesti hiti í júlí í Reykjavík allt til ársins 1976, 23,8 stig þ. 2. og í Stykkishólmi náði hitinn 20 stigum eða meira þrjá daga í röð. (Þess ber að gæta varðandi dagsetningar í Dönsku veðurbókinni að hvað hámarkshita varðar eru þær í rauninni frá deginum áður en skráð er).  Á Möðrudal fór hitinn í 28,8 stig sem var þá mesti hiti sem mælst hafði á landinu og stóð það met til 1911. Suðurnesjaanáll segir svo um sumarið: "Sumarveðráttan hin blíðasta og bezta, kom eigi skúr úr lofti fram í byrjun ágúst ... . Grasár var í góðu meðallagi og nýting hin bezta, og var snemma lokið við heyskap. Fréttist alls staðar af beztu tíð og árferði." Í Reykjavík mældist úrkoman reyndar 64 mm svo þar a.m.k. hafa verið nokkuð miklir skúrir!

Nr. 10, 1934 (11,15) Þó þetta hafi verið  hlýr mánuður og hæviðrasamur var hann yfirleitt votviðrasamur, einkum á vesturlandi og vestantil á norðurlandi en einnig á suðausturlandi. Skást að þessu leyti var á suðurlandi og upp í Borgarfjörð þar sem mánuðurinn má hreinlega kallast þurrvirðasamur. Sólin var lítið á ferli, einkum fyrir norðan. Það er sérstakt með þennan mánuð að ekki eru dæmi um hlýrri júlí í Vík í Mýrdal síðan mælingar hófust þar 1926. Hitinn komst í Reykjavík í 20,1  stig þ. 12. og voru miklir hitar fyrir norðan um það leyti, allt upp í 26,8 stig á Hraunum í Fljótum og þ. 18. komst hitinnn í 25,5 stig á Hólum í Hornafirði. Fyrir norðan voru stórrigningar seint í mánuðinum.   

Nr. 11,  1927 (11,15) Þetta er einn af þeim júlímánuðum sem leynir á sér. Hann nær samt í 9.-10. sæti yfir hlýjustu júlímánuði. Hann var hægviðrasamur. Á suðvesturlandi var ágæt heyskapartíð og alls staðar sæmileg. Sólskin var í rífu núverandi meðallagi í Reykjavík en ekki var mælt á Akureyri. Þar var mánuðurinn hins vegar einn af þeim allra hlýjustu með meðalhita upp á 13,0 stig. Hitinn í Reykjavík komst í 20,3 stig þ. 6. Þá voru mikil hlýindi á landinu því sama dag fór hitinn í 25,7 stig á Hvanneyri og 25,7 á Eyrarbakka en daginn eftir í 26,1 stig á Grímsstöðum.

Þetta eru sem sagt tíu hlýjustu júlímánuðirnir.

Hér eru þeir júlímánuðir sem næstir koma í hlýindunum: Nr. 12, 1926 (11,10); Nr. 13, 2004 (11,09); Nr.14, 1945 (11,08); Nr. 15, 1939 (11,02); Nr. 16, 2005 (11,01); Nr.17, 1941 (11,00); Nr. 18, 2003 (10,99); Nr. 19, 1944 (10,98); Nr. 20, 2009 (10,95), Nr. 21,1889 (10,95); Nr. 22, 1994 (10,87); Nr. 23, 1997 (10,81); Nr. 24, 1990 (10,80); Nr. 25, 2007 (10,80); Nr. 26, 1919 (10.78); Nr. 27, 1960 (10,74); Nr. 28, 2000 (10,73); Nr. 29, 1984 (10,70); Nr. 30, 1916 (10,68); Nr. 31, 1953 (10,60); Nr. 32, 1955 (10,57).

Verður nú nokkura þessara mánaða getið fyrir það sem þeir hafa helst unnið sér til frægðar annað en vera meðal þeirra 30 hlýjustu..

Tveir  annálaðir  júlímánuðir komu á suður og vesturlandi árið 1939 og 1944.

Fyrri mánuðurinn, nr. 14. yfir allt landið (11,02), er sólríkasti júlí sem mælst hefur í Reykjavík. Sólskinsstundir voru 308,3 klukkustundir. Í Hreppunum er þetta hlýjasti júlí sem mælst hefur. Meðalhitinn á Hæli var 13,6 stig og þetta er næst mesta hitatala á júlímánuði nokkurs staðar á landinu. Mánuðurinn byrjaði reyndar með snörpu norðankasti og var jörð alhvít á Grímsstöðum þ. 3. Alls staðar var mánuðurinn góður en þó bestur á suður-og vesturlandi. Hitabylgja kom dagana 24.-26. og komst hitinn í Reykjavík í 22,1 stig, 26 á suðurlandsundirlendi og á Hvanneyri en dagana 19.-20. var einnig mjög hlýtt fyrir norðan og komst þá hitinn í 25,5 stig við Mývatn. Úrkoma var lítil, einkum á vesturlandi, aðeins 3,9 mm í Stykkishólmi og hefur aldrei verið minni í júlí.              

Júlí 1944, nr, 18 (10,98) var nokkuð svipaður júlí 1939. Hann var bestur sunnanlands og vestan en samt góður um land allt. Á Þingvöllum var þetta hlýjasti júlí sem þar kom meðan mælt var 1935-1982,en líklega hefur 1991 þó verið svipaður en athuganir voru þá komnar að Heiðabæ í Þingvallasveit. Dagana 19.-21. kom einhver mesta hitabylgja á suður og vesturlandi sem dæmi eru um og komst hitinn í 26,7 stig í Síðumúla í Borgarfirði og 26,5 á Þingvöllum en 22,3 stig í Reykjavík. 

Júlí 2007, nr. 23 (10,79)  má teljast sams konar júlí og 1936, 1939 og 1944. Afskaplega hlýr og sólríkur á suðvesturlandi en hins vegar fremur dumbungslegur á norðausturlandi. Í Reykjavik var þetta næst hlýjasti júlímánuðurinn, en reyndar sá hlýjasti á Eyrarbakka, en einhver vafi leikur enn á trúverðugleika mælinganna.

Júlí 1960,  nr. 25 (10,74),  var eins konar vasaútgáfa af þessum mánuðum. Hann var sólríkur og ansi hlýr á suðvesturlandi en jafnaðist þó ekki á við mánuðina 1936, 1939 og 1944, en var  hlýjasti júlí í áratugi á suðvesturlandi eftir 1960 og oft til hans vitnað á þeim sumarsvölu árum sem fóru í hönd eftir það ár.    

Júlí 1953, nr. 28 (10,60) er sérstakur fyrir það að hann er hlýjasti júlí sem mældist á Sámsstöðum í Fljótshlið  Þar var meðalhitinn 13,1, ásamt júlí 1991. Góðviðri var um allt land.

Júlí 1945, nr. 13 (11,08),  er merkastur fyrir það að hann er sá hlýjasti sem komið hefur á suðausturlandi. Á Kirkjubæjarklaustri var meðalhitinn 13,1 stig, 12,4 á Fagurhólsmýri og mánuðurinn er sá næst hlýjasti á Hólum í Hornafirði, 12,1 stig.  Sums staðar inn til landsins var þetta einnig sérlega hlýr mánuður.  

Júlí 1941, nr. 16 (11,00) nýtur þess vafasama heiðurs í hlýindum sínum að vera votviðrasamasti júlí á landinu í heild. Á Teigarhorni við Berufjörð er hann einnig úrkomusamasti júlí sem þar hefur mælst, allt frá 1873.

Næstu þrír mánuður sem hér verða taldir eiga það sameiginlegt að hafa verið afskaplega hlýir fyrir norðan og austan en að sama skapi votviðrasamir og ömurlegir á suður-og vesturlandi.

1926, nr. 11 (11,10). Þetta var mikll rigningarmánuður á suður-og vesturlandi og úrkomusamt var um allt land nema á norður- og austurlandi. Bæði í Reykjavík og Stykkishólmi var þetta úrkomusamasti júlí sem mældur hefur verið síðan Veðurstofan tók til starfa 1920. Í Reykjavík hafa aldrei verið fleiri úrkomudagar í júlí, 28. Mjög sólarlítið var í Reykjavík en heldur skárra á Akureyri.  Það er merkilegt við þennan mánuð að hann var hlýjasti júlí á ýmsum útnesjum fyrir norðan og austan, t.d. á Teigarhorni.  Dagana 2.-7. voru miklir hitar fyrir norðan allt upp í 28,2 stig á Húsavik þ. 2. sem er mesti hiti sem þar hefur mælst.  Eins og vænta má var heyskapartíð afleit víðast hvar á landinu nema á norður og austurlandi þar sem hún var þokkaleg.  

1955, nr. 29 (10,57). Sumarið 1955 var alræmt á suðurlandi fyrir úrkomu og var lengi hið arkatýpíska rigningarsumar þar um slóðir. Þessi júlí var enda sá úrkomusamasti sem komið hefur á Eyrarbakka og í Vestmannaeyjum. Á suður-og vesturlandi var með afbrigðum óþurrkasamt og náðist ekkert hey í hlöður nema vothey, en á norðausturlandi- og austfjörðum gekk heyskapur að óskum. Óþurrkarnir náðu hins vegar að nokkru leyti til vestanverðs norðurlands. Á Akureyri var þetta næst hlýjasti júlí sem mælst hefur og víða á öllu svæðinu frá norðvesturlandi til austfjarða en á Úthéraði og á Hallormsstað var þetta hlýjasti júlímánuðurinn. Sömuleiðis á Húsavík og í Aðaldal. Hitinn á Skriðuklaustri var skráður 13,6 stig sem er næst mesti meðalhiti í júlí á landinu á eftir júlí 1991 á Írafossi þar sem meðalhitinn var 13,7 stig. Mjög hlýtt var þ. 24. fyrir norðan og austan og komst hitinn þá í 27,3 stig í Fagradal í Vopnafirði. Eftir 1955 er eftirtektarvert að ekki hafa komið 13 stiga júlímánuðir á Akureyri.

1984, nr. 27 (10,70).  Þessi júlí var einnig mikill rigningarmánuður eftir þ. 11. en aftur á móti hlýr á norður og vesturlandi. Á öllu landinu var þetta hlýjasti júlí eftir 1955 en á seinni árum hafa komið allmargir hlýrri mánuðir. Aldrei hefur mælst hlýrri júlí í Reykjahlíð við Mývatn en þar hófust mælingar 1937 og þetta var næst hlýjasti júlí á Hallormsstað.   

Júlí 1919, nr. 24 (10,78) var vestan- eða suðvestanáttamánuður mikil enda mældist þá hlýjasti júlí sem komið hefur á Seyðisfirði frá 1907, 13,5 stig. Nokkrir afar hlýir dagar komu í mánuðinum og á Möðruvöllum i Hörgárdal voru 9 dagar sem hitinn náði 20 stigum eða meira. Á Seyðisfirði var einn morguninn kl. 6 26 stiga hiti en því miður voru engar hámarksmælingar á staðnum. Sunnanlands og vestan voru náttúrlega rigningar og óþurrkar.

Sumrin fóru að hlýna nokkuð á Íslandi kringum miðjan tíunda áratug 20. aldar eftir langan tíma með svölum sumrum. Komu þá nokkrir fremur hlýir mánuðir en eftir að 21. öldin gekk í garð fór að hlýna verulega. Hafa síðan verið yfirleitt góð og hlý sumur, ekki síst sunnanlands og vestan. Þrír hlýir júlímánuðir í röð, nr.  17, 2003 (10,99), nr. 12, 2004 (11,09) og  nr. 15, 2005  (11,01) eru til vitnis um breytta veðurtíma, en þó verður að segjast að sumarhlýindin sem nú eru jafnast ekki alveg á við það besta sem var frá miðjum þriðja áratugnum fram í miðjan fimmta áratuginn. 

Júlí 2003 var ekki síst góður vegna þess að í kjölfar hans fór hlýjasti ágúst sem mælst hefur og reyndar hlýjasti mánuður sem mælst hefur á landinu yfirleitt.     

Í fylgiskjalinu, sem allir bíða með öndina í hálsinu eftir að kynna sér,  má sjá hita og úrkomu allra 30 hlýjustu júlímánuðina (já, ansi margir) á þeim stöðum sem lengst hafa athugað  og auk þess sólskinsstundir í Reykjvík og á Akureyri. 

Það má líka sjá hlýjustu mánuði eftir landshlutum, suður-vesturland og norður-austurland. Í fyrri flokknum er miðað við Reykjavík, Stykkishólm, Hæl, Eyrarbakka og Vestmannaeyjar, en í þeim seinni Akureyri, Grímsey, veðurstöðvar á Úthéraði, Teigarhorn og Seyðisfjörð. Geta þá þolinmóðir og óbugaðir lesendur spreytt sig á að finna hlýjustu mánuðina í þessum landshlutum út af fyrir sig fyrir utan landsvísuna. Meðaltal úrkomu er haft með að gamni þó mælingar á henni séu stundum stopular fyrir þessa staði.  

Komist einhver í gegnum allan þennan vísdóm alveg klakklaust er honum sannarlega ekki alls varnað í veðuráhuga sínum! 

Vek athygli á færslu um hlýjustu júlímánuði í Reykjavík.

Heimildir: Suðurnesjannáll. 

                                                                                                                                               

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband