Eintal eða samræður um gróðurhúsaáhrifin?

Nú er það nýjasta nýtt samkvæmt rannsóknum í útlöndunum að engir hafi vit á því hvort jörðin sé að hitna af mannavöldum nema loftslagsfræðingar enda séu þeir allir sammála.

Ekki láta ykkur detta í hug að venjulegir veðurfræðingar hafi hundsvit á þessu. Nei, þeir eru svo þröngsýnir í skammtímaspám sínum að á orðum þeirra er ekki minnsta mark á takandi þegar þeir láta ljós sitt skína um aukningu gróðurhúsaáhrifanna segja djúpíhugulir menn um niðurstöðu rannsóknarinnar. 

Samt eru veðurspámenn alltaf að láta villuljós sitt skína um þetta mál.

Við tökum náttúrlega ekkert mark á þeim. 

Hvað þá að við leggjum eyrun við því sem aðrir segja um loftslagsmálin en um þau eru allir  mjög óðamála þó ekki séu þeir loftslagsfræðingar; stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn, náttúruverndarsinnar og umhverfisspekingar, spesjalistar í hinum og þessum greinum jarðvísinda, já, og  óbreyttir veðurfræðingar og veðurspámenn af öllum sortum og margir aðrir.

Jafnvel Al Gore. 

En við hlustum nú ekki á þá bara. 

Einingis löglegir loftslagsfræðinga sem eru þekktir af víðsýni sinni og framsýni.  Þeir sjá ekki aðeins aftur í tímann um hundruð þúsundir ára, jafnvel miljónir og skriljónir ára, heldur líka fram um allar aldir. 

Einn íslenskur loftslagsfræðingur - eða er það sá eini- segir á einum stað: ''Gagnrýni á loftslagsvísindi er af tvennum toga spunnin. Annarsvegar er það raunveruleg vísindaleg álitamál en hinn flokkurinn sem er fyrirferðameiri almennri umræðu er hreinn spuni sem á sér takmarkaða stoð í raunveruleikanum.''

Eftir þessu er það ljóst að ekki er mark takandi á almennri ''gagnrýni'' á það sem loftslagsvísindi eru að færa fram nema hún komi frá harðsvíruðum vísindamönnum, því annars er ekki um ''vísindaleg'' álitamál að ræða og í ljósi hinnar afar merku rannsóknar sem að ofan er getið, liggur líka í augum uppi að einungis geta þar lagt vitræn orð í belg hinir einu og sönnu loftslagsfræðingar - en náttúrlega alls ekki veðurfræðingar eða umhverfissinnar eða bara hver sem er - bara klímatólógar.

Hvað eru annars margir loftslagsfræðingar á Íslandi?

Eigum við ekki bara að leggja niður alla samræðu um gróðurhúsaáhrifin en taka upp eintal í staðinn?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þú segir nokkuð. Ef þetta er svona klappað og klárt eins og loftslagsvísindamenn segja þá er auðvitað alveg nóg að einn til þess  menntaður fræðimaður boði okkur fagnaðarerindið.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.1.2009 kl. 12:59

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er einmitt sá vísindamannahroki sem þarna kemur fram sem fer illa í marga og veldur vissri tortryggni í garð þess sem loftslagsfræðingar segja um gróðurhúsamálin eins og sjá má t.d. í athugasemdum á ýmsum bloggsíðum. Helsti Þrándur í Götu fyrir heiðarlegum umræðum um þessi mál eru einmitt hrokafullir loftslagsfræðingar og nátturlega þeir sem hengja sig gagnrýnislaust á þá.

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.1.2009 kl. 13:19

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þar með er ekki sagt að ekki séu til auðmjúkir og í hjarta lítillátir loftslagsfræðingar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.1.2009 kl. 16:29

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Umræðan hefur oft orðið full öfgafull en það er kannski vegna þess að það er ekki bara verið að reyna að sannfæra fólk um vísindakenningu heldur líka vegna þess að í málinu fellst að grípa þarf til erfiðra aðgerða til að sporna gegn boðaðri hættu. Því er hætt við því að umhverfisverndarsinnar og sumir pólitíkusar eiga það til að magna upp hættuna enn meir til að fá fólk til að vakna. Svona svipað og gerist í pólitískri umræðu sem byggist oft á því að hræða fólk meira en þörf er á.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.1.2009 kl. 16:42

5 Smámynd: Hörður Þórðarson

Veður frá degi til dags og veðurfar er alls ekki sami hluturinn. Það er staðreynd að flestir veðurfræðingar vita minna um veðurfarsfræði en þeir sem rannsaka fyrirbærið og þarf ekki að koma neinum á óvart.

Menn geta tjáð sig og haft skoðanir á hverju sem er. Sumir hafa þó meira vit á því sem þeir eru að tala um en aðrir...

Það sem hefur sett leiðinlegan blett á umræðuna um veðurfarsbreytingar er áróður upprunnin frá hagsmunaðilum, til dæmis ólíufélögum sem hefur hefur orðið til að leiða marga á villigötur.

Hörður Þórðarson, 1.2.2009 kl. 06:48

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hverjir eru menntaðir loftslagsfræðingar (climatologist) á Íslandi og því gjaldgengir í umræðuna?

Ágúst H Bjarnason, 1.2.2009 kl. 07:35

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég þarf varla að taka það fram að þessi færsla er skrifuð í háði en í þeirri aðferð er innibyggð ónákvæmni, einföldun og jafnvel ósanngirni og árásargrini. Um þetta mál mætti margt segja i alvöru - en auðvitað þori ég ekki fyrir mitt litla líf að segja það því ég er ekki sérfræðingur í neinu í lífinu og ætti þess vegna aldrei að opna munninn og endilega loka blogginu! En í nafni málfrelsisins ætla ég samt að segja þetta í fljótheitum og án mikillar fágunar enfa verður það -samkvæmt skilgreiningu- tóm tjara. 

Év vil nefna mikilvægt atriði. Við lifum í heimi sem er yfirfullur af sérfræði og engir halda að venjulegt fólk geti skilið og lagt dóm á það sem vísindin eru að segja um tiltekin mál, en reyndar þá ekki heldur vísindamenn nema um eigin sérgrein. En samt hafa sum vísindi gífurleg áhrif á líf okkar allra - þar með talin loftslagsvísindin og að t.d. loftsslagsskýrslu SÞ koma visindamenn í mörgum greinum. Ákvarðarnir og stefnumótum eru ekki teknar af vísindamönnum.Eigum við þá að beygja okkur undir algert sérfræðiræði? Til hvers mundu það leiða. Serfræðingar verða að fara varlega og taka tillit til þess margháttaða umhverfis sem þeir eru hluti af. 

Umræður um gróurhúsahlynununa eru miklar og frá mörgum hliðum, ekki síst siðferðilegum og efnhagslegum. Margir taka þátt í henni sem ekki eru sérfræðingar, t.d. pótlitíkusar, frægastur er þar Al Gore. Rannsónir á loftslagsmálum leggja grunninn en umræður almennt um loftslagsmálin eru margþættar og þá ekki síður um lausninrar. Mér finnst að loftslagsvísindamenn eigi að fara varlega í að gefa í skyn að þeir einir geti eitthvað um þettta sagt, jafnvel þó það væri rétt, vegna þess hve málið kemur víða við og margir koma að þvi. Það gæti leitt tið sérfræðiræðis, ástands þar sem sérfræðingar réði öllu og af því þetta snertir alla en ekki barra þá væri hætt við að þeir fenjgu óðelilega mikið vald. Það er ekki bara í loftslagsmálunum þar sem þessi hætta er fyrir hendi, að vísindamenn fari að stjórna heilu þáttunum í lífi fólks, þáttum sem líka hafa óvísindlegan flöt eins og flest eða öll vísindi hafa afþví þau akta í þjóðfélagi og hafa áhrif á líf manna, má t.d. nefna læknisfræðina sem hrúgar upp siðferðislegum álitamálum sem læknar eru ekki færari að fást við en aðrir. 

Svo langar mig til að benda á að þó rannsókn sýni að svo og svo margir vísindamenn trúi því að hlýnun jarðar síðustu ár sé af mannavöldum þá sýnir sú niðurstaða EKKI að hún sé í rauninni af mannavöldum. Hún leiðir aðeins í ljós að þessir vísindamenn trúi því að hún sé af mannavöldum. Á þessu tvennur er mikil munur. Þessi könnun sýnist mér því ekki mjög merkileg í sjálfu sér.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.2.2009 kl. 02:24

8 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Góður og skynsamlegur pistill Sigurður Þór.

Þeir vísindamenn eru til sem leyfa sér að gagnrýna aðeins hinn heilaga sannleika um hnatthlýnun af mannavöldum. Nokkur dæmi:

Eminent Scientists who Disagree with the CO2 Theory

List of scientists opposing the mainstream scientific assessment of global warming

Global Warming Petition Signed by 31.000 American Scientists

650 International Scientists Dissent Over Man-Made Global Warming Claims

Ágúst H Bjarnason, 2.2.2009 kl. 06:57

9 Smámynd: Hörður Þórðarson

Global Warming Petition Signed by 31.000 American Scientist

Ef þú trúir þessu kjaftæði varstu greinilega fæddur í gær og kraftaverk að þú skulir yfirleitt geta lesið eða skrifað...

http://www.sourcewatch.org/index.php?title=Oregon_Institute_of_Science_and_Medicine

The OISM would be equally obscure itself, except for the role it played in 1998 in circulating a deceptive "scientists' petition" on global warming in collaboration with Frederick Seitz, a retired former president of the National Academy of Sciences

Það er svona lagað sem mér finnst setja leiðinlegan blett á umræðuna. Menn geta rætt málin af misjafnlega miklu viti en þeir sem reyna að leiða umræðuna á villigötur með svikum og prettum eiga ekkert annað en fyrirlitningu skilið.

Hörður Þórðarson, 2.2.2009 kl. 08:50

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég vil taka það fram - þó álit mitt skipti nátturlega minna en engu máli - að ég efast ekki um það að í gangi sé hlýnun vegna gróðurhúasaáhrifa af mannavöldum. Ég hef lítið haft mig í frammi í að ræða þessi mál hér á síðunni þrátt fyrir veðurdelluna, einmitt vegna meðvitundar um það að ég hafi ekki nógu mikið vit á málinu. Nógir aðrir eru líka til þess að tala. Samt fer ekki hjá því að maður sjái ýmislegt sem stingur í augun. Eins og t.d. þessa frétt um könnunina og það sem af henni spannst, að engir nema veðurfarsfræðingar geti sagt eitthvað af raunverulegu viti um það hvort hlýnað hafi af mannavöldum. Þar er að mínu viti- sem er náttúrlega minimal- farið inn á hættubraut  óskynsamlegrar sérfræðingadýrkunnar sem gæti jafnvel jaðrað við að vera óraunsæ. Hverjir eru t.d. veðurfarsfræðingar?  Eru þeir ekki oft venjulegir veðurfræðingar sem leggjast í rannsóknir á veðurfari (eins og reyndar þessir í könnuninni), sumir mikið aðrir lítið. Hvar eru mörkin sem draga á með það að veðurfræðingur hafi rannsakað veðurfar svo mikið að hann sé talin talinn vera orðinn veðurfarsfræðingur og hafi vit á því sem hann segir um gróðurhúsamálin? Nokkrir íslenskir veðurfræðingar hafa lagt orð í belg um gróðurhúsaáhrifin en enginn þeirra skilst mér að sé  loftslagsfræðingur nema einn sem beinlínis kallar sig það, en þeir hafa samt kynnt sér gróðurhúsaáhrifin og sumir þeirra a.m.k. hafa pælt mikið í veðurfari. Er þá ekkert að marka það sem þessi menn segja af því að þeir eru ekki löggiltir veðurfarsfræðingar (er það fyrirbæri til sem starfsheiti úr námi?, bara spyr!)? Ef svo er ekki þá legg ég til að þeir hætti að tala um loftslagsmálin. Ef við förum með þessa hugsun út í öfgar sem kemur fram varðandi þessa könnun,  leiðir nefnilega af því að þeir veðurfræðingar, sem ekki eru veðurfarsfræðingar eru ekki marktækir þegar þeir styðja kenningarnar um hlýnun af mannavöldum fremur en þegar þeir tala á móti henni.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.2.2009 kl. 12:12

11 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Fyrir stuttu síðan voru helstu fjármálasérfræðingar heims almennt sammála um að heimurinn gæti ekki lent í fjármálakreppu líkt og gerðist 1930 vegna framfara sem hefðu orðið í hagstjórn síðan.

Þarf ég að segja meira?

Finnur Hrafn Jónsson, 2.2.2009 kl. 15:46

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

"Ef þú trúir þessu kjaftæði varstu greinilega fæddur í gær og kraftaverk að þú skulir yfirleitt geta lesið eða skrifað..."

Ég veit ekki hvort þessu er beint til mín eða Sigurðar, en því miður er svona málfar algengt í umræðunni um loftslagsmál. Óþarfi að fjalla meira um það.

Ágúst H Bjarnason, 3.2.2009 kl. 12:42

13 Smámynd: Hörður Þórðarson

Ég gat bara ekki setið á mér, Ágúst. Að draga fram þessa fölsun sem hefur verið vel þekkt um alllangt skeið, og oft gert grín að er nánast móðgun við þá sem vilja heiðarlega og málefnalega umræðu. Það er erfitt að vita hvort þeir sem draga fram slíkt vilja láta taka sig alvarlega eða eru ábyrgðarlausir brandarakarlar...

Hörður Þórðarson, 4.2.2009 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband