Fyrsta tuttugu stiga frost vetrarins í byggð

Að kvöldi hins 12. fór frostið á Möðrudal í -21,7 stig og þegar komið var fram á hinn 13. fór það í -21,8 stig. Í Svartárkoti hefur frostið farið í -20,7 stig og -20,6 á Brú á Jökuldal.

Þetta er í fyrsta sinn í vetur sem frostið í byggð nær 20 stigum en 23. nóvember fór frostið á Hágöngum í -20,3 stig. Ekkert sérstaklega kalt loft er þó yfir landinu. Á Möðrudal var hins blankalogn þegar kuldarnir voru mestir og útgeislun mikil. Nú er þar farið að blása og frostið hefur snarminkað, komið vel undir tíu stig. 

Mesta frost sem mælst hefur á landinu 13. desember er -25,1 stig og var það einmitt á Möðrudal árið 1988. 

Meðalhitinn, það sem af er desember, er nú meira en hálft annað stig yfir meðalagi í Reykjavík en hátt upp í eitt stig undir því á Akureyri.

Ekkert bólar á jólasnjónum og hann kemur ekki næstu daga í höfuðstaðnum. En látið ekki hugfallast þið jólafólk! Ég hef nefnilega lúmskan grun um að á Þorláksmessu geri þriggja sólarhringa stórhríð í aftakaveðri um land allt með tilheyrandi ófærð og rafmagnsbilunum. Verður þá ekki hundi út sigandi.

Ættu þá allir að taka jólagleði sína!  

Viðbót: Í gær, þ. 14. mældist meira sólskin í Reykjavík (3,4 klst) í vægu frosti en nokkru sinni hefur áður mælst þennan dag í ein 90 ár en mælingarnar hafa ekki alltaf verið á sama stað. Það er ekki ástæða til að kvarta yfir þessu skammdegi í höfuðborginni: björtu, ekki köldu og algerlega snjólausu. 

Viðbót: Sólin er í miklu stuði í höfuðborginni. Ný sólskinsmet fyrir vikomandi daga voru enn sett þá 16. og 17. En nú er þessari sólarsypru lokið. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Forkastanlegt

Það er forkastanlegt að dagblað birti svona frásögn um það að illur andi hafi hertekið smábörn og geri engar athugasemdir af neinu tagi. Birti þetta bara sem hverja aðra staðreynd.

Sé sagan af hegðun barnanna rétt hlýtur að vera á henni jarðbundin skýring og ef til vill alveg grafalvarleg. Að baki kannski legið einhver ólýsanleg skelfing af völdum raunverulegrar reynslu eða umhverfis. 

Svo segir óefndur særingarmaður í lokin að ljósið sé alltaf sterkara en myrkrið og ætlar þar með að börnin hafi verið á valdi hins illa en hann sé þá merkisberi ljóssins fyrir að hafa rekið burtu illu andanna.

Er ekki ástæða til að barnaverndunarfólk rannsaki aðstæður og reynslu þessara barna fremur en svona sjúklegur þvættingur sé borin fyrir fólk?

Þarna er því slegið föstu í fyrsta lagi að illir andar séu til og í öðru lagi að þeir geti hertekið saklaus börn. Og þau séu þá á valdi myrkursins. Hins illa! Svo hafi nafnlaus maður ljóssins hrakið burtu myrkrið!

Reyndar er engra heimildarmanna getið svo frásögnin er þess vegna, þó ekki væri annað, algerlega ómerk.

En það sem hlýtur samt að valda áhyggjum er það að ef eitthvað er hæft í frásögninni  af hegðun barnanna virðast þau hafa átt í miklum erfileikum og liðið mikla vansæld sem full ástæða væri til rannsaka eftir skilningi 21. aldar á hegðunarvandræðum barna.

 

 


mbl.is Illur andi hljóp í börnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólamánuðurinn

Þá er jólamánuðurinn desember hafinn með hoppi og híi.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Undarleg frétt í Ríkisútvarpinu um kulda í Moskvu

Ríkisútvarpið var að segja frá því að fimmtán útigangsmenn hafi dáið í Moskvu undanfarið úr kulda. Það getur alveg verið rétt. Síðan er því bætt við að miklar vetrarhörkur séu í Rússlandi og búist sé við að fleiri muni deyja úr kulda. 

Veðurfar í Moskvu er kalt um háveturinn og miklu kaldara en hér. Margir eru þar heimilislausir og næsta víst að svo og svo margir verði úti á hverjum vetri þar í miljónaborginni. En af fréttinni má helst ráða að núna séu óvenjulega miklir kuldar ríkjandi í Moskvu. 

En svo er alls ekki. Nóvember hefur þvert á móti verið afar mildur. Síðustu daga hefur smávegis kólnað en frostið ekki verið til að gera veður út af, hvorki á íslenskan né rússneskan mæikvarða. Fjarstæða er að tala um frosthörkur og reyndar ólíklegt að mikið mildara verði í Moskvu að staðaldri næstu mánuðina.

En hitann í borginni í þessum mánuði má sjá hér á þessari töflu. (Menn þurfa aðeins að skrolla niður siðuna þegar hún birtist).  

Satt að segja skil ég ekki hvað er verið að fara í þessari frétt útvarpsins. 

Í töflunni lengst til vinstri (blátt) er lágmarkshiti dagsins í Moskvu, þá meðalhiti sólarhringsins (grænt), hámarkshiti (rautt), vik meðalhita frá meðallagi (plús með rauðu, mínus með bláu) og loks lengst til hægri úrkoma í millimetrum (grænt). Það blasir við hve mildur þessi mánuður hefur verið. Lengst til hægri á síðunni sést dagatal og þar er uppi mesti hiti hvers dags sem mælst hefur í nóvember í Moskvu nokkru sinni og ártalið með innan sviga og ef smellt er bláa ferninginn fyrir ofan dagatalið kemur upp minnsti hiti sem mælst hefur hvern dag (a.m.k. frá 1882). Neðar á síðunni sést Moskvuhitinn á línuriti fyrir mánuðinn en deplarnir fyrir ofan og neðan er það sem hitinn hefur mest eða minnst mælst dag hvern nokkru sinni.

Veðurstofan ætti að koma sér upp einhverju svona sem allra fyrst. En þangað til verður hið frækilega og hugumstóra fylgiskjal þessarar bloggsíðu að duga!  

 


Veðurslýðskrum á Alþingi

Innanríkisráðherra segir ósatt þegar hann fullyrðir á Alþingi að enginn hafi spáð fyrir um um óveðrið í  september. Sannleikurin er sá að veðrinu var spáð  í marga daga. Vindhraði var mjög nærri lagi. Hins vegar varð aðeins kaldara en gert var ráð fyrir og það munaði því að snjóaði fremur en rigndi. Og hitamunurinn sem þarna skilur á milli er afar lítill og ekki hlaupið að því að sjá fyrir öll smáatriði. En margra daga óveðurspá hefði ekki átt að fara framhjá mönnum.  

Reyndar var snjókoman sums staðar nyrðra sú mesta að snjódýpt sem vitað er um fyrri hluta septembermánaðar. Sjaldgæft veður. 

Það er ótrúlega ósvífið og hrokafullt, en fyrst og fremst ósatt, að láta þá yfirlýsingu frá sér fara á sjálfu Alþingi að enginn hafi spáð fyrir um óveðrið. Þvert ofan í staðreyndir.

Þetta er veðurlýðskrum af versta tagi.

Ekki bætir svo úr skák og eykur ekki traustið á Alþingi að svo virðist af fréttum sem ekki einn einasti þingmaður hafi gert athugasemdir við þetta en fremur tekið í sama streng.

Viðbót 8.11. Ögmundur hefur nú beðist velvirðingar á orðum sínum. Það er gott hjá honum. Og nú fer storminn líklega að lægja!


mbl.is „Enginn spáði fyrir um óveðrið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband