Þegar ég var tónlistargagnrýnandi

Um daginn hringdi í mig maður til að spyrjast fyrir um tiltekna tónlistargagnrýni sem ég skrifaði fyrir mörgum árum.

Þetta rifjaði upp fyrir mér að ég var tónlistargagnrýnandi æði lengi og skrifaði um klassíska tónlist. Eins og svo margt annað í lífinu varð það fyrir tilviljun. Ég átti vin sem var góður kunningi Jóns Baldvins Hannibalssonar sem ég þekkti aðeins lítillega. Hann dubbaði þennan vin minn upp í það að verða leiklistargagnrýnandi á Alþýðublaðinu þar sem Jón Baldvin var þá ritstjóri. Og einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég fylgdi með í kaupunum sem tónlistargagnrýnandi. Þetta var í júní 1980.

Á Alþýðublaðinu var ég í þrjú ár. Næst lá leið mín á Helgarpóstinn.

Lengst var ég þó á gamla góða Þjóðviljanum en þar var ég frá því haustið 1987 og þar til blaðið fór á hausinn. Eftir það var gefið út helgarblað á vegum Þjóðviljans og þar krítiseraði ég alveg vilt og galið.

En það blað fór líka á hausinn. Um tíma var ég þá á DV.

Síðan liðu nokkur ár og ég var ekki að gagnrýna eitt né neitt. Hustið 2004 gerði Páll Baldvin Baldvinsson mig að tónlistargagnrýnanda DV. Þar var ég svo þar til blaðið fór á hausinn. Allir fjölmiðlar fara á hausinn sem ég krítisera fyrir. Seinna var Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir - Tóta pönk - menningarritstjóri á DV og heyrði ég undir hana. Við urðum þá miklir mátar og hún er ein af uppáhaldsvinkonum mínum. Hún elskar líka Þórberg eins og ég gerði einu sinni. Nú er ég búinn að sjá í gegnum hann!

Það skiptist nokkuð í tvö horn hvernig mönnum fannst gagnrýni mín. Sumir voru voða hrifnir, þar með taldir ýmsir meiriháttar tónlistarmenn en aðrir ekki. Ég var ekki í neinum klíkum í tónlistarheiminum enda ekki tónlistarmaður. Ég lá auðvitað vel við höggi fyrir það. Og mér fannst óþægilegt að skynja þykkju og þótta í minn garð frá sumum. Hann kom ekki síst fram þegar menn voru orðnir fullir. Stundum var skrifað gegn mér í blöðin, en ekki þó oftlega. Ég var stundum óhefðbundinn í skrifum mínum og held að það hafi truflað ýmsa. En oft var ég líka mjög hefðbundinn.

Það ríkti á Íslandi mikil fyrirlitning á tónlistargagnrýnendum meðal tónlistarmanna, sumra að minnsta kosti. Tónlistarmenn hafa oft verið hörundssárir vegna gagnrýni. Hins vegar virðist það hafa verið alveg sjálfsagt að þeir létu óhefta fyrirlitningu sína á gagnrýnendum í ljósi og auðmýktu þá á prenti eins og hver vildi. Sumir tónlistarmenn virðast blátt áfram hafa haft nautn af því að lítillækka þá með smánarlegum orðum. Það þótti alveg sjálfsagt. Þannig var mórallinn. Nú er tónlistargagnrýni útdauð nema á Morgunblaðinu þar sem þrengt hefur þó verið svo að henni að hún er hvorki fugl né fiskur.

Ég var ungur þegar ég byrjaði að krítisera. Kannski var ég fyrstu árin dálítið óvæginn og sé eftir sumum dómum. Með árunum hefur mér fundist það vera eitt af keppikeflunum  í lífinu að sýna öðru fólki ekki tillitsleysi. Hins vegar er náttúrlega óhjákvæmilegt að gagnrýna það sem miður fer í listdómum, jafnvel harðlega. En ekki er þó sama hvernig það er gert.

Já, ég er orðinn eitthvað svo óþolandi yfirvegaður og djúpvitur í seinni tíð! Því til sönnunar birti ég mynd sem tekinn var af mér fyrir nokkrum dögum. Ég rorra alveg í viturleika og yfirvegun! Ef smellt er þrisvar á myndina verður hinn ógnvænlegi gagnrýnandi larger than life!  

Afrit af PICT2863

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú ert ógeðslega virðulegur.  Enda hefur þú gefið út bók.

Þetta er svona mynd sem sést aftan á bókarkápum.

Merkilegt hvað það er oft sama mótívið.

Sumir höfundar (ekki þú sko) verða að vera með bókasafn í bakgrunni svona eins og til að sannfæra lesendur um að þeir séu líka bókamenn. 

Alveg eins og sjoppueigandinn vill ekki láta það fréttast af hann hafi skömm á namminu sem hann selur.

Þessi pistill var í boði Jennýjar Önnu Baldursdóttur, mikilmennskubrjálæðings.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.9.2008 kl. 15:15

2 Smámynd: Beturvitringur

Fjandi ertu reffilegur, - fríkkar með aldrinum! Veit ekki hvernig þetta endar.

Beturvitringur, 21.9.2008 kl. 15:28

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Jenný þó! Það eru nú aðallega múskdiskar í bakgrunni. En hvergi er eiginlega hægt að taka mynd af mér í stofunni nema bækur sjáist. Og svo verða bækur að vera í bakgrunni svo maður sýnist ekki smaller than life!

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.9.2008 kl. 15:39

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hahahaha, ég skil þig, er með heilan vegg af þessari vinsælu vöru í stofunni hjá mér, en auðvitað bara ef ske kynni að það kæmi blaðamaður og ljósmyndari að taka við mig óðdauðlegt viðtal um stórkostlegt framlag mitt til bloggbókmenntanna.

Hógværðarnefndin.

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.9.2008 kl. 15:55

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Jenný, það kemur enginn og tekur við mig ódauðlegt viðtal um eitt eður neitt, en hins vegar koma stundum bloggarar með  mikilfengleg komment í hógværð sinni!

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.9.2008 kl. 16:20

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hehe, það kemur að því að þú verður gerður ódauðlegur í riti og á skjá.

Bíddu bara.

Spákonan!

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.9.2008 kl. 16:23

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Því miður, of seint, heimsendir verður í næsta mánuði!

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.9.2008 kl. 16:26

8 identicon

Þú ert mjög góður tónlistardómari. Af því þú skrifar góðan stíl og af því það skein í gegn að tónlist er þér mikilvæg.

Það var eftir að ég las dóma eftir þig að ég fór til dæmis að leggja mig eftir Schubert og ljóðasöng.

Egill (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 17:44

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Maður hefur vara áhrif í veröldinni!

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.9.2008 kl. 18:01

10 identicon

Ég ætti kannski að fara að rýna í gömlu tónlistardómana þína, að hætti elítunnar , og láta "bjarga mér" frá öllu rokkinu og poppinu sem ég læt glymja í eyrum mér flestum stundum.  Bara verst hvað rokkið er assgoti skemmtilegt - og veitir mér mikinn innblástur.  Og áhugi minn á því er lítið farinn að dvína, þótt ég sé farin að skríða yfir á efri árin. 

Malína (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 18:37

11 Smámynd: halkatla

Gagnrýnisheimurinn er ekkert smá brútal!

Þetta er líka þónokkuð athyglisvert:

Allir fjölmiðlar fara á hausinn sem ég krítisera fyrir.

halkatla, 22.9.2008 kl. 14:06

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Allir fjölmiðlar fara á hausinn sem ég krítisera fyrir.

Þetta veit Mogginn og þess vegna hefur hann aldrei beðið mig um að krítísera soldið fyrir sig. Ég myndi taka það að mér með ánægju. Hann er eina blaðið sem ég á eftir að ganga frá. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.9.2008 kl. 14:37

13 Smámynd: halkatla

Nei nei, það getur ekki verið, því hagsmunaðaðilar moggans hugsa ekki svo rökrétt - það hljóta að vera tilviljanakenndar eða absúrdískar ástæður fyrir þessu - vinir íhaldsins eiga varla eina heilasellu til að deila á milli sín

halkatla, 22.9.2008 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband