Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Útlendingalögin árétta mannúðarsnjónarmið

Mörður Árnason varaþingmaður hefur mælst til þess að dómálaráðherra taki upp mál Paul Ramses og kalli hann aftur til landsins. Það er Birni í lófa lagið að gera ef hann vill.

Á heimasíðu sinni í gær sakaði ráðherran gagnrýnendur sína í þessu máli um að stjórnast af tilfinningasemi en stjórnsýslan yrði hins vegar að styðjast við lagaleg rök í gerðum sínum.

Auðvitað! Og einmitt það var ekki gert. Lög þarf reyndar alltaf að túlka og skýra eftir eðli þeirra og anda. Meðal þeirra atriða eru mannúðarrök sem dómsmálaráðherra mundi líklega kalla tilfinningaleg rök í niðrandi merkingu. Í skilningi sínum á anda, já, beinlís bókstaf laganna,  hefur Útlendingastofnun og dómsmálaráðherra einmitt orðið á í messunni eins og sýnt verður fram á hér að neðan.

Í fyrsta lagi er ekki skylt að fara eftir heimild Dyflínarsamningsins um að senda flóttamenn til þess lands sem fyrst tók við þeim.  Það er frjálst val eins og á milli góðs og ills.

Haukur Guðmundsson fullyrðir að eiginkona Paul Ramses dvelji hér ólöglega. Reyndar hafa engar frekari skýringar á þessu komið og það hefur m.a. Toshiki Toma prestur innflytjenda gagnrýnt. Ef lagaskilningur Hauks er að þessu leyti eins klár og í því atriði sem nú verða færð rök fyrir býð ég ekki í trúverðugleika staðhæfingar hans

Jafnvel þótt eiginkonan dveldi hér ólöglega  stendur nefnilega svo í Lögum um útlendinga, 11.gr., skilyrði dvalarleyfis: "Veita má útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fulnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendings við landið."

Það er sem sagt ótvírætt tekið fram í landslögum að taka beri tillit til mannúðarsjónarmiða, öðru nafni tilfinningalegra raka.

Í 20. gr. segir að heimilt sé að vísa útlendingi úr landi ef hann dvelur ólöglega í landinu. Það er ekki skylt. Það er matsatriði út frá mannúðarsjónarmiðum meðal annarra sem ekki aðeins eru innbyggð í anda laganna heldur stendur þar beinlínis skýrum stöfum. Auk þess er sérstaklega tekið fram í lögunum að brottvísun af  einmitt þessum ástæðum, ólöglegri dvöl (og ýmsum fleirum reyndar) "skuli ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendingsins við landið munu fela í sér ósanngjarna ráðstöfum gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans."

Þegar ég í færslu minni í gær gagnrýndi Sigmar Guðmundsson í Kastljósi fyrir að vera illa undirbúinn og sýna linkind við forstjóra Útlendingastofnunar hafði ég meðal annars þessi atriði í huga í Lögum um útlendinga.

Aðalröksemd Hauks um það að gæta verði „jafnræðisreglu" við afgreiðslu mála og eitt verði þá yfir alla að ganga  fellur því um sjálfa sig af því að lagabókstafurinn segir annað. Hann gerir sérstaklega ráð fyrir frávikum vegna eðli mála. Allt það eðli  hnígur að mannúðarsnjónarmiðum.

Þegar Björn Bjarnason skrifar "Ákvarðanir innan stjórnsýslunnar byggjast á þeim ramma, sem þeim eru settar í lögum og reglum", og þykist þar með vera að hafna tilfinningum,  blasir við að stofnunin leit einmitt framhjá mikilvægum lagaboðum í afgreiðslu þessa máls.

Jú, Haukur neitar því að Paul Ramses hafi haft mikil tengsl við Ísland. Hann neitar því þá eflaust að taka beri nokkuð mark á skráðum mannúðarákvæðum Útlendingalaganna. Verkin hans tala.

Sú "tilfinningalega" gagnrýni sem andstæðingar dómsmálaráðherra hafa sett fram í þessu máli hnígur auðvitað að þessum mannúðarþáttum sem eru festir í landslög um útlendinga. Hún er ekki einhver óljós tilfinningasemi. Hún er krafa um að landslög séu ekki fótum troðin.

Það var þó gert miskunnarlaust við afgreiðslu máls Paul Ramses. Og það er hrikalegt að sjálfur dómsmálaráðherrann skuli verja það athæfi.

En hann getur enn séð sig um hönd.

Virt landslög og sýnt kristilega mannúð í verki.

 


Já, Björn við höfum tilfinningar!

Í dag skrifar Björn Bjarnason dómsmálaráðherra þetta á heimasíðu sinni:

"Haukur Guðmundsson, settur forstjóri útlendingastofnunar, sat fyrir svörum hjá Sigmari í Kastljósi. Besti vitnisburður um, að Haukur hafi staðið sig vel, sést á því, að eindregnir andstæðingar niðurstöðu Hauks og samstarfsfólks hans meðal bloggara telja Sigmar ekki hafa verið nógu harðan í spurningum sínum! Þessu fólki er því miður ekki annt um, að rök fyrir niðurstöðunni séu skýrð, heldur vilja reka það með vísan til tilfinninga. Ákvarðanir innan stjórnsýslunnar byggjast á þeim ramma, sem þeim eru settar í lögum og reglum."

Já, Björn, við höfum tilfinningar og okkur svíður í hjartað. Þekkir þú þá tilfinningu?

Nei, það gerir þú ekki. Ef þú gerðir það myndirðu ekki í fínu ráðherrajakkafötunum þinum verja Hauk Guðmundsson og hrósa honum í hástert og stæra þig af snilld hans. 

Já, og svo veist þú alveg eins vel og aðrir að í andstöðunni við gerðir þínar og undirsáta þinna hafa komið fram ýmis rök. En þú sérð þau ekki eða gerir lítið úr þeim eins og rökum Eiríks Bergmanns Einarssonar.

Það hafa komið fram bæði rök og tilfinningar. Þú og Haukur hafið vissulega ýmis rök. 

En þið hafið engar tilfinningar.

Á verkunum skulum við þekkja ykkur. 

Og það gerir þjóðin.

  


Viðbrögð Mala við Hauki og Sigmari í Kastljósinu

Hvernig stendur á því að hann Sigmar sem oft er grimmur eins og vargur við þá sem hann spyr út úr var eins og slytti þegar hann ræddi við Hauk Guðmundsson? Sigmar sýndist heldur ekki hafa undirbúið sig neitt. Hann virtist taka yfirlýsingu Hauks um ólöglega dvöl eiginkonu Ramses gilda að öllu leyti og spurði engra nánari spurninga út í hvernig því væri farið, hvað þá að hann spyrði óþægilegra spurninga. Ég er handviss um að vel undirbúinn spyrill sem eitthvað hefði kynnt sér lagabókstafi hefði getað leit ýmislegt í ljós. Skýringarlausa staðhæfingu Hauks Guðmundssonar er ekki hægt að taka alvarlega og Sigmar átti einmitt að sýna fram á það. Hefði það verið fagleg vinnubrögð.

Einkennilegt var annars að horfa á Hauk. Hann er maður sem lætur engan bilbug á sér finna og samviskan vefst ekki fyrir honum eða það sem kallað er "mannúð". Enda hefur hann reglurnar á hreinu. Og hann mun óhikað halda áfram á sinni braut. Björn Bjarnason treystir honum líka fullkomlega.     

Það fauk í hann Mala yfir linku Sigmars og vélrlænu miskunnarleysi Hauks. Ég náði myndum af því þegar hann mótmælti hástöfum og þegar hann varð svo heitur að hann varð bókstaflega að kæla sig  niður.

Loks er bónusmynd af því þegar Mali var að blása á kertið þegar hann átti eins árs afmæli.

Mali er góður köttur. Og í augum guðs er betra að vera góður köttur en vondur maður.

Mali að prótestera.

PICT2629

Mali að kæla sig niður.

PICT2631

Mali að blása á afmæliskertið.

PICT2633

Hægt er að stækka myndirnar mjög með því að smella þrisvar á þær.  


Hvað varð af hitabylgjunni?

Það var verið að spá hitabylgju með kannski meira en 25 stiga hita þar sem hlýjast yrði. En nú er allur vindur farinn úr þessari bylgju. Þessum mikla hita er ekki lengur spáð. Hlýja loftið eins og gufaði að mestu leyti upp og það litla sem eftir var fór norður fyrir landið.

Þetta voru talsverð vonbrigði. Nú er bara ósköp venjulegt júlíveður í fremur hlýrri kantinum.

Ég er óhress með veðurspárnar. Þær voru algjört snuð. Og verst er að þær spár sem koma frá veðurspámönnum eru svo skrambi misvísandi hvað hitann snertir, munar mörgum stigum t.d. á spánum á veðursíðu Mbl.is sem ég held að séu örugglega komnar frá Veðurstofunni, hitanum á spáritaspánum á vef Veðurstofunnar með tilheyrandi kortum og töflum og svo á hitakortunum í lit á sama vef. Og loks er enn annað uppi á teningnum hjá spámönnum Ríkissjónvarpsins. Þarf þetta endilega að vera svona misvísandi hvað hitastigið varðar? Skýjahulan er líka misvísandi milli spáa.

Ég athugaði spárnar vel og bar þær saman þó ég nenni ekki að tíunda hvernig ég gerði það.

Ég var nefnilega þess albúinn að þeysa út  á land þar sem spáð var mestum hita sem aldrei gekk svo eftir. En ég hef engan áhuga fyrir að vera þarna í 15 stiga hita. Kikkið var hitabylgjan.

Já, ég er ekki sáttur við frammistöðu veðurspámannanna og sérstaklega að hitaspárnar skuli vera svona misvísandi.

  


Koma verður í veg fyrir enn verri glæp

Eftir fréttum að dæma er yfirvofandi á næstu dögum að eiginkonu Paul Ramses og eins mánaðar gömlu barni þeirra hjóna verði vísað úr landi. Það verður væntanlega gert af skyndingu og með leynd. Það ríður þess vegna á því að góðir menn haldi vöku sinni og reyni að koma í veg fyrir þá nauðungarflutninga með öllum ráðum.  

Það er umhugsunarvert hve fjölmiðlar hafa í raun sýnt þessu máli lítinn áhuga eins og Jónas Kristjánsson hefur bent á og hann segir réttilega að málið sá hápólitískt. Það varðar hvernig flóttamannapólitík við viljum reka og reyndar líka hvaða mannúðarsjónarmið við viljum halda í heiðri.

Við erum ekki bundin af þessum Dyflínarsamningi en hins vegar íslensum lögum. Tengsl Paul Ramses við Ísland og jafnvel íslensk stjórnvöld eru öllum kunn og alveg vafalaus. Í lögum um útlendinga nr. 96/2002, 46. gr. rétt til hælis,  stendur skýrum stöfum: 

"Ekki skal endursenda flóttamann til annars ríkis skv. c-, d- og e-lið 1. mgr. ef hann hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd."

Það er því ljóst að Útlendingastofnun undir verndarvæng dómsmálaráðherra er að brjóta grundvallarlög á Ramses auk þeirra lagabrota sem fólust í málsmeðferðinni og lögmaður hans hefur lýst.

Samkvæmt fréttum er komið fram við Ramses sem glæpamann og hann er í fangelsi á Ítalíu og gæta hans fjórir vopnaðir verðir.

Nú eru þeir í starholunum til að vísa eiginkonu Ramses og barni úr landi. Fólk finnur auðvitað til vanmáttar síns í þessu máli frammi fyrir miskunnarlausum stjórnvöldum. En reynslan sýnir samt að stundum hefur mótstaða almennings haft áhrif á stjórnvöld. Og kannski er einn liðsmaður almennings í sjálfri ríkisstjórninni. Utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að henni sé umhugað um þetta mál. Getur hún þá ekki sýnt umhyggju sína í verki og  beitt áhrifum sínum til að fá Paul Ramses aftur til landsins til fjölskyldu sinnar í stað þess að henni verði allri vísað út landi til sitt hvors landsins. Getum við staðið undir því siðferðilega sem þjóð að slíkt gerist?

Það veður að koma í veg fyrir þann glæp með öllum ráðum. 


Grimmd og miskunnarleysi

Vísir sendi Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra nokkrar spurningar varðandi umsókn Paul Ramses og starfsemi og vinnureglur Útlendingastofnunar. Svar Björns var svohljóðandi:  

„(H)vert mál er skoðað fyrir sig af útlendingastofnun, hún leggur mat á umsóknir og kemst að niðurstöðu um afgreiðslu þeirra. Ef fólk er ósátt við þá niðurstöðu er unnt að kæra hana til ráðuneytisins og/eða leita til umboðsmanns alþingis og dómstóla vegna málsins. Réttarstaða útlendinga hér á landi er skýr og á síðasta þingi sameinaðist alþingi um breytingar á útlendingalögum til að skýra þessa stöðu enn betur. Dyflinarsamningurinn er einnig skýr og honum er beitt af aðildarríkjum hans. Að sjálfsögðu er ekkert ólögmætt eða athugavert að beita þeim samningi frekar en öðrum milliríkjasamningum."

Þá veit maður það. Það er kannski ekkert ólöglegt við þessa afgreiðslu. En hún er að sjálfsögðu svo grimm og miskunnarlaus að furðu sætir. Hún er "ómennsk" eins og Atieno Othiembo eiginkona Paul Ramses komst að orði. Ekki má heldur gleyma því að réttur var brotinn á Paul af yfirvöldum.

Það lætur Björn Bjarnason sig engu skipta. Ekki heldur að fjölskyldu var sundrað. Ekki heldur að Paul er í lífshættu ef hann skyldi verða sendur aftur til Kenía frá Ítalíu sem virðist ekki vera mjög hælisleitavænt land.

Hvernig getur maður sem er svo að segja fæddur inn í valdakerfið og situr í skjóli þess, varinn á allar hliðar af stærsta stjórnmálaflokki landsins og ríkisstjórninni, með góðar tekjur áratugum saman svo segja má að hann velti sér upp úr hóglífi og munaði sýnt svona takmarkalausa grimmd og miskunnarleysi gagnvart þeim sem eiga undir högg að sækja? Hvernig er það bara hægt? 

Viðbrögð dómsmálaráðherra eru fullkomlega ómennsk.

Auðvitað mun hann samt láta sig engu skipta hvað menn segja um gerðir hans. Hann situr öryggur í sínu skjóli fjarri þjáningu heimsins. Sinnulaus um þjáningu heimsins.  Eykur á þjáningu heimsins og ver afstöðu sína með kjafti og klóm. 

Og það er fleira uppi í þessu dæmalausa máli. 

Haukur Guðmundsson forstöðumaður Útlendingastofnunar sagði í útvarpinu áðan að eiginkona Ramses sé hér ólöglega. Hann segir að henni og eins mánaðar gömlu barninu verði umsvifalaust vísað úr landi. Reyndar sagðist hann ekki geta rætt þetta mál sérstaklega en lét sig samt hafa það að koma hiklaust höggi á konuna fyrir augum allrar þjóðarinnar. Lítilmennska og hræsni Hauks er blátt áfram sjúkleg.

Og af þessum tilgreindu ástæðum segir hann að það sé tómt mál að tala um að fjölskyldunni sé sundrað.  

Frá mannúðarsjónamiði er þessi rökfærsla hans fyrir neðan allar hellur. Og það vekur ugg að henni sé beitt af embættismanni ríkisns.

Hvað er eiginlega að gerast á Íslandi að þessi maður skuli óáreittur líðast níðingsverk sitt með brottvísum Paul Ramsens og hóti öðru verra og dómsmálaráðherra landsins skuli verja það af öllu afli?

Mun þjóðin leyfa þessum  vondu mönnum að komast upp með þetta?  

 


Afhverju er forstöðumaður Útlendingastofnunar ekki handtekinn og yfirheyrður?

Keníumaðurinn Paul Ramses, sem íslensk stjórnvöld vísuðu úr landi án þess að taka fyrir mál hans, var fluttur úr landi í morgun með lögregluvaldi.  

Hann starfaði um tíma við hjálparstarf Í Kenía sem íslensk stjórnvöld komu að. Ramses tók einnig þátt í borgarstjórnarkosningum í Næróbí í Kenía í desember í fyrra en náði ekki kosningu heldur andstæðingur hans í stjórnarflokki landsins. Eftir kosningarnar urðu margir stjórnarandstæðingar fyrir ofsóknum, Paul óttaðist því um líf sitt og flúði land í janúar síðastliðinn. Kom hann til Íslands og sótti um hæli sem pólitískur flóttamaður af því að hann dvaldi hér um tíma árið 2005 og starfaði eftir það fyrir ABC barnahjálp í Kenía. Paul tók þátt í að stofna skóla í Næróbí með Íslendingum og var það meðal annars stutt af utanríkisráðuneytinu.

Á leið sinni hingað millilenti Paul á Ítalíu. Ákvæði í Dyflinarsamningnum gefur íslenskum stjórnvöldum heimild - en gerir þeim ekki skylt - til að vísa flóttamanni aftur til þess lands sem fyrst veitir vegabréfsáritun og ber því landi, sem sagt Ítalíu í þessu tilviki ef heimildin er notuð, að taka afstöðu um það hvort honum verður veitt pólitískt hæli. Paul á konu og 3 vikna son sem eru hér á landi. Fjölskyldunni hefur því verið stíað í sundur.

Lögmaður Ramses sagði að í gær hafi lögreglan komið inn á heimili Pauls og tekið hann í fangelsi. Þar sat hann í nótt og var svo fluttur út í morgun.  

Sagt er að tveir menn hafi þá farið út á flugbrautina, sem mun vera lögbrot, til að mótmæla nauðungarflutningum á Ramses. Þeir voru handteknir og færðir í fangaklefa til yfirheyrslu. Kristján Eyjólfsson fulltrúi lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli lítur á þetta mál alvarlegum augum enda varði athæfið hugsanlega við sex ára fangelsi.

En mig langar mig til spyrja:  Hvers vegna handtekur lögreglan ekki forstöðumann Útlendingastofnunar, þegar í stað og yfirheyrir hann fyrir brot stofnunnarinnar á rétti Paul Ramses?

Hvernig skyldi forstöðumanninum annars líða þegar hann kemur í kvöld heim til fjölskyldu sinnar yfir þeim verknaði sínum að hafa stíað annarri fjölskyldu í sundur og stofnað jafnvel lífi fjölskylduföðurins í hættu?

Bara vel? Í það minnsta mun hannh verja gerðir sínar fram í rauðan dauðann - sanniði til- og stjórvöld munu styðja hann samviskusamlega eða öllu fremur án  nokkurrar samvisku í því með ráðum og dáðum.

Hvaða glæpur var annars framinn í þessari atburðarás og hverjir eru glæpamennirnir sem ættu skilið að verða dæmdir í að minnsta kosti sex ára fangelsi?  

  


Þriðji sólríkasti júní í Reykjavík

Nú er ljóst að júní var sá þriðji sólríkasti í Reykjavík síðan mælingar hófust. Sólskinsstundir voru næstum því 314. Sólríkari var júní 1928, 338,3 stundir og 1924, 313,2 stundir. Maímánuðir árin 2005, 1967 og 1958 voru einnig nokkuð sólríkari en þessi. En þessi mánuður var hlýjastur allra þessara mánaða. Meðalhitann er 10,6 stig. Frá 2002 hafa þó, merkilegt nokk, fjórir aðrir júnímánuðir verið álíka hlýir eða hlýrri en samt er mánuðurinn á topp tíu listanum frá upphafi. 

Í Vestmannaeyjum virðist þessi júní vera um hálfu öðru stigi yfir meðallagi og jafnvel sá næst hlýjasti frá upphafi. 

Á Akureyri virðist hitinn vera í meðallagi en undir því á austurlandi inn til landsins.  

Hvað viljiði það betra kæru borgarbúar? Nú fáum við svo vel yfir tuttugu stiga hita á suðuvesturlandi í vikunni ef spár ganga eftir.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband