Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Að fá ekki að deyja

Eins og kunnugt er hefur Ariel Sharon sem einu sinni var forsætisráðherra Ísraels verið í dái í marga mánuði eftir að hann fékk heilablóðfall. Hann mun aldrei komast aftur til meðvitundar. Lífi hans sem viti gædds einstaklings er lokið. Hann skynjar ekki umhverfi sitt og á enginn mannleg samskipi. Hann er lítið annað en samsafn líffæra sem halda áfram sinni vélrænu starfsemi. Hann er bara form, innantóm skel. Lifandi lík í orðsins fyllstu merkingu. Ef hann hefði lifað áður en tækni nútímans kom til sögunnar væri hann löngu dáinn. Hann fékk ekki að deyja. Hann var skorinn upp hvað eftir annað bara til að þetta sálarlausa form geti haldist lengur við lýði.

Mér finnst þetta eitthvert ljótasta dæmið sem ég þekki um böl tækninnar þegar líf og dauði eru  annars vegar. Tæknin varnar mönnum að deyja en neyðir þá til að lifa sem skugga. Þetta sýnir líka vissar ógöngur sem læknisfræðin getur ratað í þegar allt er gert til að halda líffærum líkamans í gangi þó merkingarbært líf einstaklingins sé ekki lengur fyrir hendi. Mér finnst slíkt ganga glæpi næst.

Og Sharon er ekki eini maðurinn sem svona er ástatt um og svona er farið með. En líklega geldur hann þess fremur en hitt hvað hann er þekktur og var valdamikill. Það verður að reyna að "bjarga" slíkum manni hvað sem það kostar.

Ég segi fyrir mig: Ef það á fyrir mér að liggja að verða svona lifandi lík endilega þá notið koddann til að koma mér yfir í annan heim.

Fariði samt varlega og látið ekki sjást til ykkar! Ekki vil ég að nokkur þurfi að sitja inni í mörg ár fyrir slíkt þjóðþrifaverk. En það væri algjört glæpaverk að halda í mér lífinu. 

Synd bæði gagnvart guði og mönnum.

 

 


Konan ætti að kæra til siðanefndar lækna

Mér finnst að konan sem tekið var af þvagsýni á Selfossi eigi að kæra lækninn, sem var ábyrgur fyrir læknisfræðilega þættinum, fyrir siðanefnd lækna fyrir að hafa látið þetta viðgangast. Þetta er einmitt mál sem kemur inn á grundvallarspursmál um siðferðislegar skyldur lækna gagnvart þeim sem þeir gera á aðgerðir. Læknar eiga að halda sjálfstæði sínu í þeim efnum gagnvart yfirvöldum. Þeir eru ekki þjónar þeirra. Jafnvel þó þeim sé skipað að gera eitthvað með dómskúrskurði stendur það eftir  að þeim ber að taka á siðferðislega þættinum og óhlýnðast fyrirskipunum á þeim grundvelli ef því er að skipta, um sé t.d. að ræða niðurlægjandi og meiðandi aðgerð.  

Það er þá líka með ólíkindum að íslensk læknastétt láti það líðast umræðulaust að læknar taki  þvagsýni úr fólki sem yfirvöld svipta sjálfræði eingöngu til að koma fram vilja sínum að fá sýni sem sönnunargagn í umferðalagabroti þó læknar hafi neitað að gera aðgerðina meðan manneskjan hafði sjálfræði af því að hún neitaði því. En þetta hefur átt sér stað sagði yfirlæknir slysadeildar í tíufréttum sjónvarsins í kvöld. Ég undrast aðgangshörku yfirvalda að beita slíkum brögðum fremur en viðurlögum við óhlýðninni því sjálfsræðissvipting er ekki gamanmál og ætti ekki að beita nema í ýtrustu neyð og ég næ því bara ekki að læknasamfélagið láti slíkt líðast, að þeir geri ekki uppreisn gegn því hvað svona tilefni snertir.      

Ef þetta mál konunnar fer ekki fyrir siðanefnd  lækna fer gullið tækifæri forgörðum til að glíma við mikilvæg álitamál sem snerta undirstöðuatriði. 

Hættan af ölvunarakstri og hvernig taka ber á mótþróa gagnvart lögreglunni er svo annar handleggur en kemur ekki við þessum siðræna þætti er lýtur að samskiptum lækna við sjúklinga.

 


Ranglæti drepur

Í dag skrifar Þórhildur Elín athyglisverða grein á Vísir.is.  Þar segir hún frá konu sem þurfti að láta fjarlægja úr sér skjaldkirtilinn fyrir 20 árum en vegna mistaka voru kalkkirtlarnir líka teknir. Af þessu hlaust mikill heilsubrestur og konan verður að taka stóra skammta daglega af kalki því annars myndi hún deyja.  Kostnaðinn hefur hún þurft að bera sjálf fram á síðustu tíma og í greininni er lýst glímu konunnar við harðsnúna lögfræðinga Tryggingarstofnunar. Í greininni er þessi athyglisverða setning: "Aðgerðin var gerð áður en sjúklingar öðluðust lagalega rétt gagnvart læknamistökum enda stóð aldrei til að draga einhvern til ábyrgðar."  Það er eins og áhersla sé lögð á þetta í hálfgerðum afsökunartóni að aldrei hafi staðið til að draga einhvern til ábyrgðar.   

Hvers vegna ekki? Af hvejru eru allir svona sammála um það að þó læknir eyðileggi líf einhvers þá skuli hann aldrei þurfa að standa við neins konar ábyrgð nema hann sé beinlínis blindfullur við vinnuna eða eitthvað álíka. Læknar vita þetta vel. Og þeir eru því öryggir með sig eftir þvi. Og þeir hafa mikið vald í þjóðfélaginu og líka við mótun laga. Enginn þorir þess vegna annað en að lyppast niður gegn þeim við lagasetningar. Allir verða sammála um að þeir þurfi ekki að bera neina ábyrgð, einir allra stétta, jafnvel þó þeir drepi fólk með klaufaskap, kæruleysi eða vanrækslu. Allt er það bara kallað "mistök" og læknirinn fær kannski þessa líka fínu stöðuhækkun. Áreiðanlega veldur einmitt þetta formlega ábyrgðarleysi og þá lka í reynd einmitt því að menn hirða ekki um að vanda sig nógu vel. Læknarnir vita að þeir eru alltaf hólpnir hvernig sem allt veltist. Það er talið fullvíst að jafnvel nokkur hundruð manns - þetta eru ekki  öfgar í mér, heldur talið vera í raun og veru - skaðist eða deyji ár hvert á Landsspítalanum vegna "mistaka". En aldrei þarf neinn að bera neina ábyrgð - nema hinn dauði auðvitað.      

Þetta þegjandi samkomulag að leyfa læknum að komast upp með allt nær jafnvel svo langt að  þegar einstaklingur segir í fjölmiðlum frá  læknamistökum sem eyðilagði  líf hans þorir hann aldrei að nefna nafn  lækinisins.Doktorinn sleppur því ekki aðeins við lagalega ábyrgð eða ábyrgð yfirleitt heldur nýtur líka undantekningarlaust nafnleyndar. Og hvað aðstandendur þeirra varðar sem látast vegna mistaka læknisins þá gefur hann þeim bara langt nef í krafti friðhelgi sinnar og þjófélagsleslegrar stöðu. Þetta fólk skiptir engu máli. Það er ekki sagt í orðum en verkin segja það.  

Mér finnst alveg sjálfsagt að birta nafn viðkomandi læknis þegar fólk segir frá hremmingum sínum vegna læknamistaka. Það má ekki minna vera. Eftir sem áður starfar hann eins og ekkert sé og nýtur álits og virðingar (þó það nú væri) og veit að ekkert fær ógnað sér í alvörunni. En fólk veigrar sér við þessu vegna þess að það óttast að það verði fordæmt fyrir það. En læknirinn þarf aldrei neitt að óttast.

Vel á minnst. Frænka mín ein var fyrir löngu skorin upp við skjaldkirtilssjúkdómi af  sjúkrahúslækni í  Vestmannaeyjum sem ekki hafði neina menntun til aðgerðarinnar og klúðraði öllu sem hann gat klúðrað. Það gjörbreytti lífi frænku minnar. En læknirinn hefur nú fengið af sér styttu í bænum og þurfti aldrei að standa neins konar reiknisskap gerða sinna. Það vissi líka hvert mannsbarn í Vestmannaeyjum að hann var iðulega drukkinn við lækningar sínar en hann bara komst upp með það. Hann var ósnertanlegur.

Hann fékk bara af sér flotta styttu.   

Í Mogganum í dag er skýrt frá því að ranglæti drepi fólk úr hjartaáföllum og öðrum meinum. 

En hverjum er ekki sama? Það eru alltaf þeir sem eru fátækir og valdalausir sem verða fyrir ranglætinu. Fólk sem ekki fær af sér myndastyttu. 

Það má  alveg drepast.   

Og því fyrr, því betra.





Veikist bara gift fólk af alzheimer?

Í Kastljósi var verið að fjalla um Alzheimer. Rætt var við nokkra maka sjúklinga sem lýstu því hvernig sjúklingarnir breytast hreinlega í börn. Það endar reyndar með því að þeir kunna ekki lengur að ganga. Loks kunna þeir ekki lengur að kyngja. Svo deyja þeir úr hungri. 

Ég hef kynnst Alzheimer í návígi og veit svo sem hvað ég er segja. En mér finnst  umræðan um Alzheimer full af hugleysi og undanbrögðum eins og öll umræða um erfið mál, svo sem sjálfsvíg og geðsjúkdóma.

Og ég hef hreinlega ekki geð í mér til að fara mikið lengra í þessa sálma að sinni. Ég get samt ekki á mér setið að spyrja hvort Alzheimer leggist bara á gift fólk. Svo mætti ætla af þeirri umræðu sem fór fram í Kastljósi. Makar sögðu frá mökum. Hvergi örlaði á því hvað bíði þeirra sem fá Alzheimer en eiga hvorki maka né afkomendur. Reyndar er þetta svona varðanadi alla sjúkdóma. Man einhver t.d. eftir samtali við einstæðing sem er að deyja úr krabbameini og hefur engan stuðning „samhentrar fjölskyldu"? 

Þetta er svona hluti af þvi sem ég meina með huglausri umræðu. Það felst í því að stór hluti viðfangsefnisins, veruleikans sjálfs, er gjörsamlega  sniðgengin í umræðunni, jafnvel ár eftir ár eftir ár. 

Einhleypt fólk virðist ekki verða alvarlega veikt á Íslandi hvað opinbera umræðu varðar.

Ég hef sagt það áður á þessari síðu að ég óttast ekkert meira en verða Alzheimersjúklingur þó ekki sé ég svo sem að velta mér upp úr þvi alla daga. Þessir sjúklingar geta verið að tærast upp í árartug eða meira. Ég veit ósköp vel að allan þann tíma myndi ég bara vera eins og hvert annað hræ á ópersónulegri stofnun. Og ég veit að vinir mínir myndu allir yfirgefa mig. Og ekki myndi ég álasa þeim fyrir það. Annað gætu þeir hreinlega ekki gert.   

Og þó ég vildi að ein ung og upprennandi vinkona mín, sem skilur samt lífið, stæði við það að kæfa mig með koddanum eins og hún hefur lofað ef ég skyldi nú fara að bila þá veit ég auðvitað að hún mun ekki gera það í alvörunni. Ég mun bara hverfa öllum og öllu án þess að deyja. Þeir sem þekktu mig munu forðast mig eins og heitan eldinn og fara að hugsa um eitthvað skemmtilegt. Enda verð ég ekki lengur til sem ég sjálfur heldur bara skel utan um ósjálfráða líkamsstafsemi.

Mega menn hugsa svona? Mega menn tala svona? Mega menn blogga svona?

Nei, auðvitað ekki. Menn eiga að bæla allt niður. Setja upp falskan front. Allt er víst betra en óvæginn sannleikurinn.

Í gær var ég svo glaður og ljúfur yfir ilmi lífsins. Nú er ég orðinn bitur og harður yfir lífsins lygi og falsi. 

Og það verður bara að hafa það.

 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband