Ólíkir dagar

Sjöundi febrúar er veðurfarslega merkilegur. Þennan dag árið 1960 kom hlýjasti febrúardagur  að meðaltali yfir allt landið sem dæmi eru um að minnsta kosti frá og með 1949. Mældist þá hitinn 16,9  stig á Seyðisfirði og Dalatanga um kvöldið og þess vegna er hitinn skráður daginn eftir.  Þetta var þá febrúarmet á landinu en hefur síðan verið slegið.   Á Siglunesi var 15 stiga hiti og 14 í Fagradal í Vopnafirði. Á rafstöðinni við Elliðaár komst hitinn í 10,1 stig. Á tveimur stöðum sem mjög lengi hafa athugað, Grímsey og Grímsstöðum, hefur aldrei mælst meiri hiti í febrúar. Meðalhitinn á Akureyri var 10,1 stig en 10,9 á Hallormsstað. Á Seyðisfirði var sólarhringsmeðalhitinn aftur á móti 13,2 stig. (Þar mældist mesti sólarhringsmeðalhiti á veðurstöð í febrúar þ. 24. árið 1984, 14,7 stig).

Lægð var á Grænlandshafi sem bar með sér óvenjulega hlýtt loft sunnan að en hæð var yfir Bretlandseyjum. Veðri þessu fylgdi hvassviðri nema suðaustanlands og mikil rigning sunnan lands og vestan. Að morgni þ. 7. mældist úrkoman 94 mm á Fagurhólsmýri en næsta morgun 49 á Hæli í Hreppum og 47 við Andakílsárvirkjun. Stórflóð urðu í ám og vötnum  og mikil spjöll á vegum og fleiru á svæðinu frá suðvesturlandi til norðurlands.

Þennan dag 1969 kom hins vegar næst kaldasti febrúardagur hvað mesta frost varðar sem komið hefur frá 1949. Hann er reyndar þriðji kaldasti vetrardagur sem komið hefur á landinu frá 1949 en á undan honum  fór næst kaldasti dagurinn. (Allra kaldasti vetrardagurinn var 3. janúar 1968). Minnsti meðalhiti nokkurs dags í febrúar sem ég veit um í Reykjavík var þ. 6.,  upp á -15,1 stig, en daginn eftir mældist þar mesta frost sem mælst hefur eftir að 19. öldin leið, -17,6 stig. Á Hveravöllum fór frostið í 27,2 stig þ. 6. Hæð var yfir Grænlandi og lægðir fyrir austan land. Þetta var á hafísárunum. 

Það er mjög upplýsandi að skoða veðurkort af landinu á hádegi þessa febrúardaga 1960 og 1969. Þau sýna hve náttúrulegur breytileiki veðurfarsins er mikill og óþarfi að rjúka til og finna alltaf aðrar skýringar en hann þegar hitar og kuldar ganga.

1960-02-07_12_789607.gif1969-02-07_12_789608.gifrrea00119600208_789610.gifrrea00219600207_789611.gifrrea00119690207_789612.gifrrea00219690207_789613.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband