Færsluflokkur: Guð sé oss næstur
26.12.2007 | 11:47
Ljósið, sem hvarf
Kerling ein kunni ekkert annað en faðirvor og las það á hverjum morgni og hverju kvöldi með mestu andakt. Sáu menn ljós yfir rúmi hennar, ávallt er hún las á kvöldin. Menn fóru að kenna henni ýmislegt annað andlegt, en upp frá þeirri stundu sáu menn aldrei ljósið.
Þjóðsögur Jóns Árnasonar, 4. bindi.
Guð sé oss næstur | Breytt 6.12.2008 kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
8.11.2007 | 16:09
Myrkrið
Boðuð hefur verið bænaganga "í einingu og nafni Jesú Krists" 10. nóvember gegn myrkrinu í þjóðfélaginu eins og það er orðað í auglýsingum og sagt er að "með myrkrinu sé átt við neikvæða áhrifaþætti í lífi margra fjölskyldna, Þar má nefna vonleysi, fátækt, áfengisneyslu, vímuefnaneyslu, ofbeldi og sjálfsmorð."
Mikið er þetta einkennilegur samjöfnuður. Þegar svona er talið upp án aðgreiningar ... fátækt ... vímuefnaneysla... oflbeldi ...sjálfsmorð ... hlýtur það einfaldlega að vekja upp þau hugtengsl að fátækt fólk sé ofbeldislýður og þær óhamingjusömu manneskjur sem taka líf sitt séu af sama kaliber og vímuefnaneytendur. Þetta sé allt sama myrkrið.
Ekki veit ég hverjr ertu drifkrafturinn á bak við þessa göngu en í undirbúningsnefnd er Þjóðkirkjan meðal annara og ýmsir kristnir söfnuðir sem vilja vekja athygli á því, að eigin sögn, að "Jesús Kristur er ljósið sem yfirvinnur myrkrið".
Göngunni á að ljúka í Laugardalshöll þar sem menn ætla að vitna.
Ég fæ ekki betur séð en þetta sé fyrirtaks leið til að vekja upp trúarofsa og fordóma um jafn erfið og vandasöm mál og vímuefnaneyslu og sjálfsvíg, að ekki sé talað um það ranglæti sem felst í fátækt.
Hér verður þessu öllu saman bara fleygt inn í glóruluast myrkrið og lækningin er einföld patentlausn: Komið til Jesú.
Mætti ég þá heldur biðja um vítisengla.
Guð sé oss næstur | Breytt 6.12.2008 kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
22.10.2007 | 01:15
Biblían er apókrýfísk
Jæja, þá er biblían orðin apókrýfískt rit eins og hún leggur sig. Eftir nýju þýðingunni að dæma!
Það var nú svo sem bara tímaspursmál að hún yrði það. Hún er alveg ónýt.
Apókrýfísk!
Guð sé oss næstur | Breytt 6.12.2008 kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.10.2007 | 12:40
Kirkjan h/f
Björn Bjarnason kirkjumálaráðherra segir að það sé enginn þörf fyrir kirkjumálaráðherra því Þjóðkirkjan sé orðin svo sjálfstæð gagnvart ríkinu að ráðherra kirkjumála hafi ekki lengur neitt hlutverk.
Gott og vel!
Göngum þá skrefið til fulls. Aðskiljum ríki og kirkju formlega og alla vega. Ríkið hættir þá að dæla peningum í kirkjuna. Hún fjármagnar sig þá bara sjálf og þiggur einkaframlög.
Nú er tækifærið. Leggjum niður Þjóðkirkjuna, nafnið og alles.
Stofnum hlutafélagið Kirkjan h/f. Það mun áreiðanlega leiða til þess að laun biskups verða fjórfölduð.
Þá fer hann kannski að tala af meira viti sem því nemur. Allir munu græða gífurlega.
Stjórnarformaður Kirkjunar h/f verður svo náttúrlega engin annar en hann guð.
Guð sé oss næstur | Breytt 6.12.2008 kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.9.2007 | 12:17
Á Ríkisútvarpið að útvarpa guðþjónustum?
Á sunnudögum hefur Ríkisútvarpið útvarpað guðþjónustum frá upphafi. Gaman væri nú að vita hve margir hlusta á þessar messur. Alltaf eru messurnar kristnar og oftast frá Þjóðkirkjunni en þó kemur fyrir að fríkirkjusöfnuðir fá inni í útvarpinu og jafnvel sértrúarsöfnuðir, en ekki man ég eftir kaþólskri guðþjónustu á þessum venjulega messutíma kl. 11 á sunnudögum.
Er ekki kominn tími til að Ríkisútvarpið taki mið af því fjölmenningarsamfélagi sem nú ríkir í landinu í trúarefnum og leyfi öðrum trúflokkum en lútherskum kristnum eða sértrúastöfnuðum að komast að með guðþjónustur sínar þó ekki væri nema stöku sinnum?
Hér er þó nokkur hópur múslima og búddista, að ekki sé minnst á kaþólska. Afhverju fá þessir trúarhópar ekki að messa yfir okkur í Ríkisútvarpinu? En svo má líka spyrja: Er ástæða til að Ríkisútvarpið sé yfirleitt að útvarpa trúarlegum samkomum?
Ætti Ríkisútvarpið kannski bara að láta það vera?
Guð sé oss næstur | Breytt 6.12.2008 kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
12.9.2007 | 16:24
Hvernig yrði lífið í landinu?
Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn í Reykjavík mætti í viðtali á sjónvarpsstöðinni Omega í einkennisbúningi sínum og sagði að sögn Blaðsins í dag, að það væri heillavænlegri lausn að senda trúboða út af örkinni til að leysa miðborgarvandann heldur en að fjölga þar lögregluþjónum." Hann vill að óeirðaseggirnir fái að kynnast drottni".
Í 17. grein reglugerðar um einkennisbúninga og merki lögreglunnar er kveðið á um að lögreglumönnum sé óheimilt að nota einkennisfatnað utan lögreglustarfs, nema með heimild lögreglustjóra.
Í Blaðinu segir: Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, kannast ekki við að Geir Jón hafi verið í erindum lögreglunnar í þessu viðtali á Omega."
Þetta þýðir að Geir Jón fékk ekki leyfi frá lögreglustjóra til að nota einkennisbúninginn utan lögreglustarfsins.
Hann braut því klárlega þessa 17 grein reglugerðarinnar.
Og hann hefur játað brot sitt og segir Það má kannski segja að það hafi verið mistök hjá mér að mæta þarna í einkennisbúningi vegna þess, ég get tekið undir þá gagnrýni á mig."
Hvað svo?
Þegar lögreglan gómar fólk fyrir að henda rusli í miðbænum breytir engu þó það játi brot sín og gráti beisklega, það verður eigi að síður gert ábyrgt gerða sinna og sektað. Verður þá ekki að bregðast á svipaðan hátt við þeim sem opinberlega brjóta reglugerðir ríkisins?
Blaðið segir: Stefán segist ekki hafa fengið neinar athugasemdir eða ábendingar varðandi þáttinn en ef um eitthvað athugunarvert sé að ræða af hálfu starfsmanns embættisins þá verði það mál afgreitt gagnvart honum en ekki opinberlega. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um það."
Maður spyr sig hvort brot jafn háttsetts manns í lögreglunni fyrir allra augum í sjónvarpi eigi bara að leysa í pukri bak við tjöldin. En fyrst og fremst hvort tregða lögreglustjórans til að ræða málið sé vísbending um það að hjá lögreglunni verði horft framhjá þessu broti með því að yppta bara öxlum.
Hugmynd Geirs Jóns um trúboð yfir óeirðaseggjum miðbæjarins býður hins vegar upp á aðrar pælingar og all-glæfralegar.
Hugsum okkar að kristnir heittrúarmenn eins og Geir Jón sjálfur, Gunnar í Krossinum og Snorri í Betel, næðu á einhvern hátt völdum í þjóðfélaginu á öllum sviðum. Þeir væru í ríkisstjórn, hefðu meirihluta á alþingi og réðu lögum og lofum í öllum ríkisstofnunum og bæjarstjórnum, stýrðu menntakerfinu, heilbrigðismálunum og auðvitað Þjóðkirkjunni og hvers kyns samtökum, svo sem sem æskulýðs -og íþróttafélögum.
Hvernig ætli lífið í landinu yrði ef þetta mundi gersast?
Guð sé oss næstur | Breytt 6.12.2008 kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.9.2007 | 13:55
Guðsmennirnir eru bara farnir að vitna í mig!
Á sunnudögum er í Morgunblaðinu fastur dálkur með kristilegri hugvekju. Í dag er þar vitnað heilmikið í færslu mína um Jesúauglýsingu Símans.
Á dauða mínum áti ég von en því að ætti fyrir mér að leggja að vitnað væri í mig með velþóknun í slíkum dálki. En skrif mín voru sanngjörn og skynsamleg og sóma sér bara vel á þessum stað sem lokaorð.
Ég átti kannski ekki von á því að rata í kristilegan dálk vegna þess að ferill minn hefur ekki beinlínis verið til þess líklegur. Ég hef oft gagnrýnt kirkjuna, ekki síst á fyrri árum. (Afstaða mín til trúarinnar sjálfrar hefur reyndar tekið miklum breytingum með árunum).
Og ég kærði einu sinni Sigurbjörn Einarsson biskup fyrir siðanefnd presta fyrir ummæli hans sem mér fannst gera lítið úr geðsjúku fólki. Ég skar ekki úr um málið, það gerði siðanefndin, en mér var látið skiljast af ýmsum að bara kæran sem slík væri árás á persónu biskupsins. Siðanefnin taldi að biskupinn hefði ekki brotið siðareglur presta en setti samt ofan í við hann fyrir ýmisleg ummæli.
Ég þoli bara ekki þegar menn gera lítið úr geðsjúku fólki. Alveg sama hver er. Nei annars, ekki sama hver er, því meiri virðingar sem þeir njóta í samfélaginu því betur eiga þeir að gæta orða sinna að þessu leyti.
Það fór heldur ekki framhjá mér að margir fóru að skrifa lofræður um biskupinn meðan á þessu stóð.
Enginn skrifaði lofræður um mig!
En Matthías Moggaritsjjóri setti ofan í mig í leiðara án þess þó að nefna mig með nafni. Þegar blaðið skýrði svo frá niðurstöðu Siðanefndar lét það þess getið, og það kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum, að kærandinn hefði átt við geðræn vandamál að stríða. Það er reyndar orðið æði langt síðan og hann skrifaði um það fræga bók. Tilgangur Moggans með þessari athugasemd sem kom málinu ekkert við er svo augljós að það þarf varla að benda á hann:
Sigurður er brjálaður.
Þetta lét Mogginn sig hafa að gera. Og svo er blaðið alltaf að skrifa væmna leiðara um fordóma gegn geðsjúkum!
Mikið held ég að það sé gott á þrengingartímum að hafa her manns og þar með talið voldugar stofnanir eins og kirkjuna og Morgunblaðið til að styðja sig eins og biskupinn hafði. Slíku fólki þarf ekki að vorkenna mikið.
Ég hef staðið í ýmsu um dagana; dómsmálum, viðkvæmum uppljóstrunum og opinberunum, en yfirleitt aldrei fengið neinn stuðning frá neinum, að minnsta kosti ekki opinberlega (og það er í fínu lagi). Jú, reyndar gerði Lára Magnúsardóttir sagnfræðingur, sem skrifað hefur ritgerð um bannfæringu kirkjunnar, sitt besta til að kynna minn málstað í biskupsmálinu í Ríkisútvarpinu. Og það af svo miklum krafti að vakti undrun mína.
Í ljósi ofanritaðs er kannski ekki að furða að mjög setti mig hljóðan þegar ég las mín eigin orð í kristilegri hugvekju dagsins í Morgunblaðinu.
En mikið andskoti eru þau elegant, skýr og skynsamleg!
Þau myndu sóma sér vel sem leiðari í Morgunblaðinu.
Guð sé oss næstur | Breytt 6.12.2008 kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
5.9.2007 | 10:37
Ég er á móti símaauglýsingunni
Já, ég er á móti símaauglýsingunni um síðustu kvöldmáltíðina. En þetta er samt ekkert hitamál fyrir mér. Mér finnst auglýsingin einstaklega óviðkunnanleg. Það getur vel verið að hún sé vel gerð og jafnvel fyndin í augum einhverra. Það er bara ekki málið að mínum dómi. Málið er hins vegar það að öflugt fyrirtæki skuli ekki setja sér nein mörk í auglýsingamennsku sinni.
Hvort sem menn eru trúaðir eða ekki þá gera flestir sér ljóst að hér á vesturlöndum, svo við einbeittum okkur nú bara að því svæði, er píslarsagan kjarni þeirra trúarbragða sem við aðhyllumst, sumir kannski ekki nema að nafninu til reyndar. Sú trú fjallar um guð og eilíft líf, sálarheill manna, æðstu verðmæti sem hægt er að hugsa sér í augum hinna trúuðu og flestir vantrúaðir eða trúleysingjar, sem eru sæmilega að sér og réttsýnir, eru meðvitaðir um það að þetta er ein af stóru stundunum í sögu vestrænna manna frá hugmyndalegu- og menningarlegu sjónarmiði. Að hafa slíkt í flimtingum í auglýsingu sem eingöngu er til þess að selja vöru, sem auk þess er afskaplega ómerkileg í sjálfu sér að mínum dómi, finnst mér bera vitni um bæði menningarleysi og áttavillu um verðmæti yfirleitt.
Það mætti ræða þetta frá mörgum hliðum. Hér verður aðeins drepið á nokkur atriði.
Í Kastljósi varð talsmaður Biskupsstofu, sem menn héldu að væri en reyndist svo aðeins tala fyrir sjálfan sig, hálf klumsa þegar honum var bent á það að í Kirkjuhúsinu væri varningur sem seldur væri í ágóðaskyni og hvort það væri ekki alveg það sama og símaauglýsingin.
En það er bara allt annað. Vörurnar, aðallega bækur og trúarlegir skrautmunir, sem seldar eru í Kirkjuhúsinu miða allar að því að boða kristnina á einhvern hátt eða vitna um hana en ekki til að selja nýjasta jeppann eða gemsann. Þær eru vitanlega seldar með einhverjum ágóða því ekki er hægt að framleiða vöru og selja hana nema með ágóða.
Það er áberandi í viðbrögðum við auglýsingu Símans að þeir sem gera athugasemdir við hana eru taldir vera húmorslausir og jafnvel er vísað til skemmtilegheitanna í Spaugstofunni þegar þeir voru að gefa blindum Sýn til að réttlæta auglýsinguna. En þessi vísbending nær ekki máli. Fyrirbæri eins og Spaugstofan, sem gerir út á það að líta á tilveruna með íróníu, þiggur réttlætingu sína og samþykki samfélagsins einmitt fyrir það þó verið geti að stundum finnist einhverjum að gengið sé oft langt í einstaka tilfellum. Menn vita að sýn háðfuglanna er mikilvæg mennnigarlega og samfélagslega og þeim tekst jafnvel stundum að birta tilveruna í óvæntu og fersku ljósi. Í krafti þessa er þeim þolað ýmislegt meira en öðrum.
Auglýsingar fyrirtækja miðast bara að því að selja vöru sína og græða sem mest á henni þó þær geti auðvitað nýtt sér húmor og íróníu.
Það sem er annars einna mest óviðkunnalegt við þær móttökur sem símaauglýsing hefur fengið er það að margir virðast vera farnir að líta á lífið sem eina allsherjar spaugstofu. Það segir meira en allt annað um það á hvers konar tímum við lifum.
Og Síminn stendur með pálmann í höndunum. Honum hefur tekist að vekja ærlega athygli á þessari hundómerkilegu vöru sinni. Þeir sem andmæla auglýsingunni eru hreinlega afgreiddir sem húmorsleysingjar í besta falli en sem ofstatrúarmenn í versta falli, eitthvað í ætt við kristna talibana. Lesiði bloggsíðurnar!
Það eru viðskiptin sem vinna sigur yfir andanum. Það er hagur fyrirtækjanna sem skiptir öllu máli. Markaðsvæðing guðs og andskotans ef þið viljið það orðalag heldur. Raunverulegum verðmætum, sem gera hógværa kröfu til samfélagsins um að fá að vera utan við verslun og viðskipti, er vísað á bug með fyrirlitningu. Jákvæð viðbrögð við auglýsingunni verða svo grænt ljós á það að fyrirtæki missi af sér allar hömlur í auglýsingamennsku sinni. Ég vil reyndar vísa til færslu Salvarar sem kemur inn á þetta atriði.
Eitt í viðbót: Ég er viss um að ef hugmyndasmiður auglýsingarinnar hefði ekki verið þekktur fyrir að vera trúaður maður, hefði t.d. verið alkunnur vantrúarmaður eða trúleysingi, hefði andstaða manna við auglýsingunni orðið miklu harkalegri.
Menn standa nefnilega í þeirri meiningu að Jón Gnarr sé bæði trúaður og fyndinn.
Í mínum augum er hann þó fyrst og fremst vúlgar í þessari auglýsingu. Og nú er orðið svo vinsælt að vúlgarisera trúna að engin þorir að setja sig almennilega upp á móti því af ótta við að verða svo hallærislegur að hann fari beina leið til helvítis.
Guð sé oss næstur | Breytt 6.12.2008 kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
21.8.2007 | 15:20
Guð er minn hirðir!
Í nótt gerðust óvænt tíðindi í mínu annars tíðindasnauða lífi. Ég var að skoða margt og margt á netinu í hálfgerðu iðjuleysiskasti. Ég flakka sjaldan um netið en geng yfirleitt beint að því efni sem ég vil nálgast. En nú kom ég allt í einu á síðu sem ég vissi ekki að til væri. Hún birtir tónlist hundruða tónskálda á nótum. Af einhverri rælni fletti ég fyrst upp á tékkneska snillingnum Anton Dvorák. Hann var betri en þessi Muggison (að ég tali nú ekki um þessi Enimen andskoti, jæja, best er víst, að stilla fordómum sínum og dómhörku í hóf!) og gerði einhverja frægustu sinfóníu sem nokkru sinni hefur verið samin, þessa sem kölluð er "frá nýja heiminum" af því að hún var samin í New York og vitnar í negrasálma.
Þarna rakst ég á Biblíusöngva op. 99 eftir Dvorák og fór að fletta þeim. Eitt lagið var við 23. sálm Davíðs: Guð er minn hirðir, mig mun ekkert bresta, og allt það. Og skemmst er frá því að segja að þetta finnst mér eitthvert fallegasta lag sem ég hef vitað og þekki ég þó mörg lög en vissi ekki af þessu lagi. Ég var að kynnast því í fyrsta sinn.
Það sem gerir lagið svo fallegt er einfaldeiki þess, mýkt og mildi, traust og góðvild sem stafar frá því í hverri nótu.
Ég er veikur fyrir svona. Ég er veikur fyrir því þegar trú manna gerir þá vitra, góða og ljúfmannlega. Þannig gerði trúin Dalai Lama en mynd um hann var sýnd um daginn í sjónvarpinu. Og þannig hefur trúin, hvort sem hún er kristin, gyðingleg, múslimsk eða búddísk, gert marga menn ef þeir láta ekki bölvaðan bókstafinn blinda sig.
Guð sé oss næstur | Breytt 6.12.2008 kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
20.8.2007 | 20:00
Uppreisnarher drottins
Uppreisnarher drottins í Uganda berst fyrir því að stofna ríki á grundvelli boðorðanna tíu - hvorki meira né minna.
Manni verður eiginlega óglatt af frásögnunum í Kastljósi um framferði þessara stríðsmanna drottins. Þeir ræna börnum og kenna þeim að myrða og limlesta á hroðalegan hátt. Skera af mönnum andlitið til dæmis. Og þykir það hin besta skemmtun. Stúlkurnar, sem líka eru í hópnum, verða svo kynlífsþrælar foringjanna. Og annað eftir því.
Þetta er víst samt kristinn lýður sem heldur boðorðin tíu í heiðri og hvikar ekki frá bókstafnum.
Aldrei hef ég séð neinn blogga um þessa kristnu óþokka.
Það er hins vegar auðvelt að ímynda sér hvað lesa mætti á sumum bloggsíðum og hvað ályktanir um yfirburði kristins siðferðis væru þar dregnar ef þetta væri múslimskur skæruliðahópur sem berðist fyrir því að stofna ríki múslima í Uganda.
Sumir segja reyndar að þessi hópur sé ekki kristinn og hann hefur notið stuðnings frá Súdan en hann segist samt vera kristinn.
Guð sé oss næstur | Breytt 6.12.2008 kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006