31.ágúst 1939

Það þarf ekki að taka það fram að þessi dagur var síðasti dagur friðar áður en síðari heimsstyrjöldin skall á. En þetta var einnig dagur mikillar veðurblíðu í Reykjavík. Hámarkshitinn mældist 21,4 stig. Það var mesti hiti í ágúst sem mældist alla tuttugustu öldina í bænum.

Aðeins þrisvar hefur mælst meiri hiti einhvern tíma í ágúst. Árið 1876 mældust 21,6 stig á hádegi þ. 18. en hámarksmæling var ekki gerð.  Árið 2004 mældust 24,8 stig þ. 11. og daginn eftir 22,2  stig skömmu eftir klukkan 18. Loks mældust 23,3 stig 1. ágúst í fyrra. 

Enn í dag hefur hins vegar ekki mælst jafn mikill hiti í höfuðborginni og 1939 svo seint að sumri. Á þessum tíma var Veðursstofan í Landssímahúsinu við Austurvöll og hitamælaskápurinn var á trépalli á þaki hússins. Á hádegi þennan dag voru þrjú vindstig af austri og mátti heita léttskýjað og hitinn 19,6 stig en var hins vegar fallinn niður í 14,8 klukkan 17 en þá var orðið meira en hálfskýjað og vindur hægur af norðvestri. Dagurinn var alveg þurr en sólskin skein í tæpa tíu og hálfa klukkustund. Hlýtt var þennan dag á öllu suður og suðvesturlandi, t.d. 22,4 stig á Hvanneyri, 20,6 í Síðumúla í Hvítársíðu og 20,1  stig á Þingvöllum. Næstu daga voru mikil hlýindi. Hæð var austur af landinu en lægð suður í hafi, nokkuð algeng hitabylgjustaða.

Þessi síðasti dagur friðarins árið 1939 var fimmtudagur. Um kvöldið var dansleikur í Alþýðuhúsinu á Hverfisgötu og lék hljómsveit Bjarna Böðvarssonar fyrir dansinum. Bjarni var faðir hins landskunna Ragnars Bjarnasonar dægurlagasönvara. Annars konar tónlist var einnig í  boði þetta kvöld því Björn Ólafsson, bráðungur og efnilegur fiðuleikari, hélt tónleika með Árna Kristjánssyni píanóleikara í Gamla bíói. En ekkert var því til fyrirstöðu að menn sæktu þá tónleika og skelltu sér svo á ballið í Alþýðuhúsinu á eftir. Það var líka hægt að fara í bíó. Nýja bíó sýndi til dæmis Tvífarann dr. Clitterhouse með stórstjörnum eins og Humphrey Bogart og Edward G. Robinson.

Súðin var að koma úr strandferð og Gullfoss var í höfn í Reykjavík. Dronning Alexandrine, danskt farþegaskip sem allir þekktu undir nafninu Drottningin og var í förum milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur, var líka í höfninni. 

Meistaramót ÍSÍ var háð á Melavellinum. Knattspyrnumenn úr Val og Víkingi voru  í  Bremen í Þýskalandi að tapa öllum leikjum sínum.  

Íslensk skáksveit var hins vegar að gera það gott á Ólympíuskákmótinu í Buenos Aires þar sem hún varð efst í b-flokki. Vegna styrjaldarinnar lentu skákmennirnir í miklum vandræðum á leiðinni heim. 

Allir vissu að stríð lá í loftinu. Hitler hafði sett Pólverjum úrslitakosti og  þjóðirnar voru að hervæðast í óðaönn.

En óneitanlega var síðasti friðardagurinn veðursæll og fagur.   

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það mætti halda að þú hafir sjálfur verið spóka þig í bænum þennan dag.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.8.2009 kl. 19:57

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég var það líka - í anda.

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.8.2009 kl. 20:09

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Vissi alltaf að Ágústinn minn myndi standa sig !

08.08.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 1.9.2009 kl. 00:03

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Árgerð hvað Hildur Helga?

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.9.2009 kl. 00:04

5 identicon

Sumarið 1939, var það ekki eitthvert hlýjasta sumar 20. aldarinnar Sigurður?  BTW Var ekki Edward G. Robinson (ekki Robertson)?

Angelo (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 09:49

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sumarið 1939 var víðast hvar það hlýjasta sem mælt hefur verið. Og auðvitað var Edward G. Robinson en ekki Robertson eins og hér stóð.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.9.2009 kl. 12:41

7 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Hugljúf upprifjun Sigurður Þór !  Margir hinna eldri hafa í mín eyru einmitt tengt fregnir af upphafi átakana við veðurblíðu og sumarið sem aldrei virtist ætla að taka enda !  Eru ekki bestu minningarnar einmitt þær sem eru ljúfsárar ?

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 2.9.2009 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband