Fasismi stig af stigi

Fréttir fjölmiðla af innrás lögreglunnar og húsleit hjá hælisleitendum í Njarðvík vekja undrun mína. Þær virðast ekki vera neitt nema endurómur af yfirlýsingum lögreglunnar. Hvergi reyna fjölmiðlar að kafa undir yfirborðið. 

Hælisleitendur eru í afar viðkvæmri stöðu. Vel getur þó verið að þar séu einhverjr svartir sauðir með óhreint í pokahorninu, en í öllum fréttaflutningi hefur verið fjallað bara um "hælisleitendur" með engri aðgreiningu. Fréttirnar hafa verið þannig að þeir sem lesa þær eða heyra hljóta að fá vægast sagt neikvæða mynd af hælisleitendum.

Fréttaflutningurinn túlkar nær eingöngu sjónarmið lögreglunnar. Hann er ekki sjálfstæður fyrir fimm aura. Ég nefni sem dæmi að fyrirsagnir frétta hafa gjarnan verið að "rökstuddur grunur" hafi verið um eitthvað misjafnt. Meiningar lögreglunnar eru gerðar að óyggjandi sannleika í stað þess að líta þær gagnrýnum augum.

Með þessari aðgerð hefur lögreglan, með stuðningi yfirvalda auðvitað, opinberlega stimplað hælisleitendur almennt á Íslandi sem glæpamenn eða að minnsta kosti viðsjárvert fólk. Þessi aðgerð var fyrst og fremst gerð til að þjarma að hælisleitendum, terrorisera þá, skapa í viðkvæmum aðstæðum þeirra ótta, skelfingu og varnaleysistilfinningu. Svo er ósvífnin fullkomnuð með því að aðgerðin muni eiga eftir hraða afgreiðslu mála um hælisleitendur hjá Útlendingastofnun. Þetta hafi allt verið gert hælisleitendum til góða!

Og fjölmiðlar virðast láta þetta gott heita, éta þetta upp eftir lögreglunni og Útlendingastofnun athugasemdalaust.

Út yfir tekur þegar lögreglustjórinn á Reykjanesi, Jóhann R. Benediktsson, hneykslast á því að peningar skuli hafa fundist í fórum hælisleitenda sem séu á forræði ríkisins. Peningana gerði hann upptæka án þess að spyrja hvernig þeir væru fengnir.

Hann stal þeim.

Lögreglustjórinn er reyndar kapituli út af fyrir sig.

Hann er sífellt með kjaftinn á lofti með bullandi stóryrði. Hann  viðhafði í einhverju sakamáli stórkarlalegar yfirlýsingar í fjölmiðlum um einhvern mann og það var allt rekið ofan í hann af dómstólum. Þá hafði hann samt, þessi orðhákur, ekki manndóm til að biðjast afsökunar en það sljákkaði hins vegar verulega í honum svona rétt í bili þegar Ríkisútvarpið talaði við hann.

Það var þessi maður sem hlakkaði opinberlega yfir fangelsisdómi umkomulausra útlendinga sem reyndu að komast úr fátækt heima hjá sér með "vafasömum" hætti til vesturlanda. Eitt er að láta sig hafa það að framfylgja lögum, annað að hlakka opinberlega yfir ógæfu annarra. En það gerði lögreglustjórinn fyrir augum allrar þjóðarinnar.

Það var þjösnaskapur þessa lögreglustjóra sem fékk einhvern mann sem kom til landsins, enginn vissi í rauninni hvaðan hann kom en talið var fullvíst að hann væri múslimi, til að fremja sjálfsvíg á Keflavíkurflugvelli meðan hann beið þess að verða sendur úr landi. Aldrei kom svo fram hvað varð um líkið. Kannski var það bara brennt hér á landi en samkvæmt múslimskum hætti er lagt blátt bann við því að brenna lík. Kanski var lík þessa manns svívrt. 

Já, lögreglustjórinn á Reykjanesi kann vel til verka.

Hér er aðeins fátt eitt talið af afrekum þessa dæmalausa lögreglustjóra og nú kórónar hann þau með botnlausum fordómum í garð hælisleitenda.

Orð hans ættu að vera brottrekstrarsök. En enginn segir neitt. Yfirvöld líta til þessa gífuryrta semifasista með velþóknun og fjölmiðlar yppta einungis öxlum.

Hvað er eiginlega að fjölmiðlunum og hvað er að þjóðinni að geta þolað þetta lögreglustjóragerpi?  

Og nýjustu fréttir eru að forstjóri Útlendingastofnunar vill ólmur þrengja að hælisleitendum í framtíðinni. Það verður örugglega gert. Og lögregluaðgerðin átti að plægja jarðveginn.

Svona skapast fasisminn stig af stigi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mæl þú manna heilastur!

Rómverji (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 13:18

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er fínt að bloggarar tjái sig um mannréttindamál og gæti mannréttinda þeirra sem ekki geta varið sig sjálfir.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.9.2008 kl. 16:05

3 identicon

Það er engin ástæða til þess að vera hissa á fréttamennskunni, það er bara hefð hér að gagnrýna lögguna ekki.

Þessi lögreglustjóri er ekki einn um að vera vafasamur. Hvað með ríkislögreglustjórann? Kærður fyrir að hóta manni lífláti á bar, en löggan týnir rannsóknargögnum....

Fasistmi á leiðinni? Rótgróinn og áberandi til staðar. Ertu búinn að gleyma Rauðavatni?

Hvað með allar kærunar á hendur lögreglumönnum sem eru felldar niður af ríkissaksóknara?

Það vantar bara umfjöllun um þessi mál. Það eru allt of margir sem engu illu trúa upp á lögguna, sem er kannski ekki skrýtið miðað við fréttamennskuna.

Það þarf að hreinsa VEL til!

SVo er nú spurning hvort í lagi sé með manninn sem er yfir þessu öllu og sér til þess að hylma yfir skíhælunum....Björn Bjarna dóms og kikjumálaráðherra?

Fasistmi? Veistu af frumvarpi þessa manns um "forvirku rannsóknarheimildirnar"?? Bara sjúkt.

magus (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 16:06

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Mitt innlegg er eflaust óvelkomið, en það er þó undir fullu nafni eins og Salvarar. 

Hvað með marokkómanninn sem var einn af þeim sem upp komst um í þessari leit; með franskt vegabréf?  Hvað með hina 9 eða 10 sem einnig reyndust hælisleitendur  á fölskum  forsendum (sem kosta þjóðfélagið 2 og hálfa milljón á ári per einstakling).?  Þannig fólk eyðileggur einfaldlega fyrir þeim sem raunverulega þurfa hæli - og þá er ég EKKI að tala um peningahlið málsins. 

Væri þjóðin fullkomlega sjálfstæð og utan Schengen/EES gætum við hleypt öllum inn sem vilja koma hingað - en komin hálfa leið í ESB er okkur skylt að halda samninga og þóknast bjúrókratinu í Brussel. 

Kolbrún Hilmars, 12.9.2008 kl. 19:45

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þitt innleg Kolbrún er algerlega velkomið!

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.9.2008 kl. 19:52

6 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Það er einhver mikil fyrirlitning í gangi gagnvart hælisleitendum, enginn skilningur, engin virðing eða kurteisi. Sammála þér með að eflaust eru þarna svartir sauðir sem eyðileggja fyrir hinum en hvers vegna að koma fram við þá alla sem svarta sauði?

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 13.9.2008 kl. 00:57

7 Smámynd: Beturvitringur

"Það er einhver mikil fyrirlitning í gangi gagnvart" [flugfarþegum], "enginn skilningur, engin virðing eða kurteisi... eflaust eru þarna svartir sauðir sem eyðileggja fyrir hinum en hvers vegna að koma fram við þá alla sem svarta sauði?" (KolHil)

Kolbrún ég bið þig velvirðingar á að hafa vitnað svo til beint til þíns texta í aths hjáSigÞorGuð. Þú sérð vonandi ástæðuna núna, sem ég vona að skýri viðhorf og sé hugsanlega ábending.

Beturvitringur, 13.9.2008 kl. 01:15

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ágæti Beturvitringur - það var nú algjör tilviljun að ég datt hérna inn aftur svona rétt fyrir svefninn og sá þessa fínu tilvitnun þína.  Mér er svosem sama en það er ekki víst að Guðríður sé ánægð.

Ja hérna, Sigurður, ég þori varla að kíkja við hjá þér aftur....

Kolbrún Hilmars, 13.9.2008 kl. 01:42

9 Smámynd: Beturvitringur

Heyrðu JÁ. Takk fyrir að benda mér á. Ég sem ætlaði svoleiðis að gæta alls velsæmis og brjóta hvorki siða- né gæsalappareglur!!! og druslast svo ekki einu sinni til að nefna néttan textaeiganda!

Ágæta Guðríður Haraldsdóttir, fór "mannavillt" þar sem ég biðst velvirðingar. KolHil benti mér á það. Held að glóran sé sofnuð og ég sé það ekki (svona reynir maður að klóra yfir, - sjaldnast heil brú hjá mér)

Beturvitringur, 13.9.2008 kl. 01:56

10 identicon

Ég legg til að við skiptum út núverandi Tindátahöfðingja .... afsakið dómsmálaráðherra.  Það er undir hans stjórn sem Draumalandið okkar hérna á Klakanum hefur verið að breytast í lögregluríki.   Farið hefur fé betra.  Löngu orðið tímabært að einhver annar fái að spreyta sig í því embætti.  Vonandi gerist það á þessu kjörtímabili.  Ingibjörg Sólrún væri örugglega fín í þá stöðu - nema ég vil frekar fá hana sem forsætisráðherra, í stað Geirs Harða.  Einhverjar tillögur?

PS.  Ég vona að Mali krútt sé búinn að ná sér af áfallastreituaðskilnaðarröskunarheilkenninu (er þetta samsett nýyrði hjá mér?).

Malína (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 03:39

11 Smámynd: Sævar Einarsson

Ég er sammála þér með þennan tindáta, en ég var að horfa á fréttirnar í gær og horfði á viðtölin við suma af þessum hælisleitendum sem voru búnir að vera hérna í rúmt ár eða lengur og fannst mér það skrítið að allir töluðu þeir sitt tungumál eða ensku. Ef ég væri að flytja búferlum til lands sem tungumál er talað sem ég skil ekki, þá myndi það vera í forgang hjá mér að læra viðkomandi tungumál, þetta fannst mér furðulegt.

Sævar Einarsson, 13.9.2008 kl. 10:15

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ekki var talað við marga og ekki veit maður bakgrunn þeirra í sambandi við tungumálanámið eða hvað þeir eru lunknir í að læra þau. En á tilfinningaþrunginni stundu þegar mönnum er mikið niðri fyrir grípa menn auðvitað til þess tungumáls sem þeir hafa mest vald yfir og viðmælandinn skilur. Þetta er því ekki neitt furðurlegt.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.9.2008 kl. 10:47

13 identicon

Takk fyrir þetta Sigurður,

Ég fór í gær til Njarðvíkur, og hef farið einu sinni áður í heimsókn til hælisleitenda. Margir þeirra tala ensku og það er lítið mál að skilja og ræðast við. Afghanarnir geta sagt nokkrar krassandi Talíbanasögur og hýbýli þessara manna eru forvitnilega illa út lítandi - enda geta þeir varla búið sér til heimili þegar þeir vita aldrei hvenær löggan sækir þá og sendir þá burt: á morgun, eftir viku eða 3 ár?

Í gær talaði ég síðan við einn þeirra sem ég hef ekki hitt áður, mann frá Evrópulandi sem er með svipaða menntun og ég - og er á flótta vegna pólitískra greina sem hann skrifaði og eiga ekki upp á pallborðið í heimalandi hans. Við ræddum saman um ákveðnar greinar innan heimspeki samtímans sem við erum bæði að lesa. Hann sagði að í þeirri Evrópu sem hann þekkti hefði það sem gerðist á hælinu í fyrradag verið stórhneyksli - hann sagði að aðfarir lögreglu hefði verið svívirðilegar miðað við okkar evrópska "siðmenntaða heim" og eins undraðist hann á því að lögreglan hefði ekki komið út og  sagt eitthvað þegar hælisleitendurnir mótmæltu fyrir framan lögreglustöðina - slíkt væri gert í þeim Evrópulöndum sem hann þekkti til í. 

 Ég spurði hann af hverju í ósköpunum hann hafði komið til Íslands en hann svaraði að ímyndin af landinu væri góð í Evrópu - fólk héldi að hér ríkti frelsi, friður og lýðræði. Hann hefði ákveðið að flýja hingað eftir að hafa heyrt slíkt, og lesið það sama á t.d. netinu. Raunin varð hinsvegar allt önnur.

Um leið og hann sagði þetta keyrði vörubíll fram hjá okkur. Hann flautaði háværri vörubílaflautunni að þeim cirka 40 manns sem voru þarna (20 sögðu fréttirnar ranglega og tóku viðtal við lang-æstasta manninn) og stakk þumlinum út um gluggan og niður - og púaði þannig á þennan mann og fólkið allt: fólk sem hefur m.a. þurft að flýja Talíbana, stríð og vegna gagnrýni sínar á stjórnafar í heimalandi sínu.

Ég skammast mín ekki oft - en þarna langaði mig til að segja: "Já Íslendingar... bíddu? Nei... nei, ég þekki þá bara af afspurn. Ég er ekkert tengd þeim annars".

Í annan stað finnst mér skrýtið að fólk megi ekki leita hingað þótt það hafi dvalarleyfi annarsstaðar. Ef maður frá Alsír hefur dvalarleyfi í Frakklandi, er ekki hægt að ætla að hann vilji samt heldur vera hér en þar? Getur ekki verið að hann eigi samt erfitt líf í Frakklandi?

Og í þriðja lagi. Mér datt í hug að gefa einum manni örlítinn pening þarna um daginn til að eiga fyrir nokkrum sígarettupökkum. Hefði sá peningur ekki verið gerður upptækur líka? Áætlaði lögreglan að allur peningur þarna væri illa fenginn? Og af hverju ráðast þeir ekki þá heldur á þá sem ráða svona fólk í svarta vinnu?

1.6 milljón eru 40.000 krónur á hvern hælisleitenda kjaft. Þetta fólk hefur ekki efni á almennilegum mat - því það má ekki vinna. Og það að fjölmiðlar leyfi sér að reikna út hvað það kosti "okkur" að halda þessu fólki uppi á nánast engu er ógeðslegt - eigum við kannski að gera það líka við fatlaða og þroskahefta líka? ÞEtta fólk vill vinna, en má það ekki. Það vill ekkert lifa á þessu hæli. Fyllerí bankana og allt það sem dynur yfir okkur núna kostar margfalt margfalt margfalt meira

Bryndís (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 12:13

14 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Takk fyrir þetta Bryndís. Lögreglan kom ekki út af því að hún var að sýna hælisleitendum fyrrlitningu. Það fyllir mann áhyggjum af "siðmenntum" Íslendinga hvað allir nema nokkrir bloggarar eru sinnulausir um þetta mál að ekki sé talað um fjölmiðla. En á blogginu eru komnar fram aggressívar raddir gegn hælisleitendum, fullar af fordómum og alhæfingum og fjandskap. Til þess var leikurinn líka gerður: Að skapa læviblandfið andrúmsloft og skapa tortryggni og andúð í garð hælisleitenda.  Það einfaldlega blasir við. Og þetta er líklega bara byrjunin. 0g Íslendingar virðasat láta sér vel líka. Þetta atvik er miklu alvarlegra en ljóðmæðraverkfall t.d., hefðbundin vinnudeila sem mun leysst. Allir tala um hana, fáir um húsleitina. Það finnst mér segja sína sögu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.9.2008 kl. 12:37

15 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Bryndís, hrikalegt að lesa kommentið þitt.  Maður sárskammast sín fyrir að vera Íslendingur!

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 13.9.2008 kl. 15:37

16 identicon

Sæll, Sigurður og takk fyrir góða færslu.

Hér er grein frá síðasta ári, sem kallast á við þína:

http://www.guardian.co.uk/world/2007/apr/24/usa.comment

Haukur Már Helgason (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 01:51

17 identicon

Er annars nokkuð í íslenskum lögum um að þeim sem leita hér hælis sé bannað að eiga peninga? Ég skil ekki hvernig lögreglan getur bara vaðið inn og tekið af þessu fólki peninga svo framarlega sem ekki liggur fyrir rökstuddur grunur um að þeir séu illa fengnir.

Væri ekki ástæða fyrir lögregluna að gera ærlega rassíu hjá öryrkjum og ellilífeyrisþegum til að athuga hvort þeir hafi komist upp með þá svívirðu að leggja fyrir peninga af greiðslum frá heiðvirðum skattborgurum?

Jón Bragi (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 13:01

18 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Árétting: Ég hef gengið lengra í orðum gegn Jóhanni R. Benediktssyni en ég hef áður gert gagnvart nokkrum manni hér á blogginu. Ég tek fram að orðin eiga við um hann sem embættismann. Og sem slíkur tel ég að hann sé einhver hættulegasti maður landsins og menn af hans tagi séu sérlega skeinuhættir hverju sæmilega siðuðu þjóðfélagi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.9.2008 kl. 15:46

19 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sigurður, þetta var virðingarverð árétting frá þér því það er oft sitthvað; persónan og embættismaðurinn.

En svona fyrir sjálfa mig; ef íbúðin mín fyllist af óværu þá hringi ég frekar í kaldrifjaðan meindýraeyði en hjálpræðisherinn.

Kolbrún Hilmars, 14.9.2008 kl. 16:13

20 identicon

"[...] Og sem slíkur tel ég að hann sé einhver hættulegasti maður landsins [...]"

Ásamt 'þvagleggskarlinum' á Selfossi.

Malína (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 16:34

21 identicon

Hvaða óværu er Kolbrún annars að tala um?  Eru hælisleitendur óværa?

Malína (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband