Þá er það búið

Hvað verður svo gert við fólkið? Verður það ákært og dæmt? Verður farið með það eins og glæpamenn?. Það er talað niður til þess af mörgum á bloggsíðum og það kallað öllum illum nöfnum. Bloggið er oft sannkölluð forarvilpa þar sem nafnleysingjar og aðrir eru með hvers kyns svívirðingar.

Einn eigandi hússins,  sem að vísu kemur fram undir nafni, Sigurður Theódór Guðmundsson, segir að rónarnir séu skárri en hústökufólkið. Þannig er mórallinn hjá ýmsum gegn þessu fólki. Ég segi hins vegar að Sigurður þessi, sem eflaust er þó alls góðs maklegur, sé samt ekki þess verður að leysa skóþvengi hústökufólksins. Það hefur hugsjónir.

Hvað gerði hústökufólkið af sér? Ekki réðst það inn á heimili fólks og lagði allt í rúst eins og fjárplógsmenn hafa gert  Það setti bara upp bókaverslun og ýmis næsheit í húsnæði  hverra fyrri eigendur gróðaöfl hafa leikið grátt og leika sér nú að því að láta þau grotna niður til að geta rifið þau og grætt enn þá meira. Eigendur húsa sem legið hafa á þessu lúalagi í  stórum stíl hagsmunum sínum til framdráttar komast upp með það eins og ekkert sé fyrir yfirvöldum. Og ekki er lögreglan að ónáða þá. 

Það blasir við að einhver skemmtileg starfsemi hefði verið í húsinu um tíma en ekki varanlega. Hústökufólkið hefði farið á endanum. Ekki hefði þetta átt að skemma neitt fyrir neinum. Hvað eldhættu varðar er hún líklega meiri í mannlausu húsi, þó ekki væri nema vegna hættu á íkveikju, en í húsi þar sem fyrirmyndarfólk gekk um með menningarhugsjónir.

Ég held því fram að þessi hústaka sé vottur um mikla ólgu sem kraumar undir niðri í þjóðfélaginu en kosningarnar halda í skefjum. Mörg hús eru látin grotna niður út um allan bæ og búast má við fleirum svona uppákomum og líka uppákomum af öðru tagi eftir kosningar.

Það skiptir samt kannski einhverju hvernig til tekst með stjórn landsins eftir kosningar. Mér finnst reyndar að frambjóðendur eigi að fjalla um þessa hústöku og hvað hún merkir. En ég hef á tilfinningunni að þeir séu of fínir með sig til þess. 

En menn skulu ekki halda að ekki sé ólga undir niðri í þjóðfélaginu og það er hætt við að hún komi upp á yfirborðið hve nær sem er. Átján þúsundir atvinnulausir og annað eftir því

Að hrópa þá bara um skríl er mesta heimska sem hægt er að láta sér detta í hug.

Vel á minnst. Við þessa færslu verður tekin upp sú nýbreytni að niðrandi ummælum um hústökufólkið verður miskunnarlaust eytt eins og hverjum öðrum sora. Slík skrílmennska  verður að finna sér útrás  á öðrum  bloggsíðum en þessari. En siðsamlegar athugasemdir eru velkomnar.   


mbl.is Sextán handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Það er með ólíkindum hvað mannhatrið getur blossað upp gagnvart sætum og framtakssömum ungmennum, sem engan hafa skaðað, nema síður sé.

Hvað varðar þennan ódýra dópistastimpil, sem sumir eru að klína á krakkana, þá er því nú væntanlega þannig farið, að fólk sem er djúpt sokkið í neyslu, er afar ólíklegt til að hafa orkuna og sköpunarkraftinn, sem þarf til að standa í svona aðgerðum.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 15.4.2009 kl. 13:57

2 Smámynd: Einar Ólafsson

Ég veit um einn frambjóðanda sem hefur tjáð sig, hann er reyndar bara í 14. sæti í SV-kjördæmi sem er ekki öruggt þingsæti:

http://einarolafsson.blog.is/

Hugsanlega á hann eftir að tjá sig meira.

Einar Ólafsson, 15.4.2009 kl. 14:03

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Gott að heyra Einar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.4.2009 kl. 14:08

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sammála og hvet fólk til að lesa pistil Einars líka.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.4.2009 kl. 14:30

5 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Sammála þessu.

Sjá hér.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 15.4.2009 kl. 14:37

6 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Hvað á lögreglan að gera ef hún er beðin að stöðva lögbrot, það er ekki sök þeirra, hvorki einstaklinganna sem lenda í því að þurfa að fara í þetta leiðinda verk, né embættisins, að eigendur hússins hafa farið fram á að húsið verði rýmt.

Ég dáist að framtaksömu ungu fólki sem hefur hugsjónir og hugmyndir, en mér finnst hægt að framkvæma þær innan þess löglega.

Svona hústaka er meira verkleg dæmisaga sem allir vita hvernig endar, en þá finnst mér að hústökufólkið eigi að sýna ofbeldislausa andstöðu og taka afleiðingunum án mótmæla.

Best hefði verið að sjá lengur til hvað úr þessu hefði orðið hjá þeim.

Hólmfríður Pétursdóttir, 15.4.2009 kl. 14:38

7 identicon

Mæltu manna heilastur Sigurður og þið hin.
Það er greinilega ekki sama húsataka og hústaka. Því hvað er það annað en hústökur hvernig þessir „auðmenn“ (með allt í skuld sem við eigum að borga) hafa náð í þessi hús? Hafa markvisst unnið að því að svæla eigendur til selja sér á spottprís til að geta reist gróðahallir með lántökum til að reyna að mjólka fólk þessa lands enn meira.
Og hvað varðar aðgerðir löggublesa þessa lands, má spyrja sig hversu djúpt rötuðu styrkir (mútur) í stjórnkerfið? Það er alla vega ekki mikið blakað við þeim sem stálu mestu. Ekki er löggan send grá fyrir járnum að handataka þá. Eða hvað?
Svei mér ef manni er ekki nóg boðið og rúmlega það.

Takk fyrir þessa síðu, les hana reglulega mér til ánægju og sendi hér með Mala kveðju og klór.

Eygló (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 14:39

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Og Mali hvæsir til baka og setur upp kryppu í baráttukveðju. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.4.2009 kl. 14:43

9 identicon

Hver kærir lögregluna fyrir eignaspjöll sem voru gerð á húsinu ..

voru þeir beðnir um að rýma að eyðileggja ? 

Hústökumenn eiga að vera kærðir fyrir innbrot og eignaspjöll

og lögreglan fyrir eignaspjöll..

Zip (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 16:32

10 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þetta var flott framtak hjá stjórnleysingjunum. Og nú þarf að fara að skoða innviði lögreglunnar og koma með tillögur um breytingar á starfssviði hennar. Hvað ætli þessi víkingasveit kosti okkur til dæmis?

María Kristjánsdóttir, 15.4.2009 kl. 18:23

11 identicon

Það er gífurlega skemmtilegt að sjá ungt fólk með hugsjónir. Þetta er einhvern veginn tíminn til að leyfa þeim að blómstra. Hvergi er réttlætistilfinningin sterkari en í ungu fólki. Þetta gefur lífinu lit. Áfram svo.

Tryggvi Marteinsson (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 19:16

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Svo heldur húsið áfram að grotna niður ásamt öðrum húsum á stóru svæði í miðbænum af því aðverktakar græða á því. Þessi niðurníðsla er yfirvöldum þóknanegri en sú margháttaða lífræna starfsemi sem hústökufókið hafði í hyggju.

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.4.2009 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband