Sérstakt ársmet í Reykjavík

Aldrei hefur lægsti hiti ársins í Reykjavík verið jafn hár og árið 2012. Lægsti hiti ársins var aðeins -7.9 stig, þann 3.janúar. Mælingar ná til 1872. Gamla metið var -8,2 stig frá árinu 1926. Frost hefur ekki verið mælt undir tíu stigum árin 1908 (-9,3°), 1922 (-9,7°), 1929 (-8,9°), 1934 (-9,8°), 1938 (-9,1°), 1946 (-9,3° ) og 2009 (-9,7°). Þetta eru aðeins átta ár af 141 eða um 6%  ára. Þess skal reyndar getið að árið 1908 voru ekki raunverulegar lágmarksmælingar en lesið á mæla nokkrum sinnum á dag. Hugsanlega hefði hitinn þá mælst undir tíu stiga frosti ef lágmarksmælir hefði verið notaður sem mældi allan sólarhringinn. Á öðrum  árum um það leyti þegar ekki var lágmarksmælir kom tíu stiga frost alltaf fram við mælaálestur.
 
Óneitanlega er ósvikinn hlýindatímabilsblær yfir þessu nýja meti.
 
Ef hins vegar eru teknir veturnir sérstaklega, október til apríl, hefur frostið ekki náð tíu stigum veturna 1907-8 (-9,3°), 1927-28 (-9,7°), 1933-34 (-9,8°), 1937-38 (-9,1°), sem hefur þá metið, 1945-46 (-9,3°) og loks veturinn 2008-9 (-9,7°). Hvernig veturinn núna stendur sig að þessu leyti kemur ekki  í ljós fyrr en í vor.   
 
Árið var annars hlýtt og sólríkt, það næst sólríkasta í höfuðborginni en það allra sólríkasta á Akureyri.
Ekki nenni ég að hafa um árið 2012 fleiri orð en vísa líka á  þetta.
 
Ég hef nú bloggað um veður og fleira nokkuð á sjötta ár. Og óneitanlega er ég farinn að lýjast nokkuð. Ég er svo að segja hættur að blogga um annað en veðrið. En raunar var bloggið fyrst og fremst hugsað sem veðurblogg. Allt hitt er bara svona utan um. Mér leiðist að blogga um annað en veðrið.
 
Lesendur þessa bloggs, þegar einungis er uppi margra daga gömul færsla með fylgiskjalinu sem alltaf er uppi og sífellt endurnýjast þó ekkert nýtt sé skrifað, er ótrúlega jafn hópur og stöðugur. Þegar ný færsla birrtist stækkar leshópurinn í nokkra daga en jafnast svo aftur út í þennan fasta hóp. Hann er greinilega að fylgjast með fylgiskjalinu- enda er það einmitt fylgiskjal! Þegar ekkert nýtt hefur birst á blogginu óvenju lengi eykst reyndar alltaf aðsóknin eilítið fremur en að deyja alveg út og hefur það vakið mér nokkra furðu.
 
Það eru sem sagt einhverjir veðureðjótar að fylgjast með þarna úti! Og þeir halda manni við efnið.
 
Ég var reyndar ákveðinn í að hætta alveg nú um áramótin að blogga. En það er líka orðinn viss vani að sinna veðurblogginu svo ég mun halda áfram eitthvað enn.
 
 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Úrkomumet í Reykjavík

Úrkoman í morgun kl. 9 mældist 70,4 mm í Reykjavík frá því á sama tíma deginum áður. Aldrei áður hefur  mælst meiri sólarhringsúrkoma í borginni í nokkrum mánuði. Gamla metið var 56,7 mm frá 5. mars 1931 en gamla metið í desember var 55,1 mm frá þeim 18. árið 1938. Á sjálfvirku stöðinni mældist úrkoman aðeins 47,0 mm í morgun. Mesta sólarhringsúrkoma í dag sem enn hafa borist fréttir um er 83,4 mm á Nesjavöllum og 74,6 í Vík í Mýrdal, 74,0 á Korpu en svo kemur Reykjavík.

Umfjöllun veðurfræðings á þessu ástandi má lesa hér.

Úrkoman núna í Reykjavík féll sem slydda, snjókoma og rigning. Það var kannski eins gott að hún féll ekki öll sem snjór því þá hefði líka komið met snjódýpt og mjög alvarleg vandamál skapast. Í morgun, eftir að rignt hafði, var snjódýptin mæld 20 cm. Hún er þá orðin meiri en á Akureyri þar sem hún var i morgun 17 cm. En þar hefur verið alhvítt allan mánuðinn. Mesta jafnfallin snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík er 55 cm þann 18. janúar 1937.

Á Hólum í Dýrafirði var snjódýptin 70 cm í morgun en ekki hafa enn borist snjódýptartölur frá öllum veðurstöðvum á Vestfjörðum. Slíkar tölur frá veðurstöðvum eru reyndar bagalega stopular. Í Lerkihlíð í Vaglaskógi var snjódýptin 110 cm í fyrradag en engar tölur hafa síðan komið. Snjódýptin þarna var 99 cm þ. 20. og mest á landinu. Síðan komu engar upplýsingar  í sex daga frá stöðinni og vissi maður þá ekki hvað stöðinni leið eða hvar snjódýpt var mest á landinu fyrr en í fyrradag að stöðin gaf upp 110 cm og lá þá beint við að álykta að allan þennan tíma hafi mest snjódýpt á landinu verið í Lerkihlíð.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Jólaveðrið

Jólaveðrið sér um sig  sjálft. 

En fylgiskjalið fylgist með.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Veðurfarið árið 2013 að sögn völvunnar

Árið 2013 heilsar okkur með heldur aðgerðalitlu veðri, og verður þannig sennilega allan janúarmánuð, en þá breytir um og margar krappar lægðir eiga eftir að lenda hjá okkur í febrúar og mars.

Það verður sem sagt umhleypingasamt í febrúar og mars en fremur hlýtt hér sunnanlands. Í öðrum landshlutum verður mikill snjór enda norðlægar áttir ríkjandi meirihluta vetrar.

Snjóflóð

Ég er hrædd um að snjóflóð verði sem tekur mannslíf, mér sýnist það vera á Vestfjörðum norðanverðum. Þar sem veður verða rysjótt verður einnig erfitt fyrir sjómennina að stunda sína vinnu...

Hlýtt sumar

Tíðarfar sumarsins verður misjafnt en sumarið í heild sinni verður hlýtt, en kemur seint á Norðurlandi og Vestfjörðum. Vestan- og sunnanlands verður rakt og hlýtt vor, en sólin skín má segja í allt sumar og fá Sunnlendingar sannkallað sumar, hlýtt en mætti vera meiri væta á köflum. Fyrir norðan og vestan verða júlí og ágúst sólríkir og nokkuð hlýir en júní kaldur og þurr. Á Austurlandi verður einnig gott um miðbik sumarsins, en ansi mikil úrkoma og þungbúið veður yfir stóran hluta sumars.

Árið endar með miklum veðurhvelli, það verður bæði hvasst og mikil ofankoma. Mér sýnist mannvirki vera þar í hættu og eitthvað verður um rafmagnsleysi yfir áramótin. -

Ég skal segja ykkur það! 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ísland í aldanna rás 2001-2011 án veðurs

Áratugurinn 2001-2010 er sá hlýjasti á landinu sem mælst hefur í mælingasögunni. Sömu sögu er að segja um flestar einstakar veðurstöðvar. Þetta eru auðvitað mikil tíðindi í landi sem er jafn viðkvæmt veðurfarslega og Ísland. Auk þessa gerðust á áratugnum fjöldi merkilegra veðurartburða, sem aldrei fyrr, og nefni ég aðeins hitabylgjurnar miklu árin 2008 og 2004. Í þeirri síðartöldu var um 20 stiga hiti í Reykjavík um hánótt. Þá mældist eini sólarhringurinn sem mælst hefur nokkru sinni að meðaltali yfir tuttugu stig í borginni. Ég hygg að mörgum séu þessir dagar býsna minnisstæðir enda gjörbreyttist mannlífið i borginni.

Ekki sér þessa þó stað í bókinni Ísland í aldanna rás 2001-2010. Þar er örlítill tíðarfarsannáll í upphafi hvers árs en skemmri og efnisrýrari en í fyrri bókum. En sérstakra veðuratburða er ekki getið nema hvað sagt er frá einu snjóflóði sem gerði engan skaða og hafískomu eitt vorið sem var þó ekki neitt neitt. Og óskaplega gefur þetta veðurfarslega villandi mynd af áratugnum!

Þetta er mikil afturför frá fyrri bókum í þessari ritröð og reyndar líka frá gömlu Öldinni okkar. Í þeim bókum er hæfilega mikið vikið að veðurfari, af ritum um almenn tíðindi að ræða, enda skiptir veðrið miklu máli fyrir líf þjóðarinnar og þarf ekki neina sérstaka veðuráhugamenn til að segja sér það.

Hvernig veður og veðurfar er sniðgengið í þessari bók á einum allra merkilegasta veðuráratug í sögu þjóðarinnar er eiginlega óskiljanlegt, Fyrir utan allra merkustu einstaka atburði hefði hæglega verið hægt á aðeins um fjórðungi af blaðsíðu, hvað þá hálfri, að gefa gagnlegt yfirlit um það hve áratugurinn er sérstakur ef menn bara hefðu  hugsað út í það og viljað það.   

En víkjum að liðandi stund. Þessi desember er nú þegar orðinn sá sjötti sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík síðan byrjað var að mæla fyrir rétt rúmri öld.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband