Færsluflokkur: Guð sé oss næstur

Guðþjónusta

Ég hlusta á guðþjónustuna í útvarpinu á hverjum sunnudegi. Ég á það jafnvel til að fara í kirkju. Síðustu sumur hef ég haft þá venju að stunda kvöldmessurnar í Laugarneskirkju hjá séra Bjarna Karlssyni.

Ég leyni sem sagt heilmikið á mér.

Ekkert hefði ég á móti því að séra Bjarni myndi jarða mig -og það sem allra fyrst. 

Í útvarpsmessunni í dag frá Dómkirkjunni hélt Karl biskup fína ræðu. Hann gaf skít í þetta ytra öryggisæði sem tröllríður nútímanum. Hann benti réttilega á það að öryggi kemur alltaf innan að í lífi einstaklingsins. 

Ekki skulum við svo rugla saman eftirliti með borgurunum og öryggi þeirra.

Ein hugsun lætur mig aldrei í friði: Er öruggt að guð elski alla menn? Getur ekki verið að honum sé í nöp við suma?

Stundum kvarta bestu menn yfir því  að guð heyri ekki bænir þeirra. Hann skeyti ekki um þá. Hvernig stendur á þessu? Oft er þá sagt við þá: Þú biður bara ekki rétt. Þú opnar ekki fyrir gæsku guðs. Og þá er þetta farið að hljóma eins og ásökum: Þú ert ekki nógu góður maður. Þú hleypir ekki guði að.

Ekkert af þessu er einfalt mál þó oft sé einmitt á því tekið með þeim einfeldnishætti sem ég var að lýsa og er í rauninni bara hugleysi til að fást við ráðgátur lífsins og trúarinnar.

Sumir hugsa þó dýpra. En samt hef ég aldrei séð svar við þessum spurningum sem mér finnst vera bæði andlega heiðarlegt og trúverðugt.

Kannski er það einmitt málið að það eru ekki til svör við öllu. Og við það verðum við að sætta okkur.  


Páskahelgin

Nú ætla ég að koma hysterískum aðdáendum mínum ræklega á óvart. Í fyrsta lagi ætla ég að blogga um eitthvað annað en bölvuð móðuharðindi alla tíð. Í öðru lagi að lýsa því yfir að föstudagurinn langi finnst mér næstbestur allra daga. 

En bestur er páskadagurinn.

Ég skil ekki þetta tuð í mönnum hvað föstudagurinn langi hafi alltaf verið leiðinlegur alveg þangað til nú á dögum að bjórbúllur og súludansstaðir hafa opnað dyr sínar upp á gátt þennan dag. Hver bloggræfillinn á fætur öðrum hefur verið að vitna um það á sínum síðum hvað þeir hafi átt bágt í bernsku vegna þess að samfélagsumgjörðin var of  heillög og þeim ekki að skapi.

En ég spyr: Hefur þetta fólk ekkert við að vera inni í sjálfu sér? Engar bækur að lesa? Enga tónlist að heyra? Engar innri lendur að kanna?

Nú ætla ég að ganga fram af hysterískum aðdáendum mínum með því að fullyrða að helgi mikil og máttug leynist að baki tilverunnar. Hún er þar alltaf. En það er oft erfitt að finna hana í argaþrasi daglega lífsins. Menn þurfa líka að gera dáltið til þess að skynja hana. Í fyrsta lagi að þagna í huganum. Vera ekki að þessu eilífa þvaðri við sjálfan sig. Þá fylgir kyrrðin og friðurinn í kjölfarið. 

Aldrei liggur þó þessi helgi nær yfirborðinu en einmitt á föstudaginn langa og á páskadag. Þá er hægt að rétta bara út hendina til að grípa hana.

Það er mín óbifanlega reynsla. Og hún er samofin hlustun á háleitustu músik heimsins, passíur Bach og vitringsins Heinrichs Schütz, en á þær hlusta ég með andakt á föstudaginn langa. Og þegar ég segi andakt þá meina ég andakt.

Á páskadag vakna ég fyrir allar aldir, kveiki á kertum mínum við páskaliljurnar og læt geroríanskan munkasöng hljóma um sálina: Resurrexi. Þá finn ég samkennd við alla menn og allt sem lifir.

En það var nú ekki meiningin að verða svona væminn á þessum stað. Samt er þetta dagsatt.

Að þessu sinni barst mér líka falleg páskakveðja í morgunsárið frá einni árrisuli sál sem mundi eftir mér og það gerði páskana enn sætari en ella hefði verið.

Góðar hugsanir falla aldrei úr gildi.

Nú er allt hreint og tært. Nú er allt fagurt og fínt.   

Nú eru páskar um veröld alla. 


Hvar er þessi kærleikur?

Um daginn datt ég inn á bloggsíðu þar sem rætt var um kærleikann. Sagt var að hann væri sterkasta aflið í alheiminum.  

Þetta þótti mér fréttir. Ég hef nefnilega næstum því aldrei rekist á kærleikann. Það finnst mér skrýtið ef hann er eins algengur og sumir vilja vera láta.

En ég hef mætt heilmikilli velvild fólks og hlýju í lífinu. Að mínu viti er dálítill vingjarnleiki samt ekki kærleikur. Mannleg hlýja er nánast alltaf skilyrt. Spáðu í mig og ég spái í þig sagði Megas. 

Ég trúi því að Kristur eins og honum er lýst hafi búið yfir kærleika, skilyrðislausri ást til allra manna. Líka Búdda. 

PICT1959Mér finnst lýsing Palla postula á kærleikanum fjandi lunkinn og er viss um að hún fellur eins og flís við rass kærleikans.  

Það er sem sagt til kærkeikur. En hann er ekki á hverju strái.

Það þýðir ekkert að segja að kærleikurinn sé alls staðar og maður þurfi bara að opna hjarta sitt fyrir honum. Hjarta mitt er galopið eins og dómkirkja en samt finn ég hvergi kærleika. Hvernig má það vera? 

Þó ég sé þolinmóður og jafnvel umburðarlyndur gagnvart öðru fólki þoli ég ekki fólk sem er sífellt að tala um guð og kærleikann. Það er mín reynsla að þeir eigi minnst af kærleika sem mest tala um hann. Og mestu trúmenn sem ég hef kynnst hafa aldrei minnst á guð í mínu eyru. 

Ekki tala við mig um ástina milli manns og konu og segja að hún sé kærleikur. Flest ástarsambönd eru fyrst og fremst byggð á losta og allt í góðu með það. En hann endist sjaldan lengi og næstum öll hjónabönd breytast í rútinusambönd sem oftar en ekki eru æði súr og eiga ekkert skylt við kærleika.

Þetta vita nú allir en samt er allaf talað í upphöfnum tóni um hjónabönd eins og þau séu innsigli kærleikans.  

Kærleikurinn er sterkasta afl heimsins segja sumir og hafa engu við það að bæta. 

Kannski er þetta rétt hjá þeim. Nú ætla ég að arka í bæinn og vita hvort kærleikurinn verði ekki á vegi mínum. Hress og glaður og til í allt. 

 

 


Það sem máli skiptir

Esjan Skammdegið er fallegur árstími. Bæði í dag og í gær  rölti ég eftir göngustígnum meðfram fjörunni við Sæbrautina. Það mátti heita logn, skýjað í gær en bjart í dag. Birtan á þessum árstíma er engu lík, ekki síst þegar fjöllin eru hvit en hafið ýmist blátt eða steingrátt. Alltaf eru fjöllin jafn falleg. Þau eru líka gömul. Þarna voru þau löngu fyrir Íslandsbyggð og þau munu vera áfram löngu eftir að mannlifið er horfið. Samt eru fjöllin ekki eilíf. Þau munu líka hverfa eins og allt annað. Eftir nokkur miljón ár.

Hvaða máli skipir þá Björn Ingi Hrafnsson eða ég? Jarðsagan kennir manni hve mannlífið er hverfult  gaman og svo er ekki einu sinni alltaf sérlega gaman.

Stundum þegar ég er á gangi úti við hætti ég alveg að hugsa. Hugurinn dettur í dúnalogn. Þetta varir ekki lengi, aðeins fáein andartök, í hæsta lagi svona hálfa mínútu. Samt eru þetta mínar bestu stundir. Þá er eins og ég eygi eitthvað sem er varanlegt, eitthvað sem hefur hvorki nafn né stund en ríkir eilíflega bak við fjöllin og bak við tímann.

Það væri gott að vera alltaf í þessu ástandi. Og til eru menn sem lifa þar stöðugt án þess að nokkur viti af því. 

Það kemur ekki  á forsíðu Fréttablaðsins eða Moggans fremur en annað sem máli skiptir. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband