Færsluflokkur: Íþróttir
26.11.2011 | 20:15
Köldustu nóvembermánuðir
Líta verður fyrst á nokkra ískalda nóvembermánuði fyrir 1866 sem þó er okkar helsta viðmuðunarár. Meðalhiti veðurstöðvanna níu, sem hér er miðað við í öllum þessum pistlum, var 0,8 stig árin 1961-1990.
1824 Þennan mánuð var eingöngu athugað á Nesi á Seltjarnarnesi og aðeins ein hitamæling gerð og var það að morgni. Það er samt alveg ljóst að þetta er alkaldasti nóvember sem mælingar ná yfir á Íslandi. Meðalhitinn er talinn vera hvorki meira né minna en -5,6 stig. Þann 6. var hitinn um frostmark og hláka var dagana 20. og 21. og var hitinn 5,0 stig fyrri daginn. Annars voru stöðug frost, mest -12,5 stig þ. 19. Oftast var 5-7 stiga frost en yfir tíu stig þ. 15. og 17.-19. Frostin hófust reyndar 23. október og hugsanlega var október þetta ár kaldasti október sem mælst hefur í Reykjavík en frá septemberlokum til nýárs var einlæg og óslitin kuldaveðrátta með miklum snjóþunga", segir í Árbók Reykjavíkur. Þorvaldur Thoroddsen skrifar í Árferði á Íslandi í þúsund ár að lagt hafi firði og flóa vestra. Ætla má að um allt land hafi verið mikill kuldi. Hvar stæðum við annars með eldri tíðarfarslýsingar ef ekki væri Þorvaldur Thoroddsen? Myndinni hér af honum er nappað af vef Veðurstofunnar en birtist fyrst í bók Boga Th Melsted: Þorvaldur Thoroddsen: um ævi hans og störf, sem kom út 1923 í Kaupmannahöfn.
Árin 1779 til 1785 gerði Rasmus Lievog veðurathuganir á Bessastöðum og var nóvember 1781 óskaplega kaldur en þó um það bil hálfu stigi mildari en 1824 að því er menn ætla eftir nokkuð ófullkomnum mælingum. Það var væg hláka fyrstu tvo dagana en síðan stöðug frost og hörkufrost dagana 21. til 27., oftast yfir tíu stig og allt niður í fimmtán. Síðustu tvo daga mánaðarins hlýnaði loks og var hitinn þá tvö til fimm stig. Að kvöldi hins 14. fórust tvö skip við landið og með þeim níu manns.
Samkvæmt mælingum sem gerðar voru á Akureyri var nóvember 1807 í álíka kuldaflokki þar og nóvember 1910, 1973 og 1996.
1841 Aðeins var athugað með mælitækjum í Reykjavík. Þar er þetta næst kaldasti nóvember sem mælst hefur, meðalhitinn -3,3 stig. Snjóasamt og frosthart var víða í þessum mánuði. Milt var þó fyrstu vikuna en síðan látlaus frost. Samkvæmt Brandsannál var samt stillt veður í Húnavatnssýslum 3.-13. en eftir það gerði landnyrðings hörkukafla. Hlánaði þá ekki í Reykjavík til mánaðarloka. Og fór frostið þar í tíu stig eða meira alla dagana frá 14. til 19. Síðan var nokkru mildara þó kalt væri.
1861 Árbók Reykjavíkur segir að í hálfan mánuð hafi gert harðan frostakafla, svo að ganga mátti á ís yfir Skerjafjörð, milli Skildinganess og Bessastaðaness. Þetta var í síðasta þriðjungi mánaðarins. Fyrstu dagana var frostlaust um hádaginn í Stykkishólmi en næturfrost. Eftir fyrstu vikuna voru þar frost nema hvað smá hláka var 16.til 18. Undir mánaðarlok voru hörkufrost allt niður í 18 stig þ. 26. og -15,5 daginn áður. Meðalhitinn var -2,8 stig sem gerir mánuðinn þann kaldasta í Stykkishólmi síðan athuganir þar hófust í nóvember 1845.
1837 Þetta var frostamánuður mikill í Reykjavík, en aðeins þar var athugað á landinu, en dálitlar hlákur komu dagana 6. og 7. og 13. til 16. og einnig hlánaði brot úr degi þ. 25. Hiti fór í 4 stig þann 14. en frostið í 12 stig þann 21. Af Árferði á Íslandi má ráða að hafi verið snjólétt á suðurlandi en Brandsannáll talar um kaföld og hríðarbylji í Húnavatnssýslum.
Eins og áður segir er í þessum pistlum reynt að meta meðalhita landsins frá 1866. En hér er til viðmiðunar, en þó helst til skemmtunar, tillaga að röð allra köldustu nóvembermánaða alveg frá aldamótunum 1800: 1824, 1841, 1861, 1837, 1807, 1821, 1869, 1816, 1973, 1880, 1887, 1825, 1836, 1838, 1866, 1996. Eftir allra köldustu mánuðina fer þessi röð líklega að verða ónákvæm og vafasöm miðað við kalda síðari mánuði þegar veðurstöðvar voru orðnar fleiri en þetta er hér sett fram til að árétta hvað nóvemberkuldar voru algengir frameftir nítjándu öldinni.
1869 (-2,9) Þetta er þá kaldasti nóvember sem mælst hefur frá 1866 ef einungis er miðað við Reykjavík og Stykkishólm saman, en þetta voru þá einu stöðvarnar sem mældu, og reynt að láta þessa staði vera fulltrúa fyrir allt landið. Hláka var fyrstu þrjá dagana en síðan var kuldakafli alveg til hins 19. að undanskildum hinum 12. og 15. Dagana 20. og 21. var líka dálítil hláka með rigningu en síðan var mjög kalt síðustu daga mánaðarins og að morgni þess 28. var 11 stiga frost í Stykkishólmi. Hlýjast var þar 4,8 stig þ. 12. Seinast í mánuðinum var hafís kominn að Melrakkasléttu. Af Árbók Reykjavíkur virðist mega ráða að mikill snjór hafi verið í Reykjavík og hann var einnig mikill á suðurlandi að sögn Þjóðólfs 9. desember. Blaðið skýrir frá því 26. janúar 1870 að í nóvember hafi mestur hiti í bænum orðið um 8 stig þ. 2. en mest frost um 14 stig þ. 28.
Vísindatímaritið Nature hóf göngu sína þann fjórða í Lundúnum en í Bandaríkjunum fóru í þessum mánuði að birtast daglegar fréttatilkynningar um veður.
1973 (-2,4) Mánuðurinn er sá kaldasti sem komið hefur síðan 1869 en var líklega víða svipaður honum að hitastigi. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, Vatnsskarðshólum í Dyrhólahreppi og Reykjanesvita var meðalhitinn 0,0 stig en -8,3 stig á Grímsstöðum, -8,2 á Brú á Jökuldal og -8,0 á Hveravöllum. Á Vöglum í Fnjóskadal var meðalhitinn -7,8 stig og er það minnsti meðalhiti í nóvember á laglendi á Íslandi. Allra kaldast var þó í Sandbúðum á Sprengisandi, -10,0 stig. Norðanátt var vitskuld ríkjandi. Á norðausturlandi var sums staðar gríðarleg úrkoma og það var líka úrkomusamt á suðurlandsundirlendi en úrkoma í minna lagi á austfjörðum, suðausturlandi, við Faxaflóa og víðar á vestanverðu landinu. Í Grímsey hefur aldrei mælst meiri úrkoma í nóvember 182,2 mm. Snjólag á landinu var 68%, það fimmta mesta. Í Reykjavík, þar sem alauðir dagar voru sex, var jörð þó aldrei talin alhvít og sömu sögu er að segja um einstaka staði á suðurlandsundirlendi og við Faxaflóa. Í byggðum á norðanverðu landinu voru alhvítir dagar 20-26. Einna mestur snjór var á norðvestanverðum Vestfjörðum, sunnan Djúps, og í Fljótum. Hláka var víða fyrstu þrjá daga mánaðarins og aftur dagana 6. til 9. en annars voru nær stöðug frost þó örstuttir hlákublotar kæmu stundum inn á milli. Hiti komst aðeins einu sinni yfir tíu stig á landinu, 10,6 á Kambanesi þ. 7. Miklir kuldar voru dagana 13. til 19. og eftir tveggja daga smáhláku eftir það kom annað kuldakast og enn þá harðara. Stóð það til mánaðarloka fyrir norðan og austan en síðustu fjórir dagarnir voru mildari á suðvesturhorninu. Í fyrra kastinu fór frostið við Mývatn þ. 17. í -26,0 stig í bjartviðri og 24 stig á Grímsstöðum. Sólarhringsmeðaltalið á Grímsstöðum hefur verið vel yfir 20 stiga frost. En þennan dag var meðaltal sólarhringsins -15,5 stig á Akureyri og hefur ekki mælst lægra nokkurn nóvemberdag, a.m.k. eftir 1948. Á hádegi var frostið þar 17 stig í glaðasólskini. Dagurinn á undan og dagarnir 25. til 27. settu einnig sólarhringsmet í kulda á Akureyri. Mesta frost, -27,1 stig, sem mælst hefur á mannaðri veðurstöð í nóvember, varð í seinna kuldakastinu, á Staðarhóli, skráð að morgni þess 24. en hefur i raun komið kvöldið áður því kl. 21 var frostið þar -24,8 stig en níu stig kl. 9 næsta morgun. Á Grímsstöðum fór frostið i -26,5 stig. Mun sá 23. vera kaldasti nóvemberdagur á landinu eftir a.m.k. 1948 og líklega miklu lengur. Nokkrir aðrir dagar teljast með allra köldustu nóvemberdögum sem komið hafa. Það er samt merkilegt nokk að þessi kaldi mánuður setti aðeins eitt kuldamet í Reykjavík fyrir lægsta sólarhringsmeðalhita, þ. 25. þegar meðalhitinn var -9,5 stig. Auk stöðva á norðausturlandi komu mánaðarkuldamet lágmarkshita á Hveravöllum (-22,1°), sums staðar á Vestfjörðum, Skagafirði og Kirkjubæjarklaustri. Á Klaustri mældist líka mesta snjódýpt þar í nóvember, 56 cm þ. 20. Hæð var oftast í mánuði þessum yfir norðaustur Grænlandi en lágþrýystisvæði gróf um sig yfir norðanverðum Norðurlöndum. Loftið yfir landinu var oft komið frá heimskautasvæðum Kanada norðvestan við Grænland (sjá kort af 500 hPa fletinum). Þykktin var 70-100 metra undir meðallagi en þó líklega ekki eins lág sem í kalda nóvember 1996. Kuldinn í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m var aftur á móti einstaklega mikill við landið eins og kortið sýnir. Kalt var einnig yfir Evrópu en hlýtt vestan við Grænland og á hafinu suðvestur af Íslandi. Á eftir þessum kuldalega nóvember kom svo þriðji kaldasti desember. Fyrir neðan sést meðalhiti stöðva í þessum kalda nóvember.
1880 (-2,3) Veturinn (des-mars) 1880-1881 er sá kaldasti sem mælst hefur á Íslandi. Auk þess eru desember og mars þeir köldustu sem mælst hafa, janúar sá næst kaldasti og febrúar sá kaldasti eftir 1866. Nóvember þetta ár er síðan sá þriðji kaldasti eftir 1865 og kom á eftir sjötta kaldasta október. Aldrei hefur mælst kaldari nóvember í Grímsey, -3,8 stig. Fyrstu dagana var hláka sunnanlands en síðan látlausar norðlægar áttir til 21. en ekki var hvasst. Oft snjóaði. Í Reykjavík fór að snjóa aðfaranótt þess 15. Mestu kuldarnir voru þ. 13. og 14. Síðari daginn fór frostið í -13,5 stig í Reykjavík. En dagana 13.-15 mældist þar meira frost en þá daga hefur nokkru sinni mælst þar í nóvember. Mest frost á landinu varð -24,0 stig á í Saurbæ í Eyjafjarðardal og -20,5 stig á Valþjófsstað i Fljótsdal en ekki var byrjað að mæla á Hólsfjöllum eða Möðrudal. Eftir þann 21. kom viku kafli með hlýrra veðri en kólnaði svo aftur tvo síðustu daga. Mestur hiti á landinu varð 8,6 stig á Eyrarbakka, líklega fyrstu dagana í mánuðinum. Úrkoma var mjög lítil í Stykkishólmi, í minna lagi í Vestmannaeyjum en yfir meðallagi á Teigarhorni. Það var alla jafna hæð yfir Grænlandi en lægðasvæði ekki aðeins við Noreg heldur einnig suðvestur af landinu. Kortið sýnir meðallag loftþrýsting við sjávarmál paskölum. Ef slegin eru á þessu korti af síðustu tvö núllin kemur hann út í hektópaskölum eða millibörum eins og við erum vönust. Jónas Jónassen lýsti svo veðurfarinu þennan mánuð í Þjóðólfi 11. desember:
Veðurátta hefir verið þennan mánuð fremur óstöðug og um tíma (frá 13.-18.) mjög köld; 2 fyrstu dagana var veður bjart, austankaldi; 3. hvass á sunnan með mikilli rigningu, en lygn að kveldi og sama veður 4. en 5. var logn að morgni og dimmviðri en síðara hluta dags hvass á landnorðan með krapaslettingi og urðu öll fjöll héðan að sjá alhvít; 6. hægur á austan með nokkurri snjókomu, að kveldi rokinn á norðan; 7. hvass á norðan; 8. blindbylur og hvass á landnorðan að morgni, að kveldi genginn í landnorður með rigningu og síðan á vestan; 9. vestanútnorðan með brimhroða, en hægur allan daginn;10. og 11. hæg austangola með rigningu; 12. aptur hvass á norðan með blindbyl; 13. hvass á norðan; 14.-20. hægur við austanátt, optast bjart veður; 21. hvass mjög á landnorðan með rigningu, að kveldi genginn í útsuður, hægur; 22.-27. hæg austanátt, opt logn; 28. -29. nokkuð hvass á norðan (með byl til sveita); 30. logn og fagurt veður.
1887 (-2,3) Þetta er kaldasti nóvember sem mælst hefur í Hreppunum, -4,7 stig á Stóranúpi og mældist þar frost alla dagana. Í Vestmannaeyjum hefur aðeins orðið kaldara 1919 og á Teigarhorni 1973. Frostið fór í -20,2 stig í Möðrudal en hlýjast varð 9,5 stig í stuttri hláku þann 23. á Teigarhorni en hitatalan var skráð á næsta dag. Norðan eða norðaustanátt var flesta daga, en stundum vestlæg átt, og oft var bjart á suðurlandi vel fram eftir mánuðinum en síðan var meira skýjað. Úrkoma var afar lítil og hefur sjaldan verið minni í nóvember. Í Stykkishólmi var nokkur úrkoma 13.-26. en aðra daga alveg þurrt. Er þetta næst þurrasti nóvember á Teigarhorni, aðeins 9,3 mm sem féllu á átta dögum. Í Reykjavík var hæglætis veður allan fyrri helming mánaðarins með frosti um nætur nema hvað hann rauk upp þann annan með norðan skafrenningi en snjór var fyrir og þann 13. hvessti aftur um stund. Kaldast í bænum varð -10 stig þ. 18. Hæð var yfir Grænlandi þennan mánuð og hæðaarhryggur frá henni yfir Ísland en í Barentshafi var lægðasvæði og lægðardrag þaðan alveg suður um Bretlandseyjar. Eftir þessum mánuði kom fimmti kaldasti desember. Kortið sýnir meðallag loftþrýstings í paskölum. Jónassen lýsti tíðarfarinu í höfuðstaðnum í nokkrum tölublöðum Ísafoldar:
[Fyrsti snjór haustsins, ökladjúpur, hafði fallið að morgni 31. okt.] ... Í dag 1. nóv. hægur austanvari, rjett logn, bjartur fyrir hádegi. (2. nóv.) - Fyrsta dag vikunnar var hjer logn allan daginn, en seint um kveldið rauk hann (kl. 10 -11) allt í einu á norðan með skafrenningi og var hvass á norðan daginn eptir (3.). Síðan hefir optast verið logn eða hægur austankaldi og bjart veður optast nær. Nokkurt frost var alla vikuna, þar til hann að kveldi h. 6. gekk til linunar og ýrði regn úr lopti, svo mest allur sá snjór, sem var á jörðu, tók af, svo nú er hjer aptur auð jörð. Í dag 8. blæja logn og fegursta veður; loptþyngdarmælir stendur mjög hátt og hreyfir sig ekki í dag. (9. nóv.) - Mestalla vikuna má heita að verið hafi logn dag og nótt þangað til um miðjan dag h. 13. að hann gekk til norðurs og var hvass úti fyrir; en eigi hjelzt það lengur en til kvelds sama dags (kl. 8-9) og var þá komið logn aptur. Daginn eptir (14.) var hjer hægur austankaldi og gekk síðari part dags til landsuðurs (Sa) og rigndi litið eitt. Í dag hæg austanátt með hægri rigningu. Sunnudagskveldið 13. þ. m. kl. 9,35 mínútur var hjer í bænum vart viö einn snöggan jaröskjálptakipp. Jörð er hjer nú hjer um bil al-auð. (16. nóv.). - Fyrsta dag viku þessarar var hjer hægur sunnankaldi, dimmar í lopti með rigningu við og við, og daginn eptir (17.) var hjer logn til kl. 2 e. m., er hann gekk til norðurs og varð bálhvass eptir kl. 4, og hjelzt sama veðrið næsta dag; á laugardaginn var komin austanátt hæg með ofanhríð og gerði blindbyl með kveldinu, síðan hvass á austan en bjartur; síðan (21.) logn og bezta veður allan daginn, þar til hann aðfaranótt h. 22. gekk til suðurs, dimmur með nokkurri rigningu í dag (22.), og er heldur að hvessa er á daginn líður, mjög dimmur í lopti. Loptþyngdamælir benti í gærkveldi seint, rjett um miðnætti, á bezta veður (30,5) og skyldu menn því hafa ætlað, að veðrið yrði hið bezta með morgninum og í dag (22.). Almenningur fór á sjó, en eins og opt er, gjörði hvassveður, dimmviðri með versta útliti, svo allir urðu að fara þegar í land; - enn ljósasti vottur þess að sjómenn mega með engu móti treysta loptþyngdarmælinum. (23. nóv.). - Umliðna viku hefir optast verið hæg norðanátt hjer, en hvass til djúpa, bjart veður, með talsverðu frosti. Enginn snjór hefir fallið, svo hjer er alauð jörð. Í dag 29. hægur að morgni á austan og dimmur i lopti ; hvesti er á daginn leið af landnorðri. (30.nóv.).
1866 (-2,0) Nóvember þessi var ekkert óskaplega kaldur í Stykkishólmi, -0,7 stig, en í Reykjavík er hann talinn kaldastur allra nóvembermánaða eftir 1841, -2,9 stig. Mælingarnar voru þar ekki fyrsta flokks á þessum árum og mér finnst einkennilegt að mánuðurinn hafi verið meira en tveimur stigum kaldari en í Stykkishólmi. Er þetta fremur vandræðalegt. Í Stykkishólmi gerði frostið sig reyndar oft heimakomið en inn á milli voru dálitlar hlákur, mestar 20.-23. og 10.-14. og svo í mánaðarlok. Frost voru því aldrei stöðug og langvinn í þessum mánuði. Það gekk mikið á með útsynnings umhleypingum með éljagangi og blotum á víxl. Hlýjast varð í Stykkishólmi 8,0 stig þ. 21. en kaldast -12,3 stig þ. 15. Meðalhitinn á Siglufirði var kringum -3,1 stig og talinn svipaður á Akureyri. Þar var þó nóvember 1861 enn þá kaldari en 1866 svo munar heilli gráðu. Úrkoma var reyndar mæld á Akureyri í þessum nóvember 1866 og reyndist 63 mm. Í Reykjavík sáust mikil stjörnuhröp að kvöldi þ. 13. og skrifaði Páll Melsted um þau í Þjóðólf þann 27. Þá var frost nokkuð og föl á jörð en bjart. Stóðu loftsýnir þessar í norðaustri í nokkrar klukkustundir. Samkvæmt Þjóðólfi var hlýjasta vikan í bænum 23.-30. en sú kaldasta 14.-20. Mestur hiti í Reykjavík mældist um 3 stig þ. 28. segir blaðið, en mesta frost 11 stig þ. 15.
1996 (-2,0) Aðeins einn nóvember hefur orðið kaldari en þessi síðan 1865 í Reykjavík og það er einmitt vandræðamánuðurinn 1866. Tiltölulega kaldast var þó á Hólsfjöllum og í Möðrudal, sex stig undir meðallagi og var meðalhitinn -9,1 stig í Möðrudal. Telst það vera lægsta tala sem nokkur stöð í byggð hefur fengið á Íslandi sem meðalhita í nóvember. Mildast var tiltölulega á norðvestanverðu landinu. Þrátt fyrir kuldann var mánuðurinn ekki talinn óhagstæður af veðurathugamönnum. Hann er sá sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík, 79 klst eða 40 stundir umfram meðallagið 1961-1990. Enn meira sólskin var þó á Hólum í Hornafirði, 81,3 klst., Reykjum í Ölfusi, 85 klst, og Sámsstöðum, 87,3 klst, og er það mesta sólskin sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð í nóvember. Úrkoma var svo lítil að þetta er með þurrustu nóvembermánuðum. Fyrstu 9 dagana var hægviðri og mjög sólríkt á landinu en afar kalt, má segja að ekki hafi hlánað allan tímann í Reykjavík (hámark + 0,1°) og sá annar og þriðji settu þar dagshitamet fyrir lægsta sólarhringsmeðalhita. Frostið fór í -24,3 stig þ. 4. á Grímsstöðum. Eftir þetta komu sex hlýir dagar og fór hitinn í 15,6 stig þann 14. á Seyðisfirði og 14,8 á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Hvasst var þennan dag og 12 vindstig í Litlu-Árvík. Kalt var á ný seinni hluta mánaðarins og fór frostið í -26,9 stig þ. 24. í Möðrudal og -26,4 í Reykjahlíð við Mývatn. Á sjálfvirku stöðinni á Neslandatanga í Mývatni mældist frostið -30,4 stig þennan dag og -30,1 stig daginn áður. Lægri talan er lægsta tala sem hægt er að finna um lágmarkshita á landinu í nóvember. Þessi mánuður gerði það reyndar ekki endasleppt í kuldanum. Þegar sjálfvirkar stöðvar eru teknar með voru alls ein níu met yfir dagshitamet lágmarkshita sett á landinu, flest á Neslandatanga. Ekki hlánaði á mönnuðum stöðvum fjóra daga í röð, 20.-23. og má slíkt heita einsdæmi þegar enn er ekki nema nóvember. Veðurlag á Íslandi er mjög breytilegt og sjávarlegt og það er alveg furðulega sjaldgæft að ekki hláni neins staðar marga daga í röð. Slíkir dagar eru alltaf sárafáir. Snjólag landinu var 73%. Snjólétt var vestanlands en norðanlands og austan var sums staðar talsverður snjór og sömuleiðis syðst á landinu í mánaðarbyrjun. Eitthvert hið mesta Skeiðarárhlaup kom dagana 5.-7. í kjölfar eldgoss í Vatnajökli og var sandurinn ófær í 22 daga.
Þykktin yfir landinu og kringum það var niður úr öllu valdi eins og kortið sýnir, allt upp í hundrað metra undir meðallagi. Mjög hlýtt að tiltölu var í A-Evrópu og norður og austur um allt Rússland í þessum mánuði.
Clinton var endurkosinn forseti Bandaríkjanna þ. 5. Tvær fluvélar rákust á yfir Indlandi þ. 12. og fórust þar 349 í mesta árekstrarslysi flugvéla sem um getur.
1919 (-1,9) Í Vestmannaeyjum er þetta kaldasti nóvember sem mælst hefur. Þar var þó hláka fyrstu vikuna en síðan oftast frost. Þann fyrsta fór hitinn í 8,1 stig í Eyjum sem var mesti hiti mánaðarins og hefur landshámark aðeins einu sinni verið lægra í nóvember og var það árið 1910. Hægviðrasamt var á landinu þó kalt væri og iðulega lítið skýjað á suðurlandi. Norðanátt var ríkjandi. Af takmörkuðum mælingum að dæma má ætla að þetta sé einn af allra þurrustu nóvembermánuðum. (Litlu munaði að veðurathuganir á landinu legðust alveg af á þessu fyrsta ári sjálfstæðisins). Alveg sérstaklega var þurrt fyrir norðan. Úrkoma á Möðruvöllum í Hörgárdal var aðeins 7 mm. Þar mældist einnig mesta frostið í mánuðinum, -17,7 stig þ. 21. Sólarstundir á Vífilsstöðum voru 49. Aftaka norðanveður var í Reykjavík þ. 24. og fórst einn maður af völdum þess. Þá var stórhríð fyrir norðan og austan. Á Ísafirði urðu skemmdir á bryggju. Ekki aðeins var kalt hér á landi þennan mánuð heldur einnig í Evrópu og er þetta t.d. kaldasti nóvember sem mælst hefur í Danmörku. Hæðasvæði var yfir Rússlandi sem beindi köldu lofti til Evrópu. Einnig var hæð yfir Grænlandi sem náði stundum suður um Ísland. Kortið sýnir frávik hitans frá meðallagi í 850 hPa fletinum í um 1400 metra hæð.
Þann sjötta birtist frétt í breska dagblaðinu The Times um niðurstöður mælinga á sólmyrkva sem staðfestu afstæðiskenningu Einsteins. Varð hann heimsfrægur eftir þetta en hafði þangað til ekki verið almenningi kunnur.
1969 (-1,8) Þetta er snjóþyngsti nóvember sem er á skrá. Snjólag var 80% á landinu. Aðeins einu sinni hefur hámarkshiti mælst lægri í Reykjavík í nóvember, 5,6 stig en lægstur var hann 5,5, stig árið 1878. Snjólagið í borginni var 60% og alautt í aðeins einn dag en alhvítt í 12 daga. Sérlega hart var á suðurlandi að tiltölu og er þetta kaldasti nóvember á Fagurhólsmýri og sá næst kaldasti í Hreppunum. Á Þingvöllum, Jaðri í Hrunamannahreppi og reyndar einnig í Vík í Mýrdal var alhvítt allan mánuðinn. Í kalda nóvember 1973 var miklu snjóléttara á þessum slóðum. Mest snjódýpt mældist 84 cm þ. 28 á Sandhaugum í Bárðardal. Úrkoma var samt svo lítil að þetta er með þurrustu nóvembermánuðum, líklega einn af þeim fimm þurrustu. Var úrkoman minni en helmingur af meðalúrkomu á landinu en þó meiri en það á norðaustanverðu landinu og tiltölulega mest á Húsavík. Fyrstu daga mánaðarins var oftast norðanátt með frosti og éljum nyrðra. Norðaustanóveður gekk yfir dagana 9. og 10. og urðu víða miklar skemmdir og einn maður varð úti. Mikil úrkoma var þessa daga frá Vestfjörðum til Austfjarða en bjart á suðurlandi. Eftir óveðrið kólnaði mjög og voru dagarnir 12.-15. einhverjir þeir köldustu sem komið hafa eftir árstíma síðustu áratugi og endaði þetta kuldkast á því að frostið fór í -22,0 stig á Grímsstöðum þ. 15. Hiti komst aldrei hærra í mánuðinum á landinu en í 10,2 stig og var það í þrjú skipti á austfjörðum í smáblotum. Annars var norðanáttin allsráðandi en var rofin af skammvinnum suðvestanáttum. Óvenjulega lágur þrýstingur var yfir Lofóten við Noregsstrendur. Kortið sýnir ástandið í 850 hPa fletinum í kringum 1400 m hæð. Þykktin yfir landinu var frá 50 metrum undir meðallagi vestast upp í 80 metra undir því austast á landinu. Mesta þynnkan náði langt norður í höf og á Jan Mayen var þetta kaldasti nóvembermánuður sem þar hafði þá mælst en metið var slegið strax 1971. Þetta var á hafísárunum.
Samtök Frjáslyndra og vinstri manna voru stofnuð þ. 15. Þau komu mönnum á þing og lifðu nokkur ár. Tunglferð Appollo 12 stóð yfir.
1910 (-1,7) Á Vestfjörðum er þetta kaldasti nóvember sem mælst hefur ásamt nóvember 1973 en sá næst kaldasti á Akureyri. Fremur var hægviðrasamt. Breytilegt veður var fyrsta þriðjunginn en mjög kalt um miðbikið, allt niður í -24,4 stig þann 13. á Grímsstöðum. Síðasta þriðjung mánaðarins hlýnaði mikið og var þá oftast hláka. Miklar úrkomur voru á austfjörðum 24.-26. í austanátt og í Vestmannaeyjum mældust 56,4 mm að morgni hins 23. Annars var fremur þurrt, einkanlega á vesturlandi og úrkomudagar fáir. Hlýjast varð 8,0 stig í Vestmannaeyjum dagana 24. og 25. og er þetta reyndar minnsti hámarkshiti á landinu í nokkrum nóvember. Yfir Grænlandi var jafnan hæð en lágur þrýstingur yfir Norðursjó og lægðadrög langt norður í höf en kortið sýnir hvernig þetta kom út í 500 hPa fletinum í um 5 km hæð.
Rússneska skáldið fræga, Leo Tolstoj, lést þann 10.
1923 (-1,6) Þurrviðrasamt var í þessum nóvember og alls staðar var úrkoman undir meðallagi. Hugsanlega nær mánuðirinn jafnvel inn á topp tíu listann yfir þurrustu nóvembemánuði. Veðrátta sam samt talin óhagstæð. Þetta er næst kaldasti nóvember í Vestmannaeyjum ásamt 1887 og þriðji kaldasti í Hreppunum. Norðanáttinn var nánast linnulaus og fremur sólríkt var í Reykjavík, 47 klst. en snjó var þar þó talsveður. Kaldast var um miðjan mánuð og mældust -20,4 stig á Grímsstöðum þ. 14 og 15. Dagarnir 13. til 15. eru líklega hinir köldustu sem komið hafa þá daga í Reykjavík eftir að Veðurstofan var stofnuð. Aðeins tvo daga var veruleg hláka á landinu, 9. og 10. og síðari daginn mældust 10,2 stig á Teigarhorni. Í aftaka norðanveðri og sjógangi þann 7. fórst vélbátur frá Bolungarvík með fimm mönnum undan Stigahlíð. Kalt var í þessum mánuði á Bretlandseyjum og í vestast í Evrópu. Suðvestur og vestur af landinu var oft hæðasvæði mikið en óvenjulega lágur þrýstingur austur af landinu. Kortið sýnir frávik hæðar 500 hPa flatarins kringum landið.
Þann 8. gerði Adolf nokkur Hitler tilraun til valdaráns á bjórkrá í München. Byltingin miskeppnaðist herfilega og var hinn seinheppni Adolf síðar dæmdur í fangelsi en sat þar ekki lengi en skrifaði þar illlræmda bók um sína baráttu. Í mánaðarlok var þýska markið fallið niður úr ölu valdi. Hér á landi var stéttabaráttan að ná sér á strik og þann 11. fór fram svokallaður Blöndahlsslagur milli verkamanna og útgerðarmanna í Reykjavík.
Nánari tölur um þessa mánuði er eins og venjulega að finna í fylgiskjalinu.
Íþróttir | Breytt 11.12.2011 kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006