Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

Kaffihús fína og fallega fólksins

Stefán vinur minn kom til mín í dag og við fórum á kaffihús. Hann var að að koma frá Angóla og  var svo yfirmáta hress og glaður yfir ferðinni að ef ég væri í uppnefniham myndi ég kalla hann Stebba stuð. Ég var hins vegar með hausinn niðri í bringu allan tímann af því ég hef bara ekki verið í sambandi í heila viku. En þetta er allt að koma. Ég fékk mér einmitt í dag gríðarlega kraftmikinn ráter sem á að kippa mér í almennilegt samband við bæði guð og menn. Hann verður tengdur á morgun af til þess gerðum hæfum spesjalista. Ef ég myndi reyna að tengja yrði ég eflaust sambandslaus bæði þessa heims og annars um alla eilífð.  

Við sátum á kaffihúsinu AMOKKA, þar sem ég hitti í fyrsta skipti hana Tótu pönkínu, öðru nafni Búlgarína, þriðja nafni the indescribable catwoman, sem ég les á hennar eigin bloggsíðu að einhver af “skárri kunningjum” hennar segi að sé vitlaus og vambalaus. Mér þætti gaman að sjá framan í þennan kunningja sem skrifar henni svona dónalegt bréf. Aldrei í lífinu myndi ég gera það. Þegar ég var lítill, og ég var alveg óvenjulega lítill þegar ég var lítill eins og ég hef ljóstrað upp áður á þessari síðu, var þetta reyndar alltaf sagt við mig í tíma og ótíma af henni ömmu gömlu en afi var löngu dauður og gat því lítið sagt.

 

Þarna á kaffihúsinu voru ýmis stórmenni. Þar var Gísli Marteinn með bakpoka á herðunum. Hann var samt beinn í baki og helvíti brattur. Hans ok er greinilega ljúft og byrði hans létt. Eva María, sæta viðtalínan í Kastljósi, var líka á staðnum með einhverjum strákum. Og svo var ég þarna.

 

Líkast til er AMOKKA kaffihús fína og fallega fólksins.  

 

Og víkjum nú að alvöru lífsins: Mér var að berast tilkynning um póstsendingu sem ég á að sækja. Guð minn almáttugur! Hver skyldi nú vera að senda mér mistilbrand í pósti? Það hlýtur að vera einhver af allra verstu kunningjum mínum.

 


Einhver allra hlýjasti september í Reykjavík

Nýliðinn septembermánuður er einn af þeim fimm hlýjustu sem mælst hafa í höfuðborginni síðan sæmilega áreiðanlegar mælingar hófust kringum árið 1830. Mðalhitinn er 10,5 stig. Hlýrri voru september 1939, 11,43 stig, 1958, 11,37, 1941, 11,1 stig. Næstir koma september 1996, 10,4 stig, 1850, 10.2 og 1901, 9,8. Meðalalhiti september í Reykjavík árin 1961-1990 var aðeins 7,3 stig en 8,6 árin 1931-1960 og líka síðustu tíu árin (með þessum).

September 1996 var sá hlýjasti fyrir norðan og austan síðan 1939 og 1941, meðalhitinn á Akureyri var 11,4 stig. Mánuðurinn var reyndar sá þriðji hlýjasti frá 1882. En slíkum yfirbuðrum er ekki að heilsa núna enda voru austanáttir mjög algengar að þessu sinni en sunnanáttir voru ríkjandi 1996. Mánuðurinn var að vísu hlýr núna fyrir norðan en ekki einn af þeim hlýjustu. Árið 1996 var hlýji septemberinn í Reykjavík sá næst sólarminnsti sem þar hefur komið frá því farið var mæla. Núna var hins vegar stundum sól og blíða og voru  sólskinsstundirnar 85. 

Vegna þessa fyrirmyndar septembers varð sumarið, júní til september, líka eitt af þeim hlýjustu í Reykjavík, að minnsta kosti frá stríðslokum. Hlýrra varð þó 2004 og 2003, 1958 og svipað 1960. 

Og við skulum svo bara kætast yfir góðærinu meðan kostur er. Það fer víst að styttast í að Golfstraumurinn gefi sig og hér verði álíka kalt og á Baffinslandi.

 


Hasar í bænum

Síðustu viku og lengur þó hefur allt bilað sem bilað getur á þessu heimili. Fyrst fór tölvan og þegar hún komst í lag eftir óratíma kom dularfullt sambandsleysi á netinu sem nú hefur verið lagað til bráðabirgða. Hvað skyldi nú gerast næst?. Ætli ég bili bara ekki sjálfur.

Samt sem áður hef ég verið glaður og kátur enda yfir miklu að gleðjast. Kaninn er farinn og búið er að hleypa vatni á ég man ekki hvað. Ekkert skil ég  í þessum mótmælendum að vera að þramma þessa skemmtigöngu þúsundum saman í henni Reykjavík. Hefði ekki verið miklu áhrifameira að tíu til fimmtán þúsund sálir væru að príla í gljúfrunum sem á að drekkja. Það væru alvöru mótmæli. Eða bara gera eins og ég sem læt ekkert raska minni himnesku ró.

Ekki heldur þetta fíflalega stjörnufans. Það  er út í hött að ákveða svoleiðis með margra mánaða fyrirvara. Slíkt á að gera á skemri tíma með hliðsjón af veðurspá. Í gær var sól og blíða og í dag er líka sól og blíða og stjörnurnar verða flottar í kvöld. Sannleikurinn er auðvitað sá að Reykvíkingar hafa engan áhuga á því að hefja huga sinn upp til stjarnanna. Þetta var bara auglýsingabrella fyrir kvikmyndahátíð.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Nú þori ég ekki út úr húsi af ótta við að hryðjuverkammenn taki mig í gíslingu og  skeri mig á háls eyrna á milli. Við erum núna vopnlaus og varnarlaus smáþjóð.

Stærstu fréttirnar síðan tölvufjandinn bilaði eru hins vegar þær að um daginn var ég passa tvö börn, þriggja og fimm ára, eina kvöldstund. Og þá var nú hasar í bænum. Og mörg hryðjuverk framin. Þegar svo gestirnir áttu að fara heim til sín að sofa í hausinn á sér fóru þeir í alveg svakalega fýlu yfir því að fá ekki að gista til að geta framið nokkur enn þá skelfilegri næturhryðjuverk. Það var grenjað og orgað alveg ógurlega. Þurfti loks að beita gestina talsverðu ofbeldi til að fjarlægja þá úr húsinu og til síns heima.

<!--[if !supportEmptyParas]-->

Þetta var nú samt með betri heimsóknum. Mikið væri annars gaman ef vinir mínir fyndist ég svo skemmtilegur að þeir væru að hágrenja og sparka ef þeir fengju ekki að gista þegar þeir koma í heimsókn.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband