Óvenju hlý júlíbyrjun

Fyrstu dagarnir í þessum júlí munu vera einhverjir þeir hlýjustu sem komið hafa á þeim dögum á landinu í heild síðustu 60 árin að  minnsta kosti. Hitinn er mjög jafn yfir allt land og hitinn á næturnar veldur miklu um háan meðalhita. Það er eiginlega ekkert til samanburðar við þessa daga nema byrjun júlí árin 1991 og kannski 1975.

Í byrjun júlímánaðar 1991 kom mikil hitabylgja með bæði háum hámarkshita og meðalhita. Fyrsta júlí fór hitinn á Kirkjubæjarklaustri í 29,0 stig og daginn eftir í 29,2 stig en þar með voru hitarnir búnir á þeim stað og fluttu sig annað. Næstu þrjá daga var hámarkshiti landsins 28-29 stig á austurlandi, Vopnafirði, Reyðarfirði og Egilsstöðum. Þessa daga var vestan eða suðvestanátt og úrkomusamt og ekkert sérstakt á suður-og vesturlandi en miklir hitar austantil. Árið 1975 byrjuðu hitarnir ekki fyrr en 4. júlí og stóðu í tvo daga en voru aðallega fyrir norðan, þar sem þeir voru afar miklir, en syðra var rigning og ekkert hlýtt.   

Á hádegiskortunum sem hægt er að sjá á vefnum fyrir tíu veðurstöðvar alveg frá 1949 er meðalhitinn þ. 1. og 3. núna sá hæsti sem hægt er að finna á þeim kortum þá daga en þ. 2. og 4. var hlýjast árið 1991.

Ef miðað er við meðalhita Reykjavíkur, Stykkishólms, Akureyrar og Kirkjubæjarklausturs saman slá  fyrstu þrír dagarnir met í okkar júlí sem nú er að byrja en 1991 heldur þeim fjórða.  Hugsanlega  hefur þó verið hlýrra á landinu öllu árið 1991 alla þessa daga. Fjórar stöðvar  eru ekki mikið til að moða úr en þetta sýnir að minnsta kosti að eitthvað óvenjulegt er á ferðinni.    

Meðalhitinn í Reykjavík þ. 3. er líklega sá mesti síðan Veðurstofan var stofnuð, 1920, fyrir þann dag, með fullri vissu frá 1936.  Hann reikna ég 15,9 stig, eftir átta athugunum jafnt dreift yfir sólarhringinn og dagurinn í gær  setti sömuleiðis dagsmet með 15,5 stigum.  

Það eru engin glæsimet á sveimi en það er þessi jafni hiti yfir allan sólarhringinn sem er að gera þessa daga merkilega og hífa upp meðalhitann. Mjög víða á veðurstöðvum hefur hitinn ekki farið niður fyrir 10 stig allan sólarhringinn síðan 28. júní. Í raun og veru er þetta global warming einkenni!Tounge

Síðar í mánuðinum hafa komið dagar í ýmsum júlímánuðum sem slá þessa daga alveg út. Nefna má hitabylgjuna kringum þ. 10. 1976, í blálok júlí 1980 og þ. 25.-30. í fyrra þegar hitametið var sett í Reykjavík þ. 30. Að ekki sé minnst á hitabylgjuna miklu kringum 10. ágúst 2004.

Þessi hlýindi sem nú eru verða þó að teljast ekki bara hversdagsleg sumarhlýindi heldur óvenjuleg og reyndar nokkuð sérstök í hátterni. 


 


Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

það var notalegt á Austurvellinum í nótt, í hlýrri nóttinni, á bolnum og í góðum fíling eins og virtist með aðra nærstadda

Brjánn Guðjónsson, 5.7.2009 kl. 18:56

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Reykjavík er meira að segja komin í 20 stiga klúbbinn í ár, skv mælingu kl.19 á föstudagskvöld. Hef þó ekki nákvæma hámarkstölu.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.7.2009 kl. 21:16

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það mældist 20,2 á sjálfvirka mælinum í fyrrakvöld kl. 19 en fór þann dag ekki hærra en 18, 4 á kvikasilfrinu en í gær19,0. Það hafa því enn ekki komið 20 stig í Reykjavík.

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.7.2009 kl. 21:29

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Spæling. Það er greinilega ekki nógu kvikt þetta kvikasilfur.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.7.2009 kl. 22:26

5 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Sammála að sérlega hlýtt er fyrstu fimm dagana í júlí hér í Rvk. Og býð ekki  meðalhitinna verði  mánuðrinn  allur í svipaða veru.   Þau verða mörg metin ef farið er að horfa í hvern  dag fyrir sig líkt  og  Bandaríkjamenn hafa  ástundað  lengi.   15,9°C  sólarhringsmet  er aðeins í gildi fyrir  3. júlí, en sú tala er  samt langt frá hinum glæsilegu 19,2°C 31. júlí 1980 ekki satt ??

Kveðja ESv

Einar Sveinbjörnsson, 5.7.2009 kl. 23:44

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Eigi að síður hafa ekki verið svona hlýir dagar í upphafi júlí eins lengi og ég hef lifað. En yfirleitt eru þá bestu dagarnir eftir. Reyndar finnst mér eins og þetta verði mjög hlýr júlí.

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.7.2009 kl. 00:34

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ekki megum við svo gleyma 11. ágúst 2004 með meðalhita upp á 20,1 stig!

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.7.2009 kl. 00:38

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband