Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Verkin láta til sín taka

Frá Höfðatorgsreitnum berst nú dag eftir dag nær stöðugur sónn frá morgni til kvölds, eins og heljarinnar ryksuga sé í gangi. 

Og þetta er bara væg byrjunin. Bráðum fara þeir að sprengja og væntanlega fleyga enn einu sinni.

Í raun og veru eru þarna í gangi eins konar hávaða hryðjuverk. Ókunnugir menn sem ekki kynna sig ryðjast inn á heimli fólks um margra ára skeið og umturna þar öllu svo venjulegt heimilislif að degi til leggst niður mánuðum saman hvað eftir annað í mörg ár. Vonlaust að opna glugga, oft ekki hægt að hlusta á hljómflutningstæki, útvarp eða sjónvarp svo ánægja sé að, tala í síma eða fá fólk í heimsókn.

Kannski ætti frekar að kalla þetta pyntingar en hryðjuverk því þetta brýtur fólk hreinlega niður með árunum. 

En Pétur Guðmundsson forstjóri Eyktar ypptir örugglega öxlum yfir því. Hann lætur þetta viðgangast.Og ekki hefur hann haft sinnu á því að tala til íbúana í eigin persónu um eitt né neitt.

Hvað með heilbrigðiseftirlitið? Gefur það grænt ljós á áratuga ofbeldi af þessu tagi?

Því ofbeldi er þetta og ekkert annað. Ofbeldi verktaka í krafti auðs og valds sem skeytir ekki um neitt nema eigin hag og valtar yfir þá sem fyrir verða eins og þeir séu ekki til. 

Jæja, eru þetta stóryrði? Þetta eru nú samt bara orð.

Og þau blikna algjörlega í samanburði við verkin sem þarna láta til sín taka.


Sólskinstíð

Kvartanir vegna sólarleysis í höfuðstaðnum eru nú alveg horfnar.

Það er ekki nema von.  Fjöldi sólskinstunda það sem af er ágúst eru nú orðnar 125 sem er fimm stundum meira en meðaltal síðustu tíu ára fyrir þessa daga og 17 stundum meira en meðaltalið 1961-1990.

Ef við tökum síðustu 30 daga eru sólarstundirnar orðnar 190 og eftir daginn í dag fara þær mjög líklega upp fyrir 200 stundir og þá erum við að upplifa algjört meðalástand fyrir sól fyrir dagana 20. júlí til 20. ágúst á þessari öld sem hefur verið óvenjulega sólrík að sumarlagi.

Það er því engin þörf að kvarta meðan blessuð sólin skín. 

Viðbót 21.8.: Sólskinsstundir í gær voru 14,4 í Reykjavík og þar því orðnar 204 síðasta 31 daginn.  Það þætti alveg ágætt í hvaða heilum sumarmánuði sem væri en litlu skiptir um sólskindstundafjölda hvar skipt er milli daga yfir hásumarið til að velja mánaðarlengd.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Martröð fyrir nágrennið

Þessar framkvæmdir á Höfðatorgi hafa verið sannkölluð martröð fyrir íbúa í grenndinni. Þær hófust með byggingu langa hússins við Borgartún og háa turnsins um 2007 með tilheyrandi spreningum og höggborum eða fleygum. 

Þegar það er ekki í gangi hefur verið ýmis konar annað ónæði frá framkvæmdunum. Að vísu hefur verið friður með köflum. En alltaf er byrjað aftur og aftur og aftur.

Framkvæmdir við fyrirhugaðan íbúðaturn og bílakjallara er sagt að ljúki árið 2016.

Það verður ekki líft í húsum við Bríetartún og víðar þegar byrjað verður á bílakjallaranum fyrir 170 stæði sem boðað  er í fréttinni að byrji bráðlega. Aðeins í fárra metra fjarlægð. 

Þá eru eftir tvö önnur háhýsi á reitnum með tilheyrandi gauragangi.

Allt i allt verður þetta meira en heill áratugur.

Það er umhugsunarvert hvers vegna skipulagsyfirvöld leyfa svona langdregnar framkvæmdir  í miðju íbúðarhverfi. Samt hefur til dæmis Hjálmar Sveinsson sagt að hann hafi skilning á því ónæði sem íbúar verða fyrir þegar framkvæmdir með nýtísku hávaðatólum fara fram inni í rótgróinni íbúðabyggð. En sá skilningur kemur ekki í veg fyrir að leyfi sé veitt fyrir framkvæmdum á sama blettinum ár eftir ár eftir ár nánast í bakgarði íbúa. Dæmi eru um ónæði eftir miðnætti.

Á sínum tíma sagði einhver framkvæmdahrólfurinn við Höfðatorg í Morgunblaðinu að íbúar sýndu framkvæmdunum skilning. En skilningurinn virðist bara eiga að ganga í eina átt. Ætlast er til að íbúarnir sýni Eykt  skilning sem ekki aðeins veldur ónæðinu heldur hefur breytt þessu friðsama hverfi í hreina martröð sem boðað er að haldi áfram í mörg ár í viðbót. Það að Eykt sýni íbúunum skilning er hins  vegar ekki einu sinni til umræðu. Fólk reynir að sýna skilning og þolinmæði vegna ónæðis af völdum framkvæmda sem varir í nokkra máuði og lýkur síðan. En þegar ónæði stafar af sama reit árum saman eða jafnvel heilan áratug með hléum og fólk veit aldrei hverju það á von hlýtur það að hafa áhrif á skilninginn.

Morgunblaðið fylgist náið með framkvæmdunum í fréttapistli eftir fréttapistli  í eins konar  aðdáunarstíl. En ég hef ekki enn séð að blaðið svo mikið sem gefi því umhugsun hvað þessar framkvæmdir valda íbúum í nágrenninu miklu og langdregnu  ónæði. Jú, það var reyndar einu sinni á það minnst en núllað með þessu skilningstali framkvæmdahrólfsins.

Morgunblaðið vitnar iðulega í mig, jafnvel á forsíðu, þegar um veðrið er ræða, síðast á þriðjudaginn. 

Blaðinu er alveg óhætt að vitna líka í mig um ónæðið sem framkvæmdir á Höfðatorgi valda íbúunum í nokkurra metra fjarlægð! Það er alveg guðvelkomið.

 Vesgú!


mbl.is Pétur kaupir Höfðatorgslóðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mesti hiti í ágúst - Og góðviðri í dag á suðurlandi

Þennan mánaðardag árið 2004 mældist mesti hiti sem mælst hefur á landinu í ágúst. Á sjálfvirku stöðinni við Egilsstaði fór þá hitinn í 29,2 stig. Þetta var einnig hlýjasti dagur á landinu að meðalhita frá a.m.k. 1949 og einnig að meðaltali hámarkshita, 15,9 og 21,6 stig. Þá stóð yfir í fáeina daga einhver mesta, ef ekki mesta, hitabylgja sem gengið hefur yfir landið síðan Veðurstofan var stofnuð árið 1920. Ekki verður henni gerð hér frekari skil en til stendur á þessari bloggsíðu að fjalla síðar um helstu hitabylgjur sem komið hafa síðan 1920.

Í dag var svo sól og blíða á suðurlandi. Hiti fór yfir 20 stig á flestum stöðvum frá Mýrdalssandi, um suðurlandsundirlendi og upp á Kjalarnes. 

Hársbreidd var frá því að tuttugu stigin mældust á kvikasilfrinu í Reykjavik þar sem hitinn varð 19,7 stig en 20,0 á sjálfvikru stöðinni. Hins vegar komst hitinn í 21,9 stig á Korpu, 21,2 á Geldingarnesi og 20,6 á Hólmsheiði. Á Skrauthólum á Kjalarnesi fór hitinn í 21,0 stig en á vegagerðastöðvunum við Blikadalsá og Kjalarnesi og við Sandskeið fór hitinn í 21,8 og 20,2 stig. 

Hlyjast á landinu var hins vegar á Sámsstöðum í Fljótshlíð þar sem hitinn fór í 22,8 stig.  Á vegagerðaStöðinni við Markarfjót fór hitinn í 22,2 stig, 21,6 á sjálfvirku stöðvunum á Þingvöllum og Þykkvabæ og 21,2 á kvikasilfursmælinum á Eyrarbakka. Víðar á suðurlandi mældist rétt rúmlega 20 stig. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband