Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2018

Hitamet í apríl

Þennan mánaðardag, 29. apríl, árið 2007 mældist mesti hiti sem mælst hefur á landinu í apríl, slétt 23 stig á sjálfvirku veðurstöðinni í Ásbyrgi. Þá mældust 22,2 stig á sjálfvirku stöðinni á Möðruvöllum i Hörgárdal og 21,9 stig á mönnuðu stöðinni á Staðarhóli í Aðaldal sem er mesti aprílhiti sem mælst hefur á mannaðri veðurstöð í apríl en þær stöðvar eru nú óðum að týna tölunni. Á Akureyri fór hitinn í 21,5 stig á mönnuðu stöðinni við lögreglustöðina en 21,8 stig á sjálfvirku stöðinni við Krossanesbraut. Alls mældist 20 stiga hiti eða meira þennan dag á 14 stöðvum, þar af fjórum mönnuðum stöðvum sem er 9% allra mannaðra stöðva. Það er hæsta tuttugustigahlutfall nokkurs dags í apríl. Þetta er næst hlýjasti apríldagur á landinu frá 1949 að meðalhita á eftir þeim 18. árið 2003, 10,8 stig. Hámarkshiti að meðaltali hefur aldrei orðið hærri á landinu í apríl en þann 29. en hann var þá 15 stig. Veðurlag var ekki ósvipað og í hitabygjunni 1984 og sagt er frá hér að neðan. Morgunblaðið sagði frá þessum hlýindum 2007. 

Daginn eftir mældist 20 stiga hiti eða meira á fjórum veðurstöðvum. mest 21,6 stig á Végeirsstöðum í Fnjóskadal. Og 1. maí mældist reyndar rúmlega 20 stiga hiti á tveimur  veðurstöðum. 

En þennan aprílmánuð mældist einnig strax þann 3. meira en 20 stiga hiti á þremur sjálfvirkum stöðum, mest 21,9 stig á Neskaupstað,en hvergi á mannaðri stöð. Svona mikill hiti á landinu svo snemma vors er nánast einsdæmi. En á Kvískerjum í Öræfum mældust reyndar 20,5 stig 29. mars 2012 og er það í eina skipti í mars sem hiti á landinu hefur náð 20 stigum. Þennan apríl dag var þykkt og blautt á suðurlandi í suðvestanátt. 

Dagana 18. og 19. apríl 2003 mældist 20 stiga hiti á nokkrum stöðum. Fyrri daginn komu 21,1 stig á Sauðanesi en daginn eftir 21,4 á Hallormsstað. Alls mældist 20 stiga hiti eða meira á einum 13 veðurstöðvum þessa daga. Sól var víða fyrri daginn, þar á meðal í Reykjavík  með 12 stiga hámarkshita í suðaustanátt en síðari daginn kólnaði mjög á vestanverðu landinu þegar lægðardrag gekk þar yfir en áfram var hlýtt á norðausturlandi og nokkuð sólfar. Sá 18. er hlýjasti aprildagur á landinu í heild að meðalhita a.m.k. frá 1949 en meðaltihinn var 11,2 stig. 

Það var 25. apríl 1984 sem 20 stig mældust fyrst á hámarkshitamæli í apríl á landinu. Þá voru 20,1° á Neskaupstað en 20,0° á Seyðisfirði. Daginn eftir bætti Seyðisfjörður um betur með sléttu 21 stigi en Vopnafjörður var með 20.4 stig. Það var rakin sunnanátt með nokkurri rigningu og súld sunnanlans en björtu veðri fyrir norðan og austan. Hæð var suðaustan við land en lægðasvæði fyrir sunnan Grænland og mikill hlýindastrengur langt norður í haf. Meðalhitinn á Akureyri þann 25. var 14,7 stig og er það mesti meðalhiti þar nokkurn dag í apríl en næst er sá 18. 2003 með 14,6 stig í annarri og enn meiri aprílhitabylgju sem sagt er frá hér að ofan. 

Á þessum apríldögum sem sagt hefur verið frá hér hafa fjölmörg mánaðarmet fallið á veðurstöðvum en of langt mál yrði að tíunda það.      

Þann 16. apríl árið 1908 var lesið á hitamæli á athugunartíma á Seyðisfirði 21,4 stig. Suðvestan og vestanátt var í lofti og hæð sunnan við Færeyjar.

Sérstakt tilvik átti sér hins vegar stað 20.apríl 1933. Þann dag mældist mesti hiti á landinu á hámarksmæli 12,5 stig í Stykkishólmi sem var reyndar næst mesti hiti mánaðarins þannig lesin. Á Fagurhólsmýri var þá ekki hámarksmælir en lesið á mæla á þremur föstum athugunartímum. En viti menn! Þennan dag segir athugunarmaður frá því að klukkan 1 eftir hádegi (kl. 2 að okkar tíma) hafi hiti verið 20,5 stig. Aldrei var neitt grunamlegt við hitamælingar á stöðinni á þessum árum og er ekki hægt annað en taka þessa mælingu trúanlega hjá athugunarmanni sem hefur skynjað óvenjulegan hita og litið á mælinn! Hæð var yfir landinu og nokkru svæði umhverfis það og hægviðri og fremur hlýtt í háloftunum.  

Síðast mældist 20 stiga hiti í apríl landinu þann 9. árið 2011, 20,2 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði.

Tuttugu stiga hiti eða meira í apríl hefur aðeins mælst á veðurstöðvum frá Dalvik austur og suður um að Fagurhólsmýri, fyrir utan eitt tilvik, árið 2007, á sjálfvirku stöðinni í Ásgarði í Dölum, en mannaða stöðin þar mældi minni hita, 19,2 stig. Mesti aprílhiti sem annars hefur mælst á suður og vesturlandi, frá Mýrdal upp í Borgarfjörð, er 17,6 stig þ. 28. árið 2007 á Stafholtsey í Borgfirði og 17,6° á Húsafelli þ. 30. 2007 en þess verður að geta að 31. mars 1965 mældust 17,9 stig á Sámsstöðum í Fljótshlíð og 17,5  stig á Akurhóli á Rangárvöllum. Á Reykhólum mældust svo 17,5 stig 30.apríl 1965 sem er mesti hiti sem mækst hefur á vestfjarðarkjálkanum i april.

Meðaltal hæsta mánaðar hámarskshita í öllum apríl á landinu á þessari öld er 17,4 stig en 14,9 tímabilið 1931-1960 og 15,0 árin 1961-1990 en þess ber að gæta að veðurstöðvar eru nú miklu fleiri en var á fyrri tímaskeiðum. 

Í fylgiskjalinu er skrá yfir allar tuttugustiga mælingar á landinu í aprílmánuði.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband