Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Það sem við eigum kannski í vændum

Meiriháttar kuldakasti er nú spáð. Ef hinar verstu spár ganga eftir mun það verða með mestu kuldaköstum eftir árstíma.

Mönnum til hughreystingar og sáluhjálpar má hér lesa um nokkur alræmdustu kuldaköst sem komið hafa í júlí síðustu áratugi. 

Nú er bara að sjá hvað verður.

Aumingja júlí! Hann stendur nú í mettölu fyrir hitann í Reykjavík. 

En nú mun hann falla. Og fall hans verður mikið!   

Guð blessi Ísland!


Hlýjasti tími ársins

Hlýjasti tími ársins er um það bil mánuði eftir sumarsólstöður, kringum 22. júlí.  Um það leyti og  næstu daga þar á eftir er yfirleitt hlýjast í sveitum landsins. Víða á annesjum er hlýjast fyrstu dagana í ágúst.

Þetta sýna langtíma dagsmeðaltöl. Kólnunin eftir sumarhámarkið er  hæg.

Núna er sem sagt hásumar. Þess vegna er skelfilegt  til þess að hugsa að slæmt kuldakast virðist vera í uppsiglingu. 

Ég hef oft orðið var við að fólk telji að farið sé að hausta strax upp úr verslunarmannahelgi, ekki síst ef hún er votviðrasöm, og ég hef lesið á bloggi að ágúst sé í raun fyrsti haustmánuðurinn. Algengt finnst mér að menn telji ágúst síðri júní hvað sumarblíðu varðar. Hann er að vísu nokkru úrkomusamari en hvað hitann snertir er þetta ekki rétt. Í heild er ágúst lítið kaldari en júlí og sums staðar við sjóinn á norður og austurlandi er hann hlýjasti mánuður ársins.

Síðustu þrír dagar ágústmánaðar og þrír síðustsu dagar júnímánaðar eru svipaðir að meðalhita á landinu en annars er allur ágúst að meðaltali hlýrri en júní. Birtustigið er auðvitað annað en það kemur hitanum ekki beint við. Fyrstu tíu dagar september eru  meira að segja að jafnaði hlýrrri að meðaltali en fyrstu tíu dagar júní. 

Það er sem sagt veðurfarslegt hásumar um þetta leyti árs og áfram svona um það bil fyrsta þriðjung ágústmánaðar. En þetta getur auðvitað verið mismunandi eftir árum.

Og því miður geta leiðinleg kuldaköst komið í öllum sumarmánuðum. 

   

 

 

 


Aftur yfir 20 stig í Reykjavík

Í dag fór hitinn mest í 21,1 stig í Reykjavík, nákvæmlega það sama og þ. 12. og kl. 15 var líka sami hiti báða dagana, 20,4 stig. Á sjálfvirku stöðinni fór hitinn í 21,7 stig og 21,5 á Reykjavíkurflugvelli. Hvergi á landinu á mannaðri veðurskeytastöð varð hlýrra en í Reykjavík og það er alveg nauðasjaldgæft. Hlýjast á landinu varð á  sjálfvirku stöðinni á Hólmsheiði þar sem hitinn komst í 23,0 stig en í Geldinganesi 22,2 stig. Mér skilst að stefnt sé að íbúðabyggð í Geldinganesi og það virðist vera veðursæll staður.

Meðalhitinn í Reykjavík í dag stefnir í að verða enn hærri en þ. 12, eða yfir 16 stig.  Og  meðalhitinn það sem af er mánaðarins fer þá aftur upp í 13,5 stig sem er jafnt því hæsta sem hann hefur náð en það var í upphafi mánaðarins. Með þessu má fylgjast á fylgiskjalinu hér, efst undir Síðum til hægri á bloggsíðunni. 

Ekki hefur mælst mælanleg úrkoma í Reykjavík síðan að morgni 6. júlí og er heildar úrkoman 5,4 mm. 

Því miður er spáð raunverulegu kuldakasti strax á fimmtudaginn og mun þá hiti mánaðarins hrynja. Þetta er eins og hjá ''strákunum okkar''. Þeir eiga leikinn þar til á síðasta sprettinum að þeir glutra öllu niður.

Ef þessar spár ganga eftir mun mánuðurinn ekki eiga  nokkra  möguleika á verðlaunasæti í hita fyrir júlí. Hins vegar hafa fyrri kuldaspár í mánuðinum illa gengið eftir.

En framtíðin virðist samt ekki vera sérlega björt og hlý fyrir land vort og þjóð. 

Viðbót 21.7.: Gögn eru nú komin inn frá Þingvöllum og þar komst hitinn í gær í 23,0  stig eins og á Hólmsheiði. Í dag er hitinn á Þingvöllum búin að fara í 22 stig en 18 í Reykjavík.

 

 


Júlí stendur sig enn

Meðalhitinn í júlí í Reykjavík stendur nú í 13,3 stigum. Það er ein af  hæstu tölum sem hægt er að finna fyrir nokkurn júlímánuð fram til þ. 16. Í nótt fór hitinn ekki neðar en í 12,0 stig og meðalhitinn í dag verður líklega ansi hár. 

Hlýjasti júlí sem mælst hefur í Reykjavík var 13,0 stig árið 1991. 

Þessi júlí á því enn möguleika á að slá hitamet. Það má hins vegar ekki mikið út af bregða.  Meðalhitinn þ. 14, var aðeins 10,4  stig og er það eini dagurinn enn sem komið er sem hefur verið undir útjöfnuðu langtíma sólarhringsmeðaltali. En við þennan eina dag féll meðaltal það sem af var mánaðarins um 0,2 stig. Menn geta því rétt ímyndað sér hvað mun gerast ef nokkrir jafn kaldir eða kaldari dagar fara saman. Þegar meðalhitinn er orðinn þetta hár má mánuðurinn eiginlega ekki missa dampinn. En hann getur líka bætt við sig síðar í mánuðinum.

Það er reyndar spáð hlýju veðri í Reykjavík næstu daga. En blikur eru á lofti um kaldara veður síðustu viku mánaðarins. Spár sem ég hef séð um það eru þó nokkuð misvísandi. Og kannski er bara best að láta allar spár lönd og leið!

Þessi hiti sem nú er gætir fyrst og fremst á suðvestur- og vesturlandi. Stykkishólmur stendur sig tiltölulega jafnvel enn betur en Reykjavík. Alls staðar er hitinn vel yfir meðallagi en í öðrum landshlutum er ekki verið að berjast um gull, silfur eða brons eins og Reykjavík og Stykkishólmur eru enn að gera hvað varðar hlýjasta júlí á hvorum stað um sig. Hugsanlega er þó allra hlýjast á landinu tiltölulega á sunnanverðum Vestfjörðum.

Ég minni á að hægt er að fylgjast með daglegri framvindu þessa mánaðar í Reykjavík í fylgiskjalinu við þessa færslu ''Slær júlí hitamet í Reykjavík'' sem nú er komin efst undir Síður til hægri á bloggsíðunni.


Reykjavík komin í 20 stiga klúbbinn

Jæja, þá er Reykjavík óvefengjanlega komin í 20 stiga klúbbinn í sumar. Klukkan 15 voru þar 20,4 stig á dýrindis kvikasilfri.  Hámarkið mældist 21,1 stig. Á sjálfvirka mælinum var hitinn um eða yfir 20 stigum frá kl. 14 og framyfir kl. 16. Svipað þessu eða betra var á öllu Reykjavíkursvæðinu. Hlýjast á landinu varð á Skrauthólum á Kjalarnesi 22,8 stig, 22,6 við Korpúlfsstaði, 22,4 á Hólmsheiði og 21,9 stig á Reykjavíkurflugvelli. Fyrir austan fjall var líka víða 20-22 stiga hiti, 22,5 á Hjarðarlandi og  20,7 á Hæli. Engar upplýsingar hafa borist frá Þingvöllum eftir að brann og  guð má vita hve nær það kemst í lag. 

Sjálfur var ég að spóka mig í norðurhlíðum Öskjuhlíðar í dag meðan heitast var. Síðan gekk ég niður í Hlíðahverfið þar sem ég átti heima sem unglingur.

Það er langt síðan. 

Vesturland er alveg dottið út í hitakeppninni og eftir þennan dag er þetta víst  búið alls staðar í bili. En það var aldeilis gott að fá þennan dag.

 


Ísland

Fallegt er landið okkar á góðum sumardegi.

Smellið þrisvar á myndina.

Hitinn fór í 24 stig í Húsafelli og 22 á Grímsstöðum á Fjöllum og á Þingvöllum voru 20 stig. Og líka á Hveravöllum á Kili.

modis_7101325_877034.jpg


Hvíldinni fegin

Nú er ég að hugsa um að hvíla mig á bloggi. 

Ég er ekki í neinu stuði. Ánægjan yfir að blogga hvarf í haust.  Það sem hefur haldið mér við efnið upp á síðkastið er það að mér finnst dálítið gaman að vera í sambandi við ýmsa sem  gera athugasemdir.

Nú finnst mér bara vera orðið verulega óþægilegt að blogga. Mér dettur líka aldrei neitt í hug til að blogga um. Auk þess er þetta allt saman hálfgerð uppgerð. Ekki get ég bloggað um það sem er mér ætíð efst í huga: Dauða og Devil! Allt er að fara fjandans til og ekki nenni ég að tuða með öðrum um það.  

Já, ég er búinn að fá hundleið á þessari opinberu veröld. Kominn tími til að snúa sér að einhverju sem er meira uppbyggilegt.

Ég verð hvíldinni feginn.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband