Meðaltal lægsta hita yfir allt landið í júlímánuði frá 1880 er -1,0 stig (líka frá 1965 eftir að búið var að nútímavæða öll hitamælaskýli). Af þessum 129 mánuðum hefur ekki verið getið um frost í 46 þeirra. Lengst af hefur verið mælt á kuldavænum stöðum, til dæmis á Hólsfjöllum, en fjöldi veðurstöðva í öðrum kuldahéruðum hefur þarna nokkuð að segja, en hann hefur verið nokkuð mismunandi. Það mun mála sannast að næturfrost geri einhvers staðar á Íslandi í flestum júlímánuðum, þó háfjöll séu undanskilin, nema þeim allra hlýjustu og hrekkur það þó ekki alltaf til.
Mesta frost sem mælst hefur á landinu í júlí er -4,1 stig þ. 21. árið 1986 á Möðrudal á Fjöllum. Þennan dag var norðanátt og hafði birt til en samt var ekkert óskaplega kalt víðast hvar og oft verið kaldara loft yfir landinu. En Möðrudalur hagar sér stundum nokkuð undarlega hvað lágmarkshita varðar.
Merkilegri kuldi en þetta er -4,0 stig sem mældist þ. 27. í þeim hlýja júlí 1944 á Núpsdalstungu inni í dalnum í Miðfirði, aðeins viku eftir einhverja mestu hitabylgju sem komið hefur í júlí. Þessi sveit er miklu lægra yfir sjávarmáli en Hólsfjöllin. Dalurinn er samt alræmdur fyrir kaldar nætur á sumrin. Kuldinn kom í hægviðri og fremur svölu veðri en það var samt ekki mjög kalt víðast hvar á landinu. Næturfrost í júlí eru ekki endilega tengd kaldasta loftinu sem berst til landsins um hásumarið heldur kemur þar ýmislegt annað til sem veldur mikilli útgeislun.
Þriðji mesti kuldi sem mælst hefur á landinu í júlí er -3,3 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 24. árið 1970. Þá var reyndar mjög kalt loft yfir landinu.
Og nú verður vikið að nokkrum miklum kuldaköstum sem yfir landið hafa dunið eftir 1949. Í bloggfærslunni um Köldustu júlímánuði á Íslandi má hins vegar lesa ýmislegt um júlíkulda á nítjándu öld.
Nokkur kuldaköst skera sig úr fyrir það hve hastarleg þau voru.
Frægast þeirra skal telja norðanhretið mikla sem kom í júlí 1966 og er talið allra norðanhreta illyrmislegast á seinni áratugum, eiginlega allar götur eftir 1920 að minnsta kosti, en er samt ekki það kaldasta.
Lægð myndaðist norðvestur af Vestfjörðum þ. 21. og kom regnsvæði hennar að landinu úr vestri. Gekk vindur til suðurs með rigningu um allt land. Var hún óvenjulega mikil á suðvesturlandi, 34 mm í Reykjavík næsta morgun, víða 30-50 mm en mest 81 mm í Stardal. Vindur snérist til vesturs næsta kvöld og kólnaði. Næsta dag, þ. 22. hvessti um norðan- og austanvert landið og fór að rigna. Lægðin var fyrir norðaustan land síðari hluta nætur og var vindur þá orðinn norðvestlægur og rigndi fyrir norðan. Þetta norðanveður stóð næstu tvo daga og var þá víða stormur eða rok, mikill sjógangur við norðurland og rigning eða slydda í byggð, en snjókoma til fjalla. Úrkoman var ekkert smáræði, 64,5 mm á Vöglum í Vaglaskógi að morgni þ. 24. og 33 mm að morgni næsta dags í Reykjahlíð við Mývatn. Síðdegis þ. 24. fór að lægja og næsta dag var komið hægviðri á vesturlandi en norðanlands og austan var enn norðvestan strekkingur og rigning. Veðurhæð náði sums staðar 10-12 vindstigum dagana 23.-24. af áttunum frá norðnorðvestri til norðnorðausturs. Miklar og margvíslegar skemmdir urðu víða um land. Hey fauk á mörgum stöðum, girðingar lögðust niður og kartöflugarðar skemmdust mjög mikið. Tvær trillur sukku við Svalbarðsströnd. Síldveiðiskip laskaðist fyrir norðan land. Í nágrenni Ólafsfjarðar tók þök af húsum og í Skaftafells-og Rangárvallasýslum fuku útihús. Símalínur skemmdust töluvert og jafnvel raflínur líka. Fyrir norðan króknaði fé og mikið drapst af fuglsungum. Fjallvegir urðu víða ófærir og bílar sátu fastir á Hólsfjöllum og Möðrudalsfjallgarði. Á Grímsstöðum á Fjöllum mældist snjódýpt 10 cm að morgni þ. 24 og er það mesta snjódýpt sem mælst hefur á Íslandi í júlí. Þarna var alhvítt í tvo daga en ekki var getið annars staðar í byggð um alhvíta jörð. Á Grímsstöðum mældist einnig mesti kuldi í byggð -0,2 stig, þ. 23. og 25. en eins stigs frost mældist á báðum hálendisstöðvunum, á Hveravöllum og í Jökulheimum.
Frost hefur ekki mælst í júlí á suðurlandi, allt frá Hornafirði og vestur um til Reykjavíkur (nema á Hólmi við Rauðhóla) og ekki t.d. í uppsveitum á suðurlandsundirlendi (nema Þingvöllum) og á flestum stöðvum alveg upp á Snæfellsnes og Vestfirði allt að Ísafjarðardjúpi. Annars staðar á landinu hefur víðast hvar mælst frost en þó ekki á Austfjörðunum.
Árið 1963 munaði þó mjóu að frost gerði í Reykjavík. Þegar norðanátt hafði ríkt í hálfan mánuð með kuldum kom þann 21. lægð úr suðvestri og varð sums staðar 10-12 vindstig af austri og norðaustri en daginn eftir fór lægðin fyrir suðausturland. Þá varð mjög hvöss austan-og norðaustanátt og rigndi mikið um land allt. Kólnaði síðan með norðanátt og slydduhríð nyrðra svo Siglufjarðarskarð tepptist af snjókomu. Þetta skarð var reyndar alltaf að teppast vegna snjókomu en nú er búið að leggja það niður. Jörð var talin alhvít einn dag á Grímsstöðum. Víða snjóaði þó til fjalla og jafnvel niður undir tún á bæjum sem hátt standa, jafnvel á vesturlandi, t.d. Kalmannstungu. Þann 21. hafði hitinn komist í 16 stig í Reykjavík en nú kólnaði mjög. Þann 23. var sex stiga hiti á hádegi í borginni og fór hitinn ekki hærra en í 8,3 stig þann dag í stífri norðanátt og sólarlitlu veðri. Mesti landshiti var óvenjulega lágur, 14,2 stig á Sámsstöðum. Um kvöldið þ. 24. lægði og um nóttina í bjartviðri fór hitinn í Reykjavík í 1,4 stig sem er lægsti hiti sem þar hefur mælst í júlí en var 3 stig á athugunartímum bæði kl. 3 og 6 um nóttina. Á Víðistöðum við Hafnarfjörð fór hitinn í 0,1 stig og mjög víða á suður og vesturlandi mældist minnsti hiti sem þar hefur mælst í júlí. Ekki fraus þó á þeim slóðum nema á Hólmi við Reykjavík, -0,3 stig. Næsta dag fór veðrið að færast í eðlilegt horf. Þetta kuldakast er það mesta sem komið hefur í júlí eftir 1949 hvað varðar meðalhita í Reykjavík Stykkishólmi, Akureyri og Kirkjubæjarklaustri til samans. Þetta er ef til vill ekki ýkja nákvæmur mælikvarði, en ég held samt að ég fari nærri köldustu dögunum og hef líka haft hliðsjón af veðurlýsingum í Veðráttunni. Enginn dagur hefur orðið eins kaldur í júlí að meðaltali í Reykjavík frá og með 1936 og sá 23. en þá var meðalhitinn 5,8 stig, en næst kaldasti júlídagurinn á Akureyri frá 1949 er sá 24., 3,8 stig.
Næst kaldasti júlídagur miðað við þessar fjórar veðurstöðvar er sá 7. árið 1995 og dagurinn áður er sá 4. kaldasti (nr. 3 er 30. júlí 1965). Dagarnir 6.-7. júlí 1995 voru því meiriháttar kuldakastsdagar. Lægð hafði myndast á Grænlandshafi þ. 4. og þokaðist úrkomusvæði hennar norðaustur yfir landið með hvassri austan-og síðan norðaustanátt með rigningu. Veðrið var sérlega slæmt á norðvestanverðu landinu. Mikil rigning var víða um land, 68 mm voru mældir að morgni þ. 5. á Kvískerjum, en næsta morgun mældust víða 20-30 mm á norðaustanverðu landinu. Á Vestfjörðum var þ. 5. norðaustan hvassviðri og slydda, en næsta dag var allhvöss norðanátt um land allt. Það rigndi víða, en slydda var til fjalla norðanlands, en fyrir sunnan var þurrt. Frost mældist á stöku stað í þessu kuldakasti, t.d. -0,8 stig á Stafholtsey í Borgarfirði. Jörð varð alhvít þ. 6. á Mýri í Bárðardal og sama dag og daginn eftir í Möðrudal, en snjódýpt var ekki mæld. Á Akureyri var sá 6. kaldasti júlídagurinn þar að meðalhita frá 1949, 3,7 stig.
Kuldakastið tvo síðustu dagana í júlí 1965 stafaði af hæð yfir Grænlandi en yfir Norðurlöndum var alldjúp lægð og kaldur norðlægur loftstraumur fór yfir landið. Fyrri daginn voru 8-9 vindstig á stöku stað. Þann dag var nokkurt sólskin í Reykjavík en annars var alls staðar sólarlítið og rigndi nokkuð fyrir norðan og austan. Á Grímsstöðum var alhvít jörð þ. 30. Þá var var norðaustanstinningskaldi á landinu og 7 stiga hiti í Reykjavík á hádegi en rigning og 6 stig á Akureyri.
Kaldasti júlídagur á Kirkjubæjarklaustri frá 1932 er 7,6 stig, þ. 4. 1983. ´
Minnsti hámarkshiti á landinu á júlídegi frá 1949 er aðeins 12,7 stig, þ. 2. 1973 á Hallormsstað. Þá var hæg austlæg eða norðaustlæg átt, en síðar breytileg og lægðardrag yfir landinu, nokkur rigning eða súld norðanlands, en él til fjalla og sunnanlands voru sums staðar skúrir. Hiti þennan dag var 3 stig undir meðallagi á landinu en daginn áður 3 og hálft stig, en þá mældist mesti hiti á landinu 13,7 stig sem líka er óvenjulega lítið. Næst minnsti hámarkshiti sem mælst hefur á júlídegi á landinu frá 1949 er 13,1 stig þ. 21. árið 1970 á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Kuldar voru viðloðandi landið mestallan þann júlí. Minnsti hámarkshiti sem mælst hefur í Reykjavík frá 1936 frá morgni til kvölds er 7,6 stig þ. 23. 1998. Þá var vestanátt og rigning eins og hún getur leiðinlegust orðið með kuldapolli í háloftunum yfir vestanverðu landinu. Árið 1885 fór hitinn ekki í tíu stig fyrstu fjóra dagana í júlí í Reykjavík og var minnstur þ. 2., svo mikið sem 6, 6 stig. Ekki er ljóst hver meðalhitinn var þann dag en ekki hefur hann verið mikill!
Snjór í júlí: Það snjóar sjaldan í júlí svo festi en kemur þó fyrir. Oftast er það í hærri byggðum fyrir norðan eða á útskögum og hefur snjó fest á þeim slóðum og verið alhvít jörð þegar slíkt er athugað kl. 9 að morgni. Einstaka sinum snjóar á suðurlandi en þann snjó festir ekki nema hvað eitt tilfelli kannski varðar síðustu 150 árin eða svo, 1866. Slyddu verður oft vart í júlí og er hér yfirleitt ekki getið sérstaklega, en sagt verður frá þeim júlímánuðum þar sem snjóað hefur á landinu. Heimildin er Veðráttan og Veður á Íslandi í 100 ár eftir Trausta Jónsson.
1998 Alhvítt í Möðrudal þ. 23. Gránaði niður í byggð í Svartárkoti. Alhvítt var tvo morgna við Bláfellsskála í 800 m hæð.
1995 Sjá hér að ofan.
1993 Sums staðar á norðausturlandi snjóaði í strekkingsnorðanátt aðfaranótt þ. 10. en ekki festi þó snjóinn.
1986 Að morgni þ. 6. var grátt í rót á Hveravöllum.
1985 Alhvítt var í Birkihlíð í Skriðdal þ. 19. og var snjódýptin 2 cm. Víða var getið um snjókomu og slyddu í hretum um miðjan þennan mánuð.
1983 Í þessum kalda júlímánuði var alhvít jörð á Grímsstöðum þ. 18. og 1 cm snjódýpt á Hveravöllum þ. 17. og 18.
1979 Mjög kaldur mánuður. En ekki varð jörð alhvítt að morgni þó slydda væri víða norðanlands þ. 12. og 13. og festi þar sums staðar snjó í nokkrar klukkustundir en hann var horfinn að morgni. Einnig var getið um slyddu þ. 11. í Stóra-Botni í Hvalfirði, Skógum undir Eyjafjöllum og Reykjum við Hveragerði.
1973 Þá varð vart við slyddu og jafnvel snjókomu á hálendinu þ.1.-4. og aftur þ. 20. en snjó festi ekki nema í Nýjabæ í mikilli hæð á hálendisbrúninni upp af Eyjafirði.
1970 Í þessum afar kalda mánuði var alhvít jörð einn dag á Mýri í Bárðardal, Grímsstöðum og Brú í Jökuldal. Snjódýpt á Brú var 6 cm þ. 9. en 4 cm á Grímsstöðum og 1 cm á Mýri. Á Hveravöllum var alhvítt í tvo daga. Í norðankastinu aðfaranótt þ. 10. snjóaði niður undir byggð á Þingvöllum þó ekki festi snjó.
1969 Alhvítt var á Grímsstöðum þ. 5. og snjódýpt 1 cm. Í Jökulheimum var einnig alhvítt þ. 17.
1967 Þá var alhvítt á Grímsstöðum þ. 20. og 28. og mældist snjódýptin 1 cm báða dagana. Á Hveravöllum var alhvítt einn dag og svo virðist eftir Veðráttunni sem ekki hafi verið alautt á Húsavík allan mánuðinn.
1966 Sjá hér að ofan.
1965 Á Grímsstöðum var snjódýptin 2 cm þ. 30.
1964 Snjóél voru þ. 8. á Kjörvogi á Ströndum og Grímsstöðum.
1963 Sjá hér að ofan
Eins og lesa má var sjöundi áratugurinn sérlega slæmur hvað snjó varðar í júlí.
1958 Snjódýptin á Grímsstöðum mældist 3 cm þ. 26. Í Möðrudal var líka alhvítt en snjódýpt ekki mæld.
1956 Síðustu þrjá dagana var snjór á jörðu í Möðrudal en ekki er ljóst af Veðráttunni hvort jörð var alhvít.
1954 Aðfaranótt þ. 4. snjóaði niður í byggð á norðausturlandi og varð jörð alhvít einn morgun í Reykjahlíð við Mývatn.
1952 Það snjóaði með hvassri norðanátt þ. 11. og í Möðrudal voru þrír dagar taldir alhvítir.
1947 Þá snjóaði niður undir byggð þ. 7. í norðaustan hvassvirði á Þingvöllum.
1945 Um þ. 24. snjóaði í fjöll fyrir norðan.
1943 Á Horni í Hornvík á Ströndum mældist snjódýpt 5 cm þ. 28. Þetta mun vera mesta snjódýpt sem mæld hefur verið á veðursstöð á láglendi en víkin er í aðeins 17 m hæð. Hafís var úti fyrir Hornströndum allan þennan mánuð og síðari hlutann rak hann inn á Húnaflóa og varð sums staðar landfastur.
1942 Þá snjóaði að vísu ekki en þ. 27. mældist frostið -1,0 stig á Þingvöllum og er það eina skiptið sem þar mældist frost meðan athugað var í um það bil hálfa öld og eina skiptið sem veðurstöð á suðurlandsundirlendi hefur mælt frost í júlí.
1939 Þessi afburða hlýi júlímánuður byrjaði reyndar með miklu kuldakasti og þ. 3. var alhvít jörð á Grímsstöðum.
1932 Á Hornbjargsvita hvítnaði niður að sjó þ. 2. og sama dag snjóaði líka á Svalvogum og einnig daginn áður.
1931 Þá snjóaði í fjöll á suður-og suðausturlandi þ. 2. og 3.
1920 Þá snjóaði í heiðabyggðum norðanlands kringum þ. 20.
1915 Fyrir norðan var þetta afar kaldur mánuður og víða snjóaði um þ. 10.
1912 Þá snjóaði í mánaðarlok í byggð fyrir norðan.
Á nítjándu öld og fyrr má finna ýmsar snjóalýsingar í júlí í annálum og í riti Þorvaldar Thoroddsens, Árferði á Íslandi í þúsund ár. Það má þó áreiðanlega slá því föstu að snjó hefur fest á jörðu einhvers staðar í byggð á Íslandi í júlí miklu oftar en heimildir eru fyrir um.
Þessi tilvik getur Þorvaldur um, en einstaka sinnum er bætt inn eftir öðrum heimildum og er orðréttum texta Þorvaldar ekki alveg fylgt.
1885 Fyrri hluta júlímánaðar var allvíða enn þá ekki leyst af túnum á Austurlandi og frost og snjóar öðru hvoru allt til þess tíma og eins í Þingeyjarsýslu og víðar nyrðra. Á Vesturlandi kól tún víða jafnóðum og af þeim leysti, og í júlíbyrjun var víða varla fært yfir fjallvegi öðru vísi en skaflajárnað og stundum ókleyft fyrir snjónum og frosthríðum.
1892 Ákaft hret kom 7.-9. og snjóaði ofan í sjó á norðurlandi. Og hvarf snjórinn ekki að fullu úr byggðum í viku.
1882 Þetta sumar varð tíu sinnum alsnjóa einhvers staðar fyrir norðan frá Jónsmessu til réttar og áreiðanlega einhvern tíma í júlí þó þess sé ekki getið sérstaklega.
1875 "Hinn 10. júlí gerði í ofanverðum Biskupstungum dæmafáa haglhríð í hitaveðri. Haglkornin voru á stærð við tittlingsegg og mörg þrjú föst saman. Á tveim stundum huldu þau alla jörð, svo að varla sá í gras, og var fönnin svo hörð, að varla markaði spor. Hríðinni fylgdi ofsastormur með ógurlegum þrumum og eldingum, og töldu menn alt að 100; hríðin stóð í þrjár stundir. Ekki kom hún nema yfir lítið svæði, en gjörði þar talsverðar skemmdir: kál barðist niður í görðum, gras sligaðist og brotnaði, en lauf barðist af skógum." Ljóst er að þarna var um haglél að ræða en ekki snjókomu en frásögnin er vægast sagt sérstæð og er hér því átin fylgja með.
1873 Þá snjóaði á Ströndum í öllum sumarmánuðum.
1866 Um mánaðarmótin júní og júlí gengu krapaél og rigningar sem snérust upp í dimmviðrisbyl (eftir að kom fram í júlí) með mikilli snjókomu svo alsnjóa varð sums staðar í byggð á suður-og vesturlandi.
1865 Hinn 13.-15. gengu landnorðanhvassviðri sem keyrðu niður mikla fönn á útsveitum og til fjalla, nokkuð fé fennti í Miðdölum og á Holtavörðuheiði varð að bera klyfjar af hestum vegna snjóa.
1856 Snjóaði í byggð við Mývatn 7. júlí.
1821 Þorvaldur getur um að erlendur vísindamaður hafi fengið kalfaldsbyl með tveggja stiga frosti í Kelduhverfi 15. júlí, en varla hefur það þó verið um hádaginn en mjög kalt var þetta sumar.
1812 Þá var júlí harður með kuldum og hríðum sem á vetri væri fyrir norðan.
1807 Nautajörð tók af í júlí í Skagafirði, að því er virðist vegna kulda og bleytu kafalds, hugsanlega slyddu eða snjókomu en þá voru miklir kuldar.
1802 Nálægt fjallabyggðum snjóaði kringum þ. 19. Þá varð Esjan grá niður að fjallsrótum, segir Sveinn Pálsson í dagbók sinni, en Þorvaldur getur þessa ekki.
1796 Þá gjörði allvíða 5.-8. júlí norðanhörkur með kaföldum, svo að mannhjarn gerði sums staðar á mýrum og álnardjúpar fannir lagði ofan að byggðum við fjallgarða, einkum í Húnavatnssýlu.
1782 Á þessu afbrigðilega kalda sumri, þegar gras spratt ekki á túnum í köldustu sveitum á norðausturlandi, er ekki ólíklegt að snjóað hafi á landinu.
1773 Þegar eftir þing (í júlíbyrjun) gerði stóráfelli með fjúki og snjó, svo lá við að þingmenn að norðan mundu verða úti á fjöllum og stóð hríðin í 6 dægur.
1756 Á norðurlandi voru stundum hörkufrost og snjóar í júlí-og ágústmánuðum, 26. júlí kom álnardjúpur snjór, og eigi varð vegna snjóa farið að slá fyrr en 25. ágúst, þegar hafísinn fór frá landinu.
1648 Þetta sumar hindraði ófærð menn til að koma til þings en þingtíminn mun hafa verið nærri júlíbyrjun eftir nýja stíl sem þá var reyndar ekki enn búið að innleiða Íslandi.
Hér fyrir neðan má sjá veðurkort frá hádegi á Íslandi kuldadagana miklu 1966, 1963 og 1995 ásamt yfirlitskortum um hita í efri byggðum, kringum 5 km hæð, þar sem líka sjást þrýstilínur við jörð og önnur frá því ca í hæð Snæfellsjökuls þar sem hiti sést í þeirri hæð með glæstum litum.
Flokkur: Veðurfar | 1.9.2008 | 23:32 (breytt 22.7.2009 kl. 17:23) | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Athugasemdir
Ég var að bera saman bækur og sé að það var 20 stiga hiti í Reykjavík þann 3. júlí 1995 og svo hófst kuldakastið bara þremur dögum síðar. Þetta hafa verið öfgar.
Emil Hannes Valgeirsson, 2.9.2008 kl. 00:52
þetta er köld og góð færsla en afhverju er Afríka svona fallega bleik og við græn? það er pínu ósanngjarnt...
halkatla, 2.9.2008 kl. 16:45
Við erum svo miklir græningjar en Afríkumenn eru eins og bleikir pardusar.
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.9.2008 kl. 17:19
Ég fæ alltaf hláturskast þegar ég sé að komin er veðurfærsla - hálftíma skroll niður síðuna - baara fyndið ...
z (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 17:20
Z- en þeim hálftíma er sko vel varið! Farðu svo að blogga aftur asnakjálki!
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.9.2008 kl. 18:10