Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar

Janúar 1918 er langkaldasti janúar síðan hitamælingar hófust hér á landi. Um þennan mánuð er fjallað á öðrum stað hér á bloggsíðunni. En hér verður drepið á þá janúarmánuði sem næstir eru í röðinni hvað lágan meðalhita varðar. 

Næst kaldasti janúar virðist vera árið 1881. Hann var hluti af kaldasta vetri sem um getur í sögu mælinga, frá desember 1880 til mars 1881, en síðast taldi mánuðurinn var aðeins lítillega hlýrri en janúar 1918. Janúar 1881 var hins vegar einni gráðu mildari að meðaltali en 1918 á þeim sex stöðvum sem mældu bæði árin, Reykjavík, Stykkishólmi, Grímsey, Teigarhorni, Hreppunum og Vestmannaeyjum. Á Teigarhorni á austfjörðum var þessi mánuður hins vegar út af fyrir sig kaldari en 1918 og kaldasti janúar sem þar hefur mælst frá 1873. Einnig í Hreppunum er þetta kaldasti janúarmánuðurinn en þetta ár var þar mælt á Hrepphólum en 1918 á Stóranúpi.  Í Grímsey var lítill munur á mánuðunum en á vesturlandi var janúar 1881 til muna mildari en 1918.  

Veðurathuganastövar í janúar 1881 voru einungis í Reykjavík, Hafnarfirði, Stykkishólmi, Siglufirði, Grímsey, Saurbæ í Eyjafjarðardal, Valþjófsstað á Fljótsdalshéraði, Teigarhorni, Papey, Vestmannakaupstað, Hrepphólum og Eyrarbakka. Meðalhiti allra þessara stöðva var - 8,3 stig.  Kaldast var í Grímsey, -13,1 stig en ekki var þetta ár mælt á þeim stöðvum sem vetrarkaldastir eru í byggð á Íslandi, Grímsstöðum og Möðrudal.

Mánuðurinn byrjaði vel og var víðast hvar frostlaust fyrstu níu dagana og á þrettándanum komst hitinn í 8,2 stig á Teigarhorni. Eftir þetta kólnaði mjög og var 10-20 stiga frost næstu vikuna víða nema syðst á landinu. Oft var þó stillt og gott veður nema á austfjörðum voru stundum hríðar. Kringum þ. 19. gerði vestanátt en nokkrum dögum síðar var veðrið undir áhrifum lægðasvæða sem þokaðist í átt að Bretlandseyjum en hæð var yfir Grænlandi.

Heldur betur dró svo til tíðinda þann 28. Þá hvessti af norðaustri og fór að snjóa á suðuaustur og austurlandi. Daginn eftir var ofviðri og sums staðar var snjókoma og frostið var 20-30 stig. Næsta dag hvessti enn þó frostið mildaðist ofurlítið og var þá snjókoma víðast hvar. Mikil hæð var yfir austanverðu Grænlandi en lægð beint suður af landinu. Um kvöldið hlýnaði upp undir frostmark suðaustanlands með suðaustanátt og var hláka syðst á landinu síðasta dag mánaðarins og veðrið að ganga niður. Veður þetta er talið með þeim verstu sem yfirleitt gerast hér á landi og urðu víða miklir skaðar, ekki síst á Vestfjörðum. Kirkjan á Núpi í Dýrafirði fauk til dæmis út í hafsauga. Frægast er veðrið þó fyrir það að þá fórst póstskipið Phönix við Skógarnes á Snæfellsnesi vegna vinds og ísíngar. Er veðrið oft kennt við þennan skaða og nefnt Fönixarbylur. 

Mesta frostið í þessu kasti  mældist slétt 30 stig þ. 29. í Grímsey en -29,8 á Hrepphólum -29,4 á Siglufirði og -28,6 á Valþjófsstað. Í Reykjavík fór frostið niður í -20,2 stig eftir mælingum á sírita, bæði þ. 28. og 29. 

Þriðji kaldasti janúar var 1874. Þá var meðalhitinn í Reykjavík -5,3 stig en -8,6  í Stykkishólmi en -11,3 stig í Grímsey. Í Stykkishólmi mældist frostið -22,4 stig þ. 19. en þ. 28. fór hitinn á Teigarhorni í 7,4 stig. Svo segir um þennan mánuð í Árferði á Íslandi í þúsund ár: "Hina fyrstu viku ársins var skaplegt veður, þó býsna hart væri, en svo brá til hríða og illviðra og kyngdi niður miklum snjó víða og voru frosthörkurnar ákaflega miklar, og var vetur þessi einn hinn kaldasti og harðasti. Voru í janúarmánuði ofsalegar stórhríðir víða um land. Um miðjan janúar lagðist hafís að landinu og varð brátt samfrosta við lagnaðarísa á fjörðum; þegar ísinn var að reka að landi, 11.-12. janúar gerði stórhríðar nálega um alt land með ofsalegum stormum, einkum á Norðulandi og Austfjörðum; á Austurlandi var hríðin svo dimm og hörð, að menn á sumum bæjum komust ekki í fjárhús, sem í túninu voru, og reif stormurinn og skarinn heilar og hálfar þúfur, svo flögin voru eftir. Urðu þá víða skaðar á skipum, hjöllum og heyjum og 2 timburkirkjur (í Berunesi og Berufirði) tók upp og braut í spón. Þessa daga voru grimdarfrost um allt land. 18° R í Reykjavík, 19° í Dalasýslu, 24-26° víða norðanlands. Til mánaðarloka voru sífeldar kólgur og kafaldsbyljir, frost og fannkomur um alt land og jarðbönn fyrir hverja skepnu... Síðustu dagana í janúar og fyrstu dagana í febrúar gjörðu hláku ... ."   

Frost mátti heita samfellt á þeim stöðum þar sem athugað var fram að þ. 25. en þá gerði blota og aftur þ. 27. en enginn sólarhringur var alveg frostlaus í Stykkishólmi, Grímsey og Teigarhorni. Þrisvar fór frostið yfir 20 stig í Stykkishólmi, -20,4 þ. 14., -22,4 þ. 19. og -20,4 þ. 24. Þann 3. og 11. fór fór frostið rétt undir 20 stig í Grímsey og 17.-24. var mesta frost sólarhringsins þar 18-19 stig. Segja má að mjög miklar frosthörkur hafi verið á landinu dagana 7.-23. í látlausri norðan og norðaustnátt.  Oft snjóaði. Úrkoman í öllum mánuðinum var 86 mm í Stykkishólmi, 51 í Grímsey en aðeins 10 mm á Teigarhorni. Aðeins var úrkoma athuguð  á þessum stöðum á landinu þennan mánuð.   

Ef miðað er við Reykjavík og Stykkishólm, sem lengst hafa athugað, virðast janúar 1867 og 1866 koma næstir í röðinni en þá var einungis athugað á þessum stöðum. Úrkoma í Stykkishólmi var aðeins 12,5 mm í janúar 1867. Ekki hlánaði þar nema dagana 25.-27. Kaldast varð -17,8 stig þ. 8. en hitinn fór í 2,8 stig þ.27.  

Árið 1866 var talið eitt mesta harðindaár nítjándu aldarinnar. Þá lágu hafþök af ísi fyrir Vestfjörðum, Norðurland og Austfjörðum, og kom ísinn þegar í janúar að Sléttu og Langanesi. Ekki hlánaði allan mánuðinn í Stykkishólmi en aðeins einu sinni fór frostið niður fyrir 20 stig, -20,3 þ. 29. Úrkoma var 38 mm.   

Fyrr á nítjándu öldinni, áður en veðurathuganir hófust í Stykkishólmi, eru til ófullkomnar mælingar frá ýmsum stöðum á landinu sem hafa verið áætlaðar yfir til Stykkishólms. Árið 1808 er hitinn þar áætlaður -8,9 stig en árið 1814 -9,2 stig. Hinn 24. seinna árið gerði mikið ofviðri syðra með sjógangi sem gerði mikinn skaða á húsum og skipum. Ekki er getið um sérstakan kulda í því kasti enda hefur veðrið verið sunnan-eða suðvestanátt.

Kalt var einnig í janúar 1856. Þá var meðalhitinn í Stykkishólmi -6,2 stig.  

Þetta eru þá köldustu janúarmánuðurnir á Íslandi frá því um aldamótin 1800. 

Eftir 1918 er janúar 1979 sá kaldasti á öllu landinu. Þó mönnum hafi þótt sá mánuður erfiður var hann samt barnaleikur í samburði við köldustu janúarmánuði á fyrri tíð. Hann var til dæmis um sex stigum mildari en janúar 1918. Hins vegar var hann á öllu landinu 3,7 stig undir meðallaginu 1931-1960 sem þá var miðað við. Lægstur var meðalhitinn -10,3 stig á Möðrudal en hæstur -1,9 stig í Vík í Mýrdal og á Stórhöfða. Úrrkoman var 61% af meðaltalinu. Á vesturlandi var lítil úrkoma en mikil á norðausturlandi.  

Á fylgiskjali má sjá hitann í köldustu janúarmánuðunum frá 1866 á þeim stöðvum sem lengst hafa athugað og einnig úrkomuna.

Þrjátíu stiga frost

Fyrir utan kuldana miklu í janúar 1918 hefur þrjátíu stiga frost mælst á Íslandi í tíu öðrum janúarmánuðum frá og með 1880 þegar stöðvar voru orðnar sæmilega margar. Hér að framan var getið um frostin 1881. Árið 1896 mældust -30,7 stig í Möðrudal. Á sama stað mældust -30,2 stig árið 1899. Eftir  mars 1919 mældist ekki 30 stiga frost á Íslandi fyrr en í desember 1949 en í janúar -32,0 stig 1958, þ. 10. í Möðrudal, -30,4 Þ. 2. 1968 á Hveravöllum, -30,3 þ. 30. -1971 í Reykjahlíð við Mývatn, -30,7 þ. 13. árið 1979 í Möðrudal og -32,0 á sama stað þ. 16. 1984. Í janúar 1988 mældist meira en 30 stiga frost á þremur stöðvum: -32,5  í Möðrudal þ. 23, sama dag -30,5 í Reykjahlíð og -31,5 á Brú á Jökuldal þ. 24. Síðast mældist 30 stiga frost á kvikasilfursmæli á Íslandi í janúar árið 2002 -30,5 stig þ. 25. í Möðrudal.

Fyrir utan janúar 1918 hefur mælst 20 stiga frost eða meira í Reykjavík aðeins í janúar árið 1881, -20,1 stig (í mars sama ár mældust -22,1 stig en aðra mánuði en þessa hefur ekki mælst 20 stiga frost í Reykjavík).

Kaldasti janúardagur að meðalhita á landinu frá 1949 er sá 2. 1968 en þá var hitinn 14 stig undir meðallagi en daginn eftir 13 ½  undir. Aðrir mjög kaldir dagar voru 1970, þ. 8. og  sá 4. 1971 12 ½ stig undir meðallagi og 12 stig undir þ. 20. árið 1971. Í Reykjavík er 29. janúar 1971 sá kaldasti að sólarhringsmeðaltali frá a.m.k. 1936 -13,8 stig en næstu nótt mældist mesta frost em mælst hefur í borginni eftir 1918, -19,7 stig, en þann dag var meðalhitinn á öllu landinu 11 stig undir meðallagi. Á Akureyri er kaldasti sólarhringurinn að meðatal frá og með 1949 sá 8. árið 1970, -19,2 stig. 
 
Heimildir: Trausti Jónsson: Frostaveturinn mikli 1880-1881, Náttúrufræðingurinn, 46, 1-2, 1976.
Uppröðun myndanna hér fyrir neðan tókst hálf óhönduglega en ég get ekki lagað það! 
Neðst á síðunni er fylgiskjal þar sem sjá má hitann og úrkomuna í öllum þessum mánuðum sem hér er sagt frá og reyndar fleirum.    
 
1968-01-02_12_764520.gif
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
rrea00119680102.gif
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
rrea00219680103_764581.gif
 
1970-01-08_12_764582.gif 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
rrea00119700108.gif
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
rrea00219700108.gif
 
1971-01-30_12_764588.gif
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
rrea00219710130.gif

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband