Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016
31.5.2016 | 19:55
Hitabylgjan mikla í maí 1987
Hér kemur fyrsti pistill um ýmsar hitabylgjur á landinu sem fyrirhugaðir eru hér á Allra verða von.
Skýringar: Greint verður frá helstu hlýindaköflum með tuttugu stiga hita sem komið hafa í maí,fyrst og fremst þeim sem staðið hafa í nokkra daga eftir að Veðurstofan var stofnuð 1920,en frá þeim tíma er hægt að athuga hita á hverjum degi á veðurstöðvum. Grunnupplýsingarnar koma frá Veðurstofunni en ég hef talið fjölda stöðva með hámarksmælingar sem náð hafa tuttugu stiga hita eða meira alveg frá árinu 1920 og reiknað hlutfall þeirra af öllum mönnuðum veðurstöðvum. Þar sem skipt hefur verið milli hámarksmælinga á veðurstöðvum síðustu áratugina kl.18 getur það komið fyrir að 20 stiga hiti sem mælist rétt eftir það og einstaka sinnum eitthvað fram á kvöld og er hærri en hámarkshitinn mældur kl. 18 sé á Veðurstofunni talinn til næsta dags þegar lesið er aftur á hámarkmsæla kl. 9. Þetta hef ég reynt að forðast með því að færa morgunmælinguna yfir á daginn áður með hliðsjón af lestri á hitamæla á athugunartímum kl. 18 og kl. 9. Lang oftast er auðvelt að átta sig á þessu en það getur þó komið fyrir að hiti kl. 9 að morgni sé yfir tuttugu stigum og hámarksmælirinn sé að mæla morgunhámark en ekki hita frá deginum áður og morgunhámarkið verði svo ekki slegið kl.18 þann dag. Í þeim örfáu tilvikum sem þetta virðist klárlega eiga við hef ég sett hámarkið á þann dag sem það er lesið en ekki fram til dagsins áður. Einstaka eintaka sinnum getur verið áhöld um hvort morgunhámarkið eigi að tilheyra morgninum þegar það var lesið, og ekki kemur þá hærra hámark kl. 18, eða hvort það hafi mælst laust eftir kl. 18 deginum áður. (Þvælið? Já, ekkert smáræði en það verður bara að hafa það). Þau tilvik sem þetta síðasta getur átt við eru alveg einstaklega fá og þá er bara að lesa í það sem sennilegast þykir með dagsetninguna og biðja svo veðurguðina um að hjálpa sér á erfiðum óvissutímum! Þetta atriði kemur þó hvergi fyrir í maímánuði en ætlunin er að skrifa fleiri bloggfærslur um hitabylgjur í öðrum mánuðum og því læt ég þessa leiðindaatriðis hér getið. Hér verður talað um tuttugu stiga dag (alltaf skrifað í þremur orðum) eða daga þó í rauninni sé oftast átt við að hiti hafi ná tuttugu stigum eða meira. Stundum verður notað táknið ° (gráða) í stað orðsins stig (til að koma í veg fyrir ofnotkun á orðinu stig) þó mér sé fremur illa við að nota gráðutáknið í texta.
Ekki er hægt að telja að um hitabylgju sé að ræða þó hiti nái einhvers staðar tuttugu stigum á landinu. Það verða fleiri en ein stöð sem slíkt mælir og helst, en ekki óhjákvæmilega að mínum dómi, verður hitinn að standa lengur en í einn dag. Hvað maí varðar er hér miðað við að 10% veðurstöðva nái 20 stigum nema þegar dagar með færri stöðvum koma inn á milli mjög hlýrra daga.
Búast má við einhverjum villum í þessum samantektum en varla ferst heimurinn fyrir því á þessu æsilega kosningasumri. Fyrst og fremst er þetta skemmtiefni fyrir heitfenga veðurnörda! Markmiðið er að setja mikla tuttugu stiga hita daga í samfellu en ekki taka þá bara einn og einn út af fyrir sig.
Megintexti: Meðaltal hámarkshita landsins í maí nær ekki alveg tuttugu stigum. Hann var 19,9 stig á hlýindatímabilinu 1931-1960 en á okkar hlýju öld er hann 19,8 stig. Maí hefur reyndar ekki staðið sig eins vel á 21. öld og flestir hinir mánuðir ársins hvað hlýindi snertir. Síðustu hálfa öld hefur tuttugu stiga hiti eða meira á landinu mælst í 23 maímánuðum eða 46 af hundraði. Hvað fjölda tuttugu stiga daga varðar er maí enginn jafnoki sumarmánaðanna júní til ágúst. Þeir dagar sem 10% stöðva eða meira hefur mælt 20 stig í maí eru aðeins 25 eftir minni talningu frá 1920 og einungis fjórir yfir 20% stöðva.
Tvær eða þrjár hitabylgjur í maí frá stofnun Veðurstofunnar bera af öðrum hvað lengd og ástríðuhita snertir! Þær komu árið 1987, 1992 og 1932. Hér verður fjallað um bylgjuna í maí 1987.
Í henni mældist tuttugu stiga hiti einhvers staðar á landinu í 8 daga í röð sem er einsdæmi, dagana 20.-27. Mikið háþrýstisvæði réð þá veðurlagi á landinu. Það var í fyrstu fyrir sunnan land en verulega hlýtt loft frá því tók að berast yfir landið þann 19. Þessu fylgdi vestanátt til hins 22. Úrkoma var hverfandi á suður og vesturlandi þá daga en mátti heita engin annars staðar. Víða var léttskýjað. Oft var þó þoka við stendur, einna mestar við suður og vesturströndina.
Miðvikudaginn 20, maí náði hitinn tuttugu stiga markinu á aðeins fimm veðurstöðvum, á norðaustur og suðausturlandi, mest 22,4 stig á Vopnafirði, eða á 6,2 af hundraði stöðva og er ekki hægt að kalla daginn neinn hitabylgjudag. En þetta var nú bara upptakturinn að mjög óvenjulegri hitabylgju eftir árstíma. Sólarlaust var þennan dag á suður og vesturlandi en bjart annars staðar.
Næsta dag (21.) hafði alvöru hitabylgja tekið völdin með slíkum glæsibrag að 25 af hundraði veðurstöðva (hundraðstalan kallast hitabylgjuvísitala, eða bara hitabylgjutala) voru með tuttugu stiga hita eða meira og hafa aldrei verið jafn margar nokkurn dag í maí nema þann 26. árið 1992 þegar þær voru jafnmargar. Þennan dag 1987 varð hlýjast 23,3 í Vopnafjarðarkauptúni, sem er maíhitamet í héraðinu, og 23,0 á Hallormsstað,en 20 stig mældust allt frá Skagafirði austur og suður um að Kirkjubæjarklaustri. Hitamet í maí voru sett á Seyðisfirði, 21,4 stig, Neskaupstað 21,2 og á Fagurhólsmýri 22,3 stig. Og auk þess á þeim arma stað Kambanesi, 20,2 glæsistig! Sólarhringsmeðalhitinn var 17,0° á Akureyri en hámarkið 20,1 stig. Og er þetta hlýjasti maídagur að meðalhita sem mælst hefur á Akureyri í maí og dagurinn á undan var reyndar með dagsmet, 15,2 stig, og svo líka dagsmet fyrir hámarkshita þó hann væri ekki meiri en 19,0°. Meðalhiti á landinu þann 21. var 11,38, stig og var sá hæsti í bylgjunni. Glaðasólskin var á öllu norður og austurlandi og á hálendinu og þó nokkurt sólfar var einnig á suðurlandsundirlendi og í Reykjavík, þó þokuloft sækti þar líka eitthvað á en þoka var víða við sjóinn syðra og vestra. Loftþrýstingur mældist sá mesti í mánuðinum þennan dag, 1037,2 hPa á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.
Daginn eftir (22.)var hitabylgjuvísitalan 16,2% og er dagurinn í sjöunda sæti yfir mestu hitadaga í maí. Sólarhringsmeðaltalið var 10,86 stig en meðaltal hámarkshita 16,04, það hæsta í hitabylgjunni. Hlýjast varð 23,5 stig í Birkihlíð í Skriðdal og eins og daginn áður var tuttugu stiga hiti frá Skagafirði og austur og suður um allt að Norðurhjáleigu í Álftaveri. Nú skein sól glatt í heiði nær alls staðar en þó var þokuloft við Vestmanneyjar. Sólarhringsmeðalthitinn á Kirkjubæjarklaustri var 16,8 stig sem met fyrir maí og einnig hámarkshitinn 21,5 stig. Þá mældist mesti hitinn á Vestfjörðum í þessari hitabylgju, 18,2 stig í Æðey. Kortið til vinstri sýnir sólina og hitann á hádegi þennan dag og stækkar ef smellt er á það. Útreiknuð þykkt yfir landinu kl. 18 var 5599 metrar sem er sú mesta sem reiknuð hefur verið á nokkrum maídegi. Þykkt lofthjúpsins milli 1000 hPa flatarins, sem er oftast mjög nærri sjávarmáli, og 500 hPa flatarins, sem er í um 5,5 km hæð á sumrin,er í rauninni hitamælir á hita loftsins sem er yfir landinu, því meiri þykkt því hlýrra loft, en ekki er alltaf víst að hiti við jörð endurspegli algjörlega það hitamagn sem uppi er. En ekki koma hitabylgjur nema hlýtt loft í eðli sínu sé yfir landinu. Sólin hjálpar til en þó ekki nema um tvö til þrjú stig að sagt er. Hlýindi loftsins sem yfir landinu er skipta mestu máli. Um þetta og margt fleira skemmtilegt má lesa í greinargerðinni Langtímasveiflur V Hitabylgjur og hlýir dagar eftir Trausta Jónsson veðurfræðing frá 2003. Skilgreining á hitabylgjum getur vísast verið ýmis konar en hann miðar við að hitabylgja sé þegar 10% veðurstöðva ná því að mæla 20 stiga hita. Reyndar finnst mér þetta vera of væg mörk fyrir alvöru hitabylgju á hásumri en eru mjög góð fyrir maímánuð. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hefur lika fjallað um hitabylgjuspursmálið.
Það sem olli þessari óvenjulegu hitabylgju var mikill hóll af hlýju loft sem settist beinlínis að í nágrenni landsins og yfir því. Oft var hægviðri og lítil sem engin úrkoma, engar hvassar og hlýjar sunnanáttir með rigningu sunnanlands og vestan. Allar lægðir voru víðs fjarri. Kortið sýnir hlýja hóllinn eins og hann var síðdegis þ. 21. og stækkar ef á það er smellt. Brúni liturinn sýnir mikil hlýindi á austanverðu landinu.
Næstu tvo daga (23. og 24.) var hæðin að fikra sig í austur og hitabylgjutalan féll niður í 10,0% báða dagana sem eigi að síður telst til hitabylgjudaga í maí og eru þessir dagar í 24. og 25. sæti yfir tuttugu stiga daga í maí frá 1920. Báða dagana mældust 20 stig á aðeins 10 stöðvum, frá Eyjafirði og austur á Fljótsdalshérað, mest 22,2 stig á Dratthalastöðum á Úthéraði fyrri daginn, en 23,0 þann seinni á Egilsstöðum. Fyrri daginn var víðast hvar bjart og var hann reyndar sólríkasti dagurinn í syrpunni í Reykjavík þar sem sólin skein frá morgni til kvölds þó þoka væri eitthvað að þvælast. Ekki var þó hitanum þar fyrir að fara og fór hann ekki hærra en í 11,7 stig. Seinni daginn var víðast hvar skýjað á suður og vesturlandi en sól annars staðar. Úrkoma mátti heita á landinu nær enginn og allt til loka hitabylgjunnar.
Næstu tvo daga (25. og 26.) færðist hitabylgjan aftur í aukana þegar hæðin var nánast beint fyrir landinu og voru þeir báðir með hitabylgjutölu upp á 13,7%. Og eru þeir í 11.-12. sæti meðal öflugustu hitadaga í maí. Þar með státar þessi óvenjulega hitabylgja með tvo daga á topp tíu listanum yfir mestu hitabylgjudaga í maí og er auk þess með 11.og 12. mesta hitadag og þar á ofan með 24. og 25. mesta hitabylgjudag.Á rúmlega einni viku. Sannarlega glæsileg og einstæð hitabylgja!
En þennan dag, þann 25. var áttin farin að snúa sér til austurs og tóku þá stöðvar á suður og vesturlandi við sér með tuttugu stiga hita en nokkuð kólnað fyrir norðan og austan og gerði þoka þar vart við sig við strendur. Hitinn fór 20 stig eða meira á Hellu, Sámsstöðum í Fljótshlíð, Hvanneyri og á Hamraendum í Stafholtstungum og Hamraendum í Dölum. Á síðastnefnda staðnum fór hitinn í 22,0 stig sem er mesti maíhiti sem mælst hefur á svæðinu. Hlýjast á landinu var hins vegar í Reykjahlíð við Mývatn 23,3 stig. Glaða sólskin var nánast alls staðar og í Reykjavík mældist mesti hitinn í þessari syrpu. 18,0 stig í heilmikilli sól. Þótti mönnum þetta góður dagur í höfuðborginni. Þennan dag varð einnig mesti hiti mánaðarins í Vestmannaeyjum, en þó aðeins 10,6 stig og var það lægsti hámarkshiti á veðurstöð í mánuðinum. Kortið sýnir hitann í 850 hPa fletinum í um 1500 metra hæð dagin sem hlýjast varð á suður og vesturlandi. Það stækkar við laufléttan smell.
Þann 26. í suðaustanátt tóku norðausturland aftur völdin í hitabylgjunni, reyndar ásamt Hólum í Hjaltadal þar sem kom maímet, 21,2 stig. Og þennan dag mældist mesti hiti á landnu í allri bylgjunni, 24,0 stig á Mánárbakka á Tjörnesi. Ekki endilega líklegasti metstaðurinn fyrir sterka hitabylgju í maí en þetta er maíhitamet þar og líka á Húsavík,23,5°stigin sem komu þar. Þá mældist mesti hiti í hitabylgjunni á norðurlandi, vestan Skagafjarðar, 19,3 stig á Barkarstöðum, inni í dalnum í Miðfirði, þó þoka sækti að ströndum Húnaflóans og met maíhiti mældist i Grímsey,19,2°.
Eftirhreytur hitabylgjunnar voru svo þann 27. Hæðarmiðjan var þá komin norðaustur í haf en enn þá var nokkuð hlýtt loft yfir landinu. Þá mældu þrjár stöðvar á norðausturlandi tuttugu stiga hita eða meira, mest Dratthalastaðir, 21,4 stig.
Í þessari hitabylgju fór hitinn í Reykjahlíð við Mývatn sjö daga í röð í 20 stig eða meira, dagana 21.-27. og sex daga í Lerkihlíð í Vaglaskógi. Þetta er algert einsdæmi með veðurstöðvar í maí.
Þann 28. var tuttugu stiga veislan búin og veður fór kólnandi á landinu en víða var samt enn þá bjart og fremur hlýtt þó engir væru tuttugu stiga hitar. Hlýjast varð 19,4 stig á Búrfelli, sem er reyndar mesti hiti þar í maí meðan stöðin var mönnuð, og á Hveravöllum mældist mesti hitinn þar í mánuðinum, 14,0 stig.
Þessi hitabylgja 1987 var með lengstu röð 20 stiga daga á landinu í maí og fór víða um landið.Auk þess skartar hún deginum með mestan fjölda tuttugu stiga hita á veðurstöðum. Hún má teljast sér á parti.
Á fylgiskjalinu má sjá allar þær stöðvar sem mældu 20 stiga hita eða meira dagana 20.-27. mai 1987, hve þær voru margar og hve margar af hundraði og einnig sést landsmeðalhiti hvers dags og meðaltal hámarkshita og lágmarkshita. Lengst til hægri sjást allir maídagar frá og með 1920 með fjölda veðurstöðva sem mældu 20 stig og náðu 10% og eru þeir settir upp í röð.
Myndirnar eru frá amerísku endurgreiningunni og af brunni Veðurstofunnar. Talsvert hefur verið stuðst i textanum við Veðrátttuna, mánaðarrit Veðurstofunnar.
Bloggar | Breytt 1.6.2016 kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006