Júlí stendur sig enn

Meðalhitinn í júlí í Reykjavík stendur nú í 13,3 stigum. Það er ein af  hæstu tölum sem hægt er að finna fyrir nokkurn júlímánuð fram til þ. 16. Í nótt fór hitinn ekki neðar en í 12,0 stig og meðalhitinn í dag verður líklega ansi hár. 

Hlýjasti júlí sem mælst hefur í Reykjavík var 13,0 stig árið 1991. 

Þessi júlí á því enn möguleika á að slá hitamet. Það má hins vegar ekki mikið út af bregða.  Meðalhitinn þ. 14, var aðeins 10,4  stig og er það eini dagurinn enn sem komið er sem hefur verið undir útjöfnuðu langtíma sólarhringsmeðaltali. En við þennan eina dag féll meðaltal það sem af var mánaðarins um 0,2 stig. Menn geta því rétt ímyndað sér hvað mun gerast ef nokkrir jafn kaldir eða kaldari dagar fara saman. Þegar meðalhitinn er orðinn þetta hár má mánuðurinn eiginlega ekki missa dampinn. En hann getur líka bætt við sig síðar í mánuðinum.

Það er reyndar spáð hlýju veðri í Reykjavík næstu daga. En blikur eru á lofti um kaldara veður síðustu viku mánaðarins. Spár sem ég hef séð um það eru þó nokkuð misvísandi. Og kannski er bara best að láta allar spár lönd og leið!

Þessi hiti sem nú er gætir fyrst og fremst á suðvestur- og vesturlandi. Stykkishólmur stendur sig tiltölulega jafnvel enn betur en Reykjavík. Alls staðar er hitinn vel yfir meðallagi en í öðrum landshlutum er ekki verið að berjast um gull, silfur eða brons eins og Reykjavík og Stykkishólmur eru enn að gera hvað varðar hlýjasta júlí á hvorum stað um sig. Hugsanlega er þó allra hlýjast á landinu tiltölulega á sunnanverðum Vestfjörðum.

Ég minni á að hægt er að fylgjast með daglegri framvindu þessa mánaðar í Reykjavík í fylgiskjalinu við þessa færslu ''Slær júlí hitamet í Reykjavík'' sem nú er komin efst undir Síður til hægri á bloggsíðunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Já, þetta er nú meira ,,rigningarsumarið"

Hólmfríður Pétursdóttir, 19.7.2009 kl. 00:08

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það var nú eins og hellt væri úr fötu á suðurlandi í dag með þrumum og eldingum. Sjá, dagar dómsins eru í nánd!

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.7.2009 kl. 00:42

3 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Ég sá líka tuttugu regndropa á framrúðu bílsins í Kjósinni á föstudaginn.

Merki um dómsdag sá ég engin, en tíndi lífgrös.

Hólmfríður Pétursdóttir, 19.7.2009 kl. 00:57

4 Smámynd: Elle_

Já, Sigurður, júlí stendur sig ótrúlega vel. 

Elle_, 19.7.2009 kl. 14:37

5 Smámynd: Ásta Björk Solis

Nu vildi eg sko oska thess ad vera a Islandi.

Ásta Björk Solis, 19.7.2009 kl. 21:40

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta er óneitanlega þægilegt veður miðað við 40 stigin í Texas! Á morgun er spáð 20 stigum í Reykjavík. Eins og snemma vors í Texas. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.7.2009 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband