2.3.2009 | 09:27
Íslenska bókin um hlýnun jarðar
Í Mogganum í gær er rætt við Halldór Björnsson um bók bók hans, ''Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar''.
Þessa bók hef ég lesið í þaula. Ég hef mjög haft augun opin fyrir skrifum eða gagnrýni um bókina en ekkert hefur rekið á fjörur mínar. Og ég á við raunverulega rýni um kosti og galla, ekki fátæklega umsögn eða meiningarlaust hrós. Það voru mikil mistök að bókin kom út aðeins viku fyrir jól. Þetta er einmitt bók sem átti að koma út í haust og verða grimmt auglýst eða umrædd svo fólk gæfist tóm til að verða hennar vart þó ekki væri nú annað.
Ég var sjálfur að hugsa um að blogga um bókina en stend nú í flutningum svo það hefur vafist fyrir mér. En vegna viðtalsins um bókina langar mig til að segja óskipulega nokkur orð um hana. Og það verður bara í ófáguðum bloggstíl og ég er í ofanálag ekki tiltakanlega upplýstur borgari um nokkurt málefni hér í heimi.
Í fyrsta lagi er bókin lengi frameftir virkilega erfið aflestrar og gerir óvenjulega miklar kröfur til lesenda, svo mjög að ýmsir munu nú bara gefast upp hafi þeir ekki því meiri áhuga fyrir efninu. Þessi hluti fjallar um það hvað gróðurhúsaáhrifin í rauninni eru. Þar er að vísu verið að greina frá all-flóknum undurstöðuatriðum. En ekki er það flókið efni sem vandræðunum veldur heldur er hugsun höfundar ekki nógu kristaltær. Það kemur ekki síst fram í lesmáli er vísar til skýringarmynda. Þar getur verið erfitt að átta sig á hvað í lesmáli á við hvað í myndmálinu. Endurtekningar eru líka nokkrar til baga. Þær eru ekki áberandi en í bestu bókum endurtekur höfundur aldrei nokkra hugsun.
Saga gróðurhúsakenningarinnar er vel rakin og betur en ég hef séð í öðrum bókum. Það er líka röggsamlega greint frá því á hvaða hátt ''er að marka'' fyrirsögn líkana um hitaþróun. Þeir sem segja að ''ekkert sé að marka þetta'' hljóta að verða alveg kjaftstopp. Það kemur einnig afar vel fram hve líkanareikningar ná ekki að sýna hitaþróun (sem þegar er orðin) ef ekki væri gert ráð fyrir manngerðum gróðurhúsaáhrifum og svo einnig hvað allt fellur eins og flís við heitann rass þegar góðurhúsalofttegundum er bætt við.
Mér finnst bókin detta nokkuð niður þegar farið er að rekja það sem fjórða úttekt IPCC segir um framtíðina. Þar finnst mér vanta það sem skortir í flestar svona bækur: að gera lesanda grein fyrir orsakasamhengi. Það er kannski sagt að þessi og þessi hlýnun valdi þessum og þessum hörmungum þarna og þarna. En hvernig gerist það? Hvert er samhengið á milli tiltekinnar hlýnunar og þeirra óskapa sem af eiga að hljótast? Þetta er kannski augljóst í sumum atriðum, svo sem hækkun sjávaryfirborðs, en alls ekki í mjög mörgum öðrum atriðum. Menn fara bara að hugsa við svona lestur: Eru þetta ekki bara órar? En þessi stíl, að telja upp ófarir af völdum vissrar hitahækkunar, án skýringa á orsaka og afleiðingasamhengi, er stíll heimsendaspámanna og mjög í tísku og er engu skárri en stíll örgustu ''efasemdarmanna''.
Þegar kaflinn um breytingarnar sem spáð er um Ísland er lesinn nokkuð kalt og tilfinnningalaust er ekki hægt að sjá annað en það sé allt bara jákvætt en samt er stíllinn þannig að lesandanum á að finnast þetta ekki harla gott. Oft þegar maður les bækur um þetta efni, og þessa bók þar með talda, fær maður á tilfinninguna að fyrirbærið veðurfarsbreyting sé af hinum slæma hver svo sem hún er er, breyting sé eins konar samheiti fyrir hörmungar.
Kaflinn um tæknilegar lausnir og aðrar lausnir finnst mér sérlega rýr í roðinu, dauf upptalning mestan part. Kaflinn virkar eins og höfundur hafi verið í tímaþröng og ekki getað vandað sig verulega.
Eitt er sérlega gagnlegt í bókinni. Það eru hinar miklu vísanir í góðar heimildir annars staðar og eru sumar þeirra á netinu.
Það sem mér finnst vanta tilfinningalegast í bókina: Sögulegt ágrip af hitabreytingum frá fornu fari og kannski mest eftir ísöld. En framar öllu: Að gert sé grein fyrir gagnrýnisröddum á hlýnunarkenninguna og afleiðingar hennar á annan hátt en hafa þær hálfpartinn í flimtingum. Það er búið að finna upp skammaryrðið ''efasemdarmenn'' og það er oft notað um alla þá sem andæfa einhverju sem þeir segja sem hæst hafa sig í frammi með skelfilegar ógnir sem hnatthlýnunin eigi að bera í skauti sér.
Þó Halldór Björnsson sé tiltölulega hógvær í bókinni þá finnst mér gæta á öðrum vettvangi ótvíræðs vísindahroka og annars konar hroka í boðskap hans. Hann talar hreinlega niður til allra þeirra sem skrifa um þessi mál, ég tala nú ekki um þá sem blogga um það, nema þeir séu harðsvíraðir vísindamenn og þá jafnvel í sérstökum vísindagreinum. Þessi tónn, sem er afar vandmeðfarinn af því að það er bæði svo mikið og svo lítið til í honum, æsir menn auðvitað upp og þess vegna segi ég það sem ég hef áður sagt: Það eru svona besservisserar sem eru helstu ástæðurnar fyrir því hvað margir ósjálfrátt og tilfinningalega snúast harkalega gegn kenningunni um hlýnun jarða og öllu heila klabbinu. Ég hef áður nokkuð bloggað um þetta atriði.
Halldór lætur reyndar eins og enginn umtalsverur ágreiningur sé um þessi mál meðal vísindamanna, það sé bara pöbullinn sem sé með vesen. En ég held að hans eigin ákafi - og sálufélaga hans - villi honum sýn. Og ég ætla að nefna eitt lítið dæmi, það er vísu aðeins lítið dæmi, en það segir samt vissa sögu um sjónarmið, einhvers konar viðhorf, sem er líklega algengari en heitustu heimsendaspámenn vilja vera láta. Já, í mínum augum er Halldór einn af öfgamönnum loftslagsmálanna, dálítið svipað og Guðmundur Páll Ólafsson er öfgamaður í náttúrumálunum.
Dæmið er það að í formála getur höfundur um það að ritstjóri ritraðarinnar sem bókin er hluti af hafi haldið uppi ''hóflegu andófi''. Þessi orð víkja ekki að máli eða stíl bókarinnar heldur merkja þau hreint út að ritstjórinn, sem er veðurfræðingur, hafi verið ósammála ýmsu í efnistökunum í það miklum mæli að ástæða hafi verið til að nefna það. Og hvað þá með aðra vísindamenn? En í bókinni er einmitt ekki vikið í neinni alvöru að gagnrýnisröddum nema með hálfgerðri fyrirlitningu. Bókin gefur því ekki alveg raunsæja mynd þó það sé yfirlýst markmið höfundar heldur er skýr áróðurskeimur af henni. Samt er þetta merkisbók og grundvallarrit á íslensku sem allir ættu að lesa
Þá hef ég sagt ofurlítið af því sem ég vildi sagt hafa í fljótheitum. En til hvers er það? Ekki er ég vísindamaður eða fræðimaður í einu né neinu og hef víst ekki hundsvit á því sem ég er að segja. Svo er ég heldur varla í réttu liði. Hins vegar á ég ekki von á því að nokkur vísindamaður íslenskur segi eitt einasta umtalsvert gagnrýnisorð um þessa bók. Ég þekki nú allt mitt heimafólk. Ég hef það reyndar mjög sterkt á tilfinningunni að íslenskir mennta-og vísindamenn veigri sér við að halda fram skoðunum sínum í þessum málum af ótta við að missa virðingu í fræðasamfélaginu ef skoðanir þeirra víkja frá '' rétttrúnaðinum'' í einhverjum atriðum. Þau eru mörg slíkt atriði en ekki bara það að efast um hlýnunina sem slíka. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr hugrekki þessarar manna og sjálfstæði en aðeins að árétta að ég hef orðið margs vísari um mannlegt eðli með árunum. Það er nefnilega orðinn til ákveðinn kjarni menntamanna sem vill ráða umræðunni. Þeir kvarta hástöfum yfir því hvað umræðan hér sé frumstæð af því að hún sýnir ekki nógu mikla fylgispekt við þeirra hugmyndir og þeir gera miskunnarlaust lítið úr þerim sem eru annarrar skoðunar en þeir sjálfir og þeir eru eins konar ''harðlínumenn'' og menn vilja losna við ama frá þeim og stimplanir og þegja því fremur en að segja. (Þetta hljómar kannski soldið ekstrrím hjá mér en ég held samt að þetta sé nokkurn veginn svona).
En ''harðlínumennirnir'' munu halda áfram að skrifa um það hvað Íslendingar séu mikil fífl í loftslagsumræðunni. Komið er út smárit um þessi mál þar sem skrifa m.a. Halldór Björnsson, Tómas Jóhannesson og Guðni Elísson. Þessir menn eru í kjarnanum sem ég nefndi áðan. Ég hef ekki séð þetta rit en er sagt að Guðni nefni mig á nafn eða vísi til mín í sínu skrifi.
Vá!
Vel á minnst. Guðni stóð í ritdeilu mikilli um loftslagsmálin við þann að mörgu leyti lofsverða mann Hannes Hólmstein Gissurarson í Lebók Moggans og kom grein eftir grein. Einu sinni skrifaði ég svo grein gegn grein eftir Guðna. En þá kom engin grein frá Guðna. Ég er heldur ekki prófessor og er óralangt frá menningarerlítunni á Íslandi. Það haggar samt ekki mínu góða geði og nægjusemi um lífsins gæði og ánægju með batnandi veðurfar en mér finnst allt í lagi að vera meðvitaður um það hvers konar samfélagi maður lifir í og láta það uppi á bloggsíðu þar sem allt fær að fjúka. Og þar sem er allra veðra von!
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Athugasemdir
Ég held mig staðfastlega við að vera sú fyrsta sem skrifar athugasemd við þennan pistil - jafnvel þó komi ný útgáfa...
Var að lesa fyrri pistilin þinn, sem fór fram hjá mér á sínum tíma. Sjálf skil ég ekki orð Halldórs, þegar hann vísar í vísindaleg álitamál versus þau álitamál sem eru dregin fram í dagsljósið í almennri umræðu með þeim hætti að hann telji að enginn annar en sá sem er menntaður í loftslagsfræðum geti fjallað um málin. Fremur svo, að í almennri umræðu hefur verið haldið á lofti að sé óvissa um ákveðna þætti, sem ríkir kannski engin sérstök óvissa um. Með öðrum orðum, það er vísindaleg óvissa um marga þætti, en þetta eru ekki þau atriði sem eru endilega mest áberandi í hinni almennu umræðu.
Í loftslagsumræðu eru öfgar á báða bóga. Umhverfissamtök hafa t.d. oft farið of geyst, og oftúlkað vísindaniðurstöður, t.d. með því að draga of víðtækar ályktanir út frá einstökum rannsóknum. Efahyggja er af hinu góða, þ.e.a.s. sú tegund efahyggju sem byggir á því að menn vilja kynna sér málin og ekki gleypa allt hrátt. Ég hygg að þú myndir falla í þann flokk?
En kannski er ekki rétt að kalla þá sem mest hafa beitt sér í loftslagsumræðunni undir pólitískum formerkjum, og eru mjög langt til hægri, efasemdarmenn. Þeir eru í raun rétttrúnaðarmenn sem beita öllum brögðum til að verja trú sína á hömlulausum hagvexti. Ekkert má ógna tilveru hins frjálsa markaðar. Svo ekki sé nú talað um hina heilögu olíu. Oft má finna í þessum hópi rök sem standast ekki skoðun, sem eru til þess fallin að rugla fólk í rýminu, og þeir sem halda þeim á lofti vita oft betur, en nota þessar aðferðir engu að síður með markvissum hætti. Ég nefni sem dæmi þegar því er haldið fram að það geti nú ekki verið að styrkur koldíoxíðs í andrúmslofti skipti neinu máli, vegna þess að hann sé nú ekki nema 0,03% af andrúmslofti. Vatnsgufan hljóti að skipta meira máli og hún sé líka gróðurhúsalofttegund ofrv. Það eru svona bellibrögð sem fara í taugarnar á þeim okkar sem hafa staðsett okkur þeim megin í þessari umræðu að ræða viðbrögðin við loftslagsbreytingum - því það er ekkert hægt að komast áfram í að velta fyrir sér lausnum ef umræðan er föst í slíkum hjólförum.
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 10:45
Það er rétt athugað hjá þér Sigurður að umræða verður vandaðri ef menn svara mótrökum með staðreyndum en ekki með hálfgerðri fyrirlitningu eins og þú orðar það.
Það er aftur á móti svo að þeir sem andmæla því að menn hafi mikið að segja um hlýnunina og hugsanlega mest eru fæstir vísindamenn sem stunda loftslagsrannsóknir.
Nefni sem dæmi að samkvæmt samantekt sem unnin var á vegum Háskólans í San Diego þá birtust 928 ritrýndar greinar um loftslagsmál í vísindaritum á árunum 1993-2003 og þær voru allar sammála um það að mannkyn væri helstu orsakavaldur hlýnunar. Til samanburðar birtust 636 greinar i bandarískum fjölmiðlum um þessi mál á árunum 1984 til 2002 og 53% drógu í efa að mannkyn ætti nokkurn þátt að máli.
Það má því segja að vísindasamfélagið sé býsna sammála um þetta efni og nefni sem dæmi að öll samtök vísindamanna vestan hafs hafa tekið undir þetta sjónarmið opinberlega. Af fréttum fjölmiðla, vestan hafs og austan, hefur mátt ráða að skiptar skoðanir séu um þetta meðal vísindamanna en því er öðru nær.
Það er svo aftur annað mál að erfitt er að meta hvaða áhrif þetta mun hafa hér á landi. Einn veðurfræðingur sem ég ræddi við spáði því að veðurfar hér yrði áþekkt og það er í Færeyjum í dag og svo metur hver fyrir sig hversu vel honum líst á þá spá.
Árni Matthíasson , 2.3.2009 kl. 13:26
Takk Sigurður fyrir fróðlega samantekt. Það er greinilega þess virði að verða sér úti um þessa bók þó ekki nema til þess að fá greinargóða samantekt um ríkjandi viðhorf í þessum efnum.
Fyrir þá sem hafa efasemdir um að einhverjir málsmetandi vísindamenn hafa efasemdir bendi ég á þess slóð:
http://epw.senate.gov/public/index.cfm?FuseAction=Minority.Blogs&ContentRecord_id=2674e64f-802a-23ad-490b-bd9faf4dcdb7
þar sem taldir eru upp 650 vísindamenn frá ýmsum löndum með efasemdir
Finnur Hrafn Jónsson, 2.3.2009 kl. 14:23
Fyrir mér er málið ekki endilega að einhverjir séu ósammála um það að hlýnunin sé af mannavöldum, nú, eða það sé hlýnun yfirleitt. Það er svo margt annað sem hægt er að ræða. Ég hef t.d. óvíða séð það rökstutt, eins og ég kom aðeins inn á, hvers vegna tiltekin hlýnun sé svona ógnar skaðleg. Það er bara fullyrt. Mér finnst vera feiknalega sterkur áróðurskeimur af mörgu því sem þeir eru með sem hæst tala um hvað hlýnunin sé mikil ógn, sett upp harður og einóma frontur og allir afgreiddir sem ekki fylgja með í einu og öllu. Gjarna sagt með hlægjandi fyrirlitlningu að allir vísindamenn sem vilji taka sig alvarlega séu inni á hlýnunaarógnarlínunni. Minnir á það hvernig Laxness lýsti vorkunnssamlegri yfirburðatlfinningu marxista í gamla daga. Svo þegar menn eru með ''réttar skoðanir''og vaða áfram með margt vafasamt er ekki við þeim stjakað. Gott dæmi var þetta tilfinningaklám Attenborgughs. Það lét sér Halldór Björnsson og kó sér vel líka en komu með opinbera aðfinnslu á vef Veðursstofunnar um aðra vonda menn sem átti að vera með ''rangar'' skoðanir.
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.3.2009 kl. 14:57
Ég segi fyrir sjálfa mig að mér finnst ákaflega erfitt að taka umræður um hlýnun jarðar alvarlega hér á landi þegar persónan sem yfirleitt er dregin inn í umræðurnar af þáttastjórnendum hérna er stjórnmálafræðingurinn og Frjálshyggjutrúboðinn Hólmsteinn Kiljan. Hvers hugmyndafræði hefur núna komið þjóðinni á vonarvöl.
Lái mér hver sem vill.
Malína (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 15:44
Eg segi fyrir minn hatt, að það er ótrúlegt hve margir á íslandi hafna hlýnun jarðar og/eða að maðurinn komi þar nærri. Ótrúlegt. Stórmerkilegt.
En með það hverjar afleiðingarnar verða - þá er auðvitað etv ekki gott að segja til um það nákvæmlega. Það er erfitt að segja til um nákvæmlega til hvers ógæfuþróunin leiðir og líka hve langan tíma tekur fyrir þetta eða hitt atriðið að koma fram.
En ef fram fer sem horfir þá verða afleiðingarnar skelfilegar.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.3.2009 kl. 16:58
Segðu mér það Ómar hvernig afleiðingarnar verða svona skelfilegar, ekki að þær verði skeflilegar heldur hvernig tiltekin hlýnun fer að því að valda skaðanum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.3.2009 kl. 17:02
Sem dæmi, þurkar á ákveðnum svæðum ss. Afríku (sem ber ekki ábyrð á losun gróðurhúsategunda) svæði verða óbyggileg og afleiðingar fólksflutningar með tilheyrandi vandræðum og styrjöldum.
Allt mun þetta fyrst bitna á fátækum þjóðum og fátæku fólki sem ekki eru eins vel í stakk búin að verja sig og þeir hinir ríkari.
Aðeins hið ofantalda er a þeirri stærðargáðu að við erum að tala um óskaplegar afleiðingar. Óskaplegar. En eg ítreka að óvissuþætti í framvindu slíkra hamfara eru svo margir að varla er mögulegt að spá nákvæmlega umþróunina.
En etv. er hægt að nálgast málið eins og einn kunningi minn sem sagði að GW væri af hinu góða - því þá hlýnaði kannski 1-2 gráður á íslandi ! Eg sagði honum að þetta væri of dæmigert fyrir hugafar sumra íslendinga. Hugsuða aldrei útfyrir hundaþúfu sína.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.3.2009 kl. 18:03
Hvaða skætingur er þetta?
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.3.2009 kl. 18:07
Ég vil byrja á að taka af heilum hug undir skynsamleg orð Auðar: "Efahyggja er af hinu góða, þ.e.a.s. sú tegund efahyggju sem byggir á því að menn vilja kynna sér málin og ekki gleypa allt hrátt".
Með það að leiðarljósi langar mig til að varpa fáeinum einföldum spurningum inn í umræðuna. Það er oft fræðandi að leita svara við spurningum:
1) Hve mikil hlýnun hefur verið síðastliðin 10 ár? Hve mikil síðustu 5 ár? Fer hlýnun vaxandi?
2) Hve mikil hefur hlýnun sjávar verið síðastliðin 5 ár?
3) Hve mikil hefur hækkun sjávarborðs verið síðastliðin 10 ár? 100 ár?
4) Var jafnhlýtt eða hlýrra fyrir u.þ.b. 1000 árum?
5) Hvort látast fleiri af völdum kulda eða hita?
7) Hver er ástæðan fyrir því að hitafar jarðar virðist hafa fylgt virkni sólar undanfarnar aldir?
8) Er það rétt að sólin hafi ekki verið eins virk s.l. 8000 ár og hún var á síðustu öld?
9) Hvaða áhrif hefur aukið magn CO2 á gróðurfar jarðar?
10) Hefur verið hægt að sýna fram á að tíðni fellibylja hafi aukist með hækkandi hitastigi?
11) Hvernig getum við gert greinarmun á þeirri hlýnun sem stafað hefur af mannavöldum og af náttúrunnar völdum?
12) Er það rétt að hlýnun undanfarinna 150 ára jafngildi því sem næst mun á hitafari tveggja staða sem eru í 100 km fjarlægð hver frá öðrum í norður-suður (Reykjavík-Snæfellsnes), eða 100 metra fjarlægð lóðrétt (Nauthólsvík-Perlan)?
13) Hversu mikilli hækkun sjávarborðs ylli það ef allur hafís á norðurskautinu bráðnaði skyndilega?
14) Er það rétt að náttúruleg gróðurhúsaáhrif valdi 33°C hækkun hitastigs lofthjúps jarðar, þ.e. hækki meðalhitann úr -18°C í +15°C?
15) Eru gróðurhúsaáhrifin slæm?
16) Er það rétt að allmargir vísindamenn ræði það nú í fullri alvöru að hlýnunin kunni að hafa náð hámarki og að kólnun sé framundan á næstu árum og áratugum?
---
Látum þessar 16 spurningar nægja að sinni. Hver vill svara?
Ágúst H Bjarnason, 2.3.2009 kl. 18:44
Ágúst, enginn ætlar að svara spurningum þínum. Ég hef reyndar tekið eftir því að á minni síðu eru yfirleitt mjög litlar umræður þegar ég blogga um eitthvað tengt veðri. Stundum koma þó helstu bloggvinir mínir með einhvarjar vinalegar athugasemdir sem koma veðri ekki við en eiginlegar umræður verða sjaldanst í líkingu við það sem gerist á þinni síðu eða hjá Einari Sveinbjörnssyni. Ekki veit ég hvað veldur. Hef á tilfinningunni að veðurbloggið mitt sé næstum því ekkert lesið.
Sigurður Þór Guðjónsson, 4.3.2009 kl. 09:18
Leikmaður stígur í stólinn:
Fyrir nokkrum árum var á Rás 1 þáttaröð, sem ég man ekki hvað hét með stjórnandanum X þar sem rætt var við íslenska vísindamenn um hugðarefni þeirra og viðfangsefni. Síðdegis á sunnudegi ef mig minnir rétt. Þá var rætt við vísindamann sem unnið hafði að veðurfarsathugunum sögunnar með borkjörnum vítt og breytt um jarðir m.a. í Síberíu. Tengdist að ég held ekki dansk-íslenska verkefninu á Grænlandsjökli. Það sem mér þótti athyglisvert í máli hans var hve gríðarlegar hitasveiflur höfðu átt sér stað í lofthjúpi jarðar í gegnum jarðsöguna og voru sveiflur á meðalhita allt að 14° ef mig minnir rétt. Þetta er auðvitað langt umfram það, sem verið er að ræða núna af mannavöldum.
Mér er ljóst að þetta snertir ekki beint kjarna þess, sem rætt hefur verið hér að framan, en það opnar augu okkar fyrir því, hve siðmenningin er brothætt í höndum náttúrunnar, þegar litið er til meintra áhrifa mannsins á hitafarið.
Sigurbjörn Sveinsson, 4.3.2009 kl. 10:50
Þó ég þori nú varla fyrir mitt litla líf að ljúka upp mínum leikmannskmunni langar mig, varðandi þá ábendingu um bók Halldórs Björnssonar að hann sneiði hjá gagnrýni á hlýnunarkenninguna, af hvaða tagi sem er, til að vísa á þessa færslu hjá Einari Sveinbjörnssyni, svona til að lesendur mínir (ef einhvejrir eru!) skilji betur hvað ég er að fara.
Sigurður Þór Guðjónsson, 7.3.2009 kl. 11:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.