Öfgar í veðurfari

Svalasti júlídagur í sögu mælinga á Englandi.

Kaldasta júlíbyrjun í París í 80 ár. 

Gífurlegar rigningar í Mið-Evrópu og stórflóð í Dóná. 

Fjörtíu stiga hiti á Spáni og allt að skrælna. 

Ofsahitar í Kansas, allt upp í 45 stig. 

Hundruðir farast vegna flóða í Dhamaputra á Indlandi. 

Já, það er ekki á veðurfarsöfgarnar logið.

- Þetta var í júlí 1954.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ferð um Snæfellsnes

Var að koma úr ferð kringum Snæfellsnes. Varla sást ský á himni allan tímann. Útsýnið var takmarkalaust í allar áttir. Kom í Stykkishólm og skoðaði hús Árna Thorlaciusar sem fyrstur hóf að gera verðurathuganir á Íslandi sem enn er framhaldið og það vita náttúrlega allir. Skoðaði líka Eldjallasafnið. Varð fyrir vonbrigðum. Það er myrkt og illa lýst og vond lykt í því. 

Fyrir framan kirkjuna var opinn sendiferðabíll og út út honum barst hávær poppmúsik. Einhver kvenrödd var að syngja ömurlegt popplag gegnum hátalara með glamrundsirspili. Auðvitað á  ensku. Og á kirkjutröppunum stóð svo stelpa í stuttbuxum og bærði varirnar eins og hún væri að syngja. Svo voru einhverjir að taka þetta upp á videó og við vorum beðin að ganga ekki fyrir vélina rétt á meðan takan fór fram. Mig langaði nú til að vera með múður og uppsteyt og skemma allt þetta helvítis poppgaul því ég er svo snobbaður að það myndi rigna upp í nefið á mér ef það myndi bara rigna! En ferðafélagi minn lempaði mig niður svo lítið bar á. Það var reyndar tekið upp hvað eftir annað og spillti þessi gauragangur ánægjunni af að vera í hjarta Stykkishólms. En nú veit maður þá  hvernig svona upptökur fara fram. Fyrst er músikin tekinn upp og hún svo spiluð fyrir músikantana  sem þykjast þá syngja eða spila til að þeir verði sem eðilegastir þegar videómyndin er  tekin upp.

Algjört blöff!

Segiði svo að ekki sé lærdómsríkt að koma til Stykkishólms.

Mikill snjór var norðanmeginn í Ljósufjöllum og enn meiri í Helgrindum. Það er eins og skaflarnir séu alveg ofan í bænum í Grundarfirði. Skefling fannst mér það kuldalegt svona um hásumarið. Ekki vildi ég búa við það. Og Grundafjörður er eitthvað svo aðþrengur og leiðinlegur. Ég á reyndar ættir að rekja að hluta til frá þessum slóðum og því ekki að furða hvaða maður getur stundum verið skrambi leiðinlegur. 

Arnarstapi hefur breyst í sumarbústaðaland og mér finnst það hafa spillt staðnum. Man vel eftir honum þegar þar var lítið meiri byggð en fallega hvíta húsið sem var svo skemmtilegt með hitamælaskýlinu og úrkomumælium á túninu. Allt er það nú horfið. 

En kríurnar eru samar við sig, argandi og gargandi og mjög ögrandi og ógnandi eins og vítisenglar  og drulluðu bara yfir okkur.  

Ég sá mörg merk veðurathugunamöstur í ferðinni: þrjú á Kjalarnesi, tvö undir Hafnarfjalli með nokkra metra millibili (hagræðing og sparnaður í fyrirúmi),  við Hafursfell, á Vatnaleið, Stórholti, Stykkishólmi, Kolagrafarfjarðarbrú, (sakna gamla vegarins inn í Kolgafafjörð og um Hraunsfjörð en þar fæddist afi minn), Grundarfirði, Búlandshöfða, Fróðárheiði, alvöru hitamælaskýlið á Bláfeldi og líka mastrið og loks  mastrið á Hraunsmúla en missti hins vegar af Fíflholti á Mýrum og er ekki mönnum sinnandi yfir þeim fíflalega klaufaskap. 

Þetta var annars mikil sómaferð með mörgum Rauðakúlum! 

Og fylgikskjalið er aftur komið á kreik.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hár næturhiti

Nokkuð hár næturhiti var á landinu í nótt. Næstum því alls staðar upp um allar sveitir, jafnvel til fjalla á norðausturlandi, var hann yfir tíu stigum. Á Kirkjubæjarklaustri fór hann ekki lægra en í 15 stig slétt. Minnstur var hann við austurströndina, 5,7 stig í Seley.

Hár næturhiti er oft ávísun á háan sólarhringsmeðalhita ef síðdegishitinn verður sæmilegur. 

Á hádegi var hlýjast á suðausturlandi, 23 stig á Kirkjubæjarklaustri og 21-22 víða annars staðar frá Mýrdalssandi að Öræfum. Þarna er þykktin nú hæst yfir landinu og gæti kannski komið 25 stiga hiti.

Því miður stefnir svo kuldapollur á austanvert landið en stansar þó ekki lengi við- vonandi. 

Það er alltaf gaman að svona háum næturhita. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Undarlegar mælingar

Nokkrar undarlegar mæliniðurstöður hafa sést á vef Veðurstofunnar í dag.

Í fyrsta lagi var sólarhringsúrkoman í morgun gefin upp sem 39 mm á Brjánslæk. Ekki trúi ég því.

Í öðru lagi var skráður hámarkshiti á Akureyri frá kl. 18 í gær til kl. 9 í morgun sagður 22,0 stig. Erfitt er að koma því heim og saman við mælingar á mönnuðu stöðinni á athugunartímum og þá ekki síður samfelldar mælingar á sjálfvirku stöðinni. Síðdegis í dag fór hitinn á Akureyri hins vegar í slétt tuttugu stig. 

Í þriðja lagi var hámarkshitinn í Æðey núna kl 18 tilfærður sem 24,0 stig. Það væri met á stöðinni í hvaða mánuði sem væri. Á Ísafirði var reyndar 18 stiga hiti mest í dag en annars staðar minna í Djúpinu. Ég er vantrúaður á þessa tölu í Æðey þó ekki þori ég að hengja mig upp á að hún sé ekki rétt. Hæsti hiti sem þar hefur nokkru sinni mælst er reyndar hlægilega lágur. Þetta er enginn hitastaður.

En það er aldrei að vita! 

Nú er víst allt hvort eð er vitlaust í veðurmálunum í heiminum, hitabylgja í Ameríku, rigningar í Bretlandi og Rússlandi og helvítis kuldar bara á norðurpólnum!

Á þessu er náttúrlega bara ein skýring, enda hefur veðrátta heimsins aldrei áður hlaupið út undan sér: 

GRÓÐURHÚSAÁHRIFIN ÓGURLEGU!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júlí

Þá er að vita hvort júlí, sem oftast er hlýjasti mánuður ársins, slær einhver veðurmet eins og júní gerði á ýmsan hátt, eða verður bara flatur og lágkúrulegur eins og íslenskt þjóðlíf.

Fylgiskjalið lætur ekki deigan síga þó það komi einn dag á eftir áætlun af því að skjalavörðurinn brá sér bæjarleið.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband